Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 22:45:35 (2870)

1997-12-19 22:45:35# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[22:45]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég rakti í máli mínu benda þær tölur sem komið hafa fram frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur til þess að hallinn og fjárvöntunin sem þar er við að stríða sé upp á 700--800 millj. þannig að það sem er verið að bæta hér við dugir hvergi nærri. En það er rétt sem hv. þm. segir að það fjármagn sem er þó verið að verja m.a. til viðgerða á Borgarspítalanum mun skila sínu og það er alveg satt að það að vinna í húsi sem heldur hvorki vatni né vindi ofan á þá krísustjórnun sem þar hefur verið hefur sitt að segja upp á vinnuandann þannig að ég vona að þetta verði til bóta. En það dugir hvergi nærri.

Spurningin er þessi, hv. þm., við erum að tala um þróun sem hefur átt sér stað í mörg mörg ár og á rætur til síðasta kjörtímabils eins og hv. þm. veit þegar hv. þm. Sighvatur Björgvinsson var heilbrrh. og óð um eins og fíll í glerbúri, eins og við sögðum oft og hjó á báðar hendur og skar niður svoleiðis miskunnarlaust og á svo óskynsamlegan máta að annað eins hefur ekki sést. Þetta á sér orðið margra ára sögu, þetta er margra ára uppsafnaður halli, þetta er margra ára krísustjórnun, þetta er margra ára þreyta en staðan er sú að sjúkrahúsið stendur frammi fyrir miklum halla og það verður að taka á honum. Þó að ég hafi gert stöðu Sjúkrahúss Reykjavíkur að sérstöku umtalsefni gildir það um aðrar sjúkrastofnanir líka en vandi þeirra er ekki eins mikill. Ef við ætlum að halda uppi góðu heilbrigðiskerfi, hæstv. forseti, verðum við að taka á þessu og við verðum að bæta kjör þeirra sem vinna í þessum stéttum. Við verðum að skapa þar vinnufrið.