Ferill 167. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 167 – 167. mál.Frumvarp til lagaum Kennara- og uppeldisháskóla Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)


I. KAFLI
Hlutverk.
1. gr.

    Kennara- og uppeldisháskóli Íslands er miðstöð kennara- og uppeldismenntunar á Íslandi. Kennara- og uppeldisháskóli Íslands er vísindaleg fræðslu- og rannsóknarstofnun er veitir nemendum sínum menntun til þess að gegna störfum á sviði kennslu, uppeldis og umönnunar og til þess að sinna sjálfstætt fræðilegum rannsóknum á því sviði.
    Nánari fyrirmæli um skilgreiningu þess náms sem háskólinn veitir og hvernig samstarfi við aðra háskóla á sviði kennara- og uppeldismenntunar skuli háttað skal setja í reglugerð.

II. KAFLI
Kennarar og nemendur.
2. gr.

    Kennarar við Kennara- og uppeldisháskóla Íslands eru prófessorar, dósentar, lektorar, aðjúnktar og stundakennarar.
    Prófessorar, dósentar og lektorar skulu vera þeir einir sem hafa kennslu og rannsóknir að aðalstarfi. Aðjúnktar eru ráðnir til eins árs hið skemmsta. Stundakennarar eru ráðnir til eins árs eða skemmri tíma.
    Háskólaráð setur nánari reglur um starfsskyldur fastráðinna kennara.

3. gr.

    Rektor ræður prófessora, dósenta, lektora, aðjúnkta og stundakennara.
    Umsækjendur um prófessorsstöður, dósents- og lektorsstöður skulu láta fylgja umsókn sinni upplýsingar um háskólamenntun sína, vísindastörf og önnur störf, svo og ritsmíðar og rannsóknir.
    Rektor skipar þriggja manna dómnefnd eftir tilnefningu háskólaráðs og menntamála ráðherra, til tveggja ára í senn, til þess að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna stöðu prófessors, dósents eða lektors. Háskólaráð tilnefnir tvo menn í nefndina, þar af annan formann nefndarinnar. Annar fulltrúanna sem háskólaráð tilnefnir skal starfa utan háskólans.
    Menntamálaráðherra tilnefnir einn mann í nefndina. Í dómnefnd má skipa þá eina sem lokið hafa meistaraprófi úr háskóla.
    Rektor skal eftir ábendingu viðkomandi deildar tilnefna sérfræðing, hverju sinni, er skal vera dómnefnd til ráðgjafar þegar fræðistörf umsækjenda eru metin.
    Dómnefnd skal láta uppi rökstutt álit um það hvort ráða megi af vísindagildi rita og rannsókna umsækjanda, svo og af námsferli hans og störfum, að hann sé hæfur til að gegna stöðunni. Engum manni má veita prófessorsstöðu, dósentsstöðu eða lektorsstöðu nema meiri hluti dómnefndar hafi látið það álit í ljós að hann sé til þess hæfur.
    Háskólaráði er heimilt að setja reglur sem kveða á um að sambærileg ákvæði gildi við ráðningu sérfræðinga á sviði rannsókna og annarra fræðistarfa við skólann.
    Heimilt er að flytja lektor úr lektorsstöðu í dósentsstöðu og dósent úr dósentsstöðu í prófessorsstöðu samkvæmt nánari reglum sem háskólaráð setur.

4. gr.

    Háskólaráð skal, að fengnum tillögum deildarráða, staðfesta reglur um skráningu nemenda í einstakar deildir þar sem nánar er kveðið á um inntökuskilyrði í viðkomandi deild.
    Háskólaráð tekur ákvörðun um fjárhæð skrásetningargjalds sem nemendum er gert að greiða við upphaf skólaárs. Skrásetningargjald skal taka mið af kostnaði vegna innritunar, kennsluefnis og pappírsvara sem skólinn lætur nemendum í té og nauðsynlegt er vegna starfsemi háskólans. Skrásetningargjald skal ekki vera hærra en sem nemur 25.000 kr.
    Heimilt er að taka 15% hærra gjald af þeim sem skrá sig til náms eftir að auglýstu skrásetn ingartímabili lýkur.
    Þeir einir teljast nemendur við Kennara- og uppeldisháskóla Íslands sem skrásettir hafa verið til náms.

III. KAFLI
Stjórnskipulag.
5. gr.

    Háskólaráð er æðsti ákvörðunaraðili innan skólans nema annað sé berum orðum tekið fram í lögum.
    Í háskólaráði eiga sæti:
1.      rektor sem er sjálfkjörinn í ráðið og jafnframt forseti þess,
2.      fjórir fulltrúar fastráðinna kennara og fjórir til vara kjörnir á almennum fundi fastráðinna kennara hlutfallsbundinni kosningu til tveggja ára í senn,
3.      tveir fulltrúar nemenda og tveir til vara kjörnir hlutfallsbundinni kosningu til tveggja ára í senn samkvæmt reglum nemendafélags skólans,
4.      tveir fulltrúar skipaðir af menntamálaráðherra til tveggja ára í senn.
    Varaforseta og ritara kýs ráðið úr hópi háskólaráðsfulltrúa fastráðinna kennara.

6. gr.

    Rektor boðar til funda í háskólaráði eftir þörfum. Óski þrír háskólaráðsfulltrúar eftir fundi er rektor skylt að boða til hans. Rektor stýrir fundum ráðsins.
    Háskólaráðsfundur er ályktunarbær ef tveir þriðju hlutar atkvæðisbærra manna sækja fund hið fæsta. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Ef atkvæði falla jöfn sker atkvæði forseta úr.
    Varamenn sitja fundi háskólaráðs í forföllum aðalmanna.

7. gr.

    Menntamálaráðherra skipar rektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs. Skal staðan auglýst laus til umsóknar. Háskólaráð setur reglur um hvernig staðið skuli að tilnefn ingu rektors.

8. gr.

    Háskólaráð ákvarðar deildarskipan skólans og afmarkar aðrar stjórnunareiningar.
    Deildarfundir og deildarráð, í umboði háskólaráðs og rektors, stjórna málefnum hverrar deildar og fer deildarforseti með framkvæmdarvald í málefnum deildarinnar.
    Háskólaráð setur reglur um skipan deildarráða og val á deildarforsetum. Háskólaráð setur reglur um deildarfundi, hverjir hafi rétt til setu á deildarfundum og hvert skuli vera verksvið þeirra, vald og ábyrgð. Háskólaráð setur deildarráðum starfsreglur. Háskólaráð setur jafn framt reglur um skipan annarra stjórnunareininga.
    Stofnanir og einstakir starfsmenn innan háskólans, sem ekki lúta sérstakri stjórn, heyra beint undir embætti rektors.

9. gr.

    Fyrir hverja deild skólans eða skilgreinda námsbraut skal setja námskrá sem kveður á um markmið, inntak og meginviðfangsefni námsins, þar með talin starfsþjálfun á vettvangi þar sem það á við. Á grundvelli námskrár skal árlega gefin út kennsluskrá þar sem m.a. er gerð grein fyrir tilhögun náms, kennsluháttum og námsmati. Í kennsluskrá eða öðrum starfs áætlunum einstakra deilda skal enn fremur kveðið á um missira- eða annaskiptingu, kennslu tíma, próftímabil, leyfi og önnur atriði sem varða skipulag náms.
    Háskólaráð staðfestir námskrár og kennsluskrá en deildarráð bera ábyrgð á gerð þeirra.

IV. KAFLI
Rannsóknir.
10. gr.

    Heimilt er Kennara- og uppeldisháskóla Íslands að setja á stofn rannsóknarstofnun. Kenn arar skólans geta fullnægt rannsóknarskyldu sinni að nokkru eða öllu leyti með störfum í þágu stofnunarinnar. Heimilt er að ráða sérfræðinga að stofnuninni. Háskólaráð getur falið rannsóknarstofnun umsjón með útgáfustarfsemi á vegum háskólans. Háskólaráð skipar stjórn stofnunarinnar.
    Rannsóknarstofnun skal, eftir því sem aðstæður leyfa, veita uppeldisstéttum og nemendum skólans ráðgjöf og fræðslu um skipulagningu og framkvæmd rannsókna.
Háskólaráð skal setja reglur, sem menntamálaráðherra staðfestir, um starfsemi rannsókna stofnunarinnar og þar með talið um gjaldtöku fyrir þjónustu sem stofnunin veitir.
    Reglurnar skulu birtar í Stjórnartíðindum.
    Heimilt er háskólaráði að stofna sérstaka rannsóknarsjóði. Skal um þá sett skipulagsskrá sem menntamálaráðherra staðfestir. Skipulagsskráin skal birt í Stjórnartíðindum.

V. KAFLI
Gildistaka, reglugerð o.fl.
11. gr.

    Við gildistöku þessara laga renna eignir Kennaraháskóla Íslands, Fósturskóla Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands til Kennara- og uppeldisháskóla Íslands.

12. gr.

    Menntamálaráðherra setur nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd þessara laga.

13. gr.

    Allar reglur sem háskólaráð setur á grundvelli þessara laga skulu birtar í Stjórnartíðindum.

14. gr.

    Lög þessi, sem sett eru með hliðsjón af lögum um háskóla, öðlast gildi 1. janúar 1998 og skulu vera komin að fullu til framkvæmda eigi síðar en 31. júlí 1999.

15. gr.

    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 29/1988, um Kennaraháskóla Íslands, lög nr. 10/1973, um Fósturskóla Íslands, lög nr. 65/1972, um Íþróttakennaraskóla Íslands, og lög nr. 40/1985, um Þroskaþjálfaskóla Íslands.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Um þá sem við gildistöku laga þessara eru starfsmenn eða nemendur í Fósturskóla Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands gildir eftirfarandi:
a.      Nemendur eiga rétt á að ljúka námi og prófum samkvæmt gildandi námsskipulagi skólanna við gildistöku laganna.
b.      Rektor Kennaraháskóla Íslands er rektor Kennara- og uppeldisháskóla Íslands þar til nýr rektor hefur verið skipaður, sbr. e-lið. Störf skólastjóra Fósturskóla Íslands, Íþróttakenn araskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands eru lögð niður frá og með 1. janúar 1998.
c.      Skipaðir og fastráðnir kennarar við Fósturskóla Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands sem uppfylla starfsskilyrði samkvæmt lögum um háskóla eru starfsmenn Kennara- og uppeldisháskóla Íslands frá og með 1. janúar 1998. Hið sama gildir um prófessora, dósenta og lektora við Kennaraháskóla Íslands og þá starfsmenn skólanna sem gegna öðrum störfum en þeim sem upp eru talin í d-lið.
d.      Störf skipaðra og fastráðinna kennara við Fósturskóla Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands sem ekki uppfylla starfsskilyrði samkvæmt lögum um háskóla skulu lögð niður 1. janúar 1998. Þó er heimilt að fresta niðurlagningu starfanna til 31. júlí 1999. Sé heimild til frestunar á niðurlagningu starfanna nýtt teljast starfsmenn samkvæmt þessum málslið vera starfsmenn Kennara- og uppeldisháskóla Íslands frá og með 1. janúar 1998.
e.      Er Alþingi hefur samþykkt lög þessi skal menntamálaráðherra skipa níu manna háskólaráð til 31. júlí 1999. Það skal starfa í samræmi við ákvæði laga þessara og tryggja framkvæmd þeirra, sbr. 14. gr. Skólanefnd Fósturskóla Íslands, skólanefnd Íþróttakennaraskóla Íslands, skólaráð Kennaraháskóla Íslands og skólastjórn Þroskaþjálfaskóla Íslands skulu hver um sig tilnefna einn fulltrúa til setu í því ráði og menntamálaráðherra tvo fulltrúa. Jafnframt skulu stjórnir nemendafélaga skólanna tilnefna sameiginlega tvo fulltrúa í ráðið. Rektor Kennara- og uppeldisháskóla Íslands, sbr. b-lið, skal vera forseti háskólaráðs þar til nýtt háskólaráð hefur verið skipað, sbr. 5. gr., og nýr rektor skipaður, sbr. 7. gr., samkvæmt tilnefningu þess háskólaráðs.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.


    Frumvarp þessa efnis var lagt fram á 121. löggjafarþingi en varð þá eigi útrætt. Efnislega er frumvarpið óbreytt ef frá er talin örlítil breyting á ákvæði til bráðabirgða.
    Frumvarp þetta er lagt fram til þess að sameina starfsemi eftirtalinna stofnana í eina háskólastofnun: Fósturskóla Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands. Hugmyndir um aukið samstarf eða sameiningu þessara mennta stofnana hafa verið að mótast á undanförnum árum. Í nefndaráliti um eflingu uppeldis- og kennaramenntunar á Íslandi, sem menntamálaráðuneytið gaf út í mars 1995, er á bls. 24 sett fram svohljóðandi tillaga: ,,Nefndin leggur til að Íþróttakennaraskóli Íslands, Fósturskóli Íslands og Þroskaþjálfaskóli Íslands sameinist Kennaraháskóla Íslands í einum kennaraháskóla.“ Í greinargerð með tillögunni segir: „Slík sameining myndi að mati nefndar innar efla faglegt umhverfi þessarar menntunar og bæta nýtingu kennslukrafts, húsnæðis og annarra aðfanga. Hin nýja stofnun yrði deildaskipt en hefði sameiginlega yfirstjórn og sam eiginlega stoðþjónustu, svo sem bóksafn, nemendaskráningu og skrifstofuhald . . .“
    Í umsögnum um þær tillögur, sem í nefndarálitinu er að finna, kemur fram víðtæk samstaða um sameiningu þessara stofnana þótt þar séu einnig slegnir ýmsir varnaglar sem flestir miða að því að varðveita sérstakar áherslur í menntun tiltekinna stétta, svo sem leikskólakennara, þroskaþjálfa.
    Í nóvember 1995 fól menntamálaráðherra embættismönnum menntamálaráðuneytisins ásamt Ólafi H. Jóhannssyni, endurmenntunarstjóra Kennaraháskóla Íslands, að undirbúa drög að frumvarpi. Fyrstu hugmyndir ráðuneytisins um frumvarp til laga um Kennara- og uppeldisháskóla voru kynntar forsvarsmönnum áðurgreindra stofnana á fundi í mars 1996. Eftir að ráðuneytið hafði unnið frumvarp að lögum um háskóla var vinnu við frumvarp þetta haldið áfram og þá höfð hliðsjón af þeim hugmyndum sem frumvarp til laga um háskóla byggjast á. Nýjum lögum um háskóla er ætlað að mynda ramma utan um háskólastigið. Í frumvarpi að þeim lögum er sett fram sú regla að hver ríkisháskóli skuli lúta stjórn samkvæmt sérstökum lögum og að sérreglur geti gilt um ákveðna þætti í starfsemi einstakra háskóla. Að því leyti er frumvarpi þessu ætlað að vera háskólalögunum til fyllingar. Um starfsemi Kennara- og uppeldisháskóla Íslands munu því gilda lög um háskóla ásamt sérreglum þeim um stofnunina sem kveðið er á um í frumvarpi þessu.
    Færa má margvísleg rök fyrir því að sameina áðurnefndar stofnanir í einn háskóla. Rökin eru einkum af tvennum toga, annars vegar menntapólitísk rök og hins vegar hagkvæmnisrök og vega þau fyrrgreindu þyngra. Eftirfarandi rök skulu tilgreind hér:
     Menntun kennara og annarra uppeldis- og umönnunarstétta á margt sameiginlegt sem auðveldara er að efla og samhæfa undir einni yfirstjórn. Gildir það bæði um grunn menntun þeirra, endurmenntun og framhaldsnám.
     Með sameiningunni færist menntun allra þessara stétta ótvírætt á háskólastig og verður því í auknum mæli tengd rannsóknum sem leiða á til betri og markvissari starfsmenntunar en ella.
     Gera má ráð fyrir að rannsóknum á sviði uppeldis og skólastarfs vaxi fiskur um hrygg við þessa breytingu og á því er full þörf.
     Þær stofnanir, sem ekki eru á háskólastigi, eru allt of smáar til að raunsætt sé að ætla að þær geti öðlast fullgildan sess sem háskólastofnanir af eigin rammleik.
     Betri nýting fæst á fjármunum, húsnæði og hvers kyns búnaði.

II.

     1.      Í frumvarpinu er eftirfarandi lagt til grundvallar: Með lögum þessum verður sameinuð starfsemi fjögurra ríkisstofnana: Kennaraháskóla Íslands, Fósturskóla Íslands, Íþrótta kennaraskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands í eina háskólastofnun sem hefur skýra lagalega stöðu. Af þessum stofnunum hefur Kennaraháskóli Íslands verið eina háskólastofnunin, hinir skólarnir þrír hafa verið á „gráu svæði“ milli framhaldsskóla og háskóla þar sem stúdentspróf hefur í reynd verið inntökuskilyrði.
     2.      Lög þessi ásamt háskólalögunum eiga að mynda ramma um starfsemi stofnunarinnar sem gerir henni kleift að þróast og móta starfsemi sína og starfshætti án þess að til þurfi að koma lagasetningar í hvert sinn. Stofnuninni og stjórn hennar verður fengið sjálfdæmi um flest innan þeirra marka sem lög þessi og háskólalögin munu setja verði frumvörpin að lögum. Þetta felur m.a. í sér að 1. gr. frumvarpsins er almennt orðuð, skólinn ákvarðar sjálfur deildaskiptingu og aðrar stjórnunareiningar, rektor ræður alla kennara, þar með talda prófessora, ekki eru í lögunum tilgreind einstök störf og starfs heiti innan stjórnsýslu háskólans, svo sem kennslustjóri, endurmenntunarstjóri og fjár málastjóri, heldur er gert ráð fyrir að ráðið verði í þau störf sem talin er þörf á og falla innan þess fjárhagsramma er stofnunin starfar eftir. Í tengslum við aukið sjálfstæði um innri málefni kemur ákvæði um utanaðkomandi fulltrúa í háskólaráð og er það í samræmi við háskólafrumvarpið.
     3.      Ekki er í frumvarpinu nákvæmlega skilgreint hvaða nám skuli vera í boði innan Kennara- og uppeldisháskólans (kennaranám fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla, þroska þjálfanám, íþróttafræði o.s.frv.) heldur er gert ráð fyrir að nánari fyrirmæli um námið sem í boði er verði sett í reglugerð. Í því sambandi er þó rétt að benda á að ljóst er að verði frumvarpið að lögum tekur Kennara- og uppeldisháskóli Íslands við lögboðnum skyldum þeirra skóla sem sameinaðir verða. Ekki er í frumvarpinu tiltekið hvar háskólinn verður til húsa. Ljóst er þó að höfuðstöðvarnar verða í húsnæði Kennara háskóla Íslands á Rauðarárholti, en einnig er til ráðstöfunar húsnæði Íþróttakennara skóla Íslands að Laugarvatni, húsnæði Fósturskóla Íslands við Laugalæk, húsnæði Þroskaþjálfaskóla Íslands við Skipholt og menntasetur Kennaraháskóla Íslands að Varmalandi í Borgarfirði. Þá er einnig rétt að vekja á því athygli að líklegt er að nemendur muni í auknum mæli fyrir tilstilli upplýsingatækninnar geta stundað nám þar sem þeir búa.
     4.      Ekki er tilgreint í lögunum hvernig deildarskipan skólans skuli vera. Lengd náms verður ákvarðað í námskrá og mun það taka mið af skilgreindum þörfum með hliðsjón af því námi sem er í boði.
     5.      Í frumvarpi að lögum um háskóla er skýrt afmarkað hverjir fara með formleg völd og ábyrgð í háskólum.
     6.      Í frumvarpi að lögum um háskóla er nákvæmlega tilgreint hvernig fjárveitingar til háskóla skulu ákvarðaðar.
    Enda þótt Kennara- og uppeldisháskóli Íslands verði miðstöð fyrir menntun kennara og annarra uppeldis- og umönnunarstétta er með frumvarpi þessu ekki verið að setja alla slíka menntunarkosti undir einn hatt. Áfram verður í boði menntun leik-, og grunnskólakennara við Háskólann á Akureyri og kennaramenntun fyrir framhaldsskóla við Háskóla Íslands. Þá er gert ráð fyrir að menntun listgreinakennara verði í boði að einhverju eða öllu leyti við fyrirhugaðan listaháskóla. Tíminn verður að leiða í ljós hvort ástæða þykir til að skipa þessum málum með öðrum hætti, en frumvarp þetta, sem og háskólafrumvarpið, gerir það tiltölulega auðvelt í framkvæmd.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er hlutverk eða markmið háskólans almennt orðað og er í svipuðum anda og gildir t.d. um Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Með þessari framsetningu er ekki um of að því þrengt hvaða starfsstéttir skulu hljóta menntun innan skólans. Greinin tekur einnig mið af 2. gr. frumvarps til laga um háskóla. Hér er sérstaklega tekið fram að háskólinn er rannsóknarskóli.

Um 2. gr.

    Í greininni eru talin upp starfsheiti kennara skólans. Gert er ráð fyrir að háskólaráð setji almennar reglur um hvernig starfsskyldur kennara skiptast á einstaka þætti (kennsla, rann sóknir, þjónusta og stjórnun) og geti einnig hlutast til um aðra skiptingu vegna einstakra kennara. Starfsskylda háskólakennara er nú um það bil 50% kennsla, 40% rannsóknir og 10% stjórnun. Hugmyndir hafa komið fram um að binda ákveðið lágmark af starfi kennara við rannsóknir en skapa meiri sveigjanleika en nú er með öflugum rannsóknarsjóði, sbr. nefndarálit um eflingu uppeldis- og kennaramenntunar frá mars 1995, bls. 26–27. Tillagan um aðjúnkta er liður í að skapa meiri sveigjanleika. Háskólaráð getur eitt tekið ákvörðun um að stofna nýja kennarastöðu. Að öðru leyti skýrir greinin sig sjálf.

Um 3. gr.

    Lagt er til í samræmi við ákvæði frumvarps til laga um háskóla og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að forstöðumaður stofnunarinnar annist sjálfur ráðningu allra kennara. Þetta er í samræmi við sjónarmið um aukið sjálfstæði háskólastofnana og þar með aukna ábyrgð. Hér er einnig lagt til að rektor skipi dómnefnd eftir tilnefningu háskólaráðs og menntamálaráðherra til tveggja ára í senn til þess að dæma um hæfi umsækjenda um prófessorsstöður og lektors- og dósentsstöður. Dómnefndin á að meta allar umsóknir um nýráðningar í stöður sem og framgang, sbr. 7. mgr., á skipunartíma sínum en í hverju tilviki á hún að njóta leiðsagnar ráðgjafa er rektor tilnefnir eftir ábendingu frá viðkomandi deild. Þannig er tryggt að dómnefndarkerfið sé skilvirkt og einfalt en jafnframt sé í hverju tilviki hægt að meta hæfni umsækjenda út frá reynslu og þekkingu þeirra er starfa á viðkomandi fræðasviði. Gert er ráð fyrir að kennarar skólans geti flust úr lektorsstöðu í dósentsstöðu og úr dósentsstöðu í prófessorsstöðu eftir ákveðnum reglum er háskólaráð setur. Jafnframt er hér lagt til að háskólaráð setji reglur um ráðningu sérfræðinga á sviði rannsókna og annarra fræðistarfa. Önnur ákvæði þessarar greinar eru að mestu samhljóða þeim sem nú eru í gildi fyrir háskólana og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 4. gr.

    Samkvæmt frumvarpi til laga um háskóla geta háskólar ákveðið sérstök inntökuskilyrði til viðbótar þeim almennu sem eru stúdentspróf eða sambærileg menntun. Hér er lagt til að háskólaráð setji nánari reglur um inntökuskilyrði eftir tillögum deildarráða. Þannig geta inntökuskilyrði verið mismunandi eftir deildum. Hér er þó gert ráð fyrir að háskólaráð hafi síðasta orðið. Rétt er að minna á að samkvæmt frumvarpi til laga um háskóla er gert ráð fyrir að háskólaráð eigi að samþykkja fjárhagsáætlun allra deilda skólans og skólans í heild og síðan að semja við menntamálaráðherra um fjárveitingar til skólans á grundvelli langtíma áætlunar. Þannig hefur menntamálaráðherra tök á því að hafa áhrif á menntastefnu skólans og þar á meðal hefur ráðherra í raun síðasta orðið um upphæð skólagjalda og fjölda nemenda í hverri deild. Ákvæði þessarar greinar um skrásetningargjald er sambærilegt öðrum slíkum lagaákvæðum, svo sem ákvæði um efnisgjald í framhaldsskólalögum og ákvæði um skrásetn ingargjald í lögum um Háskóla Íslands.

Um 5. gr.

    Hér er kveðið á um skipan háskólaráðs. Greinin er í samræmi við IV. kafla frumvarps til laga um háskóla. Lagt er til að háskólaráð verði ekki fjölmennara en nauðsynlegt má teljast eða að níu fulltrúar skipi ráðið. Fjórir verði kjörnir fulltrúar fastráðinna kennara. Nemendur kjósi tvo fulltrúa og er gert ráð fyrir því að nemendafélag skólans setji sér sérstakar reglur um kjör þeirra. Lagt er til að menntamálaráðherra skipi tvo fulltrúa í ráðið. Rökin fyrir því að utanaðkomandi aðilar eigi sæti í æðstu stjórn skólans eru af þrennum toga, það styrkir stofnunina, eflir tengsl hennar við samfélagið og veitir henni aukið aðhald. Samkvæmt frum varpi til laga um háskóla eru stjórnendur deilda ekki kjörgengir í ráðið og gildir sú regla um háskólann.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 7. gr.

    Verksvið og ábyrgð rektors er skýrt afmarkað í frumvarpi til laga um háskóla. Einnig er þar að finna skýrar reglur um skipan rektors. Menntamálaráðherra skipar rektor eftir tilnefningu háskólaráðs. Hér er lagt til að háskólaráð setji nánari fyrirmæli um hvernig staðið skuli að tilnefningu rektors. Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 8. gr.

    Hér er lagt til að háskólaráð taki ákvörðun um deildarskipan skólans og aðrar stjórn unareiningar. Þessi tillaga er í fullu samræmi við háskólalagafrumvarpið sem m.a. er ætlað að tryggja aukið sjálfstæði háskólana. Þessi tilhögun felur ekki í sér að stofnunin hafi sjálf dæmi um að ákvarða hvaða menntun er í boði eða hvaða starfsstéttum stofnunin veitir menntun heldur tengist ákvörðun þar að lútandi samningi við stjórnvöld um fjármögnun stofnunarinnar.
    Í greininni er kveðið á um að deildarfundir og deildarráð stjórni málefnum hverrar deildar og að deildarforseti fari með framkvæmdarvald deildarráðs. Háskólaráð setur reglur um hvernig deildarráð skuli skipað, hvernig deildarforseti er valinn og hvert skuli vera vald- og verksvið deildarfunda. Hliðstætt gildir um aðrar stjórnunareiningar sem háskólaráð telur nauðsynlegt að afmarka sérstaklega. Þeir starfsmenn eða stofnanir, sem ekki lúta sérstakri stjórn, heyra beint undir rektor. Þetta ákvæði breytir engu um það að rektor hefur ráðningar vald yfir öllum starfsmönnum skólans, sbr. frumvarp til laga um háskóla.

Um 9. gr.

    Þessi grein kveður á um skyldur skólans til að gefa út náms- og kennsluskrá fyrir það nám sem í boði er. Háskólaráði ber að staðfesta námskrár, en í þeim er að finna hina opinberu stefnumörkun skólans um það nám sem í boði er. Námskrár gefa því aðilum utan skólans færi á að koma á framfæri tillögum um skipan námsins eða gera athugasemdir við einstaka þætti þess. Einnig má líta á þær sem hluta af upplýsingaskyldu stofnunarinnar til stjórnvalda, hags munaaðila og almennings. Kennsluskrár eru nánari útfærsla á ákvæðum námskrár um tilhögun náms. Háskólaráð ber einnig að staðfesta kennsluskrá og er það í samræmi við ákvæði háskólalagafrumvarpsins.

Um 10. gr.

    Hér er lagt til að sett verði heimildarákvæði um að háskólinn geti sett á laggirnar rann sóknarstofnun sem hafi umsjón með rannsóknum og útgáfustarfsemi og annist einnig ráðgjöf um skipulagningu og framkvæmd rannsókna. Slíkt almennt ákvæði er ekki að finna í háskóla lagafrumvarpinu. Greininni er einnig ætlað að leggja áherslu á mikilvægi rannsókna sem órjúfanlegs hluta af starfsemi háskólans, sbr. 1. gr. frumvarpsins um hlutverk háskólans.

Um 11. gr.

    Hér er lagt til, í samræmi við meginmarkmið frumvarpsins, að eignir hinna fjögurra menntastofnana renni til Kennara- og uppeldisháskólans.

Um 12. og 13. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 14. gr.

    Hér er lagt til að lögin öðlist gildi þann 1. janúar 1998, eða sama dag og háskólalögunum er ætlað að taka gildi, með þeirri undantekningu sem bráðabirgðaákvæðið felur í sér. Þannig haldast í hendur aðlögunarákvæði beggja laganna, þ.e. lagt er til að lögin verði komin til fullra framkvæmda innan tveggja ára frá gildistökudegi að telja.

Um 15. gr.

    Greinin staðfestir að háskólinn yfirtekur starfsemi fjögurra menntastofnana. Því falla úr gildi ákvæði laga um þær menntastofnanir sem þessi leysir af hólmi.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í ákvæði til bráðabirgða er fjallað um réttindi nemenda og starfsmanna og stjórnskipulag hinnar nýju stofnunar. Þar er m.a. annars kveðið á um að nemendur eigi rétt á að ljúka námi og prófum samkvæmt gildandi námsskipulagi skólanna við gildistöku laganna og er þessu ákvæði ætlað að koma í veg fyrir að samhliða því að ný stofnun rís af grunni og aðrar lagðar niður rofni námsferill þeirra nemenda sem þá stunda þar nám.
    Hvað störf við Fósturskóla Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands varðar þá eru þau ýmist lögð niður í skilningi laga nr. 70/1996 eða að þau flytjast til hinnar nýju stofnunar.
    Þau störf sem lögð eru niður 1. janúar 1998 eru annars vegar störf skólastjóra Fósturskóla Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands, enda er gert ráð fyrir að rektor Kennaraháskóla Íslands verði rektor hins nýja skóla þar til nýr rektor hefur verið skipaður. Hins vegar eru störf skipaðra og fastráðinna kennara við Fósturskóla Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands sem ekki uppfylla starfsskilyrði samkvæmt lögum um háskóla. Þó er heimilt að fresta niðurlagningu þessara starfa til 31. júlí 1999, m.a. til þess að gefa þessum starfsmönnum svigrúm til að afla sér frekari menntunar. Þetta er gert til þess að framhaldsskólakennarar færist ekki á háskólastig nema þeir hafi til þess hæfni. Sé heimild til frestunar á niðurlagningu starfa nýtt teljast starfsmenn vera starfs menn Kennara- og uppeldisháskóla Íslands frá og með 1. janúar 1998 en halda þeim réttindum sem núverandi starfi fylgja.
    Önnur störf í skólunum fjórum flytjast til hinnar nýju stofnunar og skiptast þau einkum í þrennt, störf skipaðra og fastráðinna kennara við Fósturskóla Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands sem uppfylla starfsskilyrði samkvæmt lögum um há skóla, störf prófessora, dósenta og lektora við Kennaraháskóla Íslands enda hafa þeir hlotið hæfnisdóm til að starfa á háskólastigi og störf þeirra starfsmanna skólanna sem gegna ýmsum þjónustustörfum.
    Gert er ráð fyrir að lögin verði að fullu komin til framkvæmda 31. júlí 1999 og er stjórn skipulag stofnunarinnar markað fyrir þetta tímabil. Er gert ráð fyrir að menntamálaráðherra skipi samkvæmt tilnefningum níu manna háskólaráð sem sitji þetta tímabil undir forustu rektors. Með þessu er verið að tryggja markvissa stjórn stofnunarinnar á aðlögunartímabilinu og tryggja að sjónarmið hagsmunaaðila kom fram.Fylgiskjal I.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um Kennara- og uppeldisháskóla Íslands.

    Tilgangur frumvarpsins er að sameina í eina háskólastofnun Fósturskóla Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands. Með því er talið auðveldara að efla og samhæfa menntun kennara og annarra uppeldis- og umönnunarstétta og tengja hana betur rannsóknum auk þess sem gefst betri kostur á hagkvæmari rekstri.
    Helstu breytingar sem kunna að hafa áhrif á kostnað fara hér á eftir.
    Í 1. gr. er hlutverk háskólans skilgreint og tekið fram að hann er rannsóknarstofnun. Í 2. gr. er gert ráð fyrir að fastir kennarar hafi kennslu og rannsóknir að aðalstarfi. Frumvarpið felur í sér breytingu á hlutverki annarra skóla sem hlut eiga að máli en Kennaraháskólans. Launa kjör kennara, skipting vinnutíma og mat á vinnu kennara hafa að hluta til verið mismunandi milli skólanna. Mestu munar á vinnuskyldu kennara við rannsóknir og stjórnun. Verði hún samræmd að fullu milli skólanna gæti kostnaður aukist um 8–12 m.kr. á ári. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að hugmyndir hafa komið fram um að breyta skiptingu vinnutíma fastra kennara þannig að rannsóknarskylda hvers kennara verði minnkuð en jafnframt verði rannsóknarsjóður efldur. Slík tilhögun gæti verið liður í því að nýta betur þann tíma sem varið er til rannsókna og gera þær markvissari.
    Í 3. gr. er gert ráð fyrir að rektor ráði kennara skólans. Einnig er lagt til að dómnefnd meti umsækjendur um stöður prófessora, dósenta og lektora og á ákvæðið sér hliðstæðu í lögum um Kennaraháskóla Íslands. Í hinum skólunum sem frumvarpið tekur til hafa stjórnendur og stjórnir skólanna metið umsækjendur og annast ráðningar. Því mun breytt fyrirkomulag vænt anlega hafa óveruleg áhrif á kostnað.
    Í 4. gr. er heimild til að innheimta skrásetningargjald sem tekur mið af kostnaði vegna innritunar, kennsluefnis og pappírsvara sem skólinn lætur nemendum í té og nauðsynleg er vegna starfsemi skólans. Miðað er við að gjaldið sé að hámarki 25 þús. kr. á nemanda. Aðrir skólar en Kennaraháskólinn sem frumvarpið tekur til hafa tekið töluvert lægra gjald af nemendum sínum. Ekki liggja fyrir upplýsingar um kostnað við innritun og gögn sem skólarnir láta nemendum í té. Innheimta hámarksgjalds mun auka tekjur skólans um 4–6 m.kr. á ári.
    Í 5. gr. er gert ráð fyrir níu manna háskólaráði. Leysir það af hólmi 13 manna skólaráð Kennaraháskóla Íslands, þriggja manna skólanefnd og fimm manna skólaráð í Fósturskóla Íslands, fimm manna skólanefnd og sex manna skólaráð Íþróttakennaraskóla Íslands og fimm manna skólastjórn Þroskaþjálfaskóla Íslands. Þóknun til nefndarmanna hefur verið tiltölulega lág og er ekki gert ráð fyrir verulegum breytingum á kostnaði við þann þátt, en gera má ráð fyrir að tími stjórnenda nýtist á annan hátt.
    Í 10. gr. er heimild handa hinum nýja háskóla til að setja á stofn rannsóknarstofnun og til að stofna sérstaka rannsóknarsjóði. Kennaraháskólinn rekur nú þegar rannsóknarstofnun þótt ekki sé kveðið á um hana í lögum og fær á fjárlögum framlag í rannsóknarsjóð. Því er ekki gert ráð fyrir frumvarpið leiði til aukins kostnaðar hvað þetta varðar.
    Í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir að rektor Kennaraháskóla Íslands verði rektor hins nýja skóla en stöður skólastjóra Íþróttakennaraskóla Íslands, Fósturskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands verði lagðar niður frá og með 1. janúar 1998. Gert er ráð fyrir að allir starfsmenn Kennaraháskóla Íslands, fastir kennara hinna skólanna sem uppfylla starfs skilyrði samkvæmt lögum um háskóla og starfsmenn sem eru í almennum störfum í skólunum verði starfsmenn hins nýja skóla. Störf skipaðra og fastráðinna kennara við Fósturskóla, Íþróttakennaraskóla og Þroskaþjálfaskóla sem ekki uppfylla starfsskilyrði samkvæmt lögum um háskóla skulu lögð niður 1. janúar 1998, en þó er heimilt að fresta niðurlagningu starfanna til 31. júlí 1999. Hluti fastra kennara þessara skóla hafa þegar aflað sér tilskilinna réttinda eða stefna að því að afla þeirra. Samkvæmt upplýsingum sem menntamálaráðuneytið hefur aflað er þó talið að 12 fastir kennarar geti átt rétt á biðlaunum auk skólastjóranna þriggja. Biðlaunakostnaður er áætlaður 9–15 m.kr.
    Áætlað er að undirbúningur fyrir sameiningu framangreindra skóla leiði til nokkurs kostnaðar sem gæti verið á bilinu 3–5 m.kr. en í framtíðinni á rekstur eins skóla í stað fjögurra að leiða til hagræðingar. Í því sambandi má nefna samkennslu ákveðinna greina og hag kvæmari rekstur stoðþjónustu , svo sem yfirstjórnar, fjármálastjórnar, bókasafns, gagna smiðju, tölvukerfa og húsakosts. Ekki er unnt að meta væntanlega kostnaðarlækkun af ná kvæmni, en hún gæti orðið yfir 10 m.kr. á ári þegar fram líða stundir. Þessi hagræðing skapar svigrúm til að efla aðra þætti rekstrarins, svo sem rannsóknir.
    Í frumvarpinu er ekki tilgreint hvar skólinn verður til húsa en ljóst er þó að höfuðstöðvarnar verða í húsnæði Kennaraháskóla Íslands á Rauðarárholti. Gera má ráð fyrir að í kjölfar sameiningar á skólunum aukist áhugi á að sameina rekstur þeirra á einum stað. Ekki eru forsendur til að meta kostnað þessu samfara, en hann gæti orðið töluverður.
    Niðurstaða þessa kostnaðarmats er sú að breyting á vinnuskyldu kennara vegna aukinna rannsókna og stjórnunar gæti aukið kostnað um 8–12 m.kr. á ári. Á móti ættu innritunargjöld að auka tekjur um 4–6 m.kr. á ári og aukin samkennsla og hagkvæmari rekstur stoðþjónustu lækka kostnað um 10 m.kr. á ári að lágmarki. Biðlaunakostnaður er áætlaður 9–15 m.kr. og undirbúningskostnaður 3–5 m.kr.