Ferill 154. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 154 – 154. mál.



Skýrsla



fjármálaráðherra um kynslóðareikninga.

(Lögð fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



Inngangur.


    Gerð kynslóðareikninga fyrir Ísland hefur verið til umræðu og undirbúnings hér á landi um nokkurra ára skeið, enda eru þeir taldir mikilvægt framlag til almennrar umræðu um efnahags- og ríkisfjármál. Markmið þessara reikninga er að meta áhrif fjármálastefnu hins opinbera á hag komandi kynslóða. Niðurstöðurnar geta gefið mikilvæga vísbendingu um hvert stefnir að óbreyttu og til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að jafna kjörin milli kynslóða. Hins vegar er jafnljóst að þessir reikningar koma ekki í staðinn fyrir hefðbundnar uppgjörsaðferðir og áætlunargerð.
    Á árinu 1996 var gengið til samstarfs fjármálaráðuneytis, Þjóðhagsstofnunar og Hagfræði stofnunar Háskóla Íslands um gerð slíkra reikninga. Hagfræðistofnun hefur síðan unnið að þessu verkefni, í nánu samráði og samstarfi við fjármálaráðuneyti og Þjóðhagsstofnun, og voru fyrstu niðurstöður lauslega reifaðar í greinargerð með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1998. Enn fremur samþykkti Alþingi vorið 1997 tillögu til þingsályktunar um gerð kynslóða reikninga.
    Framreikningar af þessu tagi eru tiltölulega nýtt fyrirbæri og einungis örfá ár síðan fyrstu áætlunum var komið á framfæri í fyrsta sinn í fjárlagafrumvarpinu í Bandaríkjunum, en Bandaríkjamenn eru frumkvöðlar á þessu sviði. Jafnframt hafa verið gerðir kynslóðareikn ingar bæði í Noregi og Danmörku. Ísland er því eitt fárra landa sem birt hafa kynslóðareikn inga.
    Í þessari skýrslu er gerð frekari grein fyrir helstu niðurstöðum þessara reikninga. Um nánari umfjöllun og aðferðafræði er vísað til ítarlegrar skýrslu Hagfræðistofnunar. Áfram verður unnið að gerð og þróun þessara reikninga.

Kynslóðareikningar.



1.      Inngangur.
    Miklar breytingar hafa orðið í efnahagsmálum á alþjóðavettvangi undanfarin tíu til fimm tán ár. Þessar breytingar hafa öðru fremur einkennst af auknu frjálsræði í viðskiptum, jafnt milli ríkja sem innan þeirra. Þetta á ekki einungis við um vöruviðskipti, heldur einnig fjár magns- og þjónustuviðskipti. Þessar aðstæður hafa kollvarpað ýmsum fyrri hugmyndum um orsakasamhengi ýmissa þátta efnahagslífsins, ekki síst hvað ríkisfjármál snertir og áhrif aðgerða á því sviði á almenna efnahagsþróun.
    Áður var sú skoðun útbreidd að aðhaldsaðgerðir í ríkisútgjöldum leiddu óhjákvæmilega til samdráttar í efnahagslífinu. Nú er hins vegar almenn samstaða um að jákvæð efnahagsleg áhrif af traustri stöðu ríkisfjármála í kjölfar aukins aðhalds í útgjöldum geri meira en vega upp hugsanleg samdráttaráhrif aðgerða af þessu tagi. Væntingar markaðsaðila og trúverðugleiki efnahagsstefnunnar eru þannig talin hafa úrslitaáhrif á þróun vaxta og þar með hagvaxtar horfur.
    Í samræmi við þessi viðhorf er meginverkefni stjórnvalda í nær öllum iðnríkjum heims nú talið vera að ná tökum á útgjaldavexti ríkissjóðs, einkum tilfærslum til velferðarmála. Sam hliða er talið brýnt að mæta fyrirsjáanlegum útgjaldavanda, vegna lífeyrisskuldbindinga hins opinbera og fjölgunar ellilífeyrisþega, með viðeigandi aðhaldsaðgerðum. Breytt viðhorf og horfur um vaxandi útgjöld ríkisins næstu áratugi hafa orðið til þess að beina sjónum stjórn valda í ríkari mæli að áætlanagerð í ríkisfjármálum til langs tíma.

2.     Gerð kynslóðareikninga fyrir Ísland.
    Í þessu samhengi hafa augu manna beinst að svokölluðum kynslóðareikningum, en þeim er ætlað að sýna hvað bíður komandi kynslóða í skattbyrði og ríkisútgjöldum, miðað við óbreyttar áherslur og stefnu í ríkisfjármálum. Aðferðin er í stuttu máli sú að reikna út hve mikið tiltekinn einstaklingur kemur til með að greiða í skatta og hvað hann fær til baka frá rík inu frá vöggu til grafar, að gefnum forsendum um hagvöxt, ævilíkur o.fl. Ennfremur er skoðað hvað óbreytt stefna í ríkisfjármálum þýðir fyrir afkomu ríkisins. Ef um áframhaldandi halla rekstur er að ræða er gengið út frá því að grípa þurfi til aðgerða til að eyða hallarekstrinum og spurt: Hvað þarf að hækka skatta mikið til að standa undir óbreyttri útgjaldastefnu eða hve mikið þarf að lækka útgjöldin? Þessir reikningar munu seint leysa hefðbundnar uppgjörsaðferðir af hólmi, enda gefa þeir aðeins grófa vísbendingu um hvert stefnir í ríkisfjármálum á næstu áratugum, að gefnum tilteknum forsendum. Þeir sýna hins vegar hvert horfir að óbreyttri ríkisfjármálastefnu stjórnvalda með því að draga saman í einni tölu hvað komandi kynslóðir þurfa að greiða miklu hærri skatta en núlifandi kynslóðir.
    Þessi uppgjörs- eða framreikningsaðferð er tiltölulega ný af nálinni. Bandaríkin voru fyrst til að birta slíka útreikninga, en síðan hafa nokkur lönd bæst við, meðal annars Danmörk, Noregur og Svíþjóð. Nú liggja einnig fyrir fyrstu niðurstöður slíkra reikninga fyrir Ísland. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur haft umsjón með gerð þeirra í samvinnu við fjármála ráðuneytið og Þjóðhagsstofnun. Hér er aðeins um fyrstu niðurstöður að ræða og þarf að hafa nokkra fyrirvara við þær. Eftir er að þróa útreikningana frekar, meðal annars með því að meta áhrif lífeyriskerfisins á niðurstöðurnar, en margt bendir til að áhrifin séu jákvæðari hér á landi en annars staðar.
    Ein helsta niðurstaða kynslóðareikninganna er að sú kynslóð sem fædd er árið 1995, en það er grunnár reikninganna, komi til með að greiða rúmlega 700 þúsund krónum meira til ríkisins en hún fær frá ríkinu á ævinni, sem fyrst og fremst má rekja til vaxtagreiðslna af skuldum ríkisins. Þessi tala fer síðan hækkandi á næstu árum og áratugum, að óbreyttri stefnu í ríkisfjármálum, þannig að komandi kynslóðir þurfa að greiða tæplega 1.900 þúsund krónum meira en þær fá til baka. Skattbyrði þessara kynslóða er því 161% meiri en skattbyrði þeirrar kynslóðar sem fæddist árið 1995. Til þess að jafna þennan mun milli kynslóða þyrfti að öðru jöfnu að auka tekjur eða lækka útgjöld ríkisins um 4 milljarða króna. Niðurstöður þessara reikninga eru mjög næmar fyrir þeim forsendum sem lagt er upp með. Í dæminu sem kynnt er hér að framan er gert ráð fyrir 1,5% hagvexti á mann og 6% vöxtum. Í kynslóðareikningum sem gerðir hafa verið erlendis er oftast miðað við 5% vexti. Sé gengið út frá þeim forsendum minnkar munurinn milli kynslóða verulega, eða úr 161% í 31%. Þetta er svipuð niðurstaða og kynslóðareikningar sýna fyrir Svíþjóð. Í Noregi er munurinn meiri, eða 53%, og sambærileg tala fyrir Bandaríkin er um 100%.

3.     Viðmiðunartímabil.
    Viðmiðunartímabilið fyrir Ísland er árið 1995 og miðast allir útreikningar við þær reglur sem þá giltu um skatta og skyldur hins opinbera, arð af eignum, skuldir og fleiri þætti. Árið 1995 einkenndist efnahagslífið af stöðugleika en þó var hagvöxtur meiri en verið hafði í mörg ár á undan. Stöðugleikinn er ein ástæða þess að þetta ár var valið en hann kom meðal annars fram í lítilli verðbólgu, jafnvægi á viðskiptum við útlönd, góðri afkomu fyrirtækja og hag stæðri launaþróun.
    Kynslóðareikningar endurspegla efnahagsástandið hverju sinni. Miklu skiptir því að ástandið á viðmiðunartímabilinu sé dæmigert fyrir meðalár og alla jafna væri betra að viðmið unartímabilið væri lengra en eitt ár. Jafnframt verður þá hægt að skoða allar breytingar sem hið opinbera gerir á skatta- og útgjaldastefnu á ákveðnu tímabili og áhrifum þeirra á afkomu kynslóðanna.

4.     Dreifing tekna og gjalda á kynslóðir.
    Hvorki er unnt að skipta öllum útgjöldum hins opinbera á ákveðnar kynslóðir né rekja allar tekjur til ákveðinna kynslóða. Á Íslandi reyndist unnt að tengja um 92% tekna hins opinbera við einstaklinga, en það er mjög hátt hlutfall miðað við það sem gerist erlendis. Hlutfall þetta var t.d. 73% í Danmörku. Þær 8% tekna hins opinbera sem ekki var mögulegt að tengja við einstaklinga eru meðal annars vaxtatekjur af ýmsum kröfum hins opinbera, innborganir frá Seðlabanka og arðgreiðslur ríkisfyrirtækja.




(1. TAFLA -- ein síða mynduð.)

    Ekki tókst að tengja jafnhátt hlutfall af útgjöldum hins opinbera við einstaklinga eða ein ungis um 53%. Þetta er þó sambærilegt við það sem gerist erlendis. Í sumum tilfellum var ekki einsýnt hvernig skipta ætti kostnaði á einstaklinga. Kostnaðarmat í heilbrigðiskerfinu var sérstaklega vandmeðfarið mál. Það mat sem notað var er það besta sem völ er á enn sem komið er. Til þess að bæta kostnaðarmatið eru uppi áform um að nota svokallaða DRG sjúkdóma flokkun sem er nákvæmari aðferð til að meta kostnað við hvern sjúkling. Vegna þess hve stór hluti ríkisútgjalda rennur til heilbrigðismála skiptir miklu fyrir kynslóðareikninga að mat á skiptingu kostnaðar sé nákvæmt. Af sömu ástæðu er skipting kostnaðar við menntakerfið mikilvæg. Í framtíðinni er ætlunin að fylgja svokölluðum ISCED-stöðlum við mat á skiptingu kostnaðar vegna menntunar við gerð kynslóðareikninga.
    Þau útgjöld sem ekki er hægt að skipta á einstaklinga eftir aldri og kyni teljast í útreikning unum neysla hins opinbera. Sem dæmi má nefna að til neyslu hins opinbera teljast útgjöld til samgöngumála, löggæslu, orkumála, ýmissa atvinnumála og fleiri þættir, samtals um 30% af heildarútgjöldum hins opinbera á Íslandi árið 1995. Um 17% af heildarútgjöldum hins opin bera telst fjárfesting og einnig fer stór hluti í vaxtagreiðslur. Athygli skal vakin á því að hluti þess sem telst, í skilningi kynslóðareikninga, neysla hins opinbera á ákveðnu ári, svo sem uppbygging samgöngumannvirkja, byggir upp þjóðarauð og kemur væntanlega að notum um langa framtíð. Í samræmi við erlendar venjur eru þó slíkar varanlegar eignir, sem ekki skila tekjum í ríkissjóð, ekki taldar með eignum ríkisins í íslensku kynslóðareikningunum. Þetta þýðir að neysla fortíðarkynslóða er ofmetin en sá auður sem fortíðarkynslóðir skila til framtíðarkynslóða vanmetinn.
    Í töflu 1 má sjá heildarumsvif ríkisins árið 1995 og hvernig tekjur og gjöld skiptust á flokka í kynslóðareikningum. Tafla 2 sýnir nánar hvaða þættir teljast til hvers flokks.
    Við gerð kynslóðareikninganna var hreinum auði hins opinbera, þ.e. eignum að frádregnum skuldum, skipt í tvo hluta. Annars vegar eru allar fjárhagslegar eignir og skuldbindingar hins opinbera, skuldabréf útgefin af hinu opinbera til langs og skamms tíma, svo sem spariskírteini og ríkisvíxlar. Skattakröfur eru undanskildar svo og sjóðir sem eru eign almennings en hið opinbera rekur og, eins og áður segir, varanlegar eignir hins opinbera sem ekki er greiddur arður af. Hins vegar eru metnir tekjustraumar fyrirtækja og stofnana í eigu hins opinbera, tekjur af landi og eignaleyfum, sektir, tekjutilfærslur, fjármagnstilfærslur og fjárfestingar styrkir til fyrirtækja og stofnana í eigu hins opinbera.
    Heildareignir fást með því að leggja saman hlutana tvo. Til eigna teljast því allar þær eignir ríkissjóðs og sveitarfélaga, svo sem eignir hjá Seðlabanka, viðskiptabönkum og einkaaðilum, sem skila arði til hins opinbera. Skuldamegin munar mest um skuldabréf ríkis og áfallna vexti á þau, lífeyrisskuldbindingar og erlend lán. Fundinn var mismunur heildareigna og skulda og hann notaður sem mat á hreint verðmæti hins opinbera. Niðurstaðan er að hreint virði hins opinbera var neikvætt um 233 milljarða árið 1995, það er eignir voru minni en skuldir.
    Tafla 3 sýnir skiptingu á verðmæti hins opinbera fyrir árið 1995. Sjá má að mestu munar um hreinar skuldir A-hluta ríkissjóðs upp á 295 milljarða króna, í B-hluta eru eignir umtals vert meiri en skuldir og hrein eign um 88 milljarðar króna. Hér er skipting í A- og B-hluta ríkissjóðs samkvæmt eldra uppgjöri, eins og það var árið 1995. Loks eru hreinar skuldir sveitarfélaga um 25 milljarðar króna.

(2. TAFLA - ein síða mynduð.)




(3. TAFLA - ein síða mynduð.)



5.     Forsendur útreikninganna.
    Yfirleitt var aðgengi gagna og úrvinnsla þeirra fyrir kynslóðareikninga ágætt á Íslandi. Flestar þjóðir hafa þurft að aðlaga gögn á ýmsan hátt t.d. vegna þess að þau eru frá mismun andi tímum eða aðeins hafa verið til upplýsingar fyrir annað kynið o.s.frv. en þessa þurfti sjaldnast hér á landi. Stofnanir hins opinbera á Íslandi virðast halda vel utan um ýmsar upp lýsingar í samanburði við stærri lönd og mikið er fyrirliggjandi af gögnum. Smæð íslensks samfélags auðveldar gagnaöflun. Þannig fást upplýsingar um raunverulegar greiðslur eftir kyni og aldri einstaklinga, til dæmis í almannatryggingakerfinu eða í skatta, sem er óhugsandi víðast hvar erlendis.
    Gengið var út frá tilteknum forsendum um mannfjöldaþróun, hagvöxt og ávöxtunarkröfu. Gert var ráð fyrir því að skuldasöfnun hins opinbera væru takmörk sett, nánar tiltekið að árið 2200 þyrftu eignir hins opinbera að vera jafnar skuldum. Þetta þýðir að samanlögð skattbyrði núlifandi kynslóða og þeirra sem fæðast fyrir 2200 verður að standa undir allri neyslu hins opinbera fram til 2200, auk þess að greiða upp skuldir umfram eignir árið 1995.
    Til að bera saman upphæðir sem ríkið eða einstaklingar reiða af hendi á mismunandi tíma er beitt svokallaðri núvirðingu. Núvirðingin gerir kleift að bera saman fjárhæðir á mismun andi tímum og tekur hún þannig tillit til þess að upphæðir sem greiddar eru nú skipta meira máli en upphæðir sem greiddar eru síðar, að öðru jöfnu. Miðað er við ákveðna vaxtakröfu og var hún ákveðin 6% fyrir Ísland. Þetta þýðir að upphæð sem reidd er af hendi eftir ár þarf að vera 6% hærri en upphæð sem reidd er af hendi í dag til þess að áhrif hennar mælist þau sömu í kynslóðareikningunum. Vegna núvirðingarinnar skipta upphæðir, sem koma til greiðslu eftir lokaár reikninganna, árið 2200, hverfandi máli.
    Reiknað var með 1,5% hagvexti, þ.e. vexti vergrar landsframleiðslu á mann á ári. Afar erfitt er að spá fyrir um hagvöxt langt fram í tímann. Talan sem notuð var er nokkuð lægri en meðaltal eftirstríðsáranna á Íslandi en sambærileg við þær sem notaðar hafa verið við kyn slóðareikninga í nágrannalöndunum og nálægt meðaltali hagvaxtarspáa fyrir iðnríki á Vestur löndum. Spá um mannfjöldaþróun var fengin frá Byggðastofnun.
    Rétt er að taka fram að lífeyrissjóðakerfinu var haldið fyrir utan reikningana en sá háttur er viðhafður í öðrum löndum þar sem kynslóðareikningar hafa verið gerðir. Þetta gerir það að verkum að hrein skattbyrði kynslóða framtíðarinnar virðist nokkru meiri en búast má við. Nokkuð verk er að meta áhrif lífeyrissjóðakerfisins en það mun verða gert síðar.

6.     Helstu niðurstöður.
    Mynd 1 sýnir hvernig skattbyrði skiptist á aldurshópa og kyn árið 1995. Sjá má að skatt greiðslur karla eru að jafnaði hærri en kvenkyns jafnaldra þeirra og endurspeglar það meðal annars launamun kynjanna. Hlutur karla í eignarskatti er þó líklega ofmetinn vegna þess að eignir hjóna eru fremur skráðar á eiginmann en eiginkonu. Ekki reyndist unnt að skipta virðis aukaskattsgreiðslum með neinni vissu á milli kynja og er því gert ráð fyrir að þær skiptist jafnt.


(Mynd 1 og 2 -- tvær síður myndaðar.)



    Mynd 2 sýnir skiptingu á greiðslum frá hinu opinbera eftir aldri og kyni þiggjenda. Sjá má að kostnaður vegna heilbrigðis- og almannatryggingakerfis fellur að stórum hluta til vegna elstu aldurshópanna, kostnaður vegna fræðslukerfis nýtist einkum yngstu þegnunum en kostnaður vegna velferðarkerfis skiptist mun jafnar á aldurshópa. Útgjöld vegna fræðslu- og heilbrigðiskerfis skiptast nokkuð jafnt á kynin. Konur njóta hins vegar stærri hluta útgjalda hins opinbera í velferðar- og almannatryggingakerfinu. Hlutur kvenna hér er þó væntanlega ofmetinn vegna þess að ýmsar bætur, t.d. barnabætur, eru í þessum reikningum skráðar á mæður fremur en feður.
    Mynd 3 sýnir hreina skattbyrði núlifandi kynslóða og tafla 4 sýnir hvernig hreina skatt byrðin verður til vegna skiptingar vergrar skattbyrði og greiðslna frá hinu opinbera. Þegar myndin og taflan eru skoðaðar verður að hafa í huga að kynslóðareikningar eru framtíðar reikningar. Það þýðir að eingöngu er miðað við þær greiðslur sem einstaklingar eiga eftir að fá, eða greiða, til hins opinbera. Ekki er tekið tillit til þeirra fjárhæða sem einstaklingar hafa þegar greitt, eða fengið, fyrir grunnár reikninganna.
    Sem dæmi má nefna að ef litið er á niðurstöður kynslóðareikninga fyrir núlifandi kynslóðir virðist 35 ára einstaklingur hafa margfalt hærri hreina skattbyrði en nýfæddur einstaklingur. Þetta stafar m.a. af núvirðingu tekju- og greiðslustrauma. Nýfæddur einstaklingur greiðir ekki samsvarandi fjárhæðir í skatta og 35 ára einstaklingur fyrr en eftir 35 ár. Því er hrein skattbyrði nýfædds einstaklings eftir 35 ára aldur núvirt yfir tímabil sem er 35 árum lengra en hjá eldri einstaklingnum. Þegar skattbyrði þessara tveggja einstaklinga er borin saman á grunnárinu virðist skattbyrði 35 ára einstaklings því hærri. Jafnframt eru framtíðarskatt greiðslur nýfædds einstaklings sem greiddar eru eftir 35 ára aldur léttvægar miðað við endur greiðslur þær sem nýfæddur einstaklingur þiggur frá hinu opinbera í formi sjúkraþjónustu, dagvistar og skólagöngu fyrstu ár ævi sinnar.
    Breytingar á tekjum og útgjöldum hins opinbera hafa mjög mismunandi áhrif á einstaklinga eftir kyni eða aldurshópi þeirra. Þannig kemur t.d. hækkun skatta harðar og jafnar niður á körlum en konum. Þá kæmi skerðing á framlögum til menntakerfis harðast niður á ungu fólki, en áhrif af lækkun á fjárframlagi til velferðarkerfis dreifast nokkuð jafnt á fullorðna ein staklinga.
    Skattbyrði framtíðarkynslóða er fundin sem afgangsstærð. Þar sem fyrr eða síðar verður að afla tekna til að greiða öll útgjöld ríkisins verður hrein skattbyrði framtíðarkynslóða að nægja til að greiða muninn annars vegar á neyslu ríkisins allt tímabilið sem verið er að skoða, að viðbættum skuldum nú umfram eignir, og hins vegar hreinni skattbyrði núlifandi kynslóða. Gert er ráð fyrir að allir einstaklingar sem fæddir eru eftir grunnárið, 1995, beri sömu skattbyrði.
    Þegar skattbyrði núlifandi og framtíðarkynslóða er skoðuð, kemur í ljós að skattbyrði ein staklings sem fæddist árið 1995 er að meðaltali 713 þúsund krónur á verðlagi þess árs, en byrði einstaklinga af komandi kynslóðum verður að vera að meðaltali 1.862 þúsund krónur til þess að eignir ríkisins nægi fyrir skuldum árið 2200. Munurinn er 161%. Til að ná jafnvægi á milli kynslóða þarf því að auka skattbyrði núlifandi kynslóða eða draga úr útgjöldum hins opinbera.

3. mynd. Hrein skattbyrði núlifandi kynslóða.




(Ein síða mynduð)




(4. TAFLA - mynduð, ein síða.)



    Margar leiðir eru færar til að jafna afkomumun kynslóðanna án þess að hér sé ein leið tekin fram yfir aðra. Heildartekjur hins opinbera af tekjuskatti og útsvari mætti t.d. hækka um 0,91% af vergri landsframleiðslu ársins 1995 (4,1 milljarð króna) á ári. Sama marki mætti ná með því að skerða útgjöld til menntakerfisins um 1,01% af landsframleiðslu (4,6 milljarða króna). Ekki var reynt að meta áhrif þessara aðgerða, eða annarra sem skoðaðar voru, á hagvöxt, en gera má ráð fyrir að hækkun tekjuskatts dragi úr hagvexti og það sama má segja um lægri framlög til menntunar.
    Nokkuð minni lækkun þyrfti að verða á fjárframlagi til velferðarkerfisins til að jafna aðstöðumun kynslóðanna eða um 0,97% af landsframleiðslu (4,4 milljarðar króna). Lægri framlög hins opinbera til þessa málaflokks myndu að öllum líkindum koma verst niður á ungu fólki og öldruðum. Hér er átt við velferðarkerfið í víðum skilningi þess orðs og nær það yfir framlög til hjúkrunarheimila, greiðslu ýmissa bóta á vegum ríkis og sveitarfélaga o.s.frv.
    Þá væri hægt að lækka neysluútgjöld hins opinbera, þ.e.a.s. draga úr þeim útgjöldum sem ekki er hægt að skipta niður á kynslóðirnar. Sú aðgerð leiðir til beinnar lækkunar á skatt-greiðslum komandi kynslóða en auk þess til lægri framlaga til málaflokka eins og vega-, dóms-, orku- og atvinnumála.
    Skuldasöfnunar hins opinbera gætir mjög í kynslóðareikningunum. Ef eignir hins opinbera nægðu fyrir skuldum mældist hrein skattbyrði framtíðarkynslóða neikvæð um tæpar 398 þúsund krónur. Það þýðir að ef núverandi fjármálastefnu stjórnvalda yrði fylgt í framtíðinni greiddu núlifandi kynslóðir of mikið í skatta miðað við komandi kynslóðir. Lækka mætti skatta, eða auka útgjöld, um allt að 4 milljarða króna en halda samt jafnvægi á milli kynslóð anna. Það ójafnvægi sem er á skattbyrði núverandi og komandi kynslóða má því að stórum hluta skrifa á fortíðarreikning skuldasöfnunar hins opinbera.
    Aldursdreifing þjóðarinnar hefur mikil áhrif á útgjöld og tekjur hins opinbera. Við skoðun á mannfjöldaspá Byggðastofnunar sést að yfir tímabilið 1995 til 2200 er fjölgunin mest í aldurshópnum 25–64 ára sem er sá hópur sem almennt er virkastur á vinnumarkaði. Þessi hópur greiðir hæsta skatta og þannig eru heildartekjur hins opinbera háar vegna þessa hóps en útgjöldin aftur á móti ekki mikil. Einnig verður talsverð fjölgun í elstu aldurshópunum, það er 65 ára og eldri. Sú fjölgun kallar á aukin útgjöld vegna ellilífeyris, sjúkra- og velferðar þjónustu. Heildartekjuaukning hins opinbera vegna fjölgunar í aldurshópunum 25–64 ára virðist þó verða meiri en útgjaldaaukning vegna aukins fjölda aldraðra miðað við áætlaða mannfjöldaþróun.
    Tafla 5 sýnir dæmi um áhrif aðgerða sem myndu jafna skattbyrði núlifandi kynslóða og framtíðarkynslóða. Miðað við núverandi ástand verður skattbyrði einstaklinga framtíðarinnar að jafnaði 161% hærri en hrein skattbyrði þeirra sem fæddust árið 1995. Til þess að jafna þetta hlutfall mætti til dæmis hækka tekjuskatt. Væri það gert lækkaði hrein skattbyrði fram tíðarkynslóða úr 1.862 þúsundum í 910 þúsund. Út úr töflunni má á sama hátt lesa áhrif breyt inga á virðisaukaskatti og lækkunar útgjalda.


(5. TAFLA — ein síða mynduð.)



    Þá má sjá í töflu 5 að ef hreinar skuldir hins opinbera væru engar fengju kynslóðir fram tíðarinnar meira frá hinu opinbera en þær greiða til þess að öðru óbreyttu. Loks sést að bregð ist fólksfjöldaspár og engin fólksfjölgun verður, munu karlar framtíðarinnar þurfa að standa undir mun meiri greiðslum til hins opinbera en þeir fá frá því. Þessu er hins vegar öfugt farið með konur framtíðarinnar.

7.     Samanburður við önnur lönd.
    Við útreikningana var eins og áður segir gert ráð fyrir 6% ávöxtunarkröfu. Þetta er nokkuð hærri krafa en í þeim nágrannalöndum okkar sem unnið hafa kynslóðareikninga, en þar hefur oftast verið miðað við 5%. Ástæða þess að valin var hærri ávöxtunarkrafa fyrir Ísland er að hún endurspeglar meðal annars áhættu eða óvissu og telja má að smæð Íslands og nokkuð einhæft atvinnulíf valdi því að meiri óvissa ríki um framtíðina en í stærri löndum sem hafa fleiri stoðir undir atvinnulífi sínu. Til þess að gera alþjóðlegan samanburð kleifan voru reikningarnir fyrir Ísland endurteknir miðað við 5% ávöxtunarkröfu. Í töflu 6 má sjá niður stöður þessara reikninga.
    Byrði framtíðarkynslóða er misjöfn milli landa. Ísland stendur vel að vígi í þessum saman burði og eru íslenskir karlar framtíðarinnar með sambærilega skattbyrði í hlutfalli við nýfædda og karlar í Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi. Karlar framtíðarinnar á Ítalíu þurfa hins vegar að bera mun meiri hreina skattbyrði í samanburði við nýfædd sveinbörn þarlend en í hinum löndunum. Danskir karlar virðast, ólíkt körlum í samanburðarlöndunum, bera of þunga skattbyrði miðað við framtíðarkynslóðir. Ef ójöfnuður framtíðarkynslóða er skoðaður fyrir bæði kynin í Danmörku verður niðurstaðan þó svipuð því sem gerist á Íslandi, hrein skattbyrði framtíðarkynslóða virðist 26% hærri en núlifandi kynslóða. Af þessu má vera ljóst að ef ávöxtunarkrafan sem notuð er í kynslóðareikningunum er lækkuð í 5% verður niðurstaðan fyrir Ísland mjög sambærileg við það sem gerist hjá þeim nágrannaþjóðum okkar sem gert hafa kynslóðareikninga.

(6. TAFLA — ein síða mynduð.)