Ferill 246. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 291 – 246. mál.
Tillaga til þingsályktunar
um ráðuneyti lífeyris, almannatrygginga og vinnumarkaðsmála.
Flm.: Steingrímur J. Sigfússon.
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna hvort rétt sé að færa saman undir eitt ráðuneyti málefni lífeyrissjóða og lífeyrissparnaðar, almannatrygginga, félagslegrar fram
færslu og vinnumarkaðsmála, a.m.k. það sem lýtur að atvinnuleysisbótum og málefnum at
vinnulausra. Sérstaklega verði hugað að kostum þess og göllum að gera slíka breytingu á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins með hliðsjón af þörfum fyrir samræmingu á þessu sviði.
Greinargerð.
Ljóst er að veruleg skörun er á verksviði ráðuneyta í málum er snerta lífeyristryggingar, almannatryggingar, stuðning við atvinnulausa, framfærslustuðning sveitarfélaga o.fl. Sam
spil þessara þátta við skattkerfið og tekjutenging bótaliða innan og utan skattkerfisins er margþætt og flókið mál. Það er skoðun flutningsmanns að eitt af því sem hefur staðið löngu tímabærri endurskoðun og samræmingu á þessu sviði fyrir þrifum sé óheppileg verkaskipting eða öllu heldur dreifing þessa málaflokks innan Stjórnarráðsins.
Til greina kemur að stofna nýtt ráðuneyti sem tæki við verkefnum á þessu sviði frá fjár
málaráðuneyti, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og félagsmálaráðuneyti eða að færa þessi mál öll saman til eins af ráðuneytunum, t.d. félagsmálaráðuneytisins. Heilbrigðisráðu
neytið er þegar fyrirferðarmikið og ekki er að öllu leyti heppilegt að almannatryggingar séu jafnframt vistaðar þar. Það sama gildir um fjármálaráðuneytið.
Sameining þessa mikilvæga en um leið vandasama málaflokks í eitt ráðuneyti ætti að auð
velda samræmingu löggjafar og stjórnsýslu á þessu sviði en á því er mikil þörf, ekki síst með tilliti til sívaxandi umfangs málaflokksins.