Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 23:07:22 (2308)

1997-12-15 23:07:22# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, Frsm. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[23:07]

Frsm. minni hluta menntmn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Vegna þeirra orða sem hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir lét falla áðan, að það væri óþarfa tortryggni varðandi skólagjöldin og vildi meina að við læsum annað út úr textanum enn hún les, þá er það spurning hvort við getum ekki tekið höndum saman um það, herra forseti, að skýra textann. Brtt. minni hlutans ganga út á það að þessi texti verði skýrður þannig að ótvírætt sé við hvað er átt.

Mér finnst eðlilegt að nefndin komi saman nú á milli 2. og 3. umr. og fari yfir þetta mál, hvort hægt er að eyða þessari tortryggni, því ég er sammála hv. formanni menntmn. um að það er óþarfi að tortryggni sé ríkjandi ef menn eru að tala um nákvæmlega sama hlutinn. En þá er líka rétt að það sé orðað þannig að tekin séu af öll tvímæli.

Í öðru lagi kom mér það mjög á óvart --- það kann nú að vera af því að ég er ekki mjög þingreynd --- að þegar menn telja að búið sé að uppfylla lög, þá eigi að afnema þau, þá sé það reglan. Þegar lögin hafa verið uppfyllt, þá eru þau afnumin. Er það þá þannig að þegar við verðum búin að uppfylla lögin um framhaldsskóla, þá munum við afnema þau? Þetta fannst mér mjög sérkennilegt. Þetta eru sem sé rökin fyrir því að fella úr gildi lögin um skólakerfi. En ég vil minna hv. þm. á að ekki er búið að uppfylla öll ákvæði þessara laga. 7. gr. um jafnrétti kynjanna er óuppfyllt enn þá. Það hljóta þá að vera rök fyrir því, herra forseti, að þessi lög standi áfram.