Búnaðargjald

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 16:03:35 (2565)

1997-12-17 16:03:35# 122. lþ. 46.9 fundur 333. mál: #A búnaðargjald# (innheimta) frv. 139/1997, Frsm. EgJ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[16:03]

Frsm. landbn. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um búnaðargjald í fjarveru form. landbn., hv. þm. Guðna Ágústssonar. Álit nefndarinnar, eins og þingskjalið ber með sér, er á þingskjali 560.

Ég hygg að hv. alþingismönnum sé ljóst að fyrir ári var gerð breyting á lögum um Búnaðarmálasjóð til þess horfs sem lögin um búnaðargjald kveða á um. Ein meginbreyting þessara laga var að fjmrn. var falin innheimtan í stað þess að Framleiðsluráð landbúnaðarins hafði áður annast þessa innheimtu. Við framkvæmdina kom í ljós að sú innheimtuaðferð sem lögin kváðu á um var ekki sérstaklega hagstæð. Því var fundin önnur leið til að innheimta gjaldið og ætla má að hún verði bæði einfaldari og skilvirkari í framkvæmd. Efnisbreytingin á þessum lögum er ekki að því er varðar gjöld eða ráðstöfun þeirra heldur einvörðungu að á sjálfri innheimtunni.

Meginbreytingarnar eru þær að í frv. er lagt til að tekið verði upp annað kerfi við innheimtu búnaðargjalds en gert er ráð fyrir í lögum um búnaðargjald sem taka skuli gildi 1. janúar 1998. Í ljós hefur komið að unnt er að nýta álagningar- og innheimtukerfi fyrir sérstakan tekjuskatt, þ.e. hátekjuskatt, með tiltölulega litlum breytingum. Með breytingunni er gert ráð fyrir að fyrirframgreiðsla búnaðargjalds geti orðið mun einfaldari í framkvæmd en kveðið er á um í lögunum.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali, en þær eru eftirfarandi:

Lagðar eru til breytingar á 1. gr. frv. Í fyrsta lagi er lögð til orðalagsbreyting í fyrri málslið 1. mgr. sem miðar að því að gera ákvæðið skýrara. Í öðru lagi er lagt til að skattstjóri skuli innan hæfilegs frests skera úr um umsókn gjaldanda um breytingu á fyrirframgreiðslu sem honum hefur verið gert að greiða samkv. 1. mgr. 4. gr. laganna. Í þriðja lagi er lagt til að ef fyrirsjáanlegt er að búnaðargjald breytist um sem nemur 25 % en þó að lágmarki 10.000 krónur milli ára, skuli skattstjóra skylt að taka til greina umsókn gjaldanda.

Einn nefndarmanna, Sigríður Jóhannesdóttir, var fjarverandi við afgreiðslu málsins, og rétt er að vekja athygli á því að Ólafur Friðriksson, fulltrúi frá landbrn., mætti á fund nefndarinnar. Þannig hefur landbn. skilað þessu áliti frá sér, virðulegi forseti.