Fæðingarorlof

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 16:33:02 (2194)

1997-12-13 16:33:02# 122. lþ. 42.13 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[16:33]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu lagaákvæða um fæðingarorlof. Frv. felur í sér það nýmæli að feðrum verði veittur tveggja vikna sjálfstæður réttur til fæðingarorlofs, þ.e. án þess að réttur móður skerðist að sama skapi eins og núgildandi lög gera ráð fyrir.

Frv. kveður á um breytingar á tvennum lögum: Annars vegar lögum um fæðingarorlof, nr. 57/1987, og hins vegar lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum.

Rétt er að undirstrika þegar í upphafi að auk réttar til greiðslna í fæðingarorlofi hér á landi á grundvelli framangreindra laga gilda sérstakar reglur um opinbera starfsmenn og starfsmenn banka. Reglur varðandi þá hópa byggjast auk lagafyrirmæla á ákvæðum í reglugerð, reglum og kjarasamningum. Löggjöf um rétt til fæðingarorlofs hér á landi hefur eðli málsins samkvæmt tekið stakkaskiptum frá því að lög voru fyrst sett á þessu sviði og lögin hafa breyst verulega á undanförnum 10 árum. Á því tímabili hefur fæðingarorlof verið lengt úr þremur mánuðum í sex mánuði, aukinn hefur verið réttur foreldra sem ættleiða börn og taka börn í fóstur og réttur vegna fjölbura- og fyrirburafæðinga, réttur vegna veikinda barna og í þeim tilvikum er barn fæðist andvana eða fósturlát verður.

Í frv. þessu er lagt til að stigið verði enn eitt skref til að bæta réttarstöðu barna og foreldra þeirra. Um er að ræða mikilvægt skref í jafnréttisátt og skref sem er í takt við þróun sem á sér stað í þjóðfélagi okkar og víða um heim.

Það er mér sérstakt ánægjuefni að fylgja slíku máli úr hlaði. Samþykktar hafa verið reglur sem tryggja feðrum sem eru opinberir starfsmenn tveggja vikna fæðingarorlof samkvæmt nánari tilteknum skilyrðum. Þær reglur koma til framkvæmda 1. jan. nk. og er því sjálfsagt réttlætismál að tryggja rétt annarra feðra og fjölskyldna þeirra að þessu leyti, þ.e. þeirra sem ekki teljast til opinberra starfsmanna. Enn mikilvægara er þó að leggja áherslu á að með breytingunni er börnum tryggður réttur til samvista við föður sinn. Fyrir liggur að góð tengslamyndun við foreldra á fyrstu æviárum er eitt mikilvægasta veganesti bæði fyrir börn og foreldra. Þetta er því mikilvægt skref í þá átt að hlúa betur að fjölskyldunni sem í nútímaþjóðfélagi gefst allt of sjaldan tækifæri til að vera samvistum á heimilum sínum.

Frv. gerir sem fyrr segir ráð fyrir sjálfstæðum rétt feðra til fæðingarorlofs í samtals tvær vikur. Fæðingarorlofið má taka hvenær sem er á fyrstu átta vikum eftir fæðingu eða heimkomu barns. Með heimkomu barns er bæði átt við heimkomu barns af fæðingarstofnun og heimkomu bars sem er ættleitt eða tekið í varanlegt fóstur. Mikilvægt þykir að binda töku fæðingarorlofs við fyrstu vikurnar sem barnið er á heimilinu, m.a. vegna þess að mikilvægt er að sem fyrst myndist góð tengsl milli föður og barns. Um er að ræða sjálfstæðan rétt föður þannig að notfæri hann sér ekki réttinn fellur hann niður. Hann getur ekki fært yfir til móður til lengingar fæðingarorlofs hennar.

Réttur til fæðingarorlofs er háður því að faðir sé í hjúskap eða skráðri sambúð með móður barnsins við upphaf töku fæðingarorlofs, enda er erfitt að tryggja að faðir sem ekki er í hjúskap eða sambúð með móður geti nýtt sér fæðingarorlofstíma til samvista við barnið.

Greiðslur til feðra eru samkvæmt frv. þessu hlutfallslega þær sömu og til mæðra sem fá fæðingarorlofsgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. að gert er ráð fyrir að árlegur kostnaður Tryggingastofnunar ríkisins vegna breytinganna verði um 100 millj. kr. miðað við að 90--95% karlmanna nýti sér tveggna vikna fæðingarorlof og fái fulla greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins. Gert er ráð fyrir því að greiðslur á grundvelli ákvæða frv. verði fjármagnaðar með hækkun tryggingagjalds eins og fram kemur í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Ég hef nú stiklað á þeim meginatriðum sem í frv. felast. Þetta er í sjálfu sér einföld breyting þótt hún sé mikivæg og ég tel því ekki ástæðu til að lengja frekar mál mitt.

Ég vænti þess að frv. þetta hljóti jákvæðar undirtektir og verði afgreitt þannig að það geti komið til framkvæmda þegar í upphafi næsta árs og þannig verði tryggður réttur allra feðra að þessu leyti en ekki einungis réttur opinberra starfsmanna.

Ég leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.