Fæðingarorlof

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 16:50:51 (2196)

1997-12-13 16:50:51# 122. lþ. 42.13 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, MF
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[16:50]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Á 120. og 121. löggjafarþingi fluttu hv. þingmenn Ögmundur Jónasson og Steingrímur J. Sigfússon till. til þál. um fæðingarorlof feðra. Hún var svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að við endurskoðun laga um fæðingarorlof verði tryggður sjálfstæður réttur feðra til a.m.k. tveggja vikna orlofs á launum við fæðingu barns.``

Ég hlýt því að lýsa yfir sérstakri ánægju okkar með að ríkisstjórnin hefur nú lagt fram frv. til laga sem er í fullu samræmi við þá þáltill. sem þarna var flutt. Þó ekki hafi verið vilji hjá meiri hluta Alþingis eða meiri hluta heilbr.- og trn. til að afgreiða tillöguna á sínum tíma þá flytur ríkisstjórnin nú samhljóða tillögu. Sama má sjá á öðru frv. sem er hér á dagskrá í dag. Kannski er það til þess að eigna sér heiður, ef í boði er, fyrir að flytja slík mál og fá þau samþykkt á hv. Alþingi.

Samt vakna ákveðnar spurningar. Á síðasta þingi samþykktum við breytingu á lagaákvæðinu um fæðingarorlof. Þar var m.a. heimild til föður til að fara í fæðingarorlof við upphaf ferðar þegar foreldri sækir barn til ættleiðingar.

Í frv. sem hæstv. ráðherra lagði fram var þessi réttur bundinn móðurinni en í meðförum nefndarinnar var þessu breytt. Þá var ákvæðum í 3. og 7. gr. laganna breytt á þann hátt að ættleiðandi foreldri væri heimilt að hefja fæðingarorlof við upphaf ferðar þar sem sú staða gæti komið upp að ættleiðandi móðir kæmist ekki til að sækja barnið, t.d. vegna sjúkleika eins og segir í nefndaráliti heilbr.- og trn. við afgreiðslu þessa máls.

Ég hlýt að líta þannig á að þau ákvæði þessa frv. sem hér eru á ferðinni skerði ekki rétt föður til töku fæðingarorlofs jafnvel þó faðirinn sæki barn við ættleiðingu, einfaldlega vegna þess að í frumvarpstextanum segir mjög skýrt: ,,Faðir á rétt á tveggja vikna fæðingarorlofi sem taka má hvenær sem er fyrstu átta vikurnar eftir fæðingu eða heimkomu barns.`` Hér segir eftir heimkomuna og ég vildi beina til hæstv. ráðherra hvort það er ekki fullkomlega rétt skilið að í þeim tilvikum sem faðir fer og sækir barn til ættleiðingar, þá eigi hann rétt á ákveðnum greiðslum. Þær greiðslur komi þá hugsanlega til frádráttar af heildarfæðingarorlofi móður eins og talað var um á síðasta þingi en hann geti engu að síður hafið töku fæðingarorlofs við heimkomu barnsins, sem sagt bætt við hálfum mánuði. Ég vil vita hvort þessi réttur hans sé skýr. Bæði í 1. gr. og síðan aftur í 4. gr. þessa frv. kemur fram að það sé eftir heimkomu. Ég vildi fá það alveg á hreint að þarna sé ekki um það að ræða að þurfi faðir að fara í langferð til þess að sækja barn, ferð sem getur tekið hugsanlega meira en hálfan mánuð, þá sé hann ekki búinn að eyða þeim rétti sem hér er lagt til að hann hafi.

Ég vil jafnframt spyrja hæstv. ráðherra um önnur atriði sem heilbr.- og trn. lagði áherslu á að hæstv. ráðherra skoðaði sérstaklega. Þau koma fram í nefndaráliti þar sem segir:

,,Þá mælist nefndin til þess að við endurskoðun reglugerðar um fæðingarorlof verði sérstaklega skoðuð tilvik eins og þegar stutt er á milli fæðingar barna vegna framlengds fæðingarorlofs eða fyrirburafæðinga með það fyrir augum að greiðslur skerðist ekki.``

Mjög rík áhersla var lögð á að þessi þáttur yrði skoðaður af lögfræðingum heilbrrn. í vinnu nefndarinnar á síðasta þingi. Mér er hins vegar ekki kunnugt um að sú endurskoðun hafi átt sér stað né að þeim reglum sem voru í gildi hafi verið breytt á nokkrun hátt. Í það minnsta hafa þeir sem sóttu þennan rétt sinn eftir síðustu áramót og fengu að mínu mati loforð um að tekið yrði á þessu, hafa ekki fengið neina leiðréttingu sinna mála.

En fyrst og fremst vil ég spyrja hæstv. ráðherra um þennan rétt feðra, hvort ekki er ótvírætt að þessi réttur sé eftir heimkomu barns og við ættleiðingu t.d. breyti engu þótt faðirinn fari og sæki barnið. Hefst taka fæðingarorlofs við upphaf ferðar eins og segir í nefndaráliti og lögunum eins og Alþingi gekk frá þeim á sínum tíma.