1997-12-17 00:48:42# 122. lþ. 44.11 fundur 303. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðiheimildir krókabáta) frv. 144/1997, StG
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[24:48]

Stefán Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara. Fyrirvari minn byggist á því að ég tel ekki rétt að fella út síðasta málslið í ákvæði til bráðabirgða II þar sem segir:

,,Ekki skal bætt umfram þau mörk að aflaheimildir báts með bótum verði 60 þorskígildislestir miðað við 1. sept. 1997.``

Tillaga meiri hluta nefndarinnar er að fella ákvæðið brott sem þó er samkomulag um milli Landssambands smábátaeigenda og sjútvrn. Þær tillögur að breytingum sem eru settar fram eins og segir í athugasemdum með frv. hafa náðst í viðræðum Landssambands smábátaeigenda og ráðuneytisins á undanförnum mánuðum og er fullt samkomulag milli þessara aðila um að flytja þær tillögur sem frv. felur í sér. Hér er verið að breyta út af því samkomulagi sem náðist eftir þó nokkuð langar viðræður milli þessara aðila, þ.e. Landssambands smábátaeigenda og sjútvrn.

Ég tel ekki rétt að breyta þessu samkomulagi og fallast þannig á ósk Arthurs Bogasonar sem kemur fram í bréfi er hann ritaði sjútvn. og undirritað er af honum en hluti úr bréfinu, það sem skiptir meginmáli, er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

,,Undirritaður fer þess á leit við sjútvn. Alþingis að hún geri þá breytingu á bráðabirgðaákvæði II er fjallar um úthlutun svokallaðs Byggðastofnunarkvóta að felld verði brott síðasta setning ákvæðisins.``

Virðulegur forseti. Fyrirvari minn leiðir til þess að ég mun sitja hjá við afgreiðslu á ákvæðinu.