Ferill 228. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 260 – 228. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir.



1. gr.

    Á eftir g-lið 1. mgr. 36. gr. laganna kemur nýr stafliður, svohljóðandi: Sérfræðiþjónusta barna og unglinga á sviði sálfræði og félagsráðgjafar skv. 37. gr. a.

2. gr.


    Á eftir 37. gr. laganna kemur ný grein, 37. gr. a, svohljóðandi:
    Fyrir sérfræðiþjónustu barna og unglinga, 18 ára og yngri, á sviði sálfræði og félagsráð gjafar sem veitt er utan sjúkrastofnana og skólakerfis greiða sjúkratryggingar samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur að fengnum tillögum tryggingaráðs. Gjaldskráin gildir bæði um sérfræðiþjónustu sem veitt er af hinu opinbera og öðrum. Í stað gjaldskrár ráðherra er Trygg ingastofnun þó heimilt að semja um gjaldskrá er gildi um þjónustuna.
    Sérfræðiþjónusta barna og unglinga utan sjúkrastofnana og skólakerfis á sviði sálfræði og félagsráðgjafar er því aðeins greidd að fyrir liggi sérstök umsókn frá heilsugæslulækni eða sérfræðingi á sviði sálfræði eða félagsráðgjafar sem starfar innan skólakerfisins.
    Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um framkvæmd sérfræðiþjónustunnar, meðal annars mæla fyrir um hverjir eigi rétt á henni og hverjir veiti hana.
    Reikningi fyrir sérfræðiþjónustu skal framvísað á reikningsformi sem Tryggingastofnun ákveður.
    

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp sama efnis var lagt fram á 121. löggjafarþingi en fékkst ekki afgreitt frá heil brigðis- og trygginganefnd. Nefndinni barst fjöldi umsagna og er frumvarpið lagt fram með nokkrum breytingum sem gerðar voru með hliðsjón af ábendingum sem þar komu fram.
    Með frumvarpinu er lögð til sú breyting á löggjöf um almannatryggingar að sérfræðiþjón usta fyrir börn og ungmenni utan sjúkrastofnana og skólakerfisins á sviði sálfræði og félags ráðgjafar verði að hluta greidd úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Gert skal ráð fyrir því að þiggjendur þjónustunnar greiði ákveðinn hluta þjónustunnar, t.d. fasta upphæð fyrir hvert viðtal. Hér er einungis átt við viðurkennda sérfræðiþjónustu. Gert er ráð fyrir að einungis verði greitt fyrir þjónustu réttindafólks á sviði félagsráðgjafar og sálfræði, sbr. lög nr. 40/1976 og lög nr. 95/1990. Einnig verður að gera þá kröfu að einungis verði greitt fyrir þjónustu þeirra sem hafa ákveðna lágmarksreynslu á þessu sviði og má þá m.a. horfa til reglna um veitingu sérfræðileyfa í sálfræði og setja skilyrði um framhaldsmenntun.
    Ýmislegt bendir til þess að vaxandi þörf sé fyrir þessa sérfræðiþjónustu fyrir börn og ung menni. Þessi þjónusta er og á að vera fastur liður í starfsemi skólanna. Börn og ungmenni, sem dvelja á sjúkrastofnunum, geta átt kost á sérfræðiþjónustu án þess að þurfa að greiða fyrir hana. Hins vegar skortir mikið á að nægjanlegur fjöldi sérfræðinga á sviði sálfræði- og félagsráðgjafar starfi á heilbrigðisstofnunum svo hægt sé að sinna þessari þjónustu eins og þyrfti. Við breytingu á grunnskólalögum var dregið verulega úr þessari sérfræðiþjónustu innan skólanna. Hlutverk starfandi sérfræðinga á sviði sálfræði og félagsráðgjafar við skóla er nú að mestu leyti greiningarstarf en börnum er síðan vísað annað til meðferðar og því er staðreynd að fjöldi barna og ungmenna þarf á þessari sérfræðiþjónustu að halda utan skóla og sjúkrastofnana. Komið hafa fram ábendingar frá skólaskrifstofum víða um land um að við breytingu sem gerð var á grunnskólalögunum sé ekki lengur gert ráð fyrir að veita meðferð arþjónustu innan skólakerfisins. Með þessu er verið að færa þjónustuna út fyrir skólakerfið og kostnaðinn yfir á foreldra. Þá er einnig ljóst að á landsbyggðinni er þjónusta sálfræðinga og félagsráðgjafa ekki til staðar utan skólakerfisins eða sjúkrastofnana nema í undantekn ingartilvikum. Kostnaðurinn sem leggst á fjölskyldu vegna þessarar þjónustu getur því verið mjög mikill, þegar við bætist ferðakostnaður. Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna hefur ítrekað bent á nauðsyn þess að börnum, sem lengi hafa átt við erfiða líkamlega sjúkdóma að stríða, standi til boða sérfræðiþjónusta sem greidd verði að fullu eða að hluta úr sameigin legum sjóðum landsmanna. Félagið hefur einnig bent á að ekki aðeins barnið eða unglingur inn, sem hefur átt við alvarleg veikindi að stríða, þurfi á sérfræðiþjónustu að halda heldur einnig og ekki síður fjölskylda barnsins. Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna hefur ráðið sálfræðing til þess að sinna þessari þjónustu og margar fjölskyldur krabbameinsveikra barna nýta sér hana. Félagið hefur þannig reynt að bregðast við vanda þessara fjölskyldna. Til lengri tíma litið getur félagið þó ekki staðið alfarið undir þjónustunni, enda verður ekki séð að þjóðfélagið geti velt þessu verkefni yfir á félagasamtök.
    Börn og ungmenni, sem hafa mátt þola hvers konar ofbeldi, þurfa oft um langan tíma á þjónustu sérfræðinga að halda, sem og þau börn og ungmenni sem hafa leiðst út í neyslu fíkniefna. Fleiri ástæður mætti að sjálfsögðu nefna, þörfin fyrir sérfræðiþjónustu við börn og ungmenni eykst stöðugt.
    Í reglugerð skv. 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins skal eins og unnt er skilgreina þá sem rétt skulu eiga á þessari þjónustu. Einnig skal í reglugerðinni kveða á um hvernig staðið verði að umsóknum um þjónustuna. Þjónusta sálfræðinga og/eða félagsráðgjafa utan skóla eða heilbrigðisstofnana skal aðeins greidd af Tryggingastofnun ríkisins ef sjúklingur framvísar sérstakri umsókn heilsugæslulæknis eða sérfræðings á sviði sálfræði eða félagsráðgjafar sem starfar innan skólakerfisins.
    Sveitarfélög hafa í ákveðnum tilvikum tekið þátt í kostnaði vegna sérfræðiþjónustu sálfræðinga og félagsráðgjafa fyrir börn og ungmenni en fá sveitarfélög veita fullkomna þjónustu að þessu leyti. Mjög margar fjölskyldur búa við svo bágan efnahag að þær geta ekki mætt kostnaðinum sem fylgir því að fjölskyldumeðlimur þurfi í lengri eða skemmri tíma að nýta sér þjónustu sálfræðinga og félagsráðgjafa. Við slíkt verður ekki unað, sérstaklega ekki þegar um er að ræða börn eða ungmenni, og því er þetta frumvarp flutt.