Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 22:14:28 (2298)

1997-12-15 22:14:28# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[22:14]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að á bak við fyrri spurninguna hafi búið sú hugsun að ríkisskólar og einkaskólar væru lagðir að jöfnu. Ég vil í svari mínu ítreka það sem ég las í svari við spurningu hv. 8. þm. Reykv., um þann skilning sem meiri hluti menntmn. leggur í þetta mál og fram kemur í nál. frá meiri hluta nefndarinnar við þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til.

Hvað varðar síðari spurninguna þá tel ég að sú röksemd dugi að með þessu frv. til viðbótar við heildstæð lög um framhaldsskóla og heildstæð lög um grunnskóla og lög um leikskóla, sé búið að skipa skólastiginu niður í heildstæð lög og þar af leiðandi séu þau lög sem hv. þm. vitnaði til óþörf.