Ferill 92. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 92 – 92. mál.



Beiðni um skýrslu



frá dómsmálaráðherra um rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar.

Frá Lúðvík Bergvinssyni , Ágústi Einarssyni, Ástu R. Jóhannesdóttur,


Gísla S. Einarssyni, Guðmundi Árna Stefánssyni, Jóhönnu Sigurðardóttur,


Jóni Baldvini Hannibalssyni, Rannveigu Guðmundsdóttur, Sighvati Björgvinssyni,


Svanfríði Jónasdóttur og Össuri Skarphéðinssyni.



    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að dómsmálaráðherra flytji Alþingi sjálfstæða skýrslu um rannsókn sem fram fór í kjölfar umræðu á Alþingi um ásakanir á hendur lögreglu þess efnis að meintur fíkniefnasali starfaði í hennar skjóli. Jafnframt er þess farið á leit að ráðherra skili ítarlegri greinargerð og rökstuðningi um eftirtalin atriði:
a.      Hvað leiddi rannsóknin í ljós um stjórnskipulag lögreglunnar í Reykjavík og starfshætti fíkniefnadeildarinnar? Uppfyllti skipulag stofnunarinnar þær kröfur sem gera má til slíkrar stofnunar? Hefur ráðherra með einhverjum hætti brugðist við niðurstöðu skýrslunnar og þá hvernig?
b.      Leiddi rannsóknin í ljós að lögreglan sinnti ekki ábendingum um starfsemi meints fíkniefnasala og voru rannsóknir á hendur honum jafnítarlegar og efni stóðu til? Þótti settum rannsóknarlögreglustjóra ástæða til þess að frekari rannsókn færi fram?
c.      Hver var undanfari þess að ákvörðun var tekin um að dæmdum fíkniefnasala var veitt reynslulausn eftir hafa afplánað helming refsivistar? Hver tók þá ákvörðun og hvaða með ferð fékk málið í stjórnsýslunni? Hvaða almennar reglur gilda eða eftir hvaða sjónarmiðum er farið þegar ákvörðun er tekin um reynslulausn sakborninga sem hafa afplánað helming fangelsisvistar? Samræmist umrædd ákvörðun þeim reglum?
d.      Hver var rökstuðningur ríkissaksóknara fyrir því að ákæra ekki að lokinni rannsókn málsins?
e.      Fór lögregla fram á það við ríkissaksóknara eða dómsmálaráðherra að settar yrðu reglur sem farið yrði eftir þegar óhefðbundnar rannsóknaraðferðir væru nauðsynlegar? Voru þessar reglur gefnar út og þá hvenær?
f.      Brást ráðherra á einhvern hátt við skýrslu setts rannsóknarlögreglustjóra og þá hvernig?
g.      Hvers vegna var ekki skipaður sérstakur saksóknari í þessu máli? Komu ekki vanhæfissjónarmið til skoðunar innan ráðuneytisins áður en sú ákvörðun var tekin að skipa ekki sér stakan ríkissaksóknara í málinu þar sem rannsóknin beindist að starfsháttum lögreglu við rannsóknir opinberra mála og ríkissaksóknari hefur stöðu sinnar vegna eftirlit með þeim? Hyggst ráðherra nýta sér heimildir 1. og 2. tölul. 26. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, með því að krefja ríkissaksóknara skýrslu um málið eða hyggst hann leggja til við forseta Íslands að ákvörðun ríkissaksóknara verði breytt og setja sérstakan saksókn ara í málið?
h.      Greinir skýrsla setts rannsóknarlögreglustjóra frá rannsóknum lögreglunnar í Reykjavík sem ekki fengu eðlilega framhaldsmeðferð eftir rannsókn lögreglu? Ef svo er, hversu margar voru þær rannsóknir, hversu umfangsmikil mál var þar um að ræða og hyggst dóms málaráðherra bregðast við þessum athugasemdum á einhvern hátt?

Greinargerð.


    Í kjölfar umræðu sem fram fór á Alþingi um starfsemi lögreglunnar setti dómsmála ráðherra sérstakan rannsóknarlögreglustjóra, Atla Gíslason hrl., til að fara með rannsókn á samskiptum lögreglunnar í Reykjavík og meints fíkniefnasala. Nú síðsumars skilaði settur rannsóknarlögreglustjóri skýrslu um rannsókn sína til ríkissaksóknara og dómsmálaráðherra sem ekki hefur verið birt.
    Með vísan til þess að rannsókn setts rannsóknarlögreglustjóra á starfsemi lögreglunnar hlýtur beint eða óbeint að beinast að ríkissaksóknara sem yfirmanni rannsókna opinberra mála og dómsmálaráðherra sem yfirmanni lögreglunnar sem og eftirlitsskyldu Alþingis með fram kvæmdarvaldinu telja flutningsmenn nauðsynlegt að dómsmálaráðherra gefi Alþingi sjálf stæða skýrslu um þá rannsókn sem fram fór auk upplýsinga um þau atriði sem fram koma í beiðninni.