Ferill 37. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.





122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 37 – 37. mál.



Tillaga til þingsályktunar


um öryggismiðstöð barna.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ágúst Einarsson,

Gísli S. Einarsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Jóhanna Sigurðardóttir,

Jón Baldvin Hannibalsson, Lúðvík Bergvinsson, Rannveig Guðmundsdóttir,

Sighvatur Björgvinsson, Svanfríður Jónasdóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að setja á stofn öryggismiðstöð barna. Hlutverk miðstöðvarinnar verður að miðla til foreldra, kennara og annarra sem tengjast uppeldi og um önnun barna hvers konar fræðslu um öryggi og öryggisbúnað sem líkleg þykir til að fækka barnaslysum. Hún skal vera stjórnvöldum til ráðuneytis um aðgerðir sem dregið geta úr slys um barna og sinna ráðgjöf til framleiðenda og innflytjenda á öryggisbúnaði. Samræmd tölvu skráning á barnaslysum skal jafnframt vistuð á vettvangi miðstöðvarinnar.

Greinargerð.

Tíðni barnaslysa.
    Mjög hátt hlutfall íslenskra barna slasast áður en þau ná fullorðinsaldri. Tíðni barnaslysa hér á landi er t.d. miklu hærri en í nágrannalöndum á borð við Noreg og Svíþjóð. Í einstökum slysaflokkum, svo sem drukknunarslysum, er tíðnin með því hæsta sem þekkist á Vesturlönd um.
    Forvarnir í formi fræðslu virðast skipta miklu máli. Slysum á ungum börnum, 0–4 ára, fækkaði verulega eftir að forvarnarstarfi var hrundið af stað í byrjun síðasta áratugar á vegum heilsugæslustöðvanna, ungbarnaverndar, landlæknisembættisins og síðast en ekki síst Slysa varnafélags Íslands. Óhætt er að segja að barnafulltrúi félagsins, Herdís L. Storgaard hjúkr unarfræðingur, hafi unnið þrekvirki á því sviði og hlaut fyrir það norrænu heilsuverndarverð launin árið 1995.
    Úttekt á gögnum slysadeildar Borgarspítalans sýndi að árin 1974–91 komu um 6.200 slös uð börn að jafnaði á slysadeildina á hverju ári. Til marks um hvað börn eru hátt hlutfall þeirra sem deildin aðstoðaði má nefna að árið 1991 voru börn yngri en 14 ára um 30% slasaðra Reykvíkinga sem þangað komu. Á hverju ári lagði deildin að meðaltali 158 börn inn á sjúkra hús, eða 2,6% allra barna sem til hennar leituðu.
    Athyglisvert er að drengjum er helmingi hættara við slysum en stúlkum. Á úttektartímanum voru þeir 60% barna sem komu á deildina. Í einstökum, alvarlegum slysaflokkum er hlutfall þeirra enn hærra. Úttekt á drukknunarslysum árin 1988–93 sýndi t.d. að drengir urðu fyrir 31 af 48 drukknunarslysum, eða í 65% tilvika.
    Nýgengi slysa, mælt sem árlegur fjöldi slysa á hver þúsund börn, var að meðaltali 299 árin 1974–91. Hjá drengjum reyndist nýgengið 345 og 250 hjá stúlkum. Fyrir bæði kynin hækkaði slysatíðnin fram undir miðbik úttektartímans, um 15% á ári hjá drengjum en mun meira, eða um 26%, hjá stúlkum. Hæst fór það árið 1982 þegar 335 slys urðu á hver 1.000 börn. Síðan lækkaði tíðnin aftur og var árið 1991 komin niður í 264 slys hjá hverjum 1.000 börnum.
    Sérlega athyglisvert er að skoða þróun slysa hjá 10–14 ára börnum. Í upphafi úttektartíma bilsins var nýgengi slysa lægst í þeim aldursflokki, eða 224 árið 1974. Slysatíðni annarra aldursflokka lækkaði þegar á leið, en jókst hins vegar umtalsvert hjá 10–14 ára börnum. Árið 1991 skráði slysadeild Borgarspítalans 311 slys á hvert þúsund þeirra. Aukninguna má alla rekja til íþróttaslysa og slysa í skólanum (sjá síðar) en í þessum aldursflokki eru slík slys al gengust. Könnunin leiddi í ljós þá merkilegu niðurstöðu að tíðni slysa meðal 10–14 ára barna er tvöfalt hærri á Íslandi en meðal jafnaldra þeirra í Noregi.
    Svokölluð heimaslys voru að jafnaði um þriðjungur barnaslysa. Undantekning var þó yngsti aldurshópurinn, 0–4 ára, þar sem heimaslys námu 60%. Hlutfall heimaslysa jókst um 3–4% á ári fram undir 1980, en eftir það tók þeim góðu heilli að fækka. Fækkunin var um 2% á ári og kom nánast öll fram í yngsta aldursflokknum.
    Skólaslysum, en undir þau flokkast einnig slys sem verða á barnaheimilum og í dagvist, fjölgaði í öllum aldursflokkum, en hlutfallslega mest hjá yngstu börnunum. Eftir 1985 og til loka úttektartímabilsins jukust þau hvorki meira né minna en um 18% á hverju ári. Hjá börnum á aldrinum 5–14 ára fjölgaði skólaslysum nokkuð fyrri hluta tímabilsins en eftir 1982 fjölgaði þeim óverulega.
    Íþróttaslys á börnum jukust jafnt og þétt allan úttektartímann og eins og áður greindi var fjölgunin langmest hjá 10–14 ára börnum. Aukin þátttaka stúlkna í íþróttum kann að valda því að hjá þeim var aukning íþróttaslysa næstum tvöföld á við aukninguna meðal drengjanna, eða 6,8% á ári meðan þeim fjölgaði um 3,5% hjá drengjunum.

Samanburður við önnur Norðurlönd.
    Samanburður leiðir í ljós að barnaslys eru miklu algengari hér en annars staðar á Norður löndum. Árið 1990 urðu þannig 128 slys á hvert þúsund 0–4 ára barna í Noregi, en meira en tvöfalt fleiri í Reykjavík, eða 258. Hjá 5–9 ára börnum var tíðnin 119 í Noregi, en 255 í Reykjavík. Fyrir 10–14 ára börn var hún 153 í Noregi, en 327 í Reykjavík.
    Í þessum samanburði munar mestu um heima- og skólaslys sem eru miklu algengari í Reykjavík en í Noregi. Minni munur er á íþróttaslysum og ekki var teljandi munur á umferðar slysum barna.
    Hinn sláandi munur á tíðni barnaslysa hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum sést þó best í eftirfarandi: Áætlað er að eitt af hverjum fjórum börnum á Íslandi lendi í slysi, í Noregi eitt af hverjum sex og í Svíþjóð aðeins eitt af hverjum átta.
    Þessar tölur, og aðrar upplýsingar sem raktar eru að framan, sýna það svart á hvítu að nauðsynlegt er að ráðast í stórátak í slysavörnum sem beinast að börnum. Það er undirrót til lögunnar sem hér er flutt.

Stofnkostnaður og rekstur.
    Öryggismiðstöðvar fyrir börn hafa vakið mikla eftirtekt erlendis. Fyrsta miðstöðin var stofnsett í Viktoríufylki í Ástralíu árið 1980. Árangurinn af starfi hennar leiddi til þess að margar svipaðar voru settar á laggirnar annars staðar. Víða á Norðurlöndum er nú í bígerð að setja upp öryggismiðstöðvar þótt tíðni barnaslysa sé þar miklu lægri en hér.
    Kostnaður við stofnun og rekstur öryggismiðstöðvanna er ekki mikill. Víða eru þær reknar í tengslum við barnasjúkrahús sem hafa þá lagt til húsnæði undir þær, en tæki og búnaður yfir leitt verið gefinn af frjálsum félagasamtökum. Þannig er t.d. staðið að uppsetningu öryggis miðstöðvanna í Ástralíu. Flutningsmenn telja heppilegast að hér á landi yrði öryggismiðstöð barna starfrækt með svipuðu sniði. Kostnaði við reksturinn er mætt með föstu framlagi frá hinu opinbera, en miðstöðin aflar sér síðan viðbótarfjár eftir öðrum leiðum.     Miðstöðvarnar selja ákveðna þjónustu, t.d. vöruvottun til fyrirtækja, tilteknar upplýsingar eru seldar til samtaka eða fyrirtækja og námskeið á vegum miðstöðvanna hafa reynst ágæt leið til fjáröflunar. Útgáfa á bæklingum og leiðbeiningarspjöldum er jafnan kostuð með því að leita eftir styrkjum frá stórfyrirtækjum sem sjá ávinning í að tengjast herferðum sem miða að því að draga úr barnaslysum. Oft er sjálfsaflafé í kringum 65% af rekstrarkostnaði.
    Miðstöðvarnar eru ekki mannfrekar og byggjast að talsverðu leyti á sjálfboðaliðastarfi. Fastir starfsmenn eru einn til fjórir, yfirleitt hjúkrunarfræðingar eða sjúkraþjálfar.

Þjónusta og hlutverk.
    Starf öryggismiðstöðvanna er kynnt foreldrum á margvíslegan hátt. Strax á fæðingardeild fá þeir upplýsingabækling frá miðstöðinni. Þegar foreldrar koma svo með börnin í eftirlit til heimilislækna og á heilsugæslustöðvar eru þeir hvattir til að fara og kynna sér starf hennar af eigin raun. Þegar þeir koma á miðstöðina sjá sjálfboðaliðar yfirleitt um að kynna þeim hvað er í boði, en þurfi þeir á sérhæfðum upplýsingum um slysavarnir að halda eru þær veittar af föstum starfsmönnum. Leiðbeiningar eru jafnframt gefnar símleiðis og fjölmargir foreldrar nota þá leið til að afla nauðsynlegra upplýsinga.
    Í miðstöðinni er reynt að draga saman allan öryggisbúnað sem foreldrar þurfa að nota til að vernda börn sín. Foreldrar geta t.d. komið og mátað á einum stað allar gerðir bílstóla sem er að finna á markaðnum. Jafnframt eiga þeir kost á að fá um þá umsögn miðstöðvarinnar. Til hagræðis liggur síðan frammi listi yfir fyrirtækin sem selja búnaðinn.
    Allar upplýsingar um íþróttaslys eru fáanlegar á miðstöðvunum. Þar er lögð áhersla á að leiðbeina foreldrum hvernig þeir geti búið börn sín undir þátttöku í íþróttum með það fyrir augum að draga úr mögulegum íþróttaslysum.     
    Margvísleg fræðsla um varnir gegn slysum í umferðinni fer einnig fram á miðstöðvunum. Þar eru yfirleitt ýmsar gerðir hjóla og jafnan allar tegundir hjálma. Hvers kyns fræðsla er á boðstólum um notkun þeirra og margvíslegar hættur sem fylgja hjólreiðum.
    Sérstakt sýningareldhús er sett upp í miðstöðvunum þar sem hámarksöryggi er í fyrirrúmi. Þar er foreldrum sýnt hvar helstu hætturnar leynast, hvaða öryggistæki eru á boðstólum og hvernig best er að gera eldhúsið úr garði til að draga úr slysum á börnum. Eldhús tengjast oft alvarlegum brunaslysum á ungum börnum, auk annarra tegunda slysa. Sömuleiðis er sérstakt baðherbergi sett upp til að kenna foreldrum á þær hættur, sem þar geta beðið ungra barna. Sums staðar eru einnig settir upp heitir pottar, en alvarleg brunaslys og drukknanir á börnum tengjast þeim oft, eins og er vel þekkt hér á landi.
    Í öryggismiðstöðvum af þessu tagi er jafnframt reynt að byggja upp víðtækan gagnagrunn þar sem hægt er að fletta upp reglum og stöðlum sem tengjast umhverfi barna og einstökum vörutegundum. Jafnt einstaklingar, fyrirtæki og stjórnvöld leita í ríkum mæli til miðstöðvanna til að fá upplýsingar um þá þætti.
    Námskeið og fyrirlestrar eru snar þáttur í starfi miðstöðvanna. Hvort tveggja er sniðið að þörfum þeirra hópa sem kaupa viðkomandi þjónustu, en auk foreldra leita skólar, fyrirtæki, heilbrigðisstofnanir og aðrir sem á einhvern hátt tengjast uppeldi og umönnun barna mjög eftir fræðslu um slysavarnir frá öryggismiðstöðvunum. Oft standa þær einnig fyrir sérstökum slysavarnaherferðum innan skólanna og beita þá áróðri sem lagaður er sérstaklega að mismun andi aldursflokkum nemenda og öllu starfsfólki skólanna.

Samræmd skráning barnaslysa.
    Flutningsmenn leggja jafnframt til að öryggismiðstöð barna hafi með höndum samræmda tölvuskráningu á barnaslysum. Fyrir því liggja eftirfarandi rök.     Slysavarnir byggjast ekki síst á því að geta greint tíðni, eðli og aðdraganda mismunandi tegunda slysa. Því hefur löggjafinn meðal annars mælt fyrir um sérstakar rannsóknarnefndir vegna sjóslysa og flugslysa, sem eðli máls samkvæmt verða oft mjög mannskæð. Hlutverk rannsóknarnefndanna er að grafast fyrir um orsakir slysa, fyrst og fremst til að geta dregið ályktanir um hvernig sé best að koma í veg fyrir að svipuð slys hendi aftur. Samræmd skráning slysa á börnum er ekki síður brýn til að draga af þeim ályktanir um hvers konar aðferðir dugi best til að fækka þeim.
    Það sætir því nokkurri furðu að hér á landi gilda engar reglur um skráningu barnaslysa og engri stofnun hefur verið falið það hlutverk að skrá þau og greina með tilliti til slysavarna í framtíðinni. Flutningsmenn telja vel koma til greina að síðar verði sett á stofn sérstök rann sóknarnefnd barnaslysa, en gera þó ekki tillögu um það að sinni. Þess í stað er hér bent á for varnagildi samræmdrar skráningar og lagt til að öryggismiðstöð barna verði falið að sjá um hana. Um leið yrði sú skylda að sjálfsögðu lögð á herðar allra sem tengjast meðferð barna slysa að veita miðstöðinni allar þær upplýsingar sem hún þarfnast. Í nútímasamfélagi upplýs ingatækninnar ætti það að vera hægur leikur án teljandi skriffinnsku og aukaálags á deildir heilbrigðiskerfisins, sem vissulega eru undir miklu álagi nú þegar.
    Ábyrgð á söfnun og úrvinnslu upplýsinga um barnaslys yrði öryggismiðstöð barna jafn framt mikill styrkur við að sinna því ráðgjafarhlutverki gagnvart stjórnvöldum sem henni yrði falið með samþykkt tillögunnar.