Ferill 9. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 9 – 9. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um fjarkennslu til að jafna aðstöðu til náms.

Flm.:      Svanfríður Jónasdóttir, Ágúst Einarsson, Ásta R. Jóhannesdóttir,


Gísli S. Einarsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Jóhanna Sigurðardóttir,


Jón Baldvin Hannibalsson, Lúðvík Bergvinsson, Rannveig Guðmundsdóttir,


Sighvatur Björgvinsson, Össur Skarphéðinsson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd sem geri tillögur um hvernig nýta megi fjarkennslu á grunnskóla-, framhaldsskóla- og háskólastigi til að jafna aðstöðu til náms.
    Nefndin taki mið af þeirri reynslu sem fengist hefur af fjarkennslu hérlendis og þeirri þekkingu sem fyrir liggur í öðrum löndum á fjarnámi og móti tillögur sínar m.a. á þeim grundvelli.
    Nefndin verði skipuð fagfólki á sviði menntamála með reynslu af fjarkennslu.
    Nefndin skili tillögum sínum fyrir skólaárið 1998–1999.

Greinargerð.


     Menntun og þekking eru þau vopn sem líklegust eru til að koma að haldi í lífsbaráttu næstu ára og á nýrri öld. Flestir foreldrar vilja nesta börn sín vel út í lífið þannig að þau eigi möguleika á góðri atvinnu og góðum lífskjörum. Það ræður því miklu um búsetuval fólks að börnin hafi möguleika á að njóta góðrar kennslu og menntunar á grunn- og framhaldsskóla­stigi. Þar sem ekki eru möguleikar til framhaldsskólanáms og efstu bekkir grunnskóla e.t.v. ekki starfræktir reglulega sökum mannfæðar er ekki óalgengt að fjölskyldur hugsi til búferla­flutninga þegar börnin komast á unglingsár, bæði til að halda fjölskyldunni lengur saman og vegna þess mikla kostnaðar sem fylgir því að senda unglinginn að heiman eða halda tvö heimili. Skipulag menntamála er því afar mikilvægt byggðamál.
    Þá kalla breytingar í atvinnulífinu á endurmenntun og símenntun ýmiss konar sem fólk og fyrirtæki vilja og þurfa að eiga aðgang að.
    Á vorönn árið 1994 var fjarkennsla hafin við Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA). Fimmtán nemendur hófu þá nám í ensku og kennarar unnu kauplaust að þessari tilraun sem tókst svo vel að nú stunda um 250 nemendur nám í fjarnámsdeild skólans. Yfir 75 áfangar eru kenndir í yfir 30 greinum. Kennarar við deildina eru nú yfir 40 og eru margir þeirra að aðal­starfi kennarar við aðra skóla en VMA. Nemendum hefur ekki aðeins fjölgað innan lands heldur hefur nemendum sem búa erlendis einnig fjölgað og eru nemendur nú í Evrópu, Ameríku og Afríku. Úttekt sem gerð var á kennslunni fyrir menntamálaráðuneytið eftir haust­önn 1996 leiddi í ljós að gæðin voru í lagi. Síaukin aðsókn er þó besti mælikvarðinn. Nem­endur um allt land og úti á miðum, svo og þeir sem búsettir eru erlendis, kunna vel að meta þessa gerð skóla.
    Það sama er að segja um aðra kennslu sem boðið hefur verið upp á með tölvusamskiptum. Kennaraháskólinn hefur t.d. boðið upp á fjarnám um árabil, bæði endurmenntun og kennara­nám. Fósturskóli Íslands hefur haft svipaðan hátt á. Báðir skólar gera þó ráð fyrir að nem­endur séu við nám í skólanum sjálfum að hluta.
    Nemandi á Bakkafirði nýtti sér fjarkennslu við nám í 10. bekk og tók samræmd próf vorið 1996 við Gagnfræðaskóla Akureyrar (nú Brekkuskóli). Sá skóli hefur haldið áfram að þróa fjarkennslu og í fjarnámi er nú um tugur nemenda sem býr erlendis . Um er að ræða nemendur sem áður stunduðu nám við skólann en hafa farið til lengri eða skemmri dvalar erlendis með foreldrum og geta þeir með fjarnámi viðhaldið þekkingu sinni t.d. í íslensku eða öðrum þeim greinum sem eftir atvikum er talið rétt að lesnar séu undir umsjón íslensks kennara.
    Hvert viljum við stefna með fjarkennsluna? Mikill áhugi er á því meðal landsbyggðafólks, ekki síst á þeim stöðum þar sem ekki er boðið upp á framhaldsnám, að fjarkennsla verði nýtt skipulega til að nemendur geti verið lengur í foreldrahúsum og að skipulag skólamála valdi ekki röskun á högum fjölskyldunnar. Jafnframt væri brýn nauðsyn að skoða með hvaða hætti fjarkennslan getur komið að gagni þar sem ekki er talið unnt að starfrækja efstu bekki grunn­skóla sakir nemendafæðar og/eða skorts á sérhæfðum kennurum. Það er dýrt að þurfa að senda unglinga að heiman í framhaldsskóla og foreldrar vilja gjarnan geta haft hönd í bagga með uppeldi barna sinna lengur en kostur gefst á stöðum þar sem senda þarf unglinginn að heiman strax á fyrstu unglingsárum.
    Kanna þyrfti skipulega möguleika á fjarkennslu við þá framhaldsskóla, eða einstök náms­svið í dreifbýlinu, þar sem ekki er kostur á sérmenntuðum kennurum í einstökum greinum. Þannig mætti styrkja námið og auka fjölbreytni í námsframboði. Fjarkennsla VMA hefur þegar þjónað ýmsum skólum í þessu efni. Nemendur hafa getað tekið einstaka áfanga í fjar­námi sem af einhverjum ástæðum hafa ekki verið kenndir við viðkomandi skóla.
    Fjarnám getur líka verið góður kostur fyrir þá sem hafa verið við framhaldsnám en aldrei lokið námi og útskrifast, svo og þá sem ekki áttu þess kost á sínum tíma að fara í framhalds­skóla. Margir af nemendum í fjarnámi við VMA búa á svæðum þar sem fjölbreytt námstæki­færi eru í boði, t.d. í kvöldskólum, en kjósa frekar þessa leið. Fjarnám virðist vera aðgengileg leið fyrir marga sem ekki geta nýtt sér reglubundið nám, svo sem vegna fjölskylduábyrgðar, vinnutíma eða annars. Fjarnám getur skapað þeim annað tækifæri.
    Sjómenn hafa nýtt sér möguleika fjarnámsins. Ein skipshöfn hefur komið sér upp mót­tökubúnaði um borð og notið þannig fjarkennslu frá VMA. Slíkur búnaður hlýtur að verða framtíðarbúnaður um borð í þeim skipum sem hafa langa útivist. Aðrir hafa tekið efnið með sér um borð á disklingum.
    Möguleikar á því að nýta fjarkennslu við endur- og símenntun eru nær ótæmandi. Þeir möguleikar nýtast hins vegar ekki sem skyldi verði þeir ekki skipulagðir, stefnan mörkuð, samstarfsaðilar fundnir og möguleikar og framboð kynnt. Sama gildir um þjónustu við þann fjölda barna sem býr erlendis um lengri eða skemmri tíma vegna náms eða starfa foreldra og væri gagnlegt að nefndin skoðaði einnig þá möguleika.
    Tölvusamskipti skóla á Íslandi þróuðust og urðu fyrst að veruleika í dreifbýlinu fyrir frum­kvæði Péturs Þorsteinssonar, þá skólastjóra grunnskólans á Kópaskeri. Úr varð Íslenska menntanetið. Fjarkennslan hefur einnig þróast ört hjá skólum úti á landi og í þjónustu við fólk á landsbyggðinni. Það er ekki tilviljun heldur undirstrikar það hve mikilvæg sú tækni er fyrir dreifbýlið sem gerir tölvusamskipti möguleg. Með markvissri notkun þeirrar tækni má jafna og bæta möguleika fólksins í landinu, bæði til menntunar og til að njóta menningar. Ljóst er að tækninni fleygir fram og sífellt fleiri búa við þá aðstöðu að geta nýtt sér fjarkennslu.
    Í riti menntamálaráðuneytisins „Í krafti upplýsinga“ er sett fram það markmið að „kostir fjarkennslu verði nýttir markvisst til að jafna aðstöðu til náms jafnt innan lands sem erlendis frá“. Þar segir enn fremur: „Kostir upplýsingatækni verði að fullu nýttir til að efla hvers konar símenntun.“ Orð eru til alls fyrst og í ljósi fenginnar reynslu þarf að móta tillögur um aðgerðir til að nýta megi skipulega þá möguleika sem fyrir hendi eru. Þessi tillaga er fram komin til að stuðla að því.

Fylgiskjal.


Kynning á fjarkennslu Verkmenntaskólans á Akureyri.


Haustönn 1997.



Verkmenntaskólinn á Akureyri.
    Skólinn var stofnaður árið 1984. Hann er stærsti framhaldsskólinn utan Reykjavíkur. Vel yfir eitt þúsund nemendur sækja dagskóladeildir skólans. Auk þess stunda hundruð nemenda nám í fullorðinsfræðslu, öldungadeild og fjarkennslu. Skólinn er fjölbrautaskóli og býður nám á fjörtíu og fjórum brautum verklegs og bóklegs náms. Aðstaða og tækjabúnaður eru góð. Hvort tveggja er sífellt verið að bæta með það að markmiði að skólinn geti á hverjum tíma veitt nemendum, sem hann sækja, sem besta þjónustu.
    Skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri er Bernharð Haraldsson.

Fjarkennsla Verkmenntaskólans á Akureyri.
    Á vorönn 1994 hófst fjarkennsla með tölvusamskiptum við Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA). Hún hefur nú fest sig í sessi. Markmið fjarkennslunnar er að veita þeim þjónustu sem vilja leita sér menntunar en eiga þess ekki kost að stunda nám á hefðbundinn hátt. Með fjar­kennslu VMA hefur verið stigið stórt skref til jöfnunar aðstöðu manna til náms á framhalds­skólastigi.

Fjarkennsla um tölvur.
    Nemendur, sem stundað hafa fjarnám við VMA, eru hvaðanæva að af landinu og einnig erlendis. Þeir eru í sjávarþorpum og til sveita; í stærra þéttbýli og á sjó. Með fjarnámi má stunda nám nánast hvaðan sem er hafi nemandinn grunnbúnað sem nú þegar er í eigu fjöl­margra hér á landi. Því er hér nýtt leið sem þegar er opin til þess að veita námsmöguleika sem buðust ekki fyrr.

Búnaður og byrjun.
    Grunnbúnaðurinn, sem þarf til fjarnáms við VMA, er tölva og mótald. Gott er einnig að hafa prentara. Mótaldið má ekki vera minna en 14.400 baud. Um það tengist tölvan símakerfi landsins en um það fara boð á milli kennara og nemenda. Flestar nýrri tölvutegundir, sem tíðar eru hér á landi, má nota.
    Auk tækjabúnaðarins þarf nemandinn netfang á tölvunetinu og lykilorð sem opnar honum aðgang að sínum gögnum á netinu og almennan aðgang að því. Á netfangið er póstur not­andans sendur. Netfangið er því í raun „heimilisfang“ notandans. Pósturinn fer í pósthólf í móðurtölvu á netinu og bíður þess að hann sé sóttur. Íslenska tölvunetið er hluti af hinu „alþjóðlega interneti“ sem nær um heiminn allan.
    Hafi nemandi ekki netfang, þegar hann skráir sig til náms í fjarkennslu VMA, þarf hann að fá sér netfang og lykilorð hjá þjónustuaðila sem tengir hann við tölvunetið. Þessi aðili lætur nemandanum í té samskiptaforrit sem komið er fyrir í tölvu hans hafi hann ekki slíkt fyrir og einnig leiðbeiningar um innsetningu og notkun forritsins. Æskilegt er að þjónustuaðilinn sé innan símasvæðis notandans.


Framvinda námsins.

     Námsefni, yfirferð, kennsla og kröfur í fjarkennslu VMA eru mótaðar með fullri hliðsjón af almennum deildum skólans. Fjarnemendur hafa sömu kennslubækur í höndum og aðrir nemendur eða bækur að fullu hliðstæðar þeim. Þessi gögn og önnur eru send nemendum í póstkröfu fyrir byrjun kennslu sé þess óskað.
    Kennarinn sendir nemandanum fyrirmæli um það hvað vinna skuli. Einnig fær nemandinn leiðbeiningar um vinnu sína, tilvísanir í rit eftir þörfum og aðrar ábendingar sem koma í stað þess sem gerist í almennri bekkjarkennslu. Þessi skjöl — venjulega tólf — eru send með reglulegu millibli í gegnum tölvunetið. Efni hlutaðeigandi áfanga er allt í sendingarpökk­unum. Nemandanum er gerð grein fyrir pökkum áfangans í kennsluáætlun sem hann fær senda í upphafi annarinnar.
    Nemandinn vinnur þau verkefni sem fyrir hann eru lögð og sendir úrlausnir sínar um tölvunetið til kennara síns. Kennarinn fer yfir úrlausn nemandans og skrifar leiðréttingar og athugasemdir inn í úrlausn nemandans. Að yfirferð lokinni fær nemandinn úrlausnina senda og fer yfir hana. Markmiðið er að nemandinn fái úrlausn sína til baka innan sólarhrings frá því að hann sendir kennaranum hana.
    Nemandinn getur ætíð sent kennara sínum fyrirspurnir um tölvupóstinn. Síma má einnig nota. Gert er ráð fyrir tölvusamskiptum nemenda í nokkrum námsgreinum.
     Náms- og kennslutími fjarkennslunnar er miðaður við önn framhaldsskólans. Skylduskil eru á úrlausnum verkefna Þau eru tímabundin og er yfirleitt miðað við að fyrirsetning sé viku vinna. Nemendur hafa þó jafnan helmingi lengri tíma til þess að mæta ófyrirséðum upp­ákomum. Dragist skil fram yfir áskilinn tíma án gildra ástæðna, sem gerð hefur verið grein fyrir, getur komið til þess að talið verði að nemandinn hafi sagt sig frá námi.
    Í flestum áföngum lýkur náminu með prófi sem tekið er á sama tíma og prófað er í almennum deildum skólans. Prófið tekur nemandinn í heimabyggð sinni eða hið næsta henni, tíðast í skóla, sem samið hefur verið við um próftökuna. Prófið er tíðast sent prófskólanum í pósti, en fyrir kemur, einkum þegar nemendur erlendis eiga í hlut, að fax er notað. Nemandinn tekur prófið, en prófskólinn sendir það til VMA þar sem farið er yfir og einkunn gefin. Nemandinn fær einkunn og greinargerð eftir þörfum í tölvupósti. Útskriftir einkunna má fá sendar í pósti, sé eftir því leitað.

Námsvinnan.
    Í áfangakerfinu er námsgreinum skipt í pakka, þar sem hver er einnar annar vinna. Áfangar hafa einingar. Einingafjöldi hvers áfanga er síðasta talan í númeri áfangas. ENS 102 er þannig tveggja eininga áfangi og SAG 103 þriggja eininga.
    Líklegt er að tíminn í klukkustundum talinn, sem fer í nám í áfanga, sé einingafjöldi áfangans margfaldaður með tveimur. Vinna í t.d. STÆ 113 gæti því orðið um sex klst. í viku hverri. Þessi útreikningur er einungis til viðmiðunar og gefinn til þess að nemendur ætli sér ekki um of.

Greiðslur.
    Nemandi staðfestir umsókn sína í fjarnám við VMA með greiðslu 50% heildarkennslu­gjaldsins fyrir þá áfanga, sem valdir eru. Nemandi telst ekki skráður fyrr en þessi greiðsla hefur borist. Hún telst innritunargjald og er óafturkræf og bundin áfanga eins og greiðsla eftirstöðva sem innheimt er með gíróseðli um það bil um miðja önnina. Greiðslurnar eru einungis kennslugjaldið og fela ekki í sér námsgögn, svo sem bækur og segulbandsspólur, tengigjald við tölvunetið eða próftökugjald, sé þess krafist á próftökustað.

Kennslugjald er:
     Fyrsti áfangi: 10.000 kr. Við innritun: 5.000 kr.
    Annar áfangi 8.000 kr. Við innritun: 4.000 kr.
    Þriðji áfangi 6.000 kr. Við innritun: 3.000 kr.
    Síðan 6.000 kr. á áfanga. Við innritun: 3.000 kr.

Upplýsingar.
    Frekari upplýsingar fást á skrifstofu VMA í síma 461-1710. Senda má tölvupóst á netfang Hauks Ágústssonar, kennslustjóra fjarkennslu VMA: <hag@hyrna.ismennt.is>

Innritun.
    Innritun er á skrifstofutíma skólans í síma 461-1710. Nemandi, sem hefur lokið námi á framhaldsskólastigi eða námi, sem unnt er að meta til lokinna áfanga á framhaldsskólastigi, þarf að koma afritum prófskjala til VMA, svo að unnt sé að meta þau.

Áfangar í boði á haustönn 1997.
    BÓK 103, 203, 303
    DAN 102, 202, 212
    EÐL 103, 203, 213
    EFN 103, 203, 303, 363
    ENS 102, 202, 212, 303, 323, 333, 403
    FÉL 103
    FJÁ 103
    HBF 102
    HSP 123
    ÍSL 102, 202, 212, 313, 332, 342, 352, 373
    ÍÞR 113
    JAR 103
    LAT 103
    LÍF 103, 203, 303
    LOL 103
    LHF 113
    MAR 103
    MBS 101
    MKF 102
    MST 104
    NÆR 103, 202
    REI 103
    REK 103
    SAG 103, 202, 212, 222, 232, 272
    SÁL 103, 213, 223, 343
    STÆ 102, 113, 122, 202, 243, 303, 323, 403
    TJÁ 102
    VER 102
    VRR 102
    ÞJÓ 103, 203
    ÞÝS 103, 203, 303, 403

(TVÆR SÍÐUR , UMSÓKNAREYÐUBLAÐ, MYNDAÐAR)