Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 23:22:07 (2877)

1997-12-19 23:22:07# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[23:22]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Í atkvæðagreiðslunni fyrr í dag býsnaðist einn hv. þm. yfir auknum niðurskurði í vegamálum. Sá hinn sami býsnaðist einnig og réttilega yfir aukinni skattlagningu á þá sem aumast hafa það í landinu, skuldugustu fjölskyldurnar. Hv. þm. sagði sífellt: ,,... og það mitt í góðærinu``. Ýmsir stjórnarandstæðingar hafa komið upp og mælt fyrir þörfum tillögum, talað um velferðarmál sem skipta máli og hafa skírskotað til þess að miðað við það sem ríkisstjórnin hefur sagt ættum við nú að vera stödd mitt í góðærinu. En er það svo?

Ef litið er til brtt. meiri hlutans mætti álykta svo. Ekki síst ef litið er til útgjaldatillagnanna. Meiri hlutinn á Alþingi þarf augljóslega ekki að hafa áhyggjur af því hvort endar nái saman. Það er aukaatriði nema þegar kemur að tillögum stjórnarandstöðunnar. Í þeim tilvikum virðist nauðsynlegt að minni hlutinn komi jafnframt með tillögur um tekjur. Annað væri að sjálfsögðu ábyrgðarleysi ef minni hlutinn ætti í hlut. Það er augljóst að stjórnarliðar þurfa ekki að hafa áhyggjur af því.

Hér hafa verið fluttar margar brtt., sumar þarfar og góðar en aðrar síðri. Ekki er að heyra á nokkrum manni að áhyggjur séu af fjárhag ríkissjóðs. Það er ekki að heyra að menn hafi áhyggjur af þeirri skattlagningu sem óhjákvæmilega bíður framtíðarinnar að standa straum af því sem efnt er til í dag.

Herra forseti. Hvað eru fjárlög ríkisins? Eru þau bara togstreita um nokkrar milljónir hér og þar? Já, að hluta en sú togstreita virðist vera það eina sem talað er um, a.m.k. utan veggja þessa húss. Ég hef á tilfinningunni, herra forseti, að stjórnarmeirihlutinn vilji hafa það þannig. Meðan aðeins er togast á um milljónir hér og milljónir þar, er a.m.k. ekki talað um hvernig fjármálastjórnin er í heildina. Enda er það miklu alvarlegra mál. Það hve mörgum milljónum er varið eða ekki varið til tiltekinna málaflokka er vissulega háð ytri aðstæðum og þeirri pólitík sem ráðandi stjórnvöld vilja sýna. Fjárlögin eru bæði pólitísk yfirlýsing og efnahagsrammi og með þeim eru línur lagðar í efnahagsþróun næstu ára hvað varðar eftirspurn, vexti og þenslu í þjóðfélaginu. En ef við veltum því fyrir okkur hvaða pólitíska yfirlýsing og efnahagsrammi það er sem hér er verið að fjalla um, þá verður að segja, herra forseti, að þetta frv., eins og það lítur út núna og með hliðsjón af þeim brtt. meiri hlutans sem liggja fyrir og við vitum að muni verða samþykktar, þá er það ótrúlega prinsipplaust, gamaldags og án nokkurrar forgangsröðunar. Við veltum því fyrir okkur, einkum við í stjórnarandstöðunni, hvort við séum í miðju góðæri. Er það svo í raun og veru?

Í nefndaráliti minni hluta fjárln. kemur eftirfarandi fram:

,,Að mati Þjóðhagsstofnunar er nokkuð liðið á hagsveifluna og því megi búast við því að afkoma verði nokkru lakari á næstunni. Gerir stofnunin ráð fyrir tiltölulega háum vöxtum á næstu árum og bendir á að um þessar mundir sé nokkur þrýstingur á verðlag vegna mikilla umsvifa í þjóðfélaginu.``

Þetta er haft eftir Þjóðhagsstofnun, herra forseti, og ég held að hér sé raunsæi sem mér finnst frekar sjást meðal stjórnarandstöðunnar en hjá stjórnarsinnum, a.m.k. ef maður hlustar á eða les það sem menn hafa látið frá sér.

Undanfarin ár hafa tekjur ríkissjóðs verið vanmetnar. Á það hefur minni hlutinn bent en svo er ekki nú. Bent er á að hagsveiflan virðist hafa náð hámarki. Nú segir minni hluti fjárln. að tekjuforsendur séu ekki allar traustar og bendir einkum á það sem öllu á að bjarga, þ.e. sölu eigna. Þetta er eins og galdrar, herra forseti. Peninga vantar til að láta enda ná saman og þá er bara ákveðið að selja meira. Reynslan sýnir okkur að það hefur gengið treglega til þessa, en þó má reyna á ný. Tölurnar sýna a.m.k. pínulítinn afgang á fjárlögum, 0,09% eða svo. Fróðlegt væri, herra forseti, taka saman hvað ríkisstjórnin hefur selt á kjörtímabilinu, hver árangurinn er af störfum einkavæðingarnefndarinnar. Hv. formaður fjárln. er í salnum og kann e.t.v. svörin við þessu. Nú hefur ríkisstjórnin setið að völdum í tvö og hálft ár og tímabært að við fáum að vita hvað hún hefur aðhafst í þessum málum svona saman tekið. Ýmislegt hefur verið talað og gefið til kynna en hver er árangurinn? Hvar eru peningarnir? Ég vænti að að komi svör við því hér á eftir.

Við hljótum að velta því fyrir okkur, herra forseti, hvort það sé svo en því miður taka æ fleiri undir það að hagsveiflan sem við höfum notið á undanförnum árum sé um það bil að stöðvast. Hvernig höfum við þá nýtt góðæri undanfarinna ára til að undirbúa okkur fyrir framtíðina? Hvernig höfum við nýtt góðærið til að búa í haginn fyrir þjóðina?

[23:30]

Við sjáum að skattar einstaklinga eru nánast þeir sömu og á síðasta ári. Það sem skeikar er vegna 500 milljónanna sem sveitarfélögin áttu að axla þegar ríkisstjórnin ákvað að láta þriðja aðila borga fyrir gæði sín. Skattar á vöru og þjónustu hækka mikið eða hátt á sjötta milljarð og virðisaukaskattur hækkar um rúmlega 3 milljarða. Skatttekjur ríkissjóðs eru því að aukast. En hvar er árangurinn í ríkisfjármálunum? Er það afgangur upp á 0,09% sem fæst með ímyndaðri sölu eigna á þriðja milljarð? Er þetta boðlegur árangur eftir að við höfum notið mesta góðæris sem þessi þjóð hefur fengið að njóta í tvo áratugi? Ef menn telja svo þá er ríkisstjórnin og fjárln. metnaðarlausari en mig grunaði.

Á bls. 21 í fjárlagafrv. segir líka að erlendar skuldir ríkissjóðs muni ekki lækka sem hlutfall af landsframleiðslu heldur standa í stað á þessu ári og því næsta með auknum viðskiptahalla. Þá veltum við fyrir okkur samkeppnisstöðu Íslands. Hvað hefur verið gert til að bæta samkeppnisstöðu Íslands? Við heyrum reglulega að menn monta sig af því að landsframleiðslan sé svo mikil að við erum komin á OECD-mælikvarða, í hóp ríkustu þjóða eins og það er kallað, af því að landsframleiðslan er svo mikil á hvern einstakling. En hvernig komumst við svo hátt á þann skala? Mig minnir að við séum í 5. sæti í ár, 6. sæti í fyrra, 7. sæti þar á undan. Jú, herra forseti. Það gerum við með tvennu móti. Við gerum það með því að íslenskt launafólk vinnur lengri vinnudag en víðast hvar þekkist og íslenskar konur eru með hlutfallslega mesta atvinnuþátttöku þrátt fyrir að þær eigi líka flest börnin að meðaltali af þjóðum OECD. Það er sem sagt með mikilli vinnu sem við komumst svo hátt. Við getum velt því fyrir okkur hversu haldgott það er.

Samkeppnisstaða Íslands er annars staðar, hún er ekki í neinu 5. sæti, enda horfa menn til mun fleiri þátta þegar þar er komið.

Herra forseti. Þegar maður skoðar fjárlögin, hlýðir á umræðuna og fylgist með því sem er að gerast hér, þá hefur maður á tilfinningunni að þetta séu um það bil sömu fjárlög og í fyrra og þar áður, en maður sér ekki að nokkuð hafi breyst. Það eru engar nýjar áherslur, engin ný forgangsröðun, það er ekki að sjá að neitt hafi verið gert til að búa í haginn. Og við veltum olíunni fyrir okkur sem hefur keyrt hagvaxtarvélina á undanförnum árum, hvort við getum treyst á það að hún verði hér áfram eða hvort það er e.t.v. rétt sem Þjóðhagsstofnun segir og fleiri, að hagvaxtarsveiflan sé um það bil að stöðvast.

Frá 1993 þegar rofaði til í efnahagsmálum eftir nokkurra ára kreppu, þá rofaði til að hluta vegna möguleika sem sköpuðust með EES-samningnum og að stórum hluta vegna úthafsfveiðanna sem komu sem viðbót inn í hagkerfið eftir nokkra erfiðleika í sjávarútvegi. Nú er úthafsveiðiævintýrinu nánast lokið og sáralítið að hafa úr þeirri áttinni og stóriðjuframkvæmdir á síðasta snúning. Framkvæmdum við Ísal er lokið, Norðurál lýkur framkvæmdum á árinu og stórframkvæmdum utan fjárlaga eins og Hvalfjarðargöngum verður lokið á árinu. Auk þessa er hinn mikli niðurskurður í framlögum til samgöngumála sem hér hefur oft verið rakinn. Eftir mikla fjárfestingu, m.a. erlendra aðila í atvinnulífinu er nú gert ráð fyrir svo miklu falli í fjárfestingu að menn hljóta að hrökkva við þegar þeir sjá þær tölur sem fyrir liggja. Það er einungis reiknað með aukningu í fjárfestingu upp á 1,3% á milli ára á móti aukningu upp á 18,6% á milli ára í fyrra.

Hvaða breytingar eru það sem hafa orðið? Ég rakti það að hluta til áðan. Það eru aðallega þær breytingar að það sem hefur keyrt hagvaxtarvélina er nánast á þrotum, það eldsneyti er ekki lengur fyrir hendi. Við veltum því fyrir okkur þegar við skoðum hvar forgangsröðunin liggur að við hefðum viljað sjá góðærið nýtt til þess að endurskapa atvinnulífið með auknum framlögum til menntamála og til að endurskipuleggja velferðarkerfið þannig að það stæðist betur til framtíðar en við getum ekki séð að þessi uppsveifla hafi verið notuð til nokkurra kerfisbreytinga. Við fáum ekki séð neinar nýjar áherslur eða forgangsröðun sem gæti varðað veginn til framtíðar þannig að við fáum velferðarkerfið varið þegar harðnar á dalnum né heldur hafa menn sett fé til menntamála eins og við hefðum þó þurft að gera. Það verður ekki annað séð en að þeir fjármunir sem varið er til hefðbundinna atvinnuvega, sjávarútvegs og landbúnaðar, séu á svipuðu róli og verið hefur miðað við frv., þá erum við að tala um rúma 10 milljarða til þeirra hefðbundnu atvinnugreina. Þar hefur engin breyting orðið á. Í góðærinu hefur ekki þótt ástæða til að breyta þar nokkru um. Þær nýju fjárfestingar sem hafa orðið hafa að mestu verið í stóriðju en hún er líka nokkuð hefðbundin í okkar atvinnulífi sem hefur því miður einkennst af lágum launum vegna einhæfrar framleiðslu.

Við höfum oft haft áhyggjur af því að atvinnulífið á Íslandi hafi litla framleiðni og kennt því um að Ísland sé láglaunaland. En við getum allt eins sagt, herra forseti, að mikið vægi framleiðslustarfa í atvinnulífi þjóðarinnar geti verið meginskýringin. Störf í framleiðslugreinum eru orðin láglaunastörf í heiminum almennt, og ef framleiðslan á að vera samkeppnishæf á erlendum mörkuðum, þá er því miður ekki hægt að greiða fyrir hana hærri laun hér. Þess vegna, herra forseti, er ástæða til að harma í rauninni að menn skyldu ekki nýta uppsveifluna til þess að undirbúa þá framtíð sem gæti skilað okkur störfum sem byðu upp á hærri laun heldur horfa endalaust til framleiðslustarfanna eins og virðist hafa verið gert. Það er annað sem einkennir þær atvinnugreinar sem hér er rætt um en það er að þær biðja ekki um mikla menntun og má segja að áhrifa þess gæti og hafi gætt varðandi viðhorf okkar til menntunar, ekki síst verkmenntunar. Viðhorfið hefur verið það að gott sé að menntast en svo sem ekki mikið með það að gera.

Íslensk þjóðarsál hefur borið mismikla virðingu fyrir menntun og boðberum hennar, kennurunum. Mig langar, herra forseti, að vitna í Heimsljós máli mínu til stuðnings þar sem Þórður á Horni hefur orðið og hans sjónarmið koma skýrt fram en þau eru e.t.v. lýsandi fyrir það viðhorf sem hefur lengst af ríkt.

,,Það var kominn nýr kennari. Í hreppsnefndinni kom til álita hvort Ólafur Kárason mundi vera maður til að lækna hunda en Þórður á Horni þvertók fyrir að trúa honum fyrir sínum hundi úr því að hann hafði ekki ort kvæði um tengdamóður hans, sagði að maðurinn væri ekki skáld heldur aumingi. Það mesta sem hann dygði til væri að undirvísa byrjendur í kristindómi og reikning sem aðstoðarkennari.``

Svona hefur viðhorfið verið að stórum hluta, herra forseti, og það eimir eftir af því enn. Í góðærinu höfum við ekki rænu á því að verja peningum til menntamála til að búa okkur undir þá stórauknu samkeppni við útlönd sem hrífur frá okkur unga fólkið. Nú erum við að horfa upp á það að ungir læknar flykkjast til útlanda í framhaldsnám og betra starfsumhverfi.

Við höfum auðvitað líka horft upp á það sem hefur eflaust dregið úr áhuga fólks fyrir menntun, að vinnu og ákveðnum stöðum í þjóðfélaginu hefur verið úthlutað eftir ýmsu öðru en menntun og jafnvel hæfni og aðrir verðleikar eins og þeir að vera karl í réttum stjórnmálaflokki virðast hafa skipt meira máli.

Þegar talað er um fjárfestingar horfa menn, eins og ég hef getið um, herra forseti, fyrst og fremst til framleiðslunnar. Mig langar hins vegar til að benda á að ýmsar fleiri kenningar eru til um það hvernig hægt er að auka hagvöxt. Ein þeirra kenninga, sem er sérlega aðlaðandi, er svokölluð mannauðskenning sem kom fram í Bandaríkjunum í byrjun 7. áratugarins. Í stuttu máli gengur sú kenning út á að manneskjan og mannvitið sé allt í senn fjármagn, framleiðsluþáttur og afleiðing fjárfestingar.

Í augum þeirra sem horfa á mannauðskenninguna er menntakerfið heildstætt framleiðslukerfi sem framleiðir verkamenn og tæknimenn nútímasamfélags. Fjárfesting í mannauði kemur fram á ýmsum sviðum þjóðfélagsins en nokkur af þeim mikilvægari eru formleg skólaganga, fullorðinsfræðsla, þjálfun á vinnustað, heilsugæsla og þjónusta. Á grundvelli mannauðskenningarinnar hefur það verið reiknað út að 42% hins mikla hagvaxtar Bandaríkjanna á þessari öld eigi rætur að rekja til menntunar vinnuaflsins. Það má líka benda á það, herra forseti, að undrahraður uppgangur nútímahugbúnaðarfyrirtækja sem byggist nær eingöngu á hugviti einstaklinganna sem þar vinna hefur verið notaður sem dæmi um þessa kenningu.

Við höfum haft áhyggjur af því, og það um of að mati ýmissa, hversu litlu fjármagni við Íslendingar verjum til menntamála. Við höfum gjarnan vitnað til síðustu matsskýrslu OECD þar sem skýrsluhöfundar benda á að hér á landi er litlu fjármagni varið til menntamála. Aðeins fjögur OECD-ríki verja hlutfallslega minna fjármagni til menntamála en Ísland þrátt fyrir að hlutfall ungs fólks á skólaaldri á Íslandi sé með því hæsta sem þekkist innan OECD. Það er sérstaklega áberandi, herra forseti, að ekkert OECD-land ver hlutfallslega eins litlu fjármagni til háskólamála og Ísland. Ef tekið er tillit til þjóðarframleiðslu, sem er mjög há á Íslandi eins og áður hefur komið fram, þá er Ísland hlutfallslega langneðst af OECD-ríkjunum hvað varðar framlög til menntamála. Það þarf því varla að undra að í alþjóðlegum samanburðarrannsóknum hefur komið í ljós að árangur íslenskra skólabarna er á sumum sviðum í lakara lagi.

[23:45]

Á síðasta vetri varð nokkur úlfaþytur þegar niðurstaða svokallaðrar TIMSS-rannsóknar var kynnt og í ljós kom að Íslendingar voru í slöku meðallagi en um var að ræða könnun á þekkingu íslenskra grunn- og framhaldsskólanema í náttúrufræðigreinum, raungreinum. Ég minnist umræðu á Alþingi af þessu tilefni þar sem ýmsir fóru mikinn, ekki síst stjórnarliðar. Til þessarar könnunar hefur verið vitnað reglulega síðan og talað um að vegna þeirra niðurstaðna sem þar lægju fyrir þyrfti sannarlega að bæta íslenskt skólakerfi. Íslenskir skólar hafa ekki fengið góða einkunn.

Herra forseti. Þetta er örlítill inngangur að tillögu sem ég vil gjarnan nota þetta tækifæri og mæla fyrir. Hún er um að Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála fái litlar 5 millj. til viðbótar því fjármagni sem stofnuninni eru ætlaðar í frv. til fjárlaga. Þetta er tillaga á þskj. 613 og hún er flutt ásamt þeirri sem hér stendur af þeim hv. þm. Svavari Gestssyni og Guðnýju Guðbjörnsdóttur sem mynda minni hluta hv. menntmn.

Herra forseti. Hér er á ferðinni sparnaðartillaga. Verið er að tala um 5 millj. sem mér skilst að mönnum blöskri og þess vegna hafi hv. fjárln. ekki séð sér fært að taka mark á tillögunni en hún er sparnaðartillaga einfaldlega vegna þess að fyrir liggur að Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála hefur í sínum fórum mikið af upplýsingum m.a. úr nefndri TIMSS-rannsókn, upplýsingum sem ekki er til fjármagn til að vinna úr og af því að ekki er til fjármagn til að vinna úr þessum tillögum, þá er ekki hægt að koma með ábendingar um hvar pottur er helst brotinn í íslensku skólakerfi. Stofnunin hefur ekki aðstöðu til að segja ríkisvaldinu eða sveitarfélögunum hvar viturlegast er að setja viðbótarfjármagn. Það er ekki hægt að mati hv. fjárln. eða meiri hluta hennar að verja 5 millj. kr. til þess að stofnunin geti sagt okkur hvernig fjármunum sé best varið til að styrkja íslenska skólakerfið svo að við þurfum ekki aftur að fá niðurstöðu úr alþjóðlegum könnunum eins og við fengum í fyrra. Við munum þess vegna, herra forseti, láta reyna á það í salnum á morgun hvort þingheimur sér ekki ögn lengra, því að eins og ég sagði er hér á ferðinni sparnaðartillaga vegna þess að ekkert er dýrara en að setja peninga í skólakerfið, í þessu tilfelli, sem koma að engu gagni vegna þess að alla faglega ráðgjöf vantar um hvernig peningarnir nýtast best og hvert brýnast er að þeir fari. Og við gætum, herra forseti, lent í því að setja peninga í kerfi sem koma ekki að nokkrum notum en byggja okkur falskt öryggi vegna þess að við héldum að við værum að gera það besta. Það er löngu kominn tími til að við hættum að haga okkur eins og við höfum gert, að efna endalaust til nefndastarfs og ályktana, til kannana og niðurstaðna en gera síðan ekkert með það. Það er lenska í landi okkar að friða fólk með því að kanna málin, setja gjarnan nefnd í málin. Niðurstaðan er síðan aukaatriði sem mér sýnist að menn varist að læra af. En við höldum þessari tillögu til streitu, herra forseti, vegna þess að við vitum að hér er á ferðinni mikilvæg sparnaðartillaga.

Þegar útgjöld til menntamála eru þannig stödd að þar hefur ekki orðið raunhækkun í tíu ár hljótum við að leggja aukna áherslu á að þeir litlu fjármunir sem menn eru tilbúnir að leggja í þann mikilvæga málaflokks fari þá áreiðanlega þangað sem þeirra er helst þörf, þar sem við getum gert mest úr þeim.

Herra forseti. Ég talaði um menntamál sem mikilvæg mál og því til stuðnings vil ég nefna mikilvægi ekki síst háskólamenntunar í tengslum við umræðuna um byggðamál. Það er afskaplega þakklátt að í fjárlagafrv. skuli vera settar 8 millj. til að undirbúa háskólakennslu á Austurlandi. Ég held, herra forseti, að þetta sé eitthvað það jákvæðasta sem í frv. er í menntamálakaflanum. Við sem þekkjum hvernig til hefur tekist á Akureyri og höfum séð hvaða áhrif sá skóli hefur ekki bara á umhverfi sitt með því að laða að háskólamenntað fólk og sérfræðinga til vinnu heldur líka þegar við horfum til þess hvert þeir sem útskrifast hverfa síðan til starfa, þá vitum við að þetta er það sem skiptir máli. Staðreyndir sýna okkur nefnilega að þeir sem menntast í landsbyggðarháskóla setjast gjarnan að á landsbyggðinni. Það hefur líka komið fram og var reifað á ágætri ráðstefnu um byggðamál sem var haldin á Akureyri sl. vor að Skotar sem hafa reynt ýmislegt til að örva byggð í norðurhéruðum sínum hafa séð bestan árangur þar sem þeim hefur tekist að fjölga háskólamenntuðu fólki á svæðunum. Þess vegna tel ég að þarna sé verið að stíga gæfuspor. Héraðsháskólar eins og við erum að tala um geta stuðlað að því að atvinnufyrirtækin úti um land fái háskólamenntað fólk í sína þjónustu og stuðla þannig enn frekar að betri rekstri og eflingu byggðar, að fjölbreytni atvinnulífsins, en það er það sem verið er að kalla eftir úti um allt land.

Ég hefði líka viljað sjá að myndarlegar væri tekið á málefnum Háskólans á Akureyri hvað varðar uppbyggingu hans og auðvitað hefði þurft að standa betur við bakið á Háskóla Íslands vegna þess að hann er kjölfestan í háskólamenntun hér á landi. Hann er okkar stóri rannsóknaháskóli sem á að vera bakhjarl héraðsháskólanna hvort sem þeir eru sjálfstæðir, eins og Háskólinn á Akureyri, eða verða í starfstengslum við aðra háskóla.

Herra forseti. Þetta vildi ég nefna vegna þess að ég tel að þarna séum við á réttri leið. Ég vildi nefna dæmi um það sem ég tel að vel sé gert þar sem menn eru að gera það sem er að mínu skapi og okkar jafnaðarmanna.

Ég varð vör við það í 1. umr. um fjárlög og það hefur reyndar oft heyrst frá öðrum stjórnarflokknum, sérstaklega Sjálfstfl., að eitthvað sem heitir sértækar aðgerðir er algert eitur í þeirra beinum. Mér hefur reyndar alltaf fundist þetta dálítið fyndið vegna þess að ég veit ekki um neinn stjórnmálaflokk sem hefur jafnmikið og oft beitt sértækum aðgerðum, en þeir reyna að þvo það af sér með því að tala sem verst um það. En núna er þessi flokkur einmitt að beita einni mjög stórri sértækri aðgerð. Sú sértæka aðgerð er niðurskurðurinn í vegamálum. Það er stór sértæk aðgerð sem að mínu mati, herra forseti, beinist gegn landsbyggðinni vegna þess að við þurfum að fjárfesta í samgöngum ef við ætlum að halda byggð í landinu til að við getum myndað þjónustusvæði og atvinnusvæði sem eru nægjanlega stór með nægjanlega greiðum samgöngum til að fólk telji sig finna þá fjölbreytni sem verið er að sækjast eftir. Ég sakna þess að þeir 9 eða 11 stjórnarþingmenn --- ég man nú ekki hvort þeir voru 9 eða 11 en það var alla vega oddatala --- sem fluttu tillögu og mæltu fyrir af miklum ákafa fyrr í vetur um stækkun þjónustusvæða og atvinnusvæða á landsbyggðinni skuli ekki hafa tekið þátt í umræðunni um niðurskurð í vegamálum. Sumir þeirra voru búnir að hafa stór orð uppi einmitt varðandi vegamálin, búnir að koma í fjölmiðla og segja frá sínum fyrirvörum, jafnvel búnir að gera grein fyrir atkvæði sínu, sumir hverjir, en þeir hafa ekki komið í þessari umræðu til að tala um hversu bagalegt þetta er og algerlega andstætt hinni ágætu tillögu, um stækkun þjónustusvæða og atvinnusvæða á landsbyggðinni, sem núna er auðvitað fallin um sjálfa sig og ekkert með að gera, enda ljóst að hún var aldrei nema froðan ein. Og þeir greiddu allir sem einn atkvæði með þessari skerðingartillögu stjórnarflokkanna þegar hún var borin upp í þinginu. Svo mikið fyrir þá fyrirvara sem menn gera hér í umræðunni.

Eitt hefur þessi ríkisstjórn þó sloppið við og kallast e.t.v. sértækar aðgerðir eða flokkaðar þannig en það eru þær sértæku aðgerðir sem reglulega þurfti að fara í vegna verðbólgu. Á meðan verðbólgan geisaði þurfti reglulega að fara í erfiðar sértækar aðgerðir til að bjarga því sem bjarga þurfti á hverjum tíma og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson lýsti ágætlega fyrr í kvöld. Þessi ríkisstjórn hefur enn verið laus við slíkar sérstakar aðgerðir.

Herra forseti. Við sem hneigjumst til að taka mark á Þjóðhagsstofnun, jafnvel Vinnuveitendasambandinu þegar það varar við þenslu, óttumst auðvitað að til slíkra sértækra aðgerða þurfi að grípa fyrr en síðar vegna þess að eins og ég gat um í upphafi máls míns eru þeir veikleikar í fjárlagafrv. ef menn vilja horfa á það sem hagstjórnartæki að ég óttast að það verði a.m.k. ekki til að hjálpa okkur þegar við þurfum að brúa bilið frá hagsveiflunni yfir í eitthvað sem kannski verður hægt að kalla normalástand en verður auðvitað kallað kreppa eftir þá góðu uppsveiflu sem við höfum notið.