Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 21:01:50 (2713)

1997-12-18 21:01:50# 122. lþ. 48.14 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv. 141/1997, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[21:01]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. og nál. frá efh.- og viðskn. við frv. til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Hæstv. forseti. Í frumvarpinu eru í fyrsta lagi lagðar til breytingar sem tengjast því að um síðustu áramót voru gerðar breytingar á viðmiðunargrundvelli verðleiðréttinga í skattskilum, í öðru lagi er lagt til að rýmkaðar verði heimildir einstaklinga til skattfrádráttar vegna lífeyrissiðgjalda, í þriðja lagi eru gerðar leiðréttingar á barnabótaákvæði laganna og í fjórða lagi er lagt til að tekin verði af öll tvímæli um að einstaklingum með takmarkaða skattskyldu skv. 3. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt beri að greiða 20% söluhagnað samkvæmt meginreglunni í 2. tölul. 1. mgr. 71. gr. laganna.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem koma fram á þskj. 519. Þar eru lagðar til breytingar í þremur liðum. Í fyrsta lagi við 2. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir að a-liður orðist með þeim hætti sem þar er rakið og eins b-liður. Þetta eru þeir liðir sem fjalla um heimildir til viðbótarfrádráttar, þ.e. 2% af iðgjaldsstofni. Eins eru í 2. lið brtt. lagðar til ákveðnar breytingar vegna barnabótanna, og í þriðja lagi er sú breyting að ný grein komi inn í frv. á eftir 4. gr. sem leiði það í lög að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Þróunarsjóður sjávarútvegsins þurfi ekki að greiða fjármagnstekjuskatt af sínum fjármagnstekjum.

Undir þetta nál. skrifa allir nefndarmenn nema Jón Baldvin Hannibalsson sem var fjarverandi við afgreiðslu málsins, en þess ber að geta að hv. þm. Pétur H. Blöndal, Ágúst Einarsson og Gunnlaugur M. Sigmundsson skrifa undir með fyrirvara.