Ferill 56. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 56 – 56. mál.



Frumvarp til laga



um jarðhitaréttindi.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson, Kristinn H. Gunnarsson, Margrét Frímannsdóttir,


Ragnar Arnalds, Sigríður Jóhannesdóttir, Steingrímur J. Sigfússon,


Svavar Gestsson, Ögmundur Jónasson, Guðrún Helgadóttir.



I. KAFLI


1. gr.


    Landareign hverri, sem háð er einkaeignarrétti, fylgir réttur til umráða og hagnýtingar jarðhita á og undir yfirborði hennar í allt að 100 metra dýpi.
    Landeiganda er rétt að bora eftir og hagnýta sér jarðhita með þeim takmörkunum sem lög þessi tilgreina.

2. gr.


    Með rétti til umráða og hagnýtingar jarðhita samkvæmt lögum þessum fylgir réttur til upp­leystra efna og gastegunda sem heitu vatni og gufu fylgja.

3. gr.


    Nú eiga fleiri en einn rétthafi heimild til að hagnýta jarðhita úr sama jarðhitasvæði, þannig að ekki verði aðskilið þegar hagnýtt er, og skal þá skera úr því með mati dómkvaddra mats­manna á hvern hátt hagkvæmast er að hagnýta jarðhitann og hver sé hlutfallslegur réttur hvers þeirra til hans.
    Ef rétthafar verða ekki ásáttir að öðru leyti um rétt til hagnýtingar jarðhita skal á sama hátt úr því skorið með mati.

4. gr.


    Nú vill jarðeigandi ekki leggja í neinn kostnað til hagnýtingar jarðhita á jörðinni og er þá ábúanda heimilt að hagnýta hann á sinn kostnað, þó þannig að hann spilli ekki jörð að neinu leyti. Ekki má byrja á verkinu fyrr en það hefur verið skoðað af matsmönnum samkvæmt ábúðarlögum og þeir talið það réttmætt. Ekki er jarðeigandi skyldur til, þegar svo stendur á sem í grein þessari segir, við brottför ábúanda að innleysa þau mannvirki er ábúandi hefur gert til hagnýtingar jarðhita, önnur en þau sem gerð hafa verið til heimilis- og búsþarfa.

5. gr.


    Landeigandi má ekki undanskilja landareign sinni jarðhitaréttindi, nema með sérstöku leyfi ráðherra, sbr. þó 3. mgr. 29. gr. jarðalaga, nr. 65/1976. Um sölu jarða, er jarðhitarétt­indi fylgja, fer eftir ákvæðum jarðalaga, þó þannig að ríkissjóður skal hafa forkaupsrétt að þeim aðilum frágengnum sem hann er veittur með þeim lögum. Nú hefur sveitar- eða bæjarfé­lag notað forkaupsrétt sinn til slíkra jarðeigna, en selur aftur, og skal þá ríkissjóður eiga for­kaupsrétt er svo stendur á.

II. KAFLI


6. gr.


    Íslenska ríkið á allan rétt til jarðhita sem liggur dýpra en 100 metra undir yfirborði landar­eigna skv. 1. mgr. 1. gr.
    Íslenska ríkið á allan rétt til jarðhita sem liggur utan landareigna skv. 1. mgr. 1. gr.

7. gr.


    Óheimilt er að bora eftir eða hagnýta jarðhita skv. 6. gr., nema með leyfi ráðherra skv. 9. eða 10. gr.

8. gr.


    Sá sem borað hefur eftir jarðhita og byrjað hagnýtingu hans með réttri heimild fyrir 1. jan­úar 1999 hefur rétt til notkunar þess jarðhita áfram án sérstaks leyfis og án greiðslu leyfis­gjalds skv. 12. gr. Hann skal og hafa forgangsrétt til frekari borana og hagnýtingar jarðhitans á því jarðhitasvæði til sama fyrirtækis.

9. gr.


    Ráðherra getur veitt íslenskum aðilum leyfi til rannsókna, þar með taldar boranir á af­mörkuðum jarðhitasvæðum hvar sem er á landi hér. Slík leyfi nefnast jarðhitarannsóknaleyfi og skulu vera til fyrir fram ákveðins tíma.

10. gr.


    Ráðherra getur veitt íslenskum aðilum leyfi til nýtingar jarðhita á afmörkuðu jarðhita­svæði hvar sem er á landi hér. Slík leyfi kallast jarðhitaleyfi.
    Rétt er ráðherra að krefjast þess að umsóknum um leyfi skv. 9. og 10. gr. fylgi ítarlegar upplýsingar um umsækjandann, fyrirhugaðar rannsóknir hans og jarðhitanýtingu.

11. gr.


    Sveitarfélag, sem á land á jarðhitasvæði við gildistöku laga þessara, skal hafa forgangsrétt til jarðhitarannsóknaleyfis og jarðhitaleyfis skv. 9. og 10. gr. á landi sínu og vera undanþegið leyfisgjaldi skv. 12. gr.

12. gr.


    Í leyfi skv. 9. og 10. gr. skulu greind þau skilyrði sem leyfishafa eru sett, þar á meðal um gildistíma leyfis, skýrslugjöf leyfishafa, skyldu hans til að hlíta eftirliti og greiða kostnað af því, um öryggis- og umhverfisverndarráðstafanir og greiðslu leyfisgjalds.
    Við ákvörðun leyfisgjalds skal m.a. taka tillit til verðmætis orkunnar fyrir leyfishafa eða notanda, kostnaðar við orkuöflun með öðrum hætti, svo og kostnaðar við öflun og afhendingu orkunnar til notanda.
    Áður en leyfi skv. 9. og 10. gr. er veitt skal leita umsagnar Orkustofnunar og Náttúru­verndarráðs.

13. gr.


    Ráðherra getur heimilað þeim sem fengið hefur leyfi skv. 9. eða 10. gr. að taka eignarnámi lönd, mannvirki, rétt til jarðhita skv. 1. mgr. 1. gr. og önnur verðmæti og réttindi sem nauð­synleg eru til rannsókna og nýtingar jarðhitans, þar með talin dreifing jarðvarmans.
    Ráðherra getur enn fremur heimilað að jarðhiti sé tekinn eignarnámi í vinnsluskyni eða til að afstýra því að borun á jarðhitasvæði spilli verðmæti hagnýtingar sem hafin er á jarðhita í námunda við svæðið.
    Um eignarnám samkvæmt þessari grein skal fara að lögum um framkvæmd eignarnáms og 140. gr. vatnalaga, nr. 15/1923.

14. gr.


    Til rannsókna, hagnýtingar eða hvers konar ráðstöfunar á jarðhita á jörðum í opinberri eigu og öðru ríkiseignalandi þarf leyfi ráðherra skv. 9. eða 10. gr., sbr. þó 2. mgr. 4. gr. ábúð­arlaga, nr. 64/1976, og 3. mgr. 29. gr. jarðalaga, nr. 65/1976.

III. KAFLI


15. gr.


    Óheimilt er að spilla jarðhitasvæðum hvort sem það er með ofaníburði, framræslu eða með öðrum hætti, svo og að breyta farvegi þess vatns er frá jarðhitasvæði rennur, nema talið sé nauðsynlegt að mati dómkvaddra matsmanna til varnar landi eða landsnytjum eða til þeirrar hagnýtingar jarðhita sem heimil er að lögum.

16. gr.


    Mannvirki öll til hagnýtingar jarðhita skulu þannig úr garði gerð að af þeim stafi hvorki hætta né veruleg óþægindi fyrir umferð eða spjöll á eign annars manns nema skylt sé að hlíta samkvæmt sérstakri heimild.

17. gr.


    Skylt er umráðamanni að girða jarðhitasvæði sem hætta stafar af. Þó skal nægilegt að merkja slík svæði sem eru fjarri byggð með aðvörunarmerkjum.

18. gr.


    Við allar jarðboranir dýpri en 10 metra skal halda dagbók er gefi upplýsingar um jarðlög, gerð þeirra og dýpi, hvenær vatn eða gufa kemur í holuna, hitastig og hvað annað sem reglu­gerð ákveður eða Orkustofnun mælir fyrir um að færa skuli í dagbók.
    Skylt er að láta Orkustofnun í té afrit af dagbók þegar hún óskar þess. Hún getur einnig krafist þess að boranir og berg- og jarðvegssýnishorn séu varðveitt.
    Ef Orkustofnun mælir svo fyrir er þeim sem lætur bora skylt að tilkynna henni þegar í stað er heitt vatn eða gufa kemur eða vex í borholu.

19. gr.


    Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

20. gr.


    Brot gegn lögum þessum varða sektum nema þyngri refsingu varði samkvæmt öðrum lög­um. Mál út af brotum gegn lögum þessum sæta meðferð opinberra mála.

21. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi III. og VII. kafli orkulaga, nr. 58/1967.

Greinargerð.


    Hliðstætt frumvarp hefur oft áður verið flutt af þingmönnum Alþýðubandalagsins en ekki verið útrætt. Það var fyrst lagt fram á 105. löggjafarþingi 1983 og þá sem stjórnarfrumvarp.

     Á 113. löggjafarþingi fjallaði iðnaðarnefnd neðri deildar allítarlega um frumvarpið, en ekki vannst tími til að afgreiða það frá nefndinni. Iðnaðarnefnd barst m.a. erindi frá iðnaðar­ráðuneytinu 26. nóvember 1990 með tillögum um breytingar á frumvarpinu ásamt athuga­semdum og er það birt sem fylgiskjal.
    Frumvarp samhljóða þessu frumvarpi var lagt fram á ný snemma á 117. löggjafarþingi. Iðnaðarnefnd, sem fékk málið til umfjöllunar, taldi rétt að hinkra við með efnislega umfjöllun þar eð fram kom hjá fulltrúa iðnaðarráðuneytis að í ráðuneytinu væri verið að ljúka vinnu við stjórnarfrumvarp um sama efni og væri stefnt að því að leggja það fyrir þingið. Það frumvarp kom hins vegar ekki fram þrátt fyrir ákvæði í málefnasamningi stjórnarflokkanna. Þá var frumvarpið lagt fram á 118., 120. og 121. löggjafarþingi.
    Lögfesting fyrirliggjandi frumvarps eða annarra hliðstæðra ákvæða er brýnni nú en nokkru sinni fyrr vegna samningsins um Evrópskt efnahagssvæði sem meiri hluti á Alþingi samþykkti í ársbyrjun 1993.
    Hvati að undirbúningi þessa frumvarps fyrir meira en áratug var m.a. ákvæði í samstarfs­yfirlýsingu ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar frá 1. september 1978 þess efnis að djúphiti í jörðu skuli vera þjóðareign.
    Eins og fram kemur síðar í greinargerðinni hafa ýmsar tilraunir verið gerðar til að setja heildarlög um jarðhita allt frá árinu 1937 að telja. Í tíð ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar 1971–74 beitti Magnús Kjartansson, þáverandi iðnaðarráðherra, sér fyrir flutningi frumvarps til laga um breytingu á orkulögum, nr. 58/1967, varðandi rétt ríkisins til umráða og hagnýt­ingar jarðhita á háhitasvæðum. Var frumvarp um þetta efni flutt sem stjórnarfrumvarp á þing­unum 1972 og 1973 og á sumarþinginu 1974 og síðan af Magnúsi Kjartanssyni o.fl. sem þing­mannafrumvarp þrívegis 1974–76, en hlaut ekki fullnaðarafgreiðslu.
    Frumvarp það, sem hér er flutt, er víðtækara þar eð það tekur til alls jarðhita hvort sem um er að ræða svonefnd lághita- eða háhitasvæði.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að lögfestar verði reglur um umráðarétt og hagnýtingarrétt jarðhita. Lagt er til að landeigendur hafi umráð jarðhita á yfirborði landsins og undir því í 100 metra dýpi, en umráð alls annars jarðhita, hvort sem er á landsvæðum sem ekki eru háð einka­eignarrétti eða undir yfirborði einkaeignarlanda í meira en 100 metra dýpi, skulu vera í hönd­um ríkisins, þ.e. almannaeign.
    Þá er lagt til að ráðherra veiti leyfi til rannsókna, borana og hagnýtingar jarðhita sem er almannaeign samkvæmt lögunum og sett verði reglugerð með nánari fyrirmælum um fram­kvæmd laganna, þar á meðal um umsóknir um jarðhitaleyfi og jarðhitarannsóknaleyfi svo og leyfin sjálf, en í þeim er eðlilegt að ákveða leyfisgjöld sem leyfishafi greiðir þegar við á.
    Enn fremur er lagt til að þeir sem þegar hafa borað eftir jarðhita dýpra en 100 metra í einkaeignarlandi skuli halda rétti sínum til nýtingar jarðhitans án sérstaks leyfis og án greiðslu leyfisgjalds. Slíkir aðilar skulu og hafa forgangsrétt til frekari nýtingar á jarðhita­svæðinu, þó ekki til nýrra fyrirtækja.
    Lagt er til að sveitarfélög, sem land eiga á jarðhitasvæði við gildistöku laganna, skuli hafa forgang að nýtingu jarðhitans á landi sínu og vera undanþegin leyfisgjaldi.
    Þá er með frumvarpinu lagt til að veitt verði heimild til eignarnáms vegna rannsókna, bor­unar og vinnslu jarðhita. Loks eru tekin upp í frumvarp þetta núverandi ákvæði orkulaga, nr. 58/1967, um vinnslu jarðhita og verndun jarðhitasvæða, ásamt smávægilegum breytingum.

I.


    Í núgildandi löggjöf eru helstu ákvæði um jarðhita í 9. og 10. gr. vatnalaga, nr. 15/1923, og III., V. og VII. kafla orkulaga, nr. 58/1967.

    Í ákvæðum vatnalaga er á því byggt að hverir og laugar fylgi landareign þeirri sem hver eða laug er á, en nokkrar takmarkanir eru þó á umráðaréttinum.
    Ákvæðin í orkulögum leystu af hólmi lög nr. 98/1940, um eignar- og notkunarrétt jarðhita, en í 1. gr. þeirra laga sagði að landareign hverri fylgdi „réttur til umráða og hagnýtingar á hverum og laugum (jarðhita), sem á henni eru, þó með takmörkunum þeim, sem lög þessi til­greina“.
    Sambærilegt ákvæði er nú að finna í 9. gr. orkulaga frá 1967 en greinin hljóðar þannig: „Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar jarðhita úr landareigninni, þó með takmörkunum þeim sem lög þessi tilgreina.“ Í greinargerð með frumvarpi til orkulaga var tek­ið fram að ekki væru ráðgerðar róttækar breytingar á þeim lögum er giltu um orkumál, heldur væru þau samræmd þannig að unnt væri að fella þau í einn lagabálk miðað við þá breytingu sem frumvarpið ráðgerði á stjórn orkumálanna.
    Í III. kafla laganna, sem ber yfirskriftina „Um vinnslu jarðhita“, er að finna þau ákvæði sem áður voru í lögum nr. 98/1940, um eignar- og notkunarrétt jarðhita. Eina efnislega ný­mælið er að í 14. gr. er almenn heimild til eignarnáms á jarðhitaréttindum og jarðhitaorku. Þá er í lagatextanum talað einungis um jarðhita í stað hvera og lauga eða hveraorku. Í athuga­semdum um 9. gr. frumvarpsins er tekið fram að greinin sé efnislega samhljóða 1. gr. laga nr. 98/1940, um eignar- og notkunarrétt jarðhita.
    Auk ákvæðanna um rétt til umráða og hagnýtingar jarðhita í 9. gr. orkulaganna eru í III. kafla laganna ákvæði um jarðhitasvæði á landamerkjum, um rétt ábúanda til að hagnýta sér jarðhita á jörð, um bann við því að landeigandi undanskilji landareign sinni jarðhitaréttindi, um forkaupsrétt að jörðum er jarðhitaréttindi fylgja, um heimild til að taka jarðhita eignar­námi, um rétt ríkisins til að láta rannsaka jarðhita hvar sem er á landi hér, um skyldur landeig­anda til að láta af hendi land og mannvirki þegar jarðhiti er tekinn eignarnámi og um skyldu til að leita umsagnar Orkustofnunar um hagnýtingu og ráðstöfun jarðhita í eigu ríkisins.
    Í V. kafla laganna eru ákvæði um hitaveitur, þar á meðal um heimild ráðherra til að veita sveitarfélögum eða samtökum þeirra einkarétt til þess að starfrækja hitaveitur.
    Í VII. kafla orkulaga eru ákvæði um verndun jarðhitasvæða, jarðhitavirki og eftirlit með þeim og í VIII. kafla laganna eru ákvæði um Jarðboranir ríkisins.
    Með frumvarpi þessu er ekki gert ráð fyrir breytingum á ákvæðum vatnalaga. Lagt er til að ákvæðum orkulaga verði haldið efnislega að undanteknu því að kveðið verði á um að réttur landeigenda til umráða og hagnýtingar jarðhita takmarkist við 100 metra dýpi. Nokkrar lítils háttar orðalagsbreytingar eru gerðar þessu samfara auk þess sem kveðið er á um skyldur rík­isins til ákveðinna ráðstafana og eftirlits vegna hættu sem stafar af jarðhitasvæðum.
    Meðal ákvæða í yngri lögum um jarðhita ná nefna 4. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1976, þar sem vatnsréttindi, þar með talinn jarðhiti, eru undanskilin leiguliðaafnotum. Þó á leiguliði rétt á vatni til upphitunar á húsum jarðar, þar með talin gróðurhús til eigin atvinnurekstrar.
    Í 3. mgr. 29. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, er tekið fram að ríkið skuli við sölu á ríkisjörðum undanskilja námaréttindi og rétt til efnistöku, svo og vatns- og jarðhitaréttindi umfram heimil­isþörf.
    Eins og ljóst er af framangreindu er fyrsta tilraun til að setja heildarlög um jarðhita lögin nr. 98/1940, um eignar- og notkunarrétt jarðhita. Í greinargerð með frumvarpi til laganna, er það var lagt fram á síðara þingi 1937, segir m.a.: „Frumvarp þetta er flutt með það fyrir aug­um að tryggja almenningi, eftir því sem hægt er, not þessara verðmæta og vernda þau fyrir því, að þeim verði spillt.“ (Alþingistíðindi 1937, síðara þing, A, bls. 124.) Í umræðum um frumvarpið (Alþingistíðindi 1940 B, d. 553–572) var á það lögð áhersla að hætta væri á að meira og meira af jarðhitanum lenti í höndum þeirra manna sem eru að reyna að ná eignar­haldi á verðmætum þessum í því skyni að græða á þeim. Sagt er að það sé þetta sem lagasetn­ingin eigi að fyrirbyggja.
    Efnisákvæði laganna frá 1940 voru tekin upp í orkulög frá 1967 án þess að nokkur veruleg endurskoðun færi fram.

II.


    Eins og fram kemur í lýsingu á settum lögum um jarðhita hér að framan hefur í löggjöf ver­ið byggt á þeirri meginstefnu að landeigendur hefðu umráða- og eignarrétt á jarðhita bæði á og í jörðu. Þessum rétti hafa verið sett ýmis takmörk en enga reglu eða ábendingu er að finna í löggjöf um það hversu djúpt í jörðu niður forræði landeiganda á jarðhita nær né heldur er í íslenskum rétti að finna reglu sem kveður á um takmörk eignarráða landeiganda niður á við. Fræðimenn hafa talið að þau nái svo langt niður sem nauðsynlegt er að leyfa til þess að land­eigandinn geti haft þau not af landi sínu sem heyra til venjulegrar hagnýtingar á landi, sjá t.d. Ólafur Lárusson: Eignaréttur, bls. 46.
    Í frumvarpi þessu er á því byggt að eignarrétti að landi geti löggjafinn sett almennar tak­markanir, þó þannig að ekki brjóti í bága við rétt landeiganda til að hafa þau not af landi sínu sem heyra til venjulegrar hagnýtingar á landi. Í frumvarpinu er annars vegar fjallað um um­ráða- og hagnýtingarrétt á jarðhita á eða undir landi sem ekki er háð einkaeignarrétti og hins vegar jarðhita sem sækja verður í meira en 100 metra dýpi undir yfirborð lands í einkaeign. Er á því byggt að sú takmörkun, sem eignarrétti landeiganda er sett með því að kveða á um það í löggjöf að heimildir landeiganda til að nota og ráðstafa jarðhita nái aðeins til jarðhita á landi hans og jarðhita sem bora verður eftir á dýpi sem er 100 metrar eða minna, sé almenn takmörkun á eignarrétti og sé ekki þess háttar eignarskerðing að bótaskyldu varði skv. 72. gr. (áður 67. gr.) íslensku stjórnarskrárinnar.
    Áður hefur verið vísað til þess sem Ólafur Lárusson sagði í ritinu Eignaréttur. Árið 1956 var lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um jarðhita í 66 greinum og 9 köflum. Í 8. gr. frum­varpsins var svohljóðandi ákvæði: „Ríkið á allan rétt til umráða og hagnýtingar jarðhita, sem liggur dýpra eða sóttur er dýpra en 100 metra undir yfirborð jarðar, sbr. þó 14. gr.“ Með frumvarpi þessu fylgdi ritgerð eftir Ólaf Jóhannesson sem bar nafnið: Um eignar- og umráðarétt að jarðhita. Ritgerð þessi er ítarlegasta lögfræðilega greinargerðin um þessi efni sem rituð hefur verið á íslensku. Í henni er fjallað um hversu háttað sé að íslenskum lögum eignar- og umráðarétti að jarðhita, hver stefna muni í þeim efnum hallkvæmust hagsmunum bæði einstaklinga og þjóðarheildar og skipun löggjafar á þessu sviði hjá öðrum þjóðum.
    Niðurstöður Ólafs Jóhannessonar voru þær að þótt réttur landeigenda til umráða og hag­nýtingar jarðhita á landi sínu sé, að því er virðist, litlum skorðum bundinn að núgildandi lög­um þá megi auðvitað setja honum ýmis takmörk með nýrri löggjöf ef ástæða þykir til. Enn fremur segir Ólafur að það sé sanngjörn regla og í samræmi við eðli máls að sérstök náttúru­auðæfi, sem enginn einstakur hefur átt þátt í að skapa, séu sameign þjóðarinnar allrar. Með löggjöf þeirri, sem gerð var tillaga um, væri ekki gengið of nærri hagsmunum landeigenda. Þeir héldu eftir nægilegri orku til sinna eðlilegu þarfa. Lokaorð ritgerðar Ólafs um ákvæði frumvarpsins um umráðarétt ríkisins neðan 100 metra dýpis eru þessi: „Og slík löggjafar­ákvæði mundu ekki brjóta í bág við eignarréttarvernd stjórnarskrárinnar. Er það augljóst þeg­ar litið er til þeirrar löggjafar sem sett hefur verið í öðrum löndum um hliðstæð efni, enda þótt þar séu svipuð eða samhljóða ákvæði um friðhelgi eignarréttar, sbr. það sem sagt er hér að framan um Danmörk.“
    Rétt er og að vitna til ummæla dr. Bjarna Benediktssonar í greinargerð með frumvarpi til laga sem hann flutti á Alþingi 1945, um viðauka við lög nr. 98/1940, um eignar- og notkunar­rétt jarðhita (Alþingistíðindi 1945 A, bls. 434–435). Var lagt til að jarðboranir er ná dýpra en 10 metra mætti ekki framkvæma án leyfis ráðherra sem skyldi synja leyfis ef hætta kynni að vera á því að með jarðborunum væri spillt hagnýtingu jarðhita á eign annars manns sem þegar er hafin eða hagnýtingu síðar meir, enda sé sú hagnýting jarðhitans mun verðmeiri en sú hagnýting sem stefnt er að með hinni fyrirhuguðu jarðborun.
    Ekki var í frumvarpinu ákvæði um bætur, enda segir m.a. í greinargerð með því: „Hér er aðeins um almenna takmörkun á eignarréttinum að ræða, sem löggjafarvaldinu er heimilt að setja, þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins.“ Í frumvarpi þessu var því lagt til að unnt væri að svipta landeiganda rétti til hagnýtingar jarðhita neðan 10 metra dýpis ef hætta kynni að vera á því að það spillti byrjaðri eða væntanlegri hagnýtingu jarðhita á landi annars manns. Taldi dr. Bjarni Benediktsson þetta almenna takmörkun eignarréttar sem heimil væri án bóta. Virðast því fræðimennirnir Bjarni Benediktsson og Ólafur Jóhann­esson hafa verið sammála í aðalatriðum um þetta efni.

III.


    Svo sem fyrr er getið fjallaði Ólafur Jóhannesson um skipan þessara mála hjá öðrum þjóð­um og lýsti hann löggjöf í Nýja-Sjálandi, Ítalíu, Mexíkó, Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Frakk­landi og Sviss. Vísast til ritgerðar Ólafs sem fylgdi fyrrgreindu frumvarpi og einnig er að finna í Tímariti lögfræðinga 1956, bls. 134–157. Því til viðbótar er þó rétt að geta eftirfar­andi atriða um erlenda löggjöf:
    Á vegum OECD var árið 1962 gerð könnun á eignar- og umráðarétti yfir olíu í jörðu og var niðurstaðan sú að nánast hvarvetna, þar sem rannsóknir hefðu farið fram á því hvort olíu væri að finna neðan jarðar, væri hún háð eignarráðum eða umráðum ríkisins og virðast Bandaríki Norður-Ameríku vera eina ríkið þar sem olía á landi er háð einkaeignarrétti og landeigendur fá því greiðslur fyrir olíu úr landi sínu.
    Í Noregi voru árið 1973 sett lög um rannsókn og vinnslu olíu neðan jarðar undir norsku landsvæði og með þeim kveðið á um skýlausan eignarrétt ríkisins á olíu innan yfirráðasvæðis þess. Ekki var talið að um væri að ræða þess háttar eignarskerðingu að leitt gæti til bóta sam­kvæmt eignarnámsákvæði stjórnarskrárinnar norsku.
    Í Danmörku hefur verið úrskurðað að lög um rannsókn og vinnslu hráefna neðan jarðar nái til jarðhita og er hann því ríkiseign.
    Í Bandaríkjunum hafa verið sett lög um jarðhita, annars vegar Geothermal Steam Act 1970 og hins vegar Geothermal Energy Research Development and Demonstration Act 1974. Í Bandaríkjunum hafa stjórnvöld um langan aldur undanskilið verðmæti í jörðu við sölu landar­eigna. Þetta hefur leitt til þess að langmestur hluti jarðhita þar í landi er í umráðum ríkisins.
    Í Nýja-Sjálandi gilda lög frá 1953, með síðari breytingum, um jarðhita og nefnast þau The Geothermal Energy Act 1953. Í 14. gr. laganna segir: „No compensation in respect of geothermal energy. Notwithstanding anything in this Act or any other Act, compensation shall not be payable in respect of any geothermal energy on or below the surface of any land except so far as, at the commencement of this Act, the existence of the geothermal energy on or below the surface of the land is of actual benefit to the owners or occupiers of the land.“
    Með þessum lögum er allur jarðhiti í Nýja-Sjálandi lýstur almannaeign án bóta til landeig­anda, nema því aðeins að landeigandi hafi þegar byrjað að nota jarðhitann og hann hafi því beinan hag af honum. Augljóst er að í öðrum löndum, þar sem löggjafar nýtur, hefur verið gengið miklu lengra í þá átt að takmarka rétt landeigenda til jarðhita en gerðar eru tillögur um í frumvarpi þessu.
    Löggjöf annars staðar virðist benda til þess að ekki sé talið að ákvæði í almennum lögum um eignarrétt eða umráðarétt ríkisins á náttúruauðæfum undir yfirborði einkaeignarlanda brjóti í bága við stjórnarskrárbundna vernd einkaeignarréttarins. Þetta á jafnt við um ríki sem búa við mjög svipaða löggjöf og við, sem og önnur ríki sem búa við ólíka stjórnskipun.

IV.


    Sú spurning hlýtur að vakna hvort ákvæði frumvarps þessa, sem lýsa ónotaðan jarðhita neðan 100 metra dýpis undir einkaeignarlöndum í umráð ríkisins, brjóti í bága við eignarrétt­arákvæði stjórnarskrárinnar. Þeirri spurningu verður ekki svarað nema fyrst sé kannað hvort öll náttúruauðæfi undir yfirborði jarðar tilheyri landareign. Hvorki í vatnalögum frá 1923, lögunum um eignar- og notkunarrétt jarðhita frá 1940 né í orkulögunum frá 1967 er þess getið hversu djúpt í jörð niður réttur landeiganda nái að þessu leyti. Í lögunum frá 1940 er talað um að landareign fylgi réttur til hvera og lauga (jarðhita) sem á landareign eru (1. gr.) og að land­eiganda sé heimilt að hagnýta sér hveri og laugar til heimilisþarfa, framleiðslu og iðnaðar. Í orkulögunum frá 1967 er hins vegar talað um jarðhita úr landareign og að landeiganda sé rétt að bora á landareign sinni eftir jarðhita og vinna hann til hvers konar nota. Enda þótt ákvæði orkulaga séu þannig nokkuð ítarlegri mun ekki hafa verið ætlunin að breyta neinu um eignar- og notkunarrétt jarðhita með setningu III. kafla orkulaganna.
    Hvorki vatnalög, orkulög né önnur lög eða réttarheimildir virðast hafa veitt landeiganda heimildir á öllum jarðhita sem finna má undir landareign hans. Ekki verður heldur séð að landeigendur hafi með öðrum hætti eignast slíkar heimildir á jarðhita sem finnst djúpt í jörðu niðri að varðað geti bótum samkvæmt stjórnarskrárákvæðum að lýsa jarðhita þennan í umráð ríkisins. Samkvæmt viðtekinni skilgreiningu á eignarrétti felst í honum einkaréttur eigandans til að ráða yfir eign innan þeirra marka sem þessum rétti eru sett í lögum og af óbeinum rétt­indum annarra sem til hefur verið stofnað yfir eigninni. Jafnvel þótt því mætti halda fram að með ákvæðum vatnalaga frá 1923, laganna um eignar- og notkunarrétt jarðhita frá 1940 og orkulaganna frá 1967 hafi landeigendum, af löggjafarvaldsins hálfu, verið falinn eignarréttur að öllum jarðhita undir einkaeignarlandi er ekkert því til fyrirstöðu að breyta þessum reglum nú. Eignarrétturinn er að þessu leyti breytilegur. Heimildir hans geta ýmist verið rýmri eða þrengri, allt eftir því hve almenn takmörk honum eru sett í lögum hverju sinni.
    Niðurstaðan er því sú að með ákvæðum frumvarps þessa sé einungis verið að setja eignar­réttinum almenn takmörk. Ekki verði séð að stofnast hafi til eignarréttar með jarðhita djúpt í jörðu sem girði fyrir að almenni löggjafinn geti mælt fyrir um umráða- og hagnýtingarrétt til handa ríkinu á jarðhita sem ekki hefur verið virkjaður og er neðan 100 metra dýpis í landi sem er háð einkaeignarrétti.
    Um rétt ríkisins til að setja reglur um meðferð jarðhita utan einkaeignarlanda og neðan við 100 metra dýpi undir einkaeignarlöndum má vísa til dóms Hæstaréttar 19. febrúar 1981, um eignarrétt að botni Mývatns utan netlaga, og dóms Hæstaréttar 28. desember 1981, um eign­arrétt að Landmannaafrétti. Í báðum tilvikum var einkaeignarréttarkröfum landeigenda hafn­að, en kveðið á um rétt handhafa ríkisvaldsins til að setja reglur um yfirráð, meðferð og nýt­ingu náttúruauðæfa þessara.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að umráðaréttur og hagnýtingarréttur landeigenda takmarkist við jarðhita á landi og þann jarðhita sem sóttur verður á dýpi allt að 100 metrum. Talið er að með ákvæði þessu sé tryggt að landeigandi á jarðhitasvæði verði ekki sviptur neinum þeim jarðhitanotum sem teljast til venjulegrar nýtingar á landi.

Um 2. gr.


    Með gufu og heitu vatni berast úr jörðu uppleyst efni og gastegundir sem ekki verða skilin frá á auðveldan hátt. Lagt er til að með umráða- og hagnýtingarrétti jarðhita fylgi réttur til þessara uppleystu efna og gastegunda. Þetta er í samræmi við erlenda löggjöf á sviði jarðhita.

Um 3. gr.


    Greinin svarar efnislega til 11. gr. orkulaga, nr. 58/1967, þó þannig að orðalagi er breytt til samræmis við frumvarp þetta. Einnig er kveðið á um að matsmenn skuli skera úr um hvern­ig hagkvæmast sé að hagnýta jarðhitann ef ágreiningur verður. Ekki er talið rétt að lögfesta ítarlegri reglur um skiptingu og hagnýtingu jarðhita þar sem tilvikin, sem upp geta komið, eru mörg og verða sanngirnisrök oft að ráða skiptingunni. Ef ekki næst samkomulag um hagnýt­ingu jarðhita er heimilt að beita ákvæðum 13. gr.

Um 4. gr.


    Greinin er sama efnis og 12. gr. orkulaga, nr. 58/1967. Tekið er fram að matsmenn þeir, sem vitnað er til, skuli vera hinir sömu og starfa samkvæmt ábúðarlögum, nr. 64/1976.

Um 5. gr.


    Grein þessi svarar til 13. gr. orkulaga, nr. 58/1967, með lítils háttar breytingum. Vitnað er í hin nýju jarðalög, nr. 65/1976, auk þess sem ekki er kveðið á um að forkaupsréttur ríkis­ins takmarkist við fimm ára tímabil eftir að sveitarfélag neytir forkaupsréttar síns.

Um 6. gr.


    Hér er lagt til að kveðið verði á um að allur jarðhiti undir yfirborði einkaeignarlanda sem sóttur verður í meira en 100 metra dýpi skuli vera í umráðum ríkisins.
    Í 2. mgr. er lagt til að kveðið verði á um í lögum að jarðhiti, sem finnst utan fullkominna eignarlanda, skuli vera háður umráðum ríkisins. Ekki er að finna slíkt ákvæði í gildandi lög­gjöf en það hefur út af fyrir sig ekki verið dregið í efa að jarðhiti á afréttum og í almenningum sé almannaeign.

Um 7. gr.


    Lagt er til að ætíð þurfi leyfi til að hagnýta jarðhita neðan við 100 metra undir einkaeign­arlandi og utan einkaeignarlanda.

Um 8. gr.


    Lagt er til að þeir sem þegar hafa borað eftir jarðhita og byrjað hagnýtingu hans eða munu hafa gert það fyrir 1. janúar 1999 skuli halda rétti til þess jarðhita án sérstaks leyfis og án greiðslu gjalds. Hér er að sjálfsögðu átt við hagnýtingu á jarðhita sem ella þyrfti leyfi til sam­kvæmt frumvarpinu. Þá er og lagt til að slíkir aðilar hafi forgangsrétt til frekari hagnýtingar sama jarðhitasvæðis til sama fyrirtækis. Þykir sanngjarnt að þeim fyrirtækjum, sem nota jarð­hita, verði tryggð aukin not ef nægur jarðhiti er á því jarðhitasvæði sem hagnýtt hefur verið.

Um 9. gr.


    Lagt er til að ráðherra veiti leyfi til rannsókna og borana á jarðhitasvæðum. Gert er ráð fyrir að slík leyfi nái til jarðhitasvæðis sem afmarkað er í leyfi.

Um 10. gr.


    Á sama hátt og með jarðhitarannsóknaleyfi er lagt til að ráðherra veiti leyfi til hagnýtingar á jarðhita eða vinnslu hans. Kveðið er á um skyldu þess er sækir um leyfi skv. 9. eða 10. gr. til að láta í té hvers kyns upplýsingar sem ráðherra telur máli skipta við afgreiðslu umsóknar og útgáfu leyfis.


Um 11. gr.


    Í þessu ákvæði er lagt til að sveitarfélög, sem eignast hafa land á jarðhitasvæðum við gild­istöku laganna, skuli hafa betri rétt en aðrir til að hagnýta jarðhita sem á landi þeirra finnst. Þau verða samt sem áður háð ákvæðum laganna um leyfisveitingar en eru undanþegin greiðslu gjalds. Á því er byggt í ákvæði þessu að jarðhiti í umráðum sveitarfélags verði not­aður til almenningsheilla og rétt sé að tryggja með löggjöf að réttur sveitarfélagsins til að nýta jarðhitann sé betri en réttur annarra sem kunna að sækja eftir hagnýtingu jarðhita í landi sem sveitarfélag hefur eignast fyrir gildistöku laganna.

Um 12. gr.


    Hér er getið nokkurra þeirra atriða sem koma verða fram í leyfi skv. 9. og 10. gr. en að sjálfsögðu er ekki um tæmandi upptalningu að ræða. Gert er ráð fyrir að ítarlegri fyrirmæli um framkvæmd laganna verði sett með reglugerð.
    Rétt þykir að kveða á um að leita skuli umsagnar Orkustofnunar og eftir atvikum Náttúru­verndarráðs áður en leyfi skv. 9. eða 10. gr. er veitt.

Um 13. gr.


    Ákvæði þetta samsvarar 14.–16. gr. orkulaga, nr. 58/1967.

Um 14. gr.


    Með þessu ákvæði er skýrt kveðið á um að ráðstöfun á jarðhita ríkisins heyri undir einn og sama aðila til að tryggja samræmdar ákvarðanir um slík mál.

Um 15. gr.


    Greinin er samhljóða 46. gr. orkulaga, nr. 58/1967, nema að því leyti að skýrt er kveðið á um skipun matsmanna samkvæmt greininni.

Um 16. gr.


    Greinin er samhljóða 47. gr. orkulaga.

Um 17. gr.


    Þessi grein fjallar um sama efni og 48. gr. orkulaga. Tekið er fram að umráðamanni sé nægilegt að merkja með aðvörunarmerkjum jarðhitasvæði sem eru fjarri byggð og hætta stafar af.

Um 18. gr.


    Greinin er samhljóða 49. gr. orkulaga.

Um 19. gr.


    Í þessu ákvæði er almenn heimild til reglugerðarsetningar fyrir lögin í heild.

Um 20. og 21. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Erindi frá iðnaðarráðuneytinu til iðnaðarnefnda Alþingis 26. nóvember 1990


um frumvarp til laga um jarðhitaréttindi.


    Ráðuneytið hefur fjallað um frumvarp til laga um jarðhitaréttindi sem flutt er af Hjörleifi Guttormssyni o.fl. og nú er til umfjöllunar í háttvirtri iðnaðarnefnd neðri deildar.
    Niðurstaða ráðuneytisins er að afmörkun einkaeignarréttar á jarðhita við 100 metra dýptarlínu sé ekki heppileg viðmiðun í ljósi tækniþróunar og jarðhitanýtingar á síðustu ára­tugum. Æskilegri leið sé að gera greinarmun á háhita- og lághitasvæðum og láta rétt til nýt­ingar á lághitasvæðum fylgja eignarrétti á landareign, en hins vegar verði skýrt fram tekið í lögunum að réttur til nýtingar háhitasvæða sé sameign þjóðarinnar.
    Þá telur ráðuneytið rétt að skýrt verði fram tekið í lögunum að réttur til nýtingar orku jarð­hitasvæða og fallvatna á afréttum og almenningum sé sameign þjóðarinnar og má í því sam­bandi vitna til dóma Hæstaréttar frá 19. febrúar 1981 og 28. desember 1981. Í fyrri dómnum var synjað kröfu eigenda að hefðbundnum veiðiréttindum í almenningi um viðurkenningu frekari eignarréttar og hins vegar kröfu eigenda hefðbundinna beitarréttinda á afrétti um við­urkenningu frekari eignarréttar á afréttinum.
    Lagt er til að tekið verði fram í lögunum að jarðgas og jarðolía, sem nýta má sem orkugjafa og sem finnast kann við boranir í berggrunn landsins, sé í öllum tilvikum eign ríkissjóðs.
    Loks leggur ráðuneytið til nokkrar breytingar á kaflaskiptingu frumvarpsins og orðalagi einstakra greina. Fylgir frumvarpið hjálagt í þeirri mynd er ráðuneytið leggur til að það verði í, en hún felur í sér eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
    1. Kaflaskipting. Lagt er til að kaflaskipting frumvarpsins og kaflaheiti verði sem hér seg­ir. I. kafli — Almenn ákvæði, II. kafli — Nýting lághita, III. kafli — Orkulindir í sameign þjóðarinnar, IV. kafli — Vernd jarðhitasvæða og eftirlit með þeim, V. kafli — Ýmis ákvæði.
    2. 1. gr. Lagt er til að í frumvarpinu komi ný 1. gr. svohljóðandi:
    „Jarðhitasvæði merkir í lögum þessum uppstreymissvæði frá rennsliskerfi heits grunnvatns í iðrum jarðar.
    Háhitasvæði merkir í lögum þessum svæði, þar sem jarðhiti með að minnsta kosti 200 gráða hita á Celsíus finnst á innan 1.000 metra dýpi.
    Lághitasvæði merkir í lögum þessum svæði, þar sem jarðvarmi með minna en 200 gráða hita á Celsíus finnst á innan við 1.000 metra dýpi.“
    Lagt er til að greinatala frumvarpsins breytist í samræmi við þessa viðbót, þannig að 1. gr. verði 2. gr. o.s.frv.
     Athugasemd. Hér er tekin upp sú skilgreining á jarðhitasvæði, háhitasvæði og lághitasvæði sem fram kom í frumvarpi Kjartans Jóhannssonar o.fl. um breytingu á orkulögum, en það var flutt á Alþingi á 107. löggjafarþingi 1984 (88. mál). Þekkt háhitasvæði eru Reykja­nes, Eldvörp, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll, Hengill, Geysir, Kerlingarfjöll, Hvera­vellir, Mýrdalsjökull, Torfajökull, Vonarskarð, Grímsvötn, Köldukvíslarbotnar, Kverkfjöll, Askja, Fremrinámar, Námafjall, Krafla, Þeistareykir og líkleg svæði eru Prestahnjúkur, Tind­fjallajökull, Blautakvísl, Nauthagi, Hrúthálsar og Öxarfjörður. Auk þess er líklegt að fleiri háhitasvæði muni finnast innan gosbelta landsins.
    3. 2. gr. (1. gr. frv.) Lagt er til að 2. gr. hljóði þannig:
    „Landareign hverri, sem háð er einkaeignarrétti, fylgir réttur til umráða og hagnýtingar á lághitasvæðum innan marka jarðarinnar og hvera og náttúrlegs jarðhita á yfirborði ef land­areign er á háhitasvæði.

    Landeiganda er heimilt að bora eftir og hagnýta sér lághita með þeim takmörkunum sem lög þessi tilgreina.“
     Athugasemd. Hér er réttur landeigenda til nýtingar jarðhita bundinn við lághita í stað jarðhita ofan við 100 metra dýpi. Þá er landeiganda einnig heimilt að nýta sér náttúrlegan jarðhita á yfirborði, ef landareign er á háhitasvæði, en slík nýting er mjög takmörkuð í raun, einkum smávægileg not til hitunar íbúðarhúsnæðis, fjallaskála, baða og ræktunar í heitum jarðvegi. Gróðurhús eru nær eingöngu hituð með vatni frá lághitasvæðum samkvæmt skilgreiningunni í 1. gr. ef undan eru skilin gróðurhús í Hveragerði sem mörg eru hituð upp með orku frá hver­um á yfirborði háhitasvæðis. Hitaveitan þar nýtir hins vegar afrennsli frá háhitasvæði í eigu ríkisins.
    Í síðari málsgrein kemur orðið „lághita“ í stað orðsins „jarðhita“.
    4. 3. gr. (2. gr. frv.) Lagt er til að við greinina bætist 2. mgr. svohljóðandi:
    „Jarðgas og jarðolía, sem nýta má sem orkugjafa og sem finnast kann við boranir í berggrunn landsins, eru þó í öllum tilvikum eign ríkissjóðs.“
     Athugasemd. Lagt er til að öll tvímæli séu tekin af um það hver sé eignarréttur að jarðgasi og jarðolíu (kolvetnissambanda) sem finnast kunna við boranir í berggrunn landsins. Er lagt til að slík efni verði lýst sameign þjóðarinnar, þ.e. ríkissjóðs.
    5. 4. gr. (3. gr. frv.) Lagt er til að orðið „lághita“ komi í stað orðsins „jarðhita“ og auk þess er lögð til smávægileg orðalagsbreyting í lok fyrri málsgreinar, þ.e. að niðurlag máls­greinarinnar hljóði „… hlutfallslegur réttur hvers og eins til nýtingar lághitans“ í stað „… hlutfallslegur réttur hvers þeirra til hans“.
    6. 5. gr. (4. gr. frv.) og 6. gr. (5. gr. frv.). Lagt er til að orðið „lághiti“ komi í stað orðsins „jarðhita“.
     Athugasemd. Breytingar skv. 4. og 5. tölul. leiðir af þeirri breytingu, sem lögð er til í 3. tölul.
    7. 7. gr. (6. gr. frv.) Lagt er til að greinin hljóði þannig:
    „Réttur til nýtingar orku jarðhitasvæða og fallvatna á afréttum og almenningum er sameign þjóðarinnar. Ríkissjóður á einkarétt á nýtingu þeirrar orku og sama gildir um nýtingu háhita í landi sem háð er einkaeignarrétti með þeim takmörkunum sem í lögum þessum greinir.“
    Athugasemd. Hér er lagt til að skýrt verði kveðið á um það í lögunum, að réttur til nýtingar orku jarðhitasvæða og fallvatna á afréttum og almenningum sé sameign þjóðarinnar. Um þetta atriði skal vísað til framangreindra hæstaréttardóma um eignarrétt að afréttum og al­menningum, en ráðuneytið telur mikilvægt að taka af öll tvímæli um þetta efni með ótvíræðum ákvæðum í löggjöf. Þá er ríkissjóði áskilinn einkaréttur á nýtingu þeirrar orku og sama gildi um nýtingu háhita í landi sem háð er einkaeignarrétti með þeim takmörkunum sem greinir í frumvarpinu. Telur ráðuneytið að í síðastgreinda tilvikinu sé um að ræða almenna takmörkun á eignarrétti sem til liggi margvísleg rök og ekki brjóti í bága við stjórnarskrána. Í 8. gr. frv. (9. gr. skv. tillögu ráðuneytisins) er ákvæði sem tryggir hagsmuni þeirra aðila sem þegar hafa látið bora eftir orku í háhitasvæði og byrjað hagnýtingu hennar fyrir 1. janúar 1993.
    8. Lagt er til að 7. gr. frumvarpsins falli brott.
     Athugasemd. Greinin gerð að 2. mgr. næstu greinar að breyttu breytanda.
    9. Lagt er til að 8. gr. hljóði svo:
    „Um nýtingu orku fallvatna á afréttum og almenningum gilda ákvæði vatnalaga, nr. 15 20. júní 1923, orkulaga, nr. 58 29. apríl 1967, laga um raforkuver, nr. 60 4. júní 1981 og annarra laga eftir því sem við á.
    Óheimilt er að bora eftir eða hagnýta jarðhitaréttindi skv. 7. gr. án leyfis ráðherra, sbr. ákvæði 10. og 11. gr.“

     Athugasemd. 1. mgr. felur í sér að ákvæði vatnalaga, orkulaga og laga um raforkuver skuli að öðru leyti gilda um orkunýtingu fallvatna. Má sérstaklega benda á í þessu sambandi V. kafla vatnalaga um notkun vatnsorku, VI. kafla um vatnsmiðlun, XIV. kafla um vatnsvirki, II. kafla orkulaga um vinnslu raforku og ákvæði laga um raforkuver um heimildir til virkjunar. Í 2. mgr. er ákvæði 7. gr. frumvarpsins tekið upp með þeirri breytingu að hún á nú við jarðhita á afréttum og almenningum og háhita utan þeirra svæða.
    10. 9. gr. (8. gr. frv.) Lagt er til að orðið „háhita“ komi í stað orðsins „jarðhita“ og að við­miðunartími verði 1. janúar 1993.
     Athugasemd. Tillögu þessa leiðir af framangreindum breytingartillögum ef samþykktar verða. Þá nær einkaréttur ríkisins til nýtingar jarðhita í byggð og utan landareigna ríkissjóðs einungis til háhitasvæða.
    11. 10. gr. (9. gr. frv.) Lagt er til að orðið „íslenskum“ falli út úr greininni og við bætist 2. mgr. svohljóðandi:
         „Verði land, sem er í einkaeign, fyrir einhverjum skemmdum við rannsóknina eða bíði landeigandi eitthvert tjón af henni skal það bætt að fullu eftir mati ef ekki næst samkomulag milli aðila um bæturnar. Sama gildir um skemmdir á landi í eigu ríkissjóðs.“
     Athugasemd. Um 1. mgr. Ráðuneytið telur eðlilegt að um hvers konar réttindi erlendra aðila til umsvifa á sviði orkumála hér á landi sé fjallað í einum lögum eins og gert hefur verið í öðru frumvarpi sem samið hefur verið um réttindi erlendra aðila til fjárfestinga í íslensku atvinnulífi.
    Um 2. mgr. Eðlilegt er að lögfesta bótaskyldu rannsóknaraðila í því tilviki sem hér á við.
    12. 11. gr. (10. gr. frv.) Lagt er til að greinin orðist þannig:
    „Ráðherra getur veitt aðilum leyfi til nýtingar jarðhita á afréttum og almenningum allt að 10 MW að varmaafli í hverju tilviki. Hann getur einnig veitt leyfi til samsvarandi nýtingar háhita í landareign sem háð er einkaeignarrétti. Slík leyfi kallast jarðhitaleyfi.
    Heimild Alþingis þarf til að leyfa nýtingu á jarðhita umfram 10 MW að varmaafli í hverju tilviki á afréttum og almenningum og á samsvarandi nýtingu háhita í landareign sem háð er einkaeignarrétti.
    Umsóknum um jarðhitaleyfi skulu fylgja ítarlegar upplýsingar um fyrirhugaðar fram­kvæmdir umsækjanda til nýtingar jarðhitans.
    Í jarðhitaleyfi skal m.a. greina skilyrði um gildistíma leyfis, skýrslugjöf leyfishafa, skyldur hans til að hlíta eftirliti og greiða kostnað af því, um öryggisráðstafanir og greiðslu afgjalds fyrir jarðhitaréttindi.
    Um nýtingu jarðhita á afréttum og almenningum og um nýtingu háhita í öðrum landsvæð­um gilda að öðru leyti ákvæði orkulaga og annarra laga eftir því sem við á.“
     Athugasemd. Greinin hefur verið endurskrifuð með tilliti til þeirra breytinga sem lagðar hafa verið til hér að framan. Heimild ráðherra til útgáfu jarðhitaleyfis er bundin við 10 MW að varmaafli í hverju tilviki, en lagt er til að heimild Alþingis þurfi til útgáfu jarðhitaleyfis fyrir viðameiri framkvæmdum.
    13. 12. gr. (11. gr. frv.) Lagt er til að tilvísanir í aðrar greinar breytist um eitt sæti í tölu­röð.
    14. 13. gr. (12. gr. frv.). Lagt er til að tilvísanir í aðrar greinar breytist um eitt sæti í tölu­röð og að tilvísun til náttúruverndarlaga falli brott.
     Athugasemd. Tilvísunin er óþörf þar eð nægilegt er að nefna Náttúruverndarráð.
    15. 14. gr. (13. gr. frv.) Lagt er til að tilvísanir í 9. og 10. gr. verði í 10. og 11. gr. og að orðið „lághita“ komi í stað „jarðhita“ í 2. línu 1. mgr. Í 2. mgr. komi orðið „lághitaréttindi“ í stað „jarðhita“ í 1. línu málsgreinarinnar og orðið „lághita“ komi í stað „jarðhita“ í 2. línu.
    16. 15. gr. Lagt er til að hér bætist við ný grein svohljóðandi:
    „Áður en leyfi er veitt til virkjunar jarðhita á afrétti innan sveitarfélags skal leita umsagn­ar viðkomandi sveitarstjórnar og hefur sveitarfélagið að öðru jöfnu forgangsrétt til nýtingar jarðhitans fyrir almenningsveitu í þágu íbúanna.“
     Athugasemd. Grein þessi samsvarar 11. gr. frumvarpsins (12. gr. í tillögum ráðuneytisins) að öðru leyti, þar er miðað við eignarland sveitarfélagsins. Hins vegar telur ráðuneytið einnig rétt að sveitarfélag fái að öðru jöfnu einnig forgangsrétt til nýtingar jarðhita á afréttum íbúa sinna fyrir almenningsveitu í þeirra þágu.
    17. 16. gr. (14. gr. frv.) Lagt er til að tilvísanir í 10. og 11. gr. verði í 10. og 11. gr. og að orðið „lághita“ komi í stað „jarðhita“.
    18. 17. gr. (15. gr. frv.) Lagt er til að framan við greinina bætist 1. mgr. en núverandi texti verði 2. mgr.
    1. mgr. hljóði svo: „Orkustofnun annast eftirlit með jarðhitasvæðum.“
     Athugasemd: Nauðsynlegt þykir að eftirlit með jarðhitasvæðum landsins sé falið einum aðila eins og reyndar kemur óbeint fram í síðari greinum frumvarpsins.
    19. 20. gr. (18. gr.) Lagt er til að settur verði eins mánaðar frestur eftir að borun er lokið til skila á afriti dagbókar í 2. mgr. og að við greinina bætist ný málsgrein, 4. mgr., svohljóð­andi:
    „Skylt er að tilkynna Orkustofnun fyrir fram um allar boranir eftir jarðhita dýpri en 100 metra og leita úrskurðar hennar um hvort borstaður er á háhitasvæði eða ekki.“
     Athugasemd. Lagt er til að slíkt ákvæði verði sett til þess að koma í veg fyrir að aðili hefji án heimildar boranir á jarðhitasvæði þar sem ríkissjóður á einkarétt til nýtingar orkunnar.
    Starfsmenn iðnaðarráðuneytis eru að sjálfsögðu reiðubúnir til þess að ræða framangreind­ar breytingartillögur við nefndina ef þess er óskað.

Jón Sigurðsson,


Björn Friðfinnsson.




Frumvarp til laga um eignarrétt á orkulindum.



I. KAFLI


Almenn ákvæði.


1. gr.


     Jarðhitasvæði merkir í lögum þessum uppstreymissvæði frá rennsliskerfi heits grunnvatns í iðrum jarðar.
     Háhitasvæði merkir í lögum þessum svæði þar sem jarðhiti með að minnsta kosti 200 gráða hita á Celsíus finnst á innan við 1.000 metra dýpi.
     Lághitasvæði merkir í lögum þessum svæði þar sem jarðvarmi með minna en 200 gráða hita á Celsíus finnst á innan við 1.000 metra dýpi.

2. gr.


    Landareign hverri, sem háð er einkaeignarrétti, fylgir réttur til umráða og hagnýtingar á lághitasvæðum innan marka jarðarinnar og hvera og náttúrulegs jarðhita á yfirborði ef land­areign er á háhitasvæði.
    Landeiganda er heimilt að bora eftir og hagnýta sér lághita með þeim takmörkunum sem lög þessi tilgreina.


3. gr.


    Með rétti til umráða og hagnýtingar jarðhita samkvæmt lögum þessum fylgir réttur til upp­leystra efna og gastegunda sem heitu vatni og jarðgufu fylgja.
    Jarðgas og jarðolía, sem nýta má sem orkugjafa og sem finnast kann við boranir í berggrunn landsins, eru þó í öllum tilvikum eign ríkissjóðs.

II. KAFLI


Nýting lághita.


4. gr.


    Nú eiga fleiri en einn rétthafi heimild til þess að hagnýta lághita úr sama jarðhitasvæði þannig að ekki verði aðskilið þegar hagnýtt er og skal þá skera úr því með mati dómkvaddra matsmanna á hvern hátt hagkvæmast er að hagnýta lághitann og hver sé hlutfallslegur réttur hvers og eins til nýtingar lághitans.
    Ef rétthafar verða ekki ásáttir að öðru leyti um rétt til hagnýtingar lághita skal á sama hátt úr því skorið með mati.

5. gr.


    Nú vill jarðeigandi ekki leggja í neinn kostnað til hagnýtingar lághita á jörðinni og er þá ábúanda heimilt að hagnýta hann á sinn kostnað, þó þannig að hann spilli ekki jörð að neinu leyti. Ekki má byrja á verkinu fyrr en það hefur verið skoðað af matsmönnum samkvæmt ábúðarlögum og þeir hafi talið það réttmætt. Ekki er jarðeigandi skyldur til, þegar svo stendur á sem í grein þessari segir, við brottför ábúanda að innleysa þau mannvirki er ábúandi hefur gert til hagnýtingar lághita, önnur en þau sem gerð hafa verið til heimilis og búsþarfa.

6. gr.


    Landeigandi má ekki undanskilja landareign sinni lághitaréttindi, nema með sérstöku leyfi ráðherra, sbr. þó 3. mgr. jarðalaga, nr. 65/1976. Um sölu jarða, er lághitaréttindi fylgja, fer eftir ákvæðum jarðalaga, þó þannig að ríkissjóður skal hafa forkaupsrétt að þeim aðilum frá­gengnum sem hann er veittur með þeim lögum. Nú hefur sveitarfélag notað forkaupsrétt sinn til slíkra jarðeigna, en selur aftur, og skal þá ríkissjóður eiga forkaupsrétt er svo stendur á.

III. KAFLI


Orkulindir í sameign þjóðarinnar.


7. gr.


    Réttur til nýtingar orku jarðhitasvæða og fallvatna á afréttum og almenningum er sameign þjóðarinnar. Ríkissjóður á einkarétt á nýtingu þeirrar orku og sama gildir um nýtingu háhita í landi sem háð er einkarétti með þeim takmörkunum sem í lögum þessum greinir.

8. gr.


    Um nýtingu orku fallvatna á afréttum og almenningum gilda ákvæði vatnalaga, nr. 15 20. júní 1923, orkulaga, nr. 58 29. apríl 1967, laga um raforkuver, nr. 60 4. júní 1981, og annarra laga eftir því sem við á.
    Óheimilt er að bora eftir eða hagnýta jarðhitaréttindi skv. 7. gr. án leyfis ráðherra, sbr. ákvæði 10. og 11. gr.

9. gr.


    Sá sem borað hefur eftir háhita og byrjað hagnýtingu hans fyrir 1. janúar 1993 hefur rétt til notkunar þess háhita áfram án sérstaks leyfis og án greiðslu leyfisgjalds skv. 13. gr. Hann skal með sama fyrirvara hafa forgangsrétt til frekari borana og hagnýtingar háhitans á því há­hitasvæði er hann nýtir.

10. gr.


    Ráðherra getur veitt aðilum leyfi til rannsókna, þar með taldar boranir á afmörkuðum jarð­hitasvæðum hvar sem er á landi hér. Slík leyfi nefnast jarðhitarannsóknarleyfi og skulu vera til fyrir fram ákveðins tíma.
    Verði land, sem er í einkaeign, fyrir einhverjum skemmdum við rannsóknina eða bíði land­eigandi eitthvert tjón af henni skal það bætt að fullu eftir mati ef ekki næst samkomulag milli aðila um bæturnar. Sama gildir um skemmdir á landi í eigu ríkissjóðs.

11. gr.


    Ráðherra getur veitt aðilum leyfi til nýtingar jarðhita á afréttum og almenningum allt að 10 MW varmaafli í hverju tilviki. Hann getur einnig veitt aðilum leyfi til samsvarandi nýting­ar háhita í landareign sem háð er einkaeignarrétti. Slíkt leyfi nefnist jarðhitaleyfi.
    Heimild Alþingis þarf til að leyfa nýtingu á jarðhita umfram 10 MW að varmaafli í hverju tilviki á afréttum og almenningum og samsvarandi nýtingu háhita í landareign sem háð er einkaeignarrétti.
    Umsóknum um jarðhitaleyfi skulu fylgja ítarlegar upplýsingar um fyrirhugaðar fram­kvæmdir umsækjanda til nýtingar jarðhitans.
    Í jarðhitaleyfi skal m.a. greina skilyrði um gildistíma leyfis, skýrslugjöf leyfishafa, skyldu hans til að hlíta eftirliti og greiða kostnað af því, um öryggisráðstafanir og greiðslu afgjalds fyrir jarðhitaréttindi.
    Um nýtingu jarðhita á afréttum og almenningum og um nýtingu á háhita á öðrum land­svæðum gilda að öðru leyti ákvæði orkulaga og annarra laga eftir því sem við á.

12. gr.


    Sveitarfélag, sem á land á jarðhitasvæði við gildistöku laga þessara, skal hafa forgangsrétt til jarðhitarannsóknarleyfis og jarðhitaleyfis skv. 10. og 11. gr. og vera undanþegið greiðslu leyfisgjalds skv. 13. gr.

13. gr.


    Í leyfi skv. 10. og 11. gr. skulu greind þau skilyrði sem leyfishafa eru sett, þar á meðal um gildistíma leyfis, skýrslugjöf leyfishafa, skyldu hans til að hlíta eftirliti og greiða kostnað af því, um öryggis- og umhverfisverndarráðstafanir og um greiðslu leyfisgjalds.
    Við ákvörðun leyfisgjalds skal m.a. taka tillit til verðmætis orkunnar fyrir leyfishafa eða notanda, kostnaðar við orkuöflun með öðrum hætti, svo og kostnaðar við öflun og afhendingu orkunnar til notanda.
    Áður en leyfi skv. 10. og 11. gr. er veitt skal leita umsagnar Orkustofnunar og Náttúru­verndarráðs.

14. gr.


    Ráðherra getur heimilað þeim sem fengið hefur leyfi skv. 10. og 11. gr. að taka eignarnámi lönd, mannvirki, rétt til lághita skv. 1. mgr. 2. gr. og önnur verðmæti og réttindi sem nauðsyn­leg eru til rannsókna og nýtingar jarðhita, þar með talin dreifing hans til notenda.
    Ráðherra getur enn fremur heimilað að lághitaréttindi séu tekin eignarnámi í vinnsluskyni eða til að afstýra því að borun á lághitasvæði spilli verðmæti hagnýtingar sem hafin er á lág­hita í námunda við svæðið.
    Um eignarnám samkvæmt þessari grein skal fara að lögum um framkvæmd eignarnáms, nr. 11 6. apríl 1973, og 140. gr. vatnalaga, nr. 15 20. júní 1923.

15. gr.


    Áður en leyfi er veitt til virkjunar jarðhita á afrétti innan sveitarfélags skal leita umsagnar viðkomandi sveitarstjórnar og hefur sveitarfélagið að öðru jöfnu forgangsrétt til nýtingar jarðhitans til orkuvinnslu fyrir almenningsveitu í þágu íbúanna.

16. gr.


    Til rannsókna, hagnýtingar eða hvers konar ráðstöfunar á lághita á jörðum í opinberri eigu og öðru eignarlandi ríkisins þarf leyfi ráðherra skv. 10. og 11. gr., sbr. þó 4. gr. ábúðarlaga, nr. 64 31. maí 1976, og 3. mgr. 29. gr. jarðalaga, nr. 65 31. maí 1976.

IV. KAFLI


Vernd jarðhitasvæða og eftirlit með þeim.


17. gr.


    Orkustofnun annast eftirlit með jarðhitasvæðum.
    Óheimilt er að spilla jarðhitasvæðum hvort sem það er með ofaníburði, framræslu eða með öðrum hætti, svo og að breyta farvegi þess vatns er frá jarðhitasvæði rennur, nema talið sé nauðsynlegt að mati dómkvaddra matsmanna til varnar landi eða landsnytjum eða til þeirrar hagnýtingar jarðhita sem heimil er að lögum.

18. gr.


    Mannvirki öll til hagnýtingar jarðhita skulu þannig úr garði gerð að af þeim stafi hvorki hætta né veruleg óþægindi fyrir umferð eða spjöll á eign annars manns, nema skylt sé að hlíta samkvæmt sérstakri heimild.

19. gr.


    Skylt er umráðamanni að girða jarðhitasvæði sem hætta stafar af. Þó skal nægilegt að merkja slík svæði sem fjarri eru byggð með aðvörunarmerkjum.

20. gr.


    Við allar jarðboranir dýpri en 10 metra skal færa dagbók er gefi upplýsingar um jarðlög, gerð þeirra og dýpi, hvenær vatn eða gufa kemur í holuna, hitastig og hvað annað sem reglu­gerð ákveður eða Orkustofnun mælir fyrir um.
    Skylt er að láta Orkustofnun í té afrit af dagbók eigi síðar en einum mánuði eftir að borun er lokið. Orkustofnun getur einnig krafist þess að boranir og berg- og jarðvegssýnishorn séu varðveitt.
    Ef Orkustofnun mælir svo fyrir er þeim sem lætur bora skylt að tilkynna henni þegar í stað er heitt vatn eða gufa kemur upp eða eykst í borholu.
    Skylt er að tilkynna Orkustofnun fyrir fram um allar boranir eftir jarðhita dýpri en 100 metra og leita úrskurðar hennar um hvort borstaður er á háhitasvæði eða ekki.

V. KAFLI


Ýmis ákvæði.


21. gr.


    Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

22. gr.


    Brot gegn lögum þessum varða sektum nema þyngri refsingu varði samkvæmt öðrum lög­um. Mál út af brotum gegn lögum þessum sæta meðferð opinberra mála.

23. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi III. og VII. kafli orkulaga, nr. 58 29. apríl 1967.