Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 22:56:09 (2443)

1997-12-16 22:56:09# 122. lþ. 44.10 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv. 133/1997, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[22:56]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fór nákvæmlega rétt með þetta. Um leið og við settum á fyrsta aflakvótakerfið voru settar reglur um endurnýjunina og það eru þær reglur sem ég er að tala um, 1:0,7. Það er það sama og verður núna gert. Því er nákvæmlega rétt farið með það.

Í öðru lagi er það svo og allir mættu vita það að lög standa jafnlengi og pólitískur vilji er til þess að styðja þau. Það getur enginn sagt um það þegar lög eru sett hversu lengi þau standa. Og ef menn hafa nokkurn grun um að vilji sé um eitthvað annað í þinginu, þá geta þeir haft hann, en það er ekki verið að flytja nein sérstök skilaboð með þessu frv. Það er verið að slaka á reglunum og lögin eru ekki með sólarlagsákvæði. Það hefur aldrei staðið til að hafa þau þannig enda væri það ákaflega óhyggilegt. Lögin eru eins og þau standa og menn geta lesið og enginn nema hv. þm. Sighvatur Björgvinsson er að gera því skóna að hér í kvöld hafi komið í ljós að þessi lög eigi ekki að gilda. Lögin gilda eins lengi og hinn pólitíski vilji er til staðar. (Gripið fram í: Hárrétt.)