Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 17:57:51 (2280)

1997-12-15 17:57:51# 122. lþ. 43.14 fundur 332. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (byggingarnefndir, gjaldtaka o.fl.) frv. 135/1997, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[17:57]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framlag hans til þessarar umræðu og túlkunar á málum. Ég tel að nú sé enn skýrara en áður hvernig með verði farið því að auðvitað er reglugerðarvaldið í hendi þess ráðherra sem situr á hverjum tíma. En þá verður að sjálfsögðu að hafa til hliðsjónar þá umræðu sem hér hefur farið fram og þá niðurstöðu sem þannig er fengin. Ég tel að ekkert fari á milli mála í þeim efnum eftir ræðu hæstv. ráðherra að svo verði litið til að meiri háttar framkvæmdir á sviði landgræðslu og skógræktar séu háðar framkvæmdaleyfi. Það er það sem málið snýst um og máli skiptir í þessu sambandi.

Ég lít svo til að með því að fella tilvísunina út --- eins og hæstv. ráðherra nefndi, þá er hún ekki tæmandi --- þá sé verið að snyrta textann þannig að ekki særi, enda voru þau rök uppi höfð um málið. Miðað við þær túlkanir sem hér hafa komið fram, bæði af hálfu talsmanns nefndarinnar sem og af hálfu hæstv. ráðherra og fái það hér að standa, þá mun ég draga mínar brtt. til baka.