Ferill 168. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 273 – 168. mál.Svarsjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um rannsóknir á lífríki sjávar.

    Undanfarin missiri hafa sjónir manna í auknum mæli beinst að umgengni um hafið og auðlindir þess, en óþarft ætti að vera að minna á mikilvægi góðrar umgengni um hafið fyrir Íslendinga. Markviss og ábyrg stjórnun fiskveiða er mikilvægur þáttur góðrar umgengni um auðlindir hafsins, og höfum við náð verulegum árangri á því sviði. Þó er nauðsynlegt að líta til fleiri þátta er varða lifandi auðlindir hafsins, t.d. má nefna veiðarfæri og útbúnað þeirra og hvernig megi auka kjörhæfni þeirra og draga úr hugsanlegum skaða sem þau geta valdið á sjávarbotni.
    Á sviði sjávarútvegsins hefur ýmislegt verið gert undanfarið til að bæta umgengni um auðlindir sjávar. Að störfum er nefnd hagsmunaaðila og stjórnvalda sem fjallar um umgengn ismál, og vann m.a. að undirbúningi að lögum um umgengni um nytjastofna sjávar sem sam þykkt voru 3. júní 1996. Enn fremur má nefna aukna áherslu Hafrannsóknastofnunarinnar á rannsóknir á veiðarfærum og kjörhæfni þeirra. Rannsóknir af þessu tagi eru dýrar og tíma frekar og því nauðsynlegt að afla frekara fjár til þeirra. Samhliða breytingum á skipulagi fjármálastofnana var því ákveðið að eignum Styrktar- og lánasjóðs fiskiskipa og Fram kvæmdasjóðs, sem verið hafa í vörslu Fiskveiðasjóðs, skyldi varið til rannsókna á kjörhæfni veiðarfæra og áhrifum þeirra á lífríki sjávar. Um er að ræða rúmar 19 millj. kr. Verður unnið samkvæmt sérstakri verkefnaáætlun Hafrannsóknastofnunarinnar.
    Ráðuneytið leitaði álits Hafrannsóknastofnunarinnar varðandi fyrirspurnina og eru með fylgjandi svör byggð á því áliti.

1.      Hafa farið fram rannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar eða annarra aðila sem miða að því að kanna skaðleg áhrif veiðarfæra á lífríki sjávar? Ef svo er, hvenær hófust þær rannsóknir, hversu víðtækar eru þær og hver er árlegur kostnaður af þeim?
    Rannsóknir er lúta beint að áhrifum veiðarfæra á lífríki sjávar hafa einungis verið unnar á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar. Í öllum tilvikum hafa þær verið takmarkaðar við lítil hafsvæði.
    Neðansjávarmyndatökur af togveiðarfærum í drætti hófust um 1985. Þessar rannsóknir hafa m.a. stuðlað að bættri gerð veiðarfæra, minni ánetjun og því betri meðferð aflans.
    Tilraunir með leggpoka (ferkantaðir möskvar) í rækjuvörpum hófust 1988. Niðurstöður leiddu fljótlega í ljós að einungis veiddust 50% af undirmálsrækju (1–3 ára) miðað við hvað veiddist í svokallaða síðupoka (tígullaga möskvar) sem fram að því höfðu verið notaðir. Þá dró leggpokinn um 50% úr veiði þorskseiða á fyrsta aldursári og talsvert minna veiddist einnig af ýsu- og karfaseiðum. Sömuleiðis slapp nánast öll eins árs og mikið af tveggja ára smásíld í gegnum leggpokariðilinn og jafnframt eins árs loðna. Núna er skylt að nota leggpoka við veiðar á innfjarðarrækju á svæðinu frá Bjargtöngum að Rauðunúpum og við úthafsrækju veiðar milli 14° og 18° V.
    Athuganir með seiðaskiljur (smáfiskaskiljur) hófust árið 1992. Seiðaskiljan var tekin í notkun við úthafsrækjuveiðar árið 1995 og er nú skylt að nota hana á öllum úthafsrækjusvæðum auk Breiðafjarðar og Eldeyjarsvæðis. Smáfiskaskiljunni er beitt til þess að draga úr veiði undirmálsfisks en hún kemur ekki í veg fyrir veiðar á smáum seiðum eins og leggpokinn.
    Árið 1992 hófust rannsóknir með leggglugga (netstykki þar sem möskvar haldast betur opnir) í belg togveiðarfæra. Í kjölfarið var gert að skyldu að nota leggglugga við humarveiðar, sem talið er að hafi dregið um 40% úr veiði smáýsu við þær veiðar.
    Á þessu ári hafa dragnótaveiðar enn fremur verið heimilaðar á vissum svæðum með notkun leggglugga til að draga úr veiðum á smáýsu og sama gildir um veiðar með botnvörpu á tiltekn um svæðum þar sem skylt er að nota smáfiskaskiljur. Reglur um notkun smáfiskaskilja eru þó enn í mótun.
    Af framangreindu má sjá að rannsóknum Hafrannsóknastofnunarinnar hefur í ríkum mæli verið beint að því að gera togveiðarfæri „vistvænni“. Þannig hefur stórlega verið dregið úr veiðum á undirmálsdýrum og/eða ónýtanlegum aukaafla.
    Á árunum 1995–97 hafa verið gerðar fjórar athuganir er tengjast áhrifum veiðarfæra á lífríkið (töflur 1 og 2). Fyrstu tvö árin var árlegur kostnaður 5–6 millj. kr. en á þessu ári hefur stofnunin veitt verulega hærri upphæðir til slíkra rannsókna eða sem samsvarar 16,5 millj. kr. fyrstu sex mánuði ársins.

2.      Hefur verið reynt að meta hugsanlegan skaða sem veiðarfæri hafa valdið á lífríki sjávarbotnsins innan efnahagslögsögunnar og áhrif þess skaða á vistkerfið í heild sinni eða á einstaka nytjastofna? Ef slíkt mat hefur farið fram, hverjar voru niðurstöður þess?
    Litlar rannsóknir hafa verið gerðar á Íslandi hvað varðar áhrif veiðarfæra á lífríki sjávarbotns sérstaklega.
    Við humarveiðar er töluvert af smáum humri hent aftur í sjóinn. Kannað hefur verið hvaða líkur eru á því að humar lifi af slíka meðferð en endanlegar niðurstöður liggja ekki fyrir enn þá. Í sömu könnun var reynt að meta skaðsemi dragnóta- og togveiða fyrir humar og búsvæði hans. Talið er fremur ósennilegt að dragnótaveiðar laski eða drepi humar á botni. Mun líklegra er að toghlerar og jafnvel fótreipi humar- og fiskivarpna skaddi búsvæði humars og valdi einhverjum afföllum.
    Á þessu ári hófust rannsóknir á áhrifum botnvörpuveiða á samfélög botndýra en auk Hafrannsóknastofnunarinnar hafa Lýðveldissjóður og Rannsóknarráð Íslands styrkt verkefn ið. Ætlunin er að kanna hvort botnrask vegna veiða með botnvörpu hafi marktæk áhrif á botnvistkerfi. Rannsóknirnar, sem gerðar eru í Stakksfirði, fara þannig fram að afmörkuð voru átta snið og var togað mörgum sinnum með botnvörpu yfir fjögur þeirra en hin sniðin voru látin vera að öllu leyti óröskuð. Með endurteknum söfnunum verður fylgst með framvindu lífríkis á sniðunum og kannað hvort marktækur munur verði á botndýrum innan sniða sem togað var yfir og þeirra sem látin voru í friði. Þar sem verkefnið er nýhafið eru engar niðurstöður komnar enn þá.
    Rannsóknarverkefnið botndýr á Íslandsmiðum (Bioice) tengist að nokkru marki þessu viðfangsefni en rannsóknirnar eru samvinnuverkefni Hafrannsóknastofnunarinnar, Líffræði stofnunar Háskóla Íslands, umhverfisráðuneytis, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Sjávarút vegsstofnunar Háskóla Íslands og Sandgerðisbæjar. Markmið verkefnisins er að rannsaka hvaða botndýrategundir lifa innan íslenskrar efnahagslögsögu, skrá útbreiðslu þeirra, magn og tengsl við aðrar lífverur sjávar. Þótt gögnin muni ekki nýtast til þess að meta áhrif togveiða á botndýralíf á markvissan hátt verður þó í framtíðinni mögulegt að bera saman botndýralíf á svæðum sem eru undir mismunandi álagi frá togveiðum. Tafla I.


Kostnaður við rannsóknarverkefni er lúta að áhrifum veiðarfæra á lífríki sjávar
og unnin hafa verið á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar árin 1995–97.


Kostnaður (þús. kr.)
Verkefni 1995 1996 janúar–júní 1997
Útkast
1.366 339 435
Bætt kjörhæfni veiðarfæra
2.802 2.002 9.657
Afföll af humri vegna veiða
2.000 2.238 243
Áhrif botnvörpuveiða á samfélög botndýra
671 6.132
Samtals
6.168 5.250 16.467


Tafla II.


Rannsóknarverkefni er lúta að áhrifum veiðarfæra á lífríki sjávar og unnin
hafa verið á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar árin 1995–97.
Markmið rannsókna og verkefnisstjórar.


Verkefni Verkefnisstjórar Markmið rannsókna
Útkast Guðni Þorsteinsson
Ólafur K. Pálsson
Gunnar Stefánsson
Að meta magn útkasts af helstu nytja fiskum.
Bætt kjörhæfni veiðarfæra Guðni Þorsteinsson Að draga úr veiði á smáfiski og öðrum smáum nytjadýrum sjávar.
Afföll af humri vegna veiða Guðni Þorsteinsson Að kanna lífslíkur humars sem hent er útbyrðis eftir að hafa verið veiddur. Enn fremur að kanna skaðleg áhrif dragnóta- og togveiða fyrir humar og búsvæði hans.
Áhrif botnvörpu á samfélög botndýra Stefán Áki Ragnarsson
Sigmar Arnar Steingrímsson
Að kanna hvort botnrask vegna veiða með botnvörpu hafi marktæk áhrif á botnvistkerfi.