Ferill 249. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 294 – 249. mál.



Frumvarp til laga



um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

    (Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



I. KAFLI


Skyldutrygging, iðgjald og tryggingavernd.


1. gr.

    Lög þessi gilda um alla lífeyrissjóði og samninga um tryggingavernd eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum.
    Með lífeyrissjóði er átt við félag eða stofnun sem veitir viðtöku iðgjaldi til greiðslu lífeyris vegna elli til æviloka, örorku eða andláts samkvæmt nánari ákvæðum í þessum kafla, II. og III. kafla.
    Skyldutrygging lífeyrisréttinda felur í sér skyldu til aðildar að lífeyrissjóði og til greiðslu iðgjalds til lífeyrissjóðs og eftir atvikum til annarra aðila samkvæmt samningi um viðbótar tryggingavernd.
    Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára til 70 ára aldurs.


2. gr.

    Iðgjald til öflunar lífeyrisréttinda skal ákveðið í sérlögum, kjarasamningi, ráðningar samningi eða með öðrum sambærilegum hætti. Lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs skal vera a.m.k.10% af iðgjaldsstofni.
    Um aðild að lífeyrissjóði, greiðslu lífeyrisiðgjalds og skiptingu iðgjaldsins milli launamanns og launagreiðanda fer að öðru leyti eftir þeim kjarasamningi sem ákvarðar lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein, eða sérlögum ef við á. Taki kjarasamningur ekki til viðkomandi starfssviðs eða séu ráðningarbundin starfskjör ekki byggð á kjarasamningi velur viðkomandi sér lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa. Aðild að lífeyrissjóði skal tiltaka í skriflegum ráðningarsamningi.
    Sjóðfélagi er sá sem greitt er fyrir, greiðir eða hefur greitt iðgjald til lífeyrissjóðs og á hjá honum réttindi eins og nánar er fyrir mælt í lögum þessum. Óheimilt er að neita manni um aðild að lífeyrissjóði á grundvelli heilsufars, aldurs, hjúskaparstöðu, fjölskyldustærðar eða kyns.


3. gr.

    Lífeyrisiðgjald skal reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf og þjónustu og skal iðgjaldsstofninn vera hinn sami og gjaldstofn trygginga gjalds, sbr. lög um tryggingagjald. Ökutækjastyrkur, dagpeningar, fæðispeningar og þess háttar greiðslur, sem eru endurgreiðsla á útlögðum kostnaði, teljast þó ekki til iðgjaldsstofns. Iðgjaldshluti launagreiðanda telst sömuleiðis aldrei til iðgjaldsstofnsins.
    Lífeyrisiðgjaldi skal ráðstafa til lágmarkstryggingaverndar, sbr. 4. gr., og eftir atvikum til viðbótartryggingaverndar, sbr. 8.–10. gr.

4. gr.

    Lágmarkstryggingavernd sem lífeyrissjóður veitir miðað við 40 ára inngreiðslutíma iðgjalds skal fela í sér 56% af þeim mánaðarlaunum sem greitt er af í mánaðarlegan ellilífeyri ævilangt frá þeim tíma sem taka hans hefst, þó ekki síðar en frá 70 ára aldri, sbr. 14. gr. og 56% af þeim mánaðarlaunum sem greitt er af í örorkulífeyri á mánuði miðað við full réttindi til framreiknings, sbr. 15. gr. Enn fremur skal lágmarkstryggingavernd fela í sér að jafnað sé milli sjóðfélaga kostnaði vegna makalífeyris skv. 16. gr. og kostnaði vegna barnalífeyris skv. 17. gr.
     Lífeyrissjóður skal, í samræmi við 24. gr. þessara laga, tilgreina það iðgjald sem þarf til að standa undir þeirri lágmarkstryggingavernd sem hann veitir.
    Lífeyrissjóði er heimilt, í samræmi við tryggingafræðilega athugun, að ákveða lágmark tryggingaverndar þannig að iðgjaldi sé varið að hluta til öflunar lífeyrisréttinda í séreign skv. II. kafla og að hluta til öflunar lífeyrisréttinda í sameign skv. III. kafla.

5. gr.

    Sjóðfélagi getur ákveðið að ráðstafa til annars aðila en þess lífeyrissjóðs sem tekur við iðgjaldi vegna hans þeim hluta iðgjalds sem renna skal til séreignar skv. 3. mgr. 4. gr. og þeim hluta iðgjalds sem renna skal til viðbótartryggingaverndar.
    Viðkomandi launagreiðanda eða lífeyrissjóði ber að færa greiðslu samkvæmt ákvörðun sjóðfélaga skv. 1. mgr. til annars aðila án sérstaks kostnaðarauka fyrir sjóðfélagann.
    Tilkynni sjóðfélagi ekki launagreiðanda eða lífeyrissjóði með hæfilegum fyrirvara hvert iðgjald það sem hann getur ráðstafað skv. 1. mgr. skuli renna skal það greiðslufært samkvæmt samþykktum viðkomandi lífeyrissjóðs.
    Lífeyrissjóður sem ákveður lágmarkstryggingavernd á grundvelli 3. mgr. 4. gr. eða aðili sem móttekur iðgjald til séreignarsparnaðar eða viðbótartryggingaverndar skal tryggja að sá hluti rekstrarins sem lýtur að varðveislu og ávöxtun iðgjalds er rétthafar hafa beinan ráð stöfunarrétt yfir skv. 1. mgr. sé fjárhagslega aðskilinn og ekki niðurgreiddur af annarri starfsemi.


6. gr.

    Ríkisskattstjóri skal hafa með höndum eftirlit með því að lífeyrisiðgjald sé greitt vegna hvers manns sem skyldutrygging lífeyrisréttinda nær til. Hafi tryggingaskyldu ekki verið sinnt skal ríkisskattstjóri ákvarða iðgjald samkvæmt því sem nánar segir í þessari grein.
    Lífeyrissjóðum er skylt að tekjuári liðnu að gera ríkisskattstjóra grein fyrir því iðgjaldi sem greitt hefur verið fyrir hvern launamann á því ári. Einnig skulu lífeyrissjóðir veita slíkar upplýsingar um greidd iðgjöld þeirra sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi.
    Launagreiðendum er skylt að tekjuári liðnu að tilgreina á launamiðum eða á annan hátt er ríkisskattstjóri ákveður þá fjárhæð sem iðgjöld hvers launamanns miðuðust við ásamt heildariðgjaldi sem skilað hefur verið til lífeyrissjóðs vegna launamannsins. Þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skulu gera sérstaka grein fyrir þessum atriðum að því er eigin lífeyrisgreiðslur varðar.
    Komi í ljós að iðgjald hefur ekki verið greitt að hluta eða öllu leyti skal ríkisskattstjóra heimilt að ákvarða viðkomandi manni iðgjald. Skal iðgjaldið í þessum tilvikum ákvarðast sem 10% af útsvarsstofni viðkomandi tekjuárs hjá launamanni. Iðgjaldsstofn manns vegna vinnu við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal vera jafnhár fjárhæð skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sbr. 59. gr. þeirra laga. Iðgjald skv. 3. málsl. þessarar málsgreinar skal þó aldrei vera lægra en 120.000 kr. miðað við heilt ár og fullt starf. Þannig ákvarðað iðgjald skal síðan innheimt af innheimtumanni ríkissjóðs eða þeim sem ríkisskattstjóri felur innheimtuna. Innheimt iðgjald skal ásamt dráttarvöxtum að frádregnum kostnaði vegna álagningar og innheimtu renna til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda, sé sjóðsaðild ekki ákvörðuð með öðrum hætti.
    Áður en til aðgerða skv. 4. mgr. er gripið skal ríkisskattstjóri gefa viðkomandi manni kost á að leiðrétta og gera grein fyrir iðgjaldsskilum. Jafnframt skal launamanni gefinn kostur á að upplýsa um aðild sína að lífeyrissjóði. Skal veittur þriggja mánaða frestur í þessu sambandi. Að þeim fresti liðnum skal ríkisskattstjóri úrskurða um iðgjaldsskyldu, þar með talið aðild og iðgjaldsfjárhæð. Tilkynna skal viðkomandi manni um niðurstöðuna.

    Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um framkvæmd þessarar greinar.

7. gr.

    Lífeyrisiðgjald, til lágmarkstryggingaverndar og viðbótartryggingaverndar, skal greitt reglulega í hverjum mánuði, sbr. 2.–4. mgr.
    Iðgjaldagreiðslutímabil skal eigi vera lengra en mánuður og skal gjalddagi vera tíunda næsta mánaðar. Eindagi skal vera eigi síðar en 30 dögum frá því að iðgjald fellur í gjalddaga. Að öðru leyti fer um iðgjaldagreiðslur samkvæmt þeim reglum sem settar eru í samþykktir viðkomandi lífeyrissjóðs eða samkvæmt samningum þeirra aðila sem tilgreindir eru í 8. gr. Réttindi vegna aukaframlaga í lífeyrissjóði umfram reglubundin framlög skulu reiknuð miðað við greiðsludag.
    Launagreiðanda er skylt að halda eftir af launum iðgjaldshluta launþega og standa viðkomandi lífeyrissjóði skil á honum, ásamt iðgjaldshluta sínum. Sams konar skylda hvílir á launagreiðanda að því er varðar innheimtu og skil á iðgjaldi til þeirra aðila sem tilgreindir eru í 8. gr.
    Launagreiðendum og sjálfstæðum atvinnurekendum ber að tilkynna hlutaðeigandi lífeyrissjóðum og aðilum skv. 8. gr. ef þeim ber ekki lengur að standa skil á lífeyrisiðgjaldi þar sem þeir hafa hætt starfsemi eða launþegar þeirra hafa látið af störfum.

8. gr.

    Launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er heimilt að gera samning við þá aðila sem tilgreindir eru í 3. mgr. um tryggingavernd á grundvelli iðgjalda sem þeir hafa beinan ráðstöfunarrétt yfir skv. 1. mgr. 5. gr. Iðgjaldi eða iðgjaldshluta samkvæmt þeim samningi skal verja til öflunar lífeyrisréttinda í séreign skv. II. kafla eða í sameign skv. III. kafla.
    Rétthafa skv. 1. mgr. er óheimilt að framselja, veðsetja eða á annan hátt ráðstafa innstæðu eða réttindum samkvæmt samningi um viðbótartryggingavernd. Ekki verður gerð aðför í réttindum samkvæmt slíkum samningi og enginn skuldheimtumaður í dánarbúi eða þrotabúi hefur rétt til að skerða réttindin á nokkurn hátt.
    Eftirtaldir aðilar hafa heimild til að stunda starfsemi skv. II. kafla og taka við iðgjaldi með samningi um viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum þessum:
1.    Viðskiptabankar og sparisjóðir sem hafa starfsstöð hér á landi, sbr. lög um viðskiptabanka og sparisjóði.
2.     Líftryggingafélög sem hafa starfsstöð hér á landi, sbr. lög um vátryggingastarfsemi.
3.    Verðbréfafyrirtæki sem starfa samkvæmt 8. gr. laga um verðbréfaviðskipti og hafa starfsstöð hér á landi.
4.     Lífeyrissjóðir, enda uppfylli þeir skilyrði 4.–5. gr.

9. gr.

    Í samningi um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað skal koma fram nafn og kennitala greiðanda, mánaðarlegt innlegg og hvaða reglur gilda um útborgun og réttindi að öðru leyti. Allir skilmálar varðandi viðbótartryggingaverndina skulu koma fram í samningn um. Greiðslur samkvæmt samningi skulu hefjast eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að samningur er gerður. Heimilt er að segja upp samningi um viðbótartryggingavernd með sex mánaða fyrirvara. Uppsögnin tekur þó ekki gildi fyrr en hlutaðeigandi samningsaðili hefur tilkynnt viðkomandi lífeyrissjóði um hana. Uppsögn veitir ekki rétt til útborgunar innstæðu eða réttinda, en í reglum um tryggingaverndina er heimilt að kveða svo á um að flytja megi innstæðu eða réttindi á milli þeirra aðila sem tilgreindir eru í 8. gr.
    Á sama hátt og öðrum aðilum, sem tilgreindir eru í 1.–3. tölul. 3. mgr. 8. gr. er lífeyrissjóði sem uppfyllir skilyrði 4.–5. gr. heimilt að taka einungis við iðgjaldi frá tilteknum sjóðfélaga samkvæmt samningi um viðbótartryggingavernd. Sjóðurinn skal þó áður fá staðfesta aðild viðkomandi launamanns að þeim lífeyrissjóði sem veitir móttöku iðgjaldi til lágmarks tryggingaverndar.

10. gr.

    Viðskiptabankar, sparisjóðir, líftryggingafélög, verðbréfafyrirtæki og lífeyrissjóðir, sem óska eftir því að bjóða upp á samninga um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað í samræmi við ákvæði laga þessara, skulu fyrir fram leita eftir staðfestingu fjármálaráðherra á því að reglur sem um tryggingaverndina gilda séu í samræmi við ákvæði laga þessara. Allar breytingar á reglunum skal einnig tilkynna fjármálaráðherra og öðlast þær ekki gildi fyrr en ráðherra hefur staðfest þær að fenginni umsögn opinbers eftirlitsaðila. Taka skal afstöðu til reglnanna og breytinga á þeim skriflega eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullbúið erindi berst ráðherra. Fjármálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari formskilyrði fyrir samningum um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað.

II. KAFLI

Lífeyrissparnaður.

11. gr.

    Hefja má úttekt á innstæðu eða gera sérstakan útborgunarsamning tveimur árum eftir fyrstu greiðslu iðgjalds til öflunar lífeyrisréttinda í séreign, þó aldrei fyrr en rétthafi hefur fullnægt sérstökum viðbótarskilyrðum skv. 2.–4. mgr. þessarar greinar.
    Þegar rétthafi er orðinn 60 ára er heimilt að hefja útborgun lífeyrissparnaðar og vaxta með jöfnum árlegum greiðslum á ekki skemmri tíma en sjö árum eða á þeim tíma sem rétthafa vantar upp á 67 ára aldur.
    Verði rétthafi öryrki og orkutapið sem hann verður fyrir er 100% á hann rétt á að fá lífeyrissparnað og vexti greidda út með jöfnum árlegum greiðslum á sjö árum. Nú er örorku prósentan lægri en 100% og lækkar þá árleg útborgun í hlutfalli við lækkun örorkuprósent unnar og úttektartíminn lengist samsvarandi.
    Deyi rétthafi áður en innstæða er að fullu greidd út fellur hún til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga. Hlut barns undir 13 ára aldri ber að skipta með jöfnum greiðslum á þau ár sem vantar á að barnið nái 18 ára aldri. Hafi barn náð 13 ára aldri við andlát rétthafa skal hlutur þess greiddur út á fimm árum. Hlut eftirlifandi maka ber að skipta með jöfnum greiðslum á sjö ár eða á þann tíma sem makann vantar á 67 ára aldur við andlát rétthafa. Láti rétthafi ekki eftir sig maka eða barn rennur innstæðan til dánarbúsins og gildir þá ekki takmörkunin í 2. málsl. 2. mgr. 8. gr.
    Í reglugerð skal kveðið á um styttri útborgunartíma ef um lágar upphæðir er að ræða.

12. gr.

    Með jöfnum greiðslum skv. 11. gr. er átt við jafnar greiðslur að tiltölu við fjölda greiðslu ára þannig að rétthafi fái á hverju ári þann hluta af innstæðunni að meðtöldum vöxtum sem samsvarar tölu þeirra ára er eftir standa af endurgreiðslutímanum.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að gera sérstakan samning um mánaðarlega útborgun tiltekinnar krónutölu. Útborgunin skal þá breytast í samræmi við vísitölu neysluverðs. Samningur þessi getur að hluta til eða öllu leyti verið til ákveðins tíma, sbr. skilyrði 11. gr. um lágmarkstíma, eða til æviloka rétthafa.

III. KAFLI

Lífeyrisréttindi í lífeyrissjóðum.

13. gr.

    Með iðgjaldagreiðslum til öflunar lífeyrisréttinda í sameign ávinnur sjóðfélagi sér og maka sínum og börnum eftir því sem við á rétt til ellilífeyris, örorkulífeyris og maka- og barnalífeyris sem er ekki lakari en sá réttur sem kveðið er á um í þessum kafla. Í samþykktum lífeyrissjóðs skal kveðið nánar á um ávinnslu réttinda en hún getur verið mismunandi eftir því hvort iðgjald er til lágmarks- eða viðbótartryggingaverndar og eftir atvikum háð eða óháð aldri.
    Réttur til lífeyris samkvæmt lögum þessum reiknast frá þeim tíma sem iðgjald berst lífeyrissjóði. Iðgjöld launþega sem launagreiðandi hefur sannanlega innheimt en ekki staðið lífeyrissjóði skil á, svo og iðgjaldshluta hans, skal þó meta að fullu til réttinda frá eindaga ið gjaldagreiðslu, enda hafi sjóðnum borist vitneskja um iðgjaldsgreiðsluskyldu innan 60 daga frá dagsetningu yfirlits skv. 18. gr. Þó ber lífeyrissjóðurinn ekki ábyrgð á réttindum sjóðfélaga vegna þeirra iðgjalda sem glatast við gjaldþrot og ábyrgðasjóður launa ber ekki ábyrgð á samkvæmt lögum um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota.
    

14. gr.

    Lífeyrissjóður skal hefja útborgun ellilífeyris samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum þegar sjóðfélagi hefur náð 65–70 ára aldri. Lífeyrissjóði er heimilt að gefa sjóðfélögum kost á að fresta eða flýta töku lífeyris um allt að fimm ár. Í samþykktum skal kveðið á um hvernig frestun eða flýting lífeyristöku hefur áhrif á fjárhæð lífeyris.
    Ellilífeyrir skal borgaður út mánaðarlega með jöfnum greiðslum til æviloka. Mánaðarlegur lífeyrir skal verðtryggður og breytast til samræmis við breytingu á vístitölu neysluverðs. Nánar skal kveðið á um fjárhæð ellilífeyris, útreikning og skilyrði fyrir greiðslu hans í samþykktum.
    Á grundvelli samkomulags sjóðfélaga og maka hans getur sjóðfélagi ákveðið skipan mála skv. 1.–3. tölul. þessarar málsgreinar. Samkomulag þetta skal eftir því sem við á ná til elli lífeyrisgreiðslna, verðmætis ellilífeyrisréttinda eða ellilífeyrisréttinda beggja aðilanna og fela í sér gagnkvæma og jafna skiptingu áunninna réttinda meðan hjúskapur, sambúð eða staðfest samvist hefur staðið eða stendur:
1.    Að ellilífeyrisgreiðslur sem renna eiga til hans skuli allt að hálfu renna til maka hans eða fyrrverandi maka. Viðkomandi lífeyrissjóður skal þá skipta greiðslum í samræmi við ákvörðun sjóðfélagans, en þær falla niður við andlát hans. Deyi makinn eða fyrrverandi maki sem nýtur slíkra greiðslna hins vegar á undan sjóðfélaganum skulu greiðslurnar allar renna til sjóðfélagans.
2.    Í síðasta lagi sjö árum áður en taka ellilífeyris getur fyrst hafist og ef sjúkdómar eða heilsufar draga ekki úr lífslíkum, að verðmæti uppsafnaðra ellilífeyrisréttinda hans skuli allt að hálfu renna til að mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka hans eða fyrrverandi maka og skerðast þá réttindi sjóðfélagans sem því nemur. Heildarskuldbinding lífeyrissjóðsins skal ekki aukast við þessa ákvörðun sjóðfélagans.
3.    Að iðgjald vegna hans sem gengur til að mynda ellilífeyrisréttindi skuli allt að hálfu renna til þess að mynda sjálfstæð réttindi fyrir maka hans. Við ráðstöfun iðgjalds til lágmarkstryggingaverndar og viðbótartryggingaverndar skal litið svo á að iðgjaldsstofni sjóðfélagans hafi verið skipt milli hans og makans eins og iðgjaldinu.     

15. gr.

    Sjóðfélagi á rétt á örorkulífeyri ef hann verður fyrir orkutapi sem metið er 50% eða meira, hefur greitt í lífeyrissjóð í a.m.k. tvö ár og orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins.
    Örorkulífeyrir skal framreiknaður samkvæmt reglum sem nánar er kveðið á um í samþykktum, enda hafi sjóðfélagi greitt til lífeyrissjóðs í a.m.k. þrjú ár á undanfarandi fjórum, árum þar af a.m.k. sex mánuði á síðasta tólf mánaða tímabili, og ekki orðið fyrir orkutapi sem rekja má til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna.
    Hafi sjóðfélagi öðlast rétt til framreiknings sem fallið hefur niður vegna tímabundinnar fjarveru af vinnumarkaði vegna vinnu erlendis, náms, leyfis frá störfum, barneigna eða sam bærilegra ástæðna skal framreikningsréttur stofnast á nýjan leik eigi síðar en sex mánuðum frá því hann hefur aftur störf og greiðslu iðgjalds til lífeyrissjóðs.
    Eigi sjóðfélagi ekki rétt á framreikningi skal fjárhæð örorkulífeyris miðast við áunnin réttindi.
    Heimilt er að ákveða að örorkulífeyrir greiðist ekki fyrstu þrjá mánuði eftir orkutap. Sama gildir ef orkutap hefur varað skemur en sex mánuði.
    Í samþykktir lífeyrissjóðs skulu sett frekari ákvæði um örorkulífeyri, svo sem um örorku mat, fjárhæð örorkulífeyris, útreikning og skilyrði fyrir greiðslu hans.

16. gr.

    Lífeyrissjóður skal greiða lífeyri til maka látins sjóðfélaga sem greitt hefur iðgjöld til lífeyrissjóðs í a.m.k. 24 mánuði á undanförnum 36 mánuðum fyrir andlát sitt eða notið elli- eða örorkulífeyris við andlátið.
    Fullur makalífeyrir skal aldrei greiddur skemur en í 24 mánuði en hafi makinn barn yngra en 18 ára á framfæri sínu, sem sjóðfélaginn hafði áður á framfæri sínu, eða ef makinn er a.m.k. 50% öryrki og yngri en 67 ára skal fullur makalífeyrir greiddur á meðan það ástand varir. Fullur makalífeyrir skal að lágmarki vera 50% af áunnum örorkulífeyri viðkomandi sjóðfélaga við andlátið miðað við 100% örorku.
    Maki samkvæmt þessari grein telst sá eða sú sem við andlátið var í hjúskap með sjóðfélaga, staðfestri samvist eða óvígðri sambúð, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát sjóðfélagans. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð karls og konu sem eiga sameiginlegt lögheimili, eru samvistum, eiga barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. tvö ár. Réttur til makalífeyris fellur niður ef makinn gengur í hjónaband á ný, stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar eða stofnar til staðfestrar samvistar, nema kveðið sé á um annað í samþykktum.
    Í samþykktum lífeyrissjóðs skulu sett frekari ákvæði um makalífeyri svo sem um fjárhæð hans, útreikning og skilyrði fyrir greiðslu hans.

17. gr.

    Andist sjóðfélagi sem greitt hefur iðgjöld til lífeyrissjóðs í a.m.k. 24 mánuði á undan farandi 36 mánuðum eða notið elli- og örorkulífeyris við andlátið skulu börn hans og kjörbörn sem yngri eru en 18 ára eiga rétt á lífeyri til 18 ára aldurs. Sama rétt til lífeyris öðlast börn fædd eða ættleidd fyrir orkutap sjóðfélaga sem nýtur fulls örorkulífeyris. Ef örorka er metin lægri en 100% skal barnalífeyrir vera hlutfallslega lægri.
    Fullur barnalífeyrir skal vera að lágmarki 5.500 kr. á mánuði með hverju barni örorku lífeyrisþega. Við andlát sjóðfélaga skal barnalífeyrir vera að lágmarki 7.500 kr. með hverju barni. Upphæðir þessar skulu breytast árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 173,5 stig.
    Í samþykktum lífeyrissjóðs skulu sett frekari ákvæði um barnalífeyri, svo sem um útreikn ing og skilyrði fyrir greiðslu hans.

18. gr.

    Hver lífeyrissjóður skal halda skrá um þá sem greitt hafa iðgjöld til sjóðsins og þá sem öðlast hafa rétt til lífeyrisgreiðslna úr sjóðnum með öðrum hætti en greiðslu iðgjalda. Í skránni skal vera nafn og kennitala þessara aðila. Þá skulu vera í skránni upplýsingar um fjárhæð iðgjaldagreiðslna hvers aðila, greiðslutímabil og áunnin réttindi svo og þau atriði sem geta haft áhrif á rétt til lífeyris.
    Lífeyrissjóður skal samhliða greiðsluyfirliti eigi sjaldnar en einu sinni á ári senda upplýs ingar um áunninn og væntanlegan lífeyrisrétt sjóðfélaga, rekstur og fjárhagsstöðu sjóðsins og breytingar á samþykktum. Sömu upplýsingar skal senda þeim sjóðfélögum sem náð hafa ellilífeyrisaldri.
    Heimilt er að kveða á um kerfisbundna skráningu upplýsinga um iðgjöld og lífeyrisréttindi í reglugerð svo og veitingu upplýsinga úr slíkri skrá til skattyfirvalda og annarra eftirlitsaðila.

19. gr.

    Óheimilt er í samþykktum að kveða svo á að áunnin lífeyrisréttindi skerðist eða falli niður ef sjóðfélagi hættir iðgjaldagreiðslum til lífeyrissjóðs.
    Ekki skal skipta máli hvort menn eiga lífeyrisréttindi í einum eða fleiri lífeyrissjóðum og hvorki skulu menn glata réttindum né öðlast meiri rétt vegna þess að iðgjaldagreiðslur skiptast milli tveggja eða fleiri sjóða. Nánar skal í reglugerð kveða á um skiptingu lífeyrisgreiðslna milli sjóða þegar lífeyrisréttindi hafa myndast í fleiri en einum sjóði og um framkvæmd þessa ákvæðis að öðru leyti.
    Heimilt er að flytja iðgjöld og þar með réttindi sem þeim fylgir milli lífeyrissjóða þegar að töku lífeyris kemur í því skyni að auðvelda framkvæmd þessarar greinar.
    Heimilt er að endurgreiða iðgjöld til erlendra ríkisborgara þegar þeir flytjast úr landi enda sé slíkt ekki óheimilt samkvæmt milliríkjasamningi sem Ísland er aðili að. Óheimilt er að takmarka endurgreiðsluna við tiltekinn hluta iðgjaldsins.
    Í reglugerð er heimilt að kveða á um útborgun lífeyris í einu lagi ef um lágar upphæðir er að ræða.

IV. KAFLI


Almenn skilyrði lífeyrissjóðsrekstrar.


20. gr.

    Starfsemi lífeyrissjóðs skal lúta að móttöku, varðveislu og ávöxtun iðgjalda og greiðslu lífeyris. Iðgjöld og annað ráðstöfunarfé lífeyrissjóðs skal ávaxta sameiginlega með innlánum í bönkum og sparisjóðum eða í framseljanlegum verðbréfum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu.
    Lífeyrissjóður skal ekki hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem nauðsynleg er til að ná þeim tilgangi er um ræðir í 2. mgr. 1. gr. og 1. mgr. þessarar greinar. Lífeyrissjóði er ekki heimilt að inna af hendi framlög í öðrum tilgangi.

21. gr.

    Ekki er heimilt að starfrækja lífeyrissjóð nema hann hafi fullgilt starfsleyfi samkvæmt V. eða XI. kafla.
    Að jafnaði skulu minnst 800 sjóðfélagar greiða iðgjöld til lífeyrissjóðs reglulega í mánuði hverjum, nema sjóðurinn tryggi áhættudreifingu vegna skuldbindinga sinna með öðrum hætti í samræmi við tryggingafræðilega athugun.     
    Lífeyrissjóði er heimilt að tryggja áhættudreifingu vegna lífeyrisskuldbindinga sinna, að hluta til eða öllu leyti, hjá vátryggingafélögum, sbr. lög um vátryggingastarfsemi. Jafnframt er honum heimilt að kaupa tiltekna tryggingavernd hjá vátryggingafélögum eða öðrum lífeyrissjóðum fyrir einstaka sjóðfélaga sína. Enn fremur er lífeyrissjóðum heimilt að hafa samstarf um einstaka þætti tryggingaverndar. Nánar skal kveðið á um þessi atriði í reglugerð.

22. gr.

    Lífeyrissjóðum er skylt og einum heimilt að nota í heiti sínu orðið „lífeyrissjóður“, eitt sér eða samtengt öðrum orðum eða til nánari skýringa á starfsemi sinni. Lífeyrissjóðum sem starfandi eru við gildistöku laga þessara er þó heimilt að halda heiti sínu óbreyttu.

23. gr.

    Lífeyrissjóður ábyrgist skuldbindingar sínar með eignum sínum. Iðgjaldagreiðendur bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins með öðru en iðgjöldum sínum.

24. gr.

    Árlega skal stjórn lífeyrissjóðs láta fara fram tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðsins í samræmi við 39. gr. og ákvæði reglugerðar sem ráðherra setur. Í reglugerð skal kveðið á um almennar tryggingafræðilegar forsendur, m.a. um dánaráhættu, raunvexti sem athugunin skal byggjast á og ávöxtunarkröfu sem nota skal við núvirðingu framtíðariðgjalda og væntanlegs lífeyris sjóðsins. Í reglugerð skulu jafnframt sett ákvæði um mat á hreinni eign til greiðslu lífeyris vegna tryggingafræðilegra athugana. Skal í reglugerðinni tilgreina möguleg frávik frá mati á eignarliðum í efnahagsreikningi skv. 40. gr., m.a. að verðmæti skráðra hlutabréfa og sambærilegra verðbréfa skuli miða við vegið markaðsvirði á tilteknu tímabili sem þó getur ekki verið lengra en sex mánuðir.
    Athugun skv. 1. mgr. skal framkvæmd af tryggingafræðingi eða öðrum þeim sem hlotið hefur viðurkenningu Vátryggingaeftirlitsins til slíks starfs, sbr. lög um vátryggingastarfsemi.
    Fyrir 1. júlí ár hvert skal senda bankaeftirliti Seðlabanka Íslands tryggingafræðilega athugun skv. 1. mgr.

V. KAFLI

Starfsleyfi lífeyrissjóða.

25. gr.

    Fjármálaráðherra skal veita lífeyrissjóði starfsleyfi að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
     1.     Sýnt er fram á að sjóðurinn muni innan þriggja ára uppfylla skilyrði 2. mgr. 21. gr.
     2.     Samþykktir eru samkvæmt ákvæðum 27. gr.
     3.     Stjórn hefur verið valin.
     4.     Löggiltur endurskoðandi hefur verið valinn.
     5.     Tryggingafræðingur hefur verið valinn.
    Umsókn um starfsleyfi skal vera skrifleg. Skulu fylgja henni samþykktir sjóðsins ásamt öðrum þeim upplýsingum og gögnum sem ráðherra ákveður. Áður en umsókn um starfsleyfi er afgreidd skal leita umsagnar bankaeftirlits Seðlabanka Íslands.
    Birta skal tilkynningar um starfsleyfi lífeyrissjóða í Lögbirtingablaði.

26. gr.

    Ákvörðun um starfsleyfi skal rökstudd og send umsækjanda skriflega eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullbúin umsókn barst ráðherra.
    Uppfylli lífeyrissjóður sem sótt er um starfsleyfi fyrir ekki skilyrði laga þessara skal synja honum um það.

27. gr.

    Samþykktir lífeyrissjóðs skulu við það miðaðar að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.
    Samþykktir lífeyrissjóðs skulu m.a. kveða á um eftirtalin atriði:
     1.     Heiti, heimili og hlutverk sjóðsins.
     2.     Hverjir eru sjóðfélagar.
     3.     Almenn skilyrði um aðild að sjóðnum og um brottfall aðildar.
     4.     Ársfund, hvernig boða skuli til hans, hvaða mál skuli þar lögð fram, hverjir eigi þar atkvæðisrétt og hvernig atkvæðisréttur er ákveðinn.
     5.     Hlutverk stjórnar, fjölda stjórnarmanna og varamanna þeirra, kjörtímabil þessara aðila svo og hvernig vali þeirra og endurskoðanda skuli háttað.
     6.     Hvort fé í vörslu sjóðsins skuli varðveitt sem ein heild eða í fjárhagslega aðskildum deildum og hvernig fé sjóðsins skuli ávaxtað.
     7.     Hvernig iðgjöld til sjóðsins skuli ákveðin og hvernig þau skuli greidd.
     8.     Réttindi sjóðfélaga eða aðstandenda þeirra til lífeyris, hvernig útreikningi þessara réttinda skuli háttað og hver séu nánari skilyrði lífeyrisréttar. Þá skal og kveðið á um fram kvæmd lífeyrisgreiðslna.
     9.     Framkvæmd reglubundinnar, tryggingafræðilegrar athugunar á hag sjóðsins og hvenær slík athugun skuli fara fram, sbr. 24. gr. og 39. gr.
     10.     Hvernig staðið skuli að breytingu á samþykktum sjóðsins.
     11.     Upplýsingaskyldu sjóðsins við sjóðfélaga.

28. gr.

    Allar breytingar á samþykktum lífeyrissjóðs skal tilkynna fjármálaráðherra og öðlast þær ekki gildi fyrr en ráðherra hefur staðfest að þær fullnægi ákvæðum laga þessara og starfsleyfi sjóðsins. Samtök lífeyrissjóða geta tilkynnt breytingar á samþykktum í umboði aðildarsjóða sinna. Tilkynning um breytingar á samþykktum lífeyrissjóða skulu birtar í Lögbirtingablaði. Jafnframt skal tilkynna bankaeftirliti um breytingar á stjórn, framkvæmdastjóra, endurskoð anda og tryggingafræðingi lífeyrissjóðs.

VI. KAFLI

Rekstur og innra eftirlit.

29. gr.

    
    Stjórn lífeyrissjóðs ber ábyrgð á starfsemi sjóðsins í samræmi við lög þessi, reglugerðir settar samkvæmt þeim og samþykktir sjóðsins. Stjórn lífeyrissjóðs skal einnig hafa með höndum almennt eftirlit með rekstri, bókhaldi og ráðstöfun eigna sjóðsins. Stjórnin setur sér starfsreglur og gerir tillögur til breytinga á samþykktum sjóðsins á ársfundi.
         Stjórn lífeyrissjóðs annast m.a. eftirfarandi verkefni:
     1.     að ráða framkvæmdastjóra, ákveða laun og ráðningarkjör hans eða þeirra samkvæmt sérstöku erindisbréfi,
     2.     að ráða forstöðumann endurskoðunardeildar eða semja við sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila,
     3.     að móta fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðsins, sbr. VII. kafla,
     4.     að setja reglur um upplýsingagjöf framkvæmdastjóra til stjórnar um rekstur, iðgjöld, réttindaávinning og ráðstöfun eigna sjóðsins,
     5.     að ákveða hver skuli vera fulltrúi af hálfu lífeyrissjóðs í stjórn stofnunar eða atvinnufyrirtækis, nema lög kveði á um annað,
     6.     að láta tryggingafræðilega athugun fara fram á fjárhag sjóðsins, sbr. 24. gr.

30. gr.

    Fyrir lok júní hvert ár skal stjórn lífeyrissjóðs boða til ársfundar sjóðsins. Allir sjóðfélagar eiga rétt til fundarsetu á ársfundinum með umræðu- og tillögurétti. Atkvæðisréttur skal vera í samræmi við samþykktir hlutaðeigandi lífeyrissjóðs, sbr. 27. gr.
    Ársfund skal boða með tryggilegum hætti.
    Á ársfundi skal gerð grein fyrir skýrslu stjórnar, ársreikningum, tryggingafræðilegum út tektum, fjárfestingarstefnu og tillögum stjórnar til breytinga á samþykktum sjóðsins.

31. gr.

    Stjórnarmenn í lífeyrissjóði skulu vera lögráða, fjár síns ráðandi, hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu fimm árum hafa í tengslum við atvinnurekstur fengið dóm fyrir refsi verðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld. Stjórnarmenn skulu vera búsettir hér á landi eða í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.
    Um hæfi stjórnarmanns lífeyrissjóðs til meðferðar máls fer eftir ákvæðum II. kafla stjórn sýslulaga.
    Halda skal gerðabók um það sem gerist á fundum stjórnar. Allir stjórnarmenn sem mættir eru skulu undirrita fundargerðina.


32. gr.

    Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur sjóðsins og skal hann fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem sjóðstjórn hefur gefið. Ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar get ur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt heimild frá sjóðstjórn.
    Framkvæmdastjóra er óheimilt að taka þátt í atvinnurekstri nema að fengnu leyfi stjórnar. Eignarhlutur í fyrirtæki telst þátttaka í atvinnurekstri nema um sé að ræða óverulegan hlut sem ekki veitir bein áhrif á stjórn þess.
    Um hæfi framkvæmdastjóra fer skv. 1. og 2. mgr. 31. gr.

33. gr.

    Stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og aðrir starfsmenn, svo og endurskoðendur lífeyrissjóðs eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um í starfi og leynt á að fara sam kvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

34. gr.

    Við lífeyrissjóð skal endurskoðunardeild eða sjálfstætt starfandi eftirlitsaðili annast innra eftirlit, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 29. gr. Innra eftirlit skal vera hluti af skipulagi lífeyrissjóðs og þáttur í eftirlitskerfi hans.
    Sjálfstætt starfandi eftirlitsaðili getur verið löggiltur endurskoðandi eða sá sem hlotið hefur viðurkenningu bankaeftirlitsins.
    Lífeyrissjóði er skylt að tilkynna bankaeftirliti ef skipt er um eftirlitsaðila.


35. gr.

    Endurskoðunardeild eða eftirlitsaðili lífeyrissjóðs skal m.a. annast eftirfarandi verkefni:
     1.     hafa eftirlit með að skráning iðgjalda og lífeyrisréttinda sé samkvæmt lögum og samþykktum sjóðsins,
     2.     hafa eftirlit með að lífeyrisréttindi séu reiknuð í samræmi við lög og samþykktir sjóðsins,
     3.     gera tillögu til stjórnar um skipulagningu innra eftirlits og annast sérstakar úttektir á virkni innra eftirlits,
     4.     hafa eftirlit með að í viðskiptum með eignir lífeyrissjóðs sé endurgjald fyrir þær innt af hendi innan eðlilegra tímamarka,
     5.     hafa eftirlit með því að fjárfestingarstefnu sé fylgt og að ávöxtun eigna sé eðlileg,    
     6.     hafa eftirlit með að iðgjöldum og öðru ráðstöfunarfé lífeyrissjóðs sé ráðstafað í samræmi við lög og samþykktir sjóðsins.
    Bankaeftirlit setur nánari reglur um verkefni endurskoðunardeilda og eftirlitsaðila lífeyrissjóða.

VII. KAFLI

Fjárfestingarstefna lífeyrissjóða.

36. gr.

    Stjórn lífeyrissjóðs skal móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu. Stjórn lífeyrissjóðs er heimilt að að móta sérstaka fjárfestingarstefnu fyrir hverja deild í deilda skiptum sjóði. Lífeyrissjóði er heimilt að ávaxta fé sitt með eftirfarandi hætti:
     1.     Í ríkisvíxlum, ríkisskuldabréfum og skuldabréfum sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs.
     2.     Í skuldabréfum bæjar- og sveitarfélaga.
     3.     Í skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign að hámarki 65% af metnu markaðsvirði nema þegar um er að ræða sérhæft atvinnuhúsnæði þá skal hámark þetta vera 35%.
     4.     Með innlánum í bönkum og sparisjóðum.
     5.     Í skuldabréfum og víxlum banka, sparisjóða og annarra lánastofnana sem lúta eftirliti bankaeftirlits.
     6.     Í hlutabréfum fyrirtækja.
     7.     Í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða, en verðbréfasafni að baki skírteinunum skal skipt á aðra töluliði þessarar málsgreinar með tilliti til takmarkana í 2.–6. mgr.
     8.     Í öðrum verðbréfum.
     9.     Í innlendum hlutabréfum sem ekki eru skráð á skipulegum markaði, enda séu engar hömlur lagðar á viðskipti með hlutabréfin og ársreikningar hlutaðeigandi hlutafélaga öllum aðgengilegir.
     10.     Með gerð afleiða sem draga úr áhættu sjóðsins.
    Verðbréf skv. 1., 2. og 5.–8. tölul. 1. mgr. skulu hafa skráð kaup- og sölugengi á skipu legum markaði. Með skipulegum markaði er átt við skipulegan verðbréfamarkað innan aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) sem starfar reglulega, er opinn almenningi og viðurkenndur með þeim hætti sem bankaeftirlit Seðlabanka Íslands metur gild an. Sé markaðurinn utan ríkja OECD skal bankaeftirlitið hafa viðurkennt hann.
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er heimilt að fjárfesta fyrir samtals allt að 10% af hreinni eign sjóðsins í verðbréfum sem falla undir 1., 2., 5. og 8. tölul. 1. mgr. og ekki eru skráð á skipuleg um markaði, enda séu verðbréfin gefin út af innlendum aðilum.
    Eign lífeyrissjóðs skv. 2., 5. og 8. tölul. 1. mgr. hverjum um sig og 6. og 9. tölul. 1. mgr. samanlagt skal ekki vera meiri en 35% af hreinni eign sjóðsins. Þó skal eign skv. 9. tölul. ekki vera meiri en 10% af hreinni eign sjóðsins.
    Samanlögð eign sjóðsins í verðbréfum skv. 2.–9. tölul. 1. mgr. útgefnum af sama aðila eða aðilum sem tilheyra sömu samstæðunni skal ekki vera meiri en 10% af hreinni eign sjóðsins. Þessi takmörkun skal vera 5% fyrir verðbréf skv. 8. tölul. Eigi er lífeyrissjóði heimilt að eiga meira en 15% af hlutafé í hverju fyrirtæki né meira en 25% af hlutdeildarskírteinum útgefnum af sama verðbréfasjóði.
    Lífeyrissjóður skal takmarka áhættu í erlendum gjaldmiðlum í heild við 40% af hreinni eign sjóðsins.
    Með hreinni eign í 3.–6. mgr. er átt við hreina eign lífeyrissjóðs til greiðslu lífeyris sam kvæmt síðasta endurskoðaða ársuppgjöri. Takmarkanir í 3.–6. mgr. skulu halda á hverjum tíma.
    Lífeyrissjóði er ekki skylt að selja eignir í því skyni að fullnægja þeim takmörkunum sem kveðið er á um í þessari grein en skal þegar hann kaupir verðbréf gæta þess að þessi takmörk séu virt.


37. gr.

    Lífeyrissjóður má ekki fjárfesta í fasteignum eða lausafé nema að því marki sem nauð synlegt er vegna starfsemi sjóðsins.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er lífeyrissjóði heimilt án takmarkana að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu. Eignirnar skulu seldar eigi síðar en innan 18 mánaða frá yfirtöku eign anna. Heimilt er þó að draga sölu lengur sé það augljóslega í þágu hagsmuna sjóðsins. Slíkan drátt á sölu eigna skal tilkynna bankaeftirliti sem getur þá krafist sölu þeirra innan viðeigandi frests.


38. gr.

    Lífeyrissjóði er óheimilt að taka lán nema til fjárfestingar í fasteignum sem eru nauðsyn legar vegna starfsemi sjóðsins. Lífeyrissjóði er þó heimilt að nýta almenna greiðslufresti vegna kaupa á verðbréfum eða taka skammtímalán til þess að jafna fjárstreymi.
    Lífeyrissjóði er óheimilt að veita lán til stjórnarmanna, varamanna þeirra, starfsmanna sjóðsins, endurskoðenda, eftirlitsaðila, þeirra er framkvæma tryggingafræðilega athugun á hag sjóðsins eða maka þessara aðila, nema þeir séu félagar í viðkomandi sjóði og þá eftir þeim reglum sem gilda um lán til sjóðfélaga almennt.

39. gr.

    Hrein eign lífeyrissjóðs til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda skal vera jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda. Áætlun um framtíðariðgjöld og væntanlegan lífeyri skal miðuð við sjóðfélaga á þeim tíma sem tryggingafræðileg athugun tekur mið af. Hrein eign til greiðslu lífeyris skal á hverjum tíma metin í samræmi við ákvæði 24. gr.
    Leiði tryggingafræðileg athugun skv. 24. gr. í ljós að meira en 10% munur er á milli eign arliða og lífeyrisskuldbindinga skv. 1. mgr. er hlutaðeigandi lífeyrissjóði skylt að gera nauð synlegar breytingar á samþykktum sjóðsins. Sama gildir ef munur samkvæmt trygginga fræðilegum athugunum á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár.
    Stjórn lífeyrissjóðs er skylt að fá álit tryggingafræðings á áhrifum breytinga á samþykktum lífeyrissjóðs á getu hans til þess að greiða lífeyri. Tryggingafræðingi lífeyrissjóðs er skylt að skýra stjórn sjóðsins þegar í stað frá því ef tryggingafræðileg úttekt leiðir í ljós að sjóðurinn stendur ekki við skuldbindingar sínar. Hann skal skila tillögum til úrbóta til stjórnar og gera bankaeftirliti viðvart.
    Tryggingafræðingur lífeyrissjóðs má ekki sitja í stjórn hans, vera starfsmaður hans eða starfa í þágu hans að öðru en tryggingafræðilegum athugunum og tengdri ráðgjöf.

VIII. KAFLI
Ársreikningur og endurskoðun.
40. gr.

    Stjórn lífeyrissjóðs og framkvæmdastjóri skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár. Ársreikningur skal hafa að geyma efnahagsreikning, fjárstreymisyfirlit, yfirlit um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris og skýringar. Enn fremur skal semja skýrslu stjórnar sem ásamt ársreikningi mynda eina heild. Reikningsár lífeyrissjóðs er almanaksárið.
    Ársreikningur skal undirritaður af stjórn lífeyrissjóðs og framkvæmdastjóra hans. Hafi stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skal hann gera grein fyrir því í áritun sinni.
    Ársreikningur skal gefa glögga mynd af fjárhagsstöðu lífeyrissjóðs og breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris. Hann skal gerður í samræmi við lög, reglur og góða reikn ingsskilavenju.
    Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands skal sjá til þess í samráði við reikningsskilaráð að á hverj um tíma liggi fyrir skilgreining á góðri reikningsskilavenju við gerð ársreiknings lífeyrissjóðs.
    Bankaeftirlitið setur reglur að höfðu samráði við reikningsskilaráð um uppsetningu árs reiknings, innihald einstakra liða efnahagsreiknings, yfirlit um breytingar á hreinni eign til greiðslu lífeyris og fjárstreymisyfirlit og skýringar og mat á einstökum liðum.


41. gr.

    Í skýrslu stjórnar skal koma fram yfirlit um starfsemi sjóðsins á árinu, svo og upplýsingar um atriði er mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu sjóðsins og afkomu hans á reiknings árinu er ekki koma fram annars staðar í ársreikningnum.
    Í skýrslu stjórnar skal enn fremur upplýst um eftirfarandi:
     1.     atburði eftir uppgjörsdag sem hafa verulega þýðingu,
     2.     væntanlega þróun sjóðsins og
     3.     aðgerðir sem hafa þýðingu fyrir framtíðarþróun hans.
    Skýrsla stjórnar skal veita upplýsingar um fjölda greiðandi sjóðfélaga á árinu, fjölda virkra sjóðfélaga, þ.e. sjóðfélaga sem að jafnaði greiða iðgjöld til sjóðsins með reglubundnum hætti í mánuði hverjum, fjölda lífeyrisþega, fjölda starfsmanna að meðaltali á reikningsárinu, heild arfjárhæð launa, þóknana eða annarra greiðslna til starfsmanna, stjórnar og annarra í þjónustu sjóðsins.

42. gr.


    Endurskoðun hjá lífeyrissjóði skal gerð af löggiltum endurskoðanda.
    Endurskoðandi lífeyrissjóðs má ekki sitja í stjórn hans, vera starfsmaður hans eða starfa í þágu hans að öðru en endurskoðun og innra eftirliti, sbr. 35. gr.
    Um endurskoðun hjá lífeyrissjóði gilda ákvæði VII. kafla laga um ársreikninga, eftir því sem við á, nema annað komi fram í þessum lögum.
    Verði endurskoðandi var við verulega ágalla í rekstri lífeyrissjóðs eða atriði er varða innra eftirlit, iðgjaldainnheimtu, greiðslutryggingar útlána, meðferð fjármuna eða önnur atriði sem veikt geta fjárhagsstöðu lífeyrissjóðsins, svo og ef hann hefur ástæðu til að ætla að lög, reglu gerðir eða reglur sem gilda um starfsemina hafi verið brotnar, skal hann þegar í stað gera stjórn sjóðsins og bankaeftirliti viðvart. Ákvæði þessarar málsgreinar brjóta ekki í bága við þagnarskyldu endurskoðanda skv. 33. gr. laga þessara eða ákvæði annarra laga.
    Bankaeftirlitið skal sjá til þess, í samráði við Félag löggiltra endurskoðenda og aðra hlut aðeigandi aðila, að á hverjum tíma liggi fyrir skilgreining á góðri endurskoðunarvenju við endurskoðun hjá lífeyrissjóðum. Bankaeftirlitið setur reglur um endurskoðun lífeyrissjóða.

43. gr.

    Senda skal bankaeftirlitinu endurskoðaðan ársreikning lífeyrissjóðs ásamt skýrslu stjórnar þegar eftir undirritun hans og eigi síðar en fjórum mánuðum eftir lok reikningsárs. Meginnið urstöður ársreiknings skal birta opinberlega og í samræmdu formi sem bankaeftirlitið ákveður. Slíkar meginniðurstöður skulu liggja frammi í starfsstöð viðkomandi lífeyrissjóðs og vera að gengilegar fyrir sjóðfélaga.

IX. KAFLI

Eftirlit.

44. gr.

    Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur eftirlit með að starfsemi lífeyrissjóða sé í samræmi við ákvæði laga þessara, reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim og staðfestar samþykktir lífeyrissjóða. Skal bankaeftirlitið eiga aðgang að öllum gögnum og upplýsingum lífeyrissjóða sem það telur nauðsynlegt vegna eftirlitsins. Um eftirlitið gilda, eftir því sem við getur átt, lög um Seðlabanka Íslands.
    Bankaeftirlitið getur lagt fyrir stjórn lífeyrissjóðs að láta fara fram tryggingafræðilega at hugun á hag sjóðs á öðrum forsendum en gefnar eru í reglubundnum athugunum sjóðsins telji eftirlitið að hagur sjóðsins gefi tilefni til þess.
    Er bankaeftirlitinu berst tilkynning skv. 4. mgr. 42. gr. eða það telur af öðru tilefni ástæðu til að ætla að rekstri lífeyrissjóðs og fjárhagsstöðu sé ábótavant í verulegum atriðum skal það krefja stjórnendur og endurskoðanda þegar í stað um nauðsynleg gögn sem þeim ber að af henda innan tveggja vikna frá því þeim barst krafan.
    Telji bankaeftirlitið að starfsemi lífeyrissjóðs brjóti gegn ákvæðum laga þessara, reglu gerðum og reglum settum samkvæmt þeim, staðfestum samþykktum lífeyrissjóða eða sé að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust getur það veitt viðkomandi sjóði hæfilegan frest til úrbóta, nema brot sé alvarlegt.

45. gr.

         Heimilt er Seðlabanka Íslands, að fengnum tillögum bankaeftirlitsins, að ákveða viðurlög í formi dagsekta, allt að 100 þús. kr. á dag, ef lífeyrissjóðir verða ekki við skyldu til afhend ingar ársreikninga eða annarra gagna eða hlíta ekki kröfum bankaeftirlitsins um aðgerðir sam kvæmt lögum þessum.
    Kröfur, athugasemdir og fyrirhugaðar aðgerðir bankaeftirlitsins samkvæmt þessum kafla skulu þegar í stað tilkynntar fjármálaráðherra, stjórn lífeyrissjóðs og endurskoðanda.

X. KAFLI

Umsjónaraðili, slit og samruni.


46. gr.


    Fullnægi lífeyrissjóður ekki lengur skilyrði laga þessara til þess að öðlast starfsleyfi, sbr. V. kafla, reynist lífeyrissjóður ekki gjaldhæfur að mati bankaeftirlits Seðlabanka Íslands, brjóti hann gegn ákvæðum laga þessara, reglugerðum og reglum settum samkvæmt þeim, stað festum samþykktum lífeyrissjóðs eða sé rekstri hans ábótavant og kröfum bankaeftirlitsins skv. 44. gr. ekki sinnt er ráðherra heimilt að skipa lífeyrissjóði umsjónaraðila um tiltekinn tíma að fengnum tillögum bankaeftirlits.
    Stjórn og framkvæmdastjóri lífeyrissjóðs skulu víkja frá störfum þann tíma sem umsjónar aðili starfar. Tekur umsjónaraðili við réttindum og skyldum þessara aðila eftir því sem nánar er kveðið á um í erindisbréfi hans sem ráðherra gefur út. Kostnaður við starf umsjónaraðila greiðist af viðkomandi lífeyrissjóði.
    

47. gr.

     Skipun umsjónaraðila skal rökstudd og tilkynnt hlutaðeigandi lífeyrissjóði skriflega. Jafn framt skal birta tilkynningu um skipunina í Lögbirtingablaði og auglýsa hana í fjölmiðlum.
    Skylda til greiðslu iðgjalds til hlutaðeigandi lífeyrissjóðs fellur niður frá og með þeim tíma sem tilkynning um skipun umsjónaraðila birtist í Lögbirtingablaði. Ef iðgjaldagreiðslu til sjóðsins er hætt skal tryggingaskyldu fullnægt með aðild að og greiðslu iðgjalds til Söfn unarsjóðs lífeyrisréttinda eða annars lífeyrissjóðs sem viðurkenndur er af fjármálaráðherra.
    Að tillögu umsjónaraðila getur ráðherra ákveðið slit lífeyrissjóðs. Skal ráðherra þá skipa skilanefnd þriggja manna sem sér um slit á sjóðnum eða flutning á starfsemi hans til annars lífeyrissjóðs. Skilanefnd tekur við öllum heimildum sjóðsstjórnar og falla jafnframt niður heimildir stjórnarinnar frá sama tíma. Skilanefnd skal taka ákvörðun um hvort sjóðnum skuli slitið með sameiningu við annan sjóð eða með öðrum hætti, sbr. 2. og 3. mgr. 49. gr.

48. gr.

    Ákvörðun um slit lífeyrissjóðs, hvort heldur er með sameiningu eða öðrum hætti, skal tekin af stjórn hans, nema samþykktir sjóðsins kveði á um annað eða ákvæði 47. gr. eigi við.
    Ákvörðun um slit lífeyrissjóðs skal þegar í stað tilkynna fjármálaráðuneytinu og banka eftirlitinu.
    Sé gert samkomulag um að sameina lífeyrissjóð algjörlega öðrum sjóði skal gefa út innköll un skv. 2. mgr. 49. gr. og halda eignunum aðgreindum þar til fresturinn er útrunninn og lýstum kröfum fullnægt. Ekki þarf þó að halda eignum aðgreindum ef allir lánardrottnar samþykkja eða þeim er sett fullnægjandi trygging.
    Eignir lífeyrissjóðs skulu renna til þess lífeyrissjóðs sem hann sameinast. Við flutning og ákvörðun lífeyrisréttinda skal þess gætt að hver og einn sjóðfélagi beggja sjóðanna verði ekki fyrir réttindaskerðingu vegna sameiningarinnar. Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um hvernig lífeyrisréttindi skulu metin í þessu sambandi.
    

49. gr.

    Stjórn sjóðs eða sá aðili sem samkvæmt samþykktum sjóðs hefur ákveðið að honum skuli slitið skal þegar í stað tilnefna þriggja manna skilanefnd er taki við störfum stjórnar og fram kvæmdastjóra sjóðsins, enda hafi skilanefnd ekki þegar verið skipuð skv. 3. mgr. 47. gr.
    Skilanefnd skal láta birta tvisvar í Lögbirtingablaði áskorun til lánardrottna sjóðsins um að lýsa kröfum sínum innan tveggja mánaða frá fyrstu birtingu áskorunarinnar og hefur hún sömu réttaráhrif og gildir um innköllun krafna við gjaldþrotaskipti.
    Eignir lífeyrissjóðs sem eftir standa þegar skuldir hafa verð greiddar skulu renna til Söfn unarsjóðs lífeyrisréttinda. Skulu réttindi sjóðfélaga og lífeyrisþega jafnframt metin til réttar í Söfnunarsjóðnum í sama hlutfalli og er milli þeirra eigna sjóðsins er til Söfnunarsjóðsins renna og heildarlífeyrisskuldbindinga sjóðsins metinna í samræmi við ákvæði laga þessara. Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um hvernig lífeyrisréttindi skulu metin í þessu sambandi.

XI. KAFLI

Lífeyrissjóðir sem starfa við gildistöku laga þessara.

50. gr.

    Lífeyrissjóðir sem starfa samkvæmt sérlögum eru undanþegnir ákvæðum 21. gr., V. kafla og X. kafla. Jafnframt eru þeir undanþegnir ákvæðum 3. gr. og III. kafla enda sé kveðið á um iðgjaldsstofn og réttindi í viðkomandi lögum. Ákvæði 3. mgr. 14. gr. skal þó gilda fyrir þessa sjóði.

51. gr.

    Lífeyrissjóðir sem njóta bakábyrgðar ríkis, sveitarfélags og banka eru undanþegnir ákvæð um 23. gr. og 39. gr.

52. gr.

    Lífeyrissjóðir sem hyggjast halda áfram að taka við iðgjöldum eftir gildistöku laga þessara skulu innan eins árs frá gildistökunni senda fjármálaráðuneytinu umsókn um starfsleyfi. Um sókn skulu fylgja samþykktir lífeyrissjóðs, tryggingafræðileg athugun, ásamt öðrum þeim upplýsingum sem ráðherra ákveður. Hafi sjóður ekki nægjanlega marga sjóðfélaga skv. 21. gr. skal í umsókn koma fram hvenær og hvernig sjóðurinn hyggst uppfylla skilyrði greinarinn ar, sbr. 25. gr. Um veitingu starfsleyfis fer að öðru leyti eftir ákvæðum V. kafla, um starfs leyfi.
    Hafi lífeyrissjóður ekki sent umsókn um starfsleyfi ásamt tilskildum gögnum innan þess tíma sem greinir í 1. mgr. telst sjóðurinn ekki fullnægja ákvæðum laga þessara til þess að öðl ast starfsleyfi og fer þá um málefni hans samkvæmt ákvæðum X. kafla.

53. gr.

    Lífeyrissjóðir sem starfandi eru við gildistöku laga þessara og hyggjast einvörðungu veita lífeyri vegna áunninna réttinda skulu tilkynna fjármálaráðuneytinu um þá fyrirætlan innan eins árs frá gildistöku laganna og skal þeim veitt starfsleyfi í því skyni, að fenginni umsögn bankaeftirlits Seðlabanka Íslands. Lög þessi skulu gilda um þá sjóði sem starfsleyfi hafa samkvæmt þessari grein eftir því sem við getur átt.

54. gr.

    Lífeyrissjóði sem starfar í samræmi við staðfesta reglugerð samkvæmt lögum nr. 55/1980 og nýtur bakábyrgðar ríkis, sveitarfélags eða banka er heimilt að starfa áfram á óbreyttum réttindagrundvelli fyrir þá sem eiga aðild að sjóðnum við gildistöku laga þessara. Lífeyris sjóðurinn skal tilkynna fjármálaráðuneytinu um þá fyrirætlun innan eins árs frá gildistöku lag anna og skal honum veitt starfsleyfi í því skyni.
    Kjósi sjóðurinn að taka við iðgjöldum frá nýjum sjóðfélögum skulu þeir eiga aðild að sér stakri deild í sjóðnum og skulu samþykktir hennar uppfylla skilyrði laga þessara. Um starfs leyfi fyrir slíka deild skal sótt innan sömu tímamarka og í 1. mgr. greinir.
    Í að minnsta kosti eitt ár eftir gildistöku laga þessara skal gefa þeim sem eiga aðild að líf eyrissjóði er þessi grein tekur til kost á aðild að réttindakerfi eða öðrum lífeyrissjóði sem upp fyllir skilyrði laga þessara.

XII. KAFLI


Ýmis ákvæði.


55. gr.

    Brot gegn lögum þessum varða sektum eða fangelsi allt að einu ári, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt almennum hegningarlögum. Sé brot framið í þágu lögaðila er heimilt að beita stjórnendur lögaðilans framangreindum viðurlögum og einnig er heimilt að gera lögaðil anum sekt.

56. gr.

    Fjármálaráðherra fer með framkvæmd laga þessara og er honum heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þeirra með reglugerð.

57. gr.

    Kostnaður við birtingu tilkynninga samkvæmt lögum þessum skal greiddur af viðkomandi lífeyrissjóði.

58. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1998. Þó öðlast 3. mgr. 14. gr. ekki gildi fyrr en 1. maí 1999. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 91/1980, um skráningu lífeyrisréttinda, 2., 3., 4. og 5. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og lög nr. 27/1991, um ársreikninga og endurskoðun lífeyrissjóða.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Fram til þess tíma er starfsleyfi er veitt skv. XI. kafla skal um starfsemi lífeyrissjóðs gilda sú staðfesta reglugerð sem í gildi er við gildistöku laga þessara enda hafi heimild til reksturs lífeyrissjóðs ekki fallið niður.


II.

    Á árinu 2001 skal fjármálaráðherra láta gera skýrslu um þróun lífeyrismála í framhaldi af samþykkt laga þessara. Sérstaklega skal fjalla um hvernig lífeyrissjóðir hafa breytt samþykktum sínum og boðið sjóðfélögum upp á fleiri valmöguleika í samsetningu lífeyris réttinda sinna, sbr. 4. gr., enda er það eitt af markmiðum laga þessara að auka valmöguleika sjóðfélaganna. Komi í ljós að lífeyrissjóðir hafi almennt ekki boðið upp á valmöguleika með hliðsjón af lágmörkum skv. 4. gr. skal fjármálaráðherra láta, í samráði við hagsmunaaðila, undirbúa frumvarp um breytingu á lögum þessum þannig að þetta markmið þeirra náist.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 23. maí sl. skipaði fjármálaráðherra nefnd til að yfirfara drög að frumvarpi til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Áður hafði efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis tekið málið til afgreiðslu og fjármálaráðherra hafði sent henni bréf í kjölfar þess að ASÍ og VSÍ höfðu óskað eftir því við ríkisstjórnina að frumvarpið yrði ekki afgreitt að svo stöddu sem lög, en áfram unnið að málinu og það afgreitt á haustþingi. Í bréfi fjármálaráðherra kom fram að ósk aðila vinnumarkaðarins byggðist á því að samtökin teldu sig þurfa nokkurn tíma til þess annars vegar að skoða tryggingafræðilegan grundvöll áformaðra breytinga og hins vegar til að afla stuðnings meðal aðildarfélaga sinna og innan lífeyrissjóðanna við hugmyndir um aukinn sveigjanleika, t.d. á borð við það sem þá var til umræðu.
    Nefndinni var ætlað að skila niðurstöðum fyrir miðjan september en í samráði við fjármálaráðherra var ákveðið að fresta lokum nefndarstarfsins um rúman mánuð. Nefndinni var ætlað að hafa samráð við efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og helstu hagsmunaaðila.
    Í nefndina voru skipaðir: Vilhjálmur Egilsson alþingismaður, formaður nefndarinnar, Baldur Guðlaugsson hrl., Geir Magnússon forstjóri, Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, Steingrímur A. Arason, aðstoðarmaður ráðherra, Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri VSÍ og Örn Gústafsson viðskiptafræðingur.
    Geir Magnússon var skipaður í nefndina eftir að hún hóf störf og Hervar Gunnarsson, varaforseti ASÍ, sat nokkra fundi í forföllum Grétars. Með nefndinni störfuðu Áslaug Guðjónsdóttir og Margrét Gunnlaugsdóttir lögfræðingar í fjármálaráðuneytinu.
    Nefndin hélt 24 fundi. Í upphafi starfs var frumvarpið, eins og efnahags- og viðskiptanefnd hafði afgreitt það til annarrar umræðu á Alþingi, sent helstu hagsmunaaðilum og óskað eftir skriflegum athugasemdum. Nokkrar athugasemdir bárust en flestir vísuðu til athugasemda sem komið var á framfæri við efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis sl. vor. Nefndin fór yfir athugasemdirnar og tók nokkrar þeirra til greina. Formaður nefndarinnar kynnti efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis stöðu nefndarstarfsins um miðjan september sl.
    Vegna tryggingafræðilegra álitamála leitaði nefndin til Benedikts Jóhannessonar og Vigfúsar Ásgeirssonar frá Talnakönnun hf. og Bjarna Þórðarsonar tryggingastærðfræðings. Auk þeirra komu á fundi nefndarinnar Ragnar Hafliðason og Ásta Þórarinsdóttir frá banka eftirliti Seðlabanka Íslands, Stefán Halldórsson frá Verðbréfaþingi Íslands og Már Guðmundsson frá Seðlabanka Íslands.
    Framangreindur aðdragandi setti mark sitt á nefndarstarfið en þeim breytingum á frumvarpinu sem það leiddi til má skipta í þrennt:
    Í fyrsta lagi var framsetningu breytt með hliðsjón af þeim ákvæðum sem efnahags- og við skiptanefnd hafði tekið inn í frumvarpið. Veigamesta breytingin af þessum toga varðar ákvæði 4. gr. um lágmarkstryggingaverndina. Ákvæðið var áður að finna í 2. tölul. 8. gr. Með nýrri efnisskipan gafst kostur á að einfalda framsetningu og hugtakaskilgreiningu.
    Í öðru lagi voru gerðar nokkrar breytingar á einstökum greinum og má þar helst nefna ákvæði 2. gr. um aðild að lífeyrissjóðum, ákvæði 4. gr. um lágmarkstryggingavernd, ákvæði 16. og 17. gr. um maka- og barnalífeyri lífeyrissjóða og ákvæði 39. gr. um nauðsynlegt jafnvægi milli eigna og skuldbindinga. Breytingin á 2. gr. felur í sér aðra nálgun en í frum varpinu frá sl. vori að ákvörðun lífeyrissjóðsaðildar en varðveitir þá meginreglu að aðild skuli ákveðin á grundvelli frjálsra samninga. Breytingin á 4. gr. gerir auknar kröfur til þeirrar tryggingaverndar sem á að felast í lágmarkstryggingavernd lífeyrissjóða. Breytingar á 16. og 17. gr. taka til skilgreiningar á lágmarkslífeyri við fráfall sjóðfélaga, en á 39. gr. til leyfilegs fráviks milli eigna og skuldbindinga á grundvelli tryggingafræðilegra athugana, svo og hvernig hrein eign til greiðslu lífeyris skuli metin, sbr. 24. gr. Nokkrar breytingar voru einnig gerðar á 36.–38. gr. sem vert er að vekja athygli á og lúta að fjárfestingu lífeyrissjóða í hlutdeildarskírteinum, hlutabréfum, nauðsynlegu lausu fé og skammtímalántöku lífeyrissjóða.
    Í þriðja lagi voru ný atriði tekin inn í frumvarpið annars vegar varðandi heimild til rétt indaskiptingar milli sjóðfélaga og maka hans og hins vegar varðandi eftirlit með því að allir á vinnumarkaði taki þátt í skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Ákvæði varðandi fyrra nýmælið er að finna í 3. mgr. 14. gr. en hið síðara í 6. gr.
    Ákvæðið um lágmarkstryggingaverndina opnar nýja möguleika fyrir útfærslu á lögboðinni skyldutryggingu og eykur þar með sveigjanleika lífeyrissjóðakerfisins eins og að var stefnt sl. vor. Lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs verður eftir sem áður 10%. Skilgreiningin og möguleg samþætting samtryggingar og séreignar gerir iðgjaldagreiðendum hins vegar kleift að byggja áfram á séreign og opnar jafnframt fyrir það að almennir lífeyrissjóðir geti tekið við séreignariðgjöldum. Athuganir tryggingafræðinga staðfestu tryggingafræðilegan grundvöll ákvæðisins.
    Nefndin lauk störfum 26. október og náði samkomulagi um tillögur til breytinga á því frumvarpi sem var til umfjöllunar á Alþingi sl. vor. Í framhaldi af því er þetta frumvarp lagt fram og er það efnislega í samræmi við niðurstöðu nefndarstarfsins. Niðurstaðan gerði jafn framt ráð fyrir að heimildir einstaklinga til skattafrádráttar vegna lífeyrisiðgjalda verði rýmkaðar. Þetta verði til að efla lífeyriskerfið og auka þjóðhagslegan sparnað. Í kjölfar þessa frumvarps verða þannig einnig lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt.

Inngangur.

    Málefni lífeyrissjóða hafa verið lengi í deiglunni. Þannig var fjallað nær samfellt um málefni þeirra og skyldutryggingu lífeyrisréttinda í stjórnskipaðri nefnd árin 1976–1987. Þetta starf skilaði fyrst ýmsum bráðabirgðaúrlausnum en því lauk með tillögu um starfsemi lífeyrissjóða. Í framhaldinu var lagt fram frumvarp um þetta efni á Alþingi sem ekki fékk afgreiðslu. Síðast var þessu frumvarpi vísað til sérstakrar milliþinganefndar sem starfaði árin 1990–1991. Það starf skilaði ekki árangri. Loks voru á vegum fjármálaráðherra samin drög að frumvarpi árið 1994 sem byggðust á þessu starfi en það náði heldur ekki fram að ganga.
    Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar skipaði fjármálaráðherra nefnd um lífeyrismál 30. ágúst 1995. Í erindisbréfi kom fram að meginverkefni nefndarinnar væri að útfæra það markmið ríkisstjórnarinnar að treysta starfsgrundvöll lífeyrissjóðakerfisins þannig að allir landsmenn nytu sambærilegra lífeyrisréttinda. Sérstök áhersla skyldi lögð á að finna leiðir til að auka valfrelsi í lífeyrissparnaði, innleiða samkeppni milli lífeyrissjóða og tryggja bein áhrif sjóðfélaga á stefnumörkun og stjórn sjóðanna. Jafnframt var nefndinni falið að skilgreina stöðu og hlutverk séreignarsjóða lífeyrisréttinda og að leita leiða til þess að auka þátttöku lífeyrissjóða í atvinnulífinu.
    Eftir viðræður við fulltrúa aðila vinnumarkaðarins og umræðu í ríkisstjórn var nefndin frá 1995 leyst frá störfum 26. mars sl. Þó að niðurstaða nefndarstarfsins lægi ekki fyrir var frum varp, sem að nokkru leyti var byggt á því starfi sem fram fór í nefndinni, lagt fram á Alþingi í byrjun apríl á 121. löggjafarþingi. Það tók mið af stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. apríl 1995 þó að tekið væri jafnframt tillit til annarra sjónarmiða. Í framsöguræðu fjármálaráðherra á Alþingi óskaði hann eftir því að efnahags- og viðskiptanefnd leitaði málamiðlunar sem flestir gætu sætt sig við.
    Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis bárust fjölmargar umsagnir um frumvarpið. Í framhaldi af þeim, umræðum innan nefndarinnar og í samráði við ríkisstjórn gerði meiri hluti nefndarinnar síðan tillögur um ákveðnar breytingar á frumvarpinu. Veigamest var sú breyting að heimila lífeyrissjóðum móttöku iðgjalda með samningum um lífeyrissparnað að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Þar með var jafnframt opnað fyrir það að séreignarsjóðir gætu starfað áfram sem fullgildir lífeyrissjóðir og að skilgreind lágmarkstryggingavernd gæti byggst á samtryggingu og lífeyrissparnaði. Álit meiri hlutans og breytingartillögur er annars að finna á þingskjölum 1203 og 1204.
    Afgreiðsla meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar tók, eins og áður segir, mið af bréfi fjármálaráðherra til nefndarinnar í kjölfar þess að ASÍ og VSÍ höfðu óskað eftir því við ríkisstjórnina að frumvarpið yrði ekki afgreitt að svo stöddu. Í bréfi fjármálaráðherra kom fram að ríkisstjórnin teldi eðlilegt að nefndin afgreiddi málið þannig að tillögur lægju fyrir með formlegum hætti. Breytingar efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis frá sl. vori hafa því verið teknar inn í þetta frumvarp ásamt þeim breytingum sem nefndin er nýverið lauk störfum lagði til.
    Það frumvarp sem hér er lagt fram miðar að því að setja almenna umgjörð um skyldu tryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Því er fyrst og fremst ætlað að skilgreina inntak skyldutryggingarinnar og samninga um lífeyrissparnað, setja almenn skilyrði fyrir starfsemi lífeyrissjóða og heimildum þeirra til fjárfestingar og kveða á um eftirlit með lífeyrissjóðum. Gert er ráð fyrir að nánar verði kveðið á um starfsemi einstakra sjóða í staðfestum samþykktum þeirra en auk þess má ætla að í almennri reglugerð verði kveðið nánar á um ýmis ákvæði laganna. Í samræmi við þetta er gert ráð fyrir, hvað almenn atriði varðar, að frumvarp þetta taki til lögbundinna sjóða eins og lífeyrissjóða opinberra starfsmanna, Lífeyrissjóðs bænda og Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Við það er miðað að um þessa sjóði gildi þó áfram sérstök löggjöf.
    Í byrjun mars 1997 voru starfræktir 66 lífeyrissjóðir en af þeim taka 10 sjóðir ekki lengur við iðgjöldum. Samtryggingarsjóðir eru alls 54 og starfa 35 án ábyrgðar launagreiðenda og 19 með ábyrgð launagreiðenda. Séreignarsjóðir voru 13. Lífeyrissjóðum hefur fækkað á undanförnum árum og má þar t.d. nefna að í ársbyrjun 1996 sameinuðust sex lífeyrissjóðir og stofnuðu lífeyrissjóðinn Framsýn og í ársbyrjun 1997 voru sameinaðir þrír lífeyrissjóðir og mynduðu þeir lífeyrissjóðinn Lífiðn. Jafnframt var stofnaður nýr séreignarsjóður í byrjun þessa árs og er hann rekinn af verðbréfadeild Búnaðarbanka Íslands.
     Hrein eign lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris í árslok 1996 nam 306,5 milljörðum kr. samanborið við 262,6 milljarða kr. í árslok 1995. Aukningin á árinu var 16,7% sem samsvarar 14,3% raunaukningu miðað við neysluverðsvísitölu. Ráðstöfunarfé samkvæmt sjóðstreymi á árinu 1996 nam samtals 62,7 milljörðum kr. samanborið við 46,8 milljarða kr. árið á undan. Raunávöxtun eigna allra lífeyrissjóðanna á árinu 1996 var 7,8% en á árinu 1995 6,9%. Hrein raunávöxtun eigna allra lífeyrissjóðanna á árinu 1996 reyndist vera 7,6% miðað við neyslu verðsvísitölu en sambærileg tala á árinu 1995 var 6,6%. Á árinu 1996 námu iðgjöld samtals 19,0 milljörðum kr. en samsvarandi tala árið 1994 var 17,0 milljarðar kr. Á árinu 1996 nam gjaldfærður lífeyrir 9,3 milljörðum kr. en 8,4 milljörðum kr. árið 1995. Kostnaður á árinu 1996, þ.e. rekstrargjöld að frádregnum rekstrartekjum, nam samtals 747 m.kr. en sambærileg fjárhæð á árinu 1995 var 691 m.kr. Sem hlutfall af eignum, þ.e. meðaltali hreinnar eignar til greiðslu lífeyris, nam kostnaður 0,3% árið 1996 og er það sama hlutfall og árið 1995 fyrir lífeyrissjóðina í heild. Þess má geta að þetta hlutfall var 0,41% árið 1991, 0,38% árið 1992, 0,34% árið 1993 og 0,29% árið 1994. Kostnaður sem hlutfall af eignum hefur þannig farið lækkandi en þó staðið í stað síðustu árin.
    Allt fram á þennan áratug hefur framtíð lífeyrissjóðakerfisins verið háð mikilli óvissu. Ekki eru nema 15 ár síðan flest benti til þess að markmið kerfisins og tilætlaður árangur næðist ekki; kerfið mundi sigla í strand og liðast í sundur. Fjárhagsstaða flestra lífeyrissjóða sem starfa án ábyrgðar launagreiðenda hefur hins vegar gjörbreyst á undanförnum árum og telst nú viðunandi. Í stað neikvæðrar raunávöxtunar á fyrstu árum almennu sjóðanna hafa þeir á undanförnum árum náð að ávaxta ráðstöfunarfé sitt langt umfram tryggingafræðilegar forsendur. Sjóðir hafa þar að auki verið sameinaðir og réttindi löguð að eignastöðunni. Nú er svo komið að óhætt er að fullyrða að með samkomulagi aðila vinnumarkaðarins árið 1969 hafi tekist að byggja upp lífeyristryggingakerfi á Íslandi sem jafnast á við það besta í heiminum. Til að undirstrika þetta má geta þess að ýmsar þjóðir eru nú í óða önn að breyta lífeyriskerfum sínum í hátt við það sem Íslendingar búa við.
    Samhliða bættri fjárhagsstöðu lífeyrissjóða er almenningur meðvitaðri en áður um þá hagsmuni sem eru í húfi. Frá sjónarhóli einstaklingsins er um að ræða uppsöfnun verðmæta sem vænta má að samsvari skuldlausu íbúðarhúsnæði við starfslok og upphaf töku ellilífeyris. Frá sjónarhóli heildarinnar ætti þessi sparnaður hins vegar að draga úr skattheimtu og kostnaði við almannatryggingakerfið.
    Hrein eign lífeyrissjóða til greiðslu lífeyris er nú áætluð rúm 60% af VLF. Áætlað er að uppsöfnun fjár haldi áfram hjá lífeyrissjóðunum til ársins 2040 og samsvari þá a.m.k. 150% af VLF.
    Lög hafa verið sett um rekstur allra annarra fjármálastofnana en lífeyrissjóða og almenn samstaða er um nauðsyn sambærilegrar löggjafar fyrir lífeyrissjóðina. Margar tilraunir hafa verið gerðar án árangurs. Veigamikil ástæða er sú óvissa sem ríkt hefur um framtíð sjóðanna og sjóðsöfnunarkerfisins almennt, m.a. vegna opinberu lífeyrissjóðanna og annarra „sjóða“ sem hafa að stórum hluta verið reknir sem gegnumstreymissjóðir. Með bættum fjárhag almennu sjóðanna og nýjum lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga hefur þessum hindrunum verið rutt úr vegi.

Helstu atriði frumvarpsins.


Skyldutrygging lífeyrisréttinda.

    Skyldutrygging lífeyrissjóða er skilgreind og gerður er greinarmunur á lágmarks tryggingavernd og viðbótartryggingavernd.
    Gert er ráð fyrir að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs verði áfram 10% af launum og heimilt að semja um hærra hlutfall. Gert er ráð fyrir að skattyfirvöld hafi eftirlit með greiðslu lágmarksiðgjalds og að aðild að lífeyrissjóði verði ákveðin í kjarasamningi eða sérlögum, en ella ráðningarsamningi.
    Samhliða því sem öllum er gert að eiga aðild að lífeyrissjóði er lágmarkstryggingavernd skilgreind. Einstaklingum er jafnframt tryggður réttur til að ráðstafa iðgjaldi til séreignar hjá annarri fjármálastofnun en þeim lífeyrissjóði sem þeir eiga aðild að ef það er umfram það sem þarf til þeirrar lágmarkstryggingaverndar sem hlutaðeigandi lífeyrissjóður hefur ákveðið. Lífeyrissjóðum er jafnframt heimilt að veita lágmarkstryggingavernd með því að bjóða sjóðfélögum að samþætta séreign og sameign

Samningar um lífeyrissparnað.

    Í II. kafla frumvarpsins er lagt til að launamenn á aldrinum 16–70 ára geti gert sérstakan samning um lífeyrissparnað við bankastofnun, verðbréfafyrirtæki, líftryggingafélag eða líf eyrissjóð vegna iðgjalda til séreignar eða viðbótartryggingaverndar. Lífeyrissparnaður getur farið inn á bundinn reikning eða til kaupa á sparnaðartryggingu. Banki gæti þannig, svo dæmi sé tekið, boðið upp á bundinn innlánsreikning og verðbréfafyrirtæki stofnað verðbréfasjóð vegna slíks sparnaðar. Settar eru reglur um það hvað koma á fram í slíkum samningum og skilyrði fyrir úttekt á innstæðu samkvæmt þeim. Gert er ráð fyrir að viðbótartryggingavernd geti bæði byggst á lífeyrissparnaði skv. II. kafla og samtryggingu skv. III. kafla.

Réttindi í lífeyrissjóðum.

    Í III. kafla frumvarpsins eru settar reglur um lífeyrisréttindi sem grundvölluð eru á sam tryggingu. Ekki er lögbundið hvaða kerfi skuli notað við útreikning lífeyrisréttinda. Útborgun ellilífeyris getur á hinn bóginn í fyrsta lagi hafist við 60 ára aldur og greiðist ávallt ævilangt. Jafnframt eru sett lágmarksskilyrði um rétt til örorku-, maka- og barnalífeyris. Þessi ákvæði taka mið af þeim reglum sem gilda um lífeyrisréttindi hjá stærstu lífeyrissjóðunum. Hjúskaparaðilum er veitt heimild til að skipta lífeyrisréttindum á milli sín með gagnkvæmum hætti.

Skilyrði lífeyrissjóðsrekstrar og starfsleyfi.

    Í frumvarpi þessu er lagt til að sett verði ákvæði um lágmarksstærð lífeyrissjóða. Er gert ráð fyrir að stærð sjóða byggist á fjölda sjóðfélaga annars vegar og tryggingavernd hins vegar. Nokkrir starfandi lífeyrissjóðir eru litlir, taka til fámennra starfsstétta eða eru bundnir við ákveðin byggðarlög. Fækkun lífeyrissjóða og stækkun þeirra getur þar með leitt til lækkunar á rekstrarkostnaði og aukinnar áhættudreifingar. Viðunandi áhættudreifingu má einnig ná með öðrum hætti, t.d. með samstarfi sjóða eða með því að lífeyrissjóður kaupi tryggingar hjá viðurkenndu tryggingafélagi og er því eftir sem áður mögulegt að sjóðfélagar séu færri en 800.
    Í V. kafla frumvarpsins er lagt til að lífeyrissjóðir þurfi sérstakt starfsleyfi en nú starfa þeir eingöngu á grundvelli reglugerða sem fjármálaráðherra staðfestir.

Rekstur og innra eftirlit.

    Í VI. kafla frumvarpsins er starfssvið og ábyrgð stjórnar og framkvæmdastjóra skilgreint. Þá er í kaflanum kveðið á um innra eftirlit lífeyrissjóða en það getur annaðhvort verið í höndum sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila eða eftirlitsdeildar sem starfrækt er við sjóðinn. Eftirlitsdeildum eða eftirlitsaðila er ætlað að gegna svipuðu hlutverki hjá lífeyrissjóðum og endurskoðunardeildir gegna hjá bönkum eða lánastofnunum og vörslufyrirtæki að hluta til hjá verðbréfasjóðum.

Eignir og skuldbindingar standist á.

    Í 39. gr. frumvarpsins er kveðið á um það með afdráttarlausum hætti að jafnvægi eigi að vera milli eigna og skuldbindinga lífeyrissjóða. Komi í ljós við tryggingafræðilega athugun að munur á eignum og skuldbindingum er yfir 10% eða meiri en 5% samfellt í fimm ár ber líf eyrissjóði að grípa til viðeigandi ráðstafana. Geta þær ráðstafanir leitt annars vegar til skerðingar á lífeyrisréttindum og hækkunar iðgjalds eða hins vegar til aukningar á lífeyris réttindum og lækkunar iðgjalds, allt eftir því hvað segir í samþykktum og hvernig sjóðurinn stendur.

Fjárreiður og eftirlit með starfsemi lífeyrissjóða.


    Í sérstökum köflum frumvarpsins er fjallað um fjárreiður og eignir lífeyrissjóða, svo og um ársreikninga og endurskoðun. Í frumvarpinu er að finna meginreglur um heimildir lífeyrissjóða til að ávaxta eignir sínar á grundvelli fyrir fram kunngerðrar fjárfestingarstefnu. Hér þarf að hafa í huga að eitt af verkefnum sjóðanna er að ávaxta eignir þannig að þeir verði sem best færir um að greiða lífeyri þegar fram í sækir. Að hinu leytinu þarf að hafa í huga að sjóðirnir taki ekki óeðlilega áhættu í ráðstöfun og ávöxtun eigna sem geti rýrt lífeyri einstaklinga úr hófi. Því er gerð almenn krafa um aðgát í fjárfestingu þó svo að heimildir sjóðanna til að fjárfesta innan lands sem utan séu sniðnar að því fjármálaumhverfi sem nú er að ryðja sér til rúms. Taldar eru upp þær tegundir verðbréfa sem sjóðunum er heimilt að fjárfesta í. Þar sem heimild til fjármagnsflutninga milli landa hefur verið veitt er eðlilegt að sjóðirnir hafi jafnframt heimildir til verðbréfakaupa í útlöndum.
    Hvað varðar gerð ársreikninga og endurskoðun og eftirlit byggist frumvarpstextinn að meginefni til á lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, og gildandi lögum um fjármálastofnanir.
    Gert er ráð fyrir að eftirlitið verði í höndum bankaeftirlits Seðlabanka Íslands. Með hlið sjón af allítarlegum kröfum frumvarpsins um fjárhagslega stöðu sjóðanna og skýlausum ákvæðum um tryggingafræðilegar úttektir þykir rétt að bankaeftirlitið, sem þegar hefur nokkra reynslu í þessum efnum, hafi eftirlit með því að sjóðirnir starfi í samræmi við ákvæði laganna og uppfylli þær kvaðir sem á þá eru lagðar. Sé þörf á sérstökum ráðstöfunum í þeim tilgangi að tryggja réttindi sjóðfélaga skal bankaeftirlitið gera því stjórnvaldi sem fer með málefni sjóðanna viðvart og það grípa til ráðstafana í samræmi við ákvæði laganna.

Núgildandi löggjöf um lífeyrissjóði.

    Í gildi eru nokkur lög sem fjalla um ákveðna þætti í rekstri lífeyrissjóða en jafnframt starfa nokkrir lífeyrissjóðir á grundvelli sérlaga. Eftirfarandi lög gilda almennt:
    Lög nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Í þessum lögum er kveðið á um skylduaðild að lífeyrissjóðum, lágmarksiðgjald og endurgreiðslu iðgjalda.
    Lög nr. 91/1980, um skráningu lífeyrisréttinda. Í lögunum er kveðið á um að færa skuli í eina heildarskrá lífeyrisréttindi allra landsmanna. Skráningin skal byggð á upplýsingum lífeyrissjóða en lögunum er ætlað að tryggja almenningi aðgang að upplýsingum um lífeyris aðild.
    Lög nr. 27/1991, um ársreikninga og endurskoðun lífeyrissjóða. Í lögunum er kveðið á um skyldu lífeyrissjóða til þess að senda bankaeftirlitinu ársreikninga sína. Jafnframt er bankaeftirlitinu veitt heimild til þess að krefja stjórnendur lífeyrissjóða um nauðsynleg gögn ef rekstri og fjárhagsstöðu lífeyrissjóðs er ábótavant í verulegum atriðum og getur eftirlitið krafist þess að gerðar séu úrbætur á rekstrinum og fjárhagsstöðunni. Á grundvelli laganna hafa verið settar reglur um gerð ársreiknings lífeyrissjóðs og um framkvæmd endurskoðunar hjá lífeyrissjóðum.
    Eftirtalin lög gilda um einstaka lífeyrissjóði, með síðari breytingum:
    Lög nr. 46/1965, um eftirlaun alþingismanna.
    Lög nr. 47/1965, um eftirlaun ráðherra.
    Lög nr. 95/1980, um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda.
    Lög nr. 50/1984, um Lífeyrissjóð bænda.
    Lög nr. 94/1994, um Lífeyrissjóð sjómanna.
    Lög nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.
    Lög nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.
    Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda hefur þá sérstöðu að hann tekur ekki til ákveðinna starfs stétta eða starfshópa heldur er honum ætlað að vera lífeyrissjóður þeirra sem ekki eiga vísa aðild að öðrum sjóðum.

Athugasemdir við einstakar greinar og kafla frumvarpsins.


Um I. kafla.


    Í I. kafla frumvarpsins er fjallað um gildissvið og hugtakið lífeyrissjóður er skilgreint. Í þessum kafla er jafnframt fjallað um skyldutrygginguna og inntak hennar skilgreint. Gert er ráð fyrir að allir launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar á aldrinum 16–70 ára eigi aðild að lífeyrissjóði. Með hugtakinu launamaður er átt við launþega og þann sem þiggur atvinnuleysisbætur. Þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi verða að eiga aðild að lífeyrissjóði hvort sem þeir starfa sem launþegar í eigin fyrirtæki eða eru með rekstur í eigin nafni. Loks er í þessum kafla fjallað um lágmarkstryggingaverndina, iðgjald, iðgjaldsstofn og innheimtu iðgjalda.

Um 1. gr.


    Hér er kveðið á um gildissvið laganna og er lagt til að þau gildi almennt um alla lífeyris sjóði með undanþágu fyrir tiltekna sjóði sem gerð er grein fyrir í XI. kafla. Fyrir lífeyrissjóði sem starfa samkvæmt sérlögum og njóta bakábyrgðar ríkis eða sveitarfélaga eru veigamestar undanþágur frá 21. gr., ákvæðum V. kafla, 39. gr. og X. kafla. Jafnframt eru lífeyrissjóðir skilgreindir sérstaklega og er þá átt við félög eða stofnanir sem veita móttöku og ávaxta iðgjöld til greiðslu lífeyris samkvæmt þessum kafla, III. kafla frumvarpsins og eftir atvikum samkvæmt II. kafla ef lífeyrissjóður nýtir heimild til móttöku iðgjalda með samningi um lífeyrissparnað.
    Í 3. mgr. er fjallað um hvað felst í skyldutryggingunni en í 4. mgr. til hverra hún taki. Þannig er í 4. mgr. kveðið á um almenna skyldu manna á aldrinum 16–70 ára til þess að vera í lífeyrissjóði. Í núgildandi lögum eru engin aldursmörk að því undanskildu að í 5. gr. laga nr. 55/1980 er kveðið á um að endurgreiða megi þau iðgjöld sem menn greiða umfram það sem kveðið er á um í kjarasamningum, svo og iðgjöld þeirra sem orðnir eru 75 ára. Í kjarasamningi sem ASÍ og VSÍ gerðu um lífeyrismál í desember 1995 er kveðið á um að greitt skuli í lífeyrissjóð til 70 ára aldurs og hafa fjölmargir lífeyrissjóðir tekið það ákvæði upp í reglugerðir sínar.

Um 2. gr.

    Í 1. mgr. segir hvernig iðgjald til öflunar lífeyrisréttinda skuli ákveðið og að lágmarks iðgjald skuli ekki vera lægra en 10% af iðgjaldsstofni. Ákvæði þetta er óbreytt að efni til frá gildandi lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55 9. júní 1980. Þar var lögbundið lágmark í samræmi við ákvæði almennra kjarasamninga enda hafa iðgjöld til lífeyrissjóðs og skipting þeirra milli atvinnurekanda og launþega verið ákveðin í kjarasamningum. Iðgjaldsskyldan varð fyrst almenn með kjarasamningum verkalýðsfélaganna og samtaka vinnuveitenda árið 1969. Þau voru í upphafi 2,5% af föstu kaupi en hafa verið hækkuð í áföngum í 10% af öllum launum og kom síðasti áfanginn til framkvæmda í ársbyrjun 1990. Hér er 10% lágmarksiðgjald lögbundið en í ýmsum kjarasamningum er kveðið á um hærra iðgjald, m.a. í samningum bankamanna og viðsemjenda þeirra og enn fremur er slíkt iðgjald ákveðið í sérlögum, sbr. lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þá hefur færst í vöxt að í ráðningarsamningum sé kveðið á um greiðslu lágmarksiðgjalds umfram 10%.
    Í 2. mgr. er kveðið á um aðild að lífeyrissjóðum. Samkvæmt gildandi lögum er öllum launa mönnum og sjálfstæðum atvinnurekendum skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps. Þessi skipan tekur mið af því að lífeyrissjóðir eru yfirleitt starfstengdir og voru stofnaðir með kjarasamningum. Sjóðirnir voru framan af mjög margir og að sama skapi litlir en hefur fækkað verulega síðustu árin. Skilgreining á aðild fylgir í höfuðdráttum ákvæðum í kjarasamningum þar sem samið er um iðgjaldsskiptingu og eiga einstök stéttarfélög aðild að tilteknum lífeyrissjóði sem kjarasamningurinn vísar til. Sjóðirnir eru ýmist bundnir við tiltekna starfsgrein eða greinar og þá yfirleitt á öllu landinu, við tiltekna landshluta eða fyrirtæki og hóp fyrirtækja. Síðustu árin hefur komið upp ágreiningur um þessa skipan, t.d. varðandi stöðu sjálfstætt starfandi manna sem samkvæmt gildandi lögum hefur verið skylt að greiða iðgjald til lífeyrisjóðs tiltekinnar starfsstéttar. Almennt má segja að aðildarskyldan hafi verið gagnrýnd þegar um er að ræða menn sem ekki byggja kjör sín á kjarasamningum.
    Þótt viðurkennt sé að hóptrygging lífeyrissjóðanna sé mikilvæg forsenda núverandi rétt indaávinnslu og að vandséð er hvern veg henni yrði náð með einstaklingsbundinni aðild að sjóðunum er grundvöllur að starfsemi lífeyrissjóðanna ekki við það bundinn að þvinga menn til aðildar að tilteknum sjóði. Hitt er ljóst að lífeyrismál hafa verið á samningsforræði aðila vinnumarkaðarins og ekki eru forsendur til að hlutast til um þá skipan. Því þykir eðlilegt að staðfesta að meginlínur aðildar verði áfram starfstengdar og í samræmi við þann kjarasamning sem ákvarðar lágmarkskjör í viðkomandi starfsgrein. Þetta er nokkur breyting á aðildarskyldu frá því sem felst í gildandi lögum og miðar að því að fækka ágreiningsefnum. Breytingin frá gildandi lögum er sú að draga fram að aðildarskylda samkvæmt kjarasamningi getur ekki tekið til annarra starfssviða en hlutaðeigandi samningur tekur til. Hún nær þannig almennt til launþega en á hinn bóginn er ljóst að kjarasamningar taka að jafnaði ekki til stjórnenda í atvinnufyrirtækjum sem eru utan stéttarfélaga. Þá leiðir orðalag ákvæðisins einnig til þess að aðild verður ekki þvinguð fram á þeim grundvelli að einstaklingur hafi lokið tilteknu námi. Loks er ákveðið að starfi einstaklingur án þess að í ráðningarbundnum starfskjörum hans sé vísað til kjarasamnings er hann óbundinn aðild að tilteknum lífeyrissjóði. Allt er þetta í eðlilegu samhengi við þá almennu afstöðu að lífeyriskjör og þar með aðild að lífeyrissjóði séu hluti starfskjara og séu þau byggð á kjarasamningi þá fari um lífeyrissjóðsaðild samkvæmt honum. Í þessu sambandi er þó vert að árétta að venjur tengjast framkvæmd kjarasamninga og þótt ekki séu t.d. skýr ákvæði í kjarasamningi um aðild að tilteknum lífeyrissjóði verða ákvæði um greiðsluskyldu atvinnurekanda skýrð í samræmi við fyrri framkvæmd. Gildir þetta ekki síst um lífeyrissjóði sem starfsmenn sveitarfélaga hafa greitt til. Í lok 2. mgr. er síðan kveðið á um að tiltaka skuli aðild að lífeyrissjóði í skriflegum ráðningarsamningi.
    Í 3. mgr. er sjóðfélagahugtakið skilgreint og lagt til að óheimilt verði að neita manni um aðild að lífeyrissjóði vegna aðstæðna viðkomandi einstaklings. Með hjúskaparstöðu er átt við hvort viðkomandi eigi maka, sbr. 3. mgr. 16. gr., og það leiðir af 1. gr. að heimilt væri að neita þeim sem orðnir eru sjötíu ára að stofna til aðildar að lífeyrissjóði.

Um 3. gr.

    Í þessari grein er iðgjaldsstofninn skilgreindur, en greinin er efnislega samhljóða 1. mgr. 13. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Kveðið er á um að iðgjalds stofninn sé sá sami og gjaldstofn tryggingagjalds, sbr. III. kafla laga nr. 113/1990. Greiða skal iðgjald af heildarfjárhæð greiddra launa og af heildarfjárhæð reiknaðs endurgjalds. Þó er sérstaklega tekið fram að ekki skuli greiða iðgjald af greiðslum sem eru endurgreiðsla á útlögðum kostnaði og iðgjald launagreiðanda til lífeyrissjóðs teljist sömuleiðis aldrei til iðgjaldsstofnsins.
    Það skal tekið fram að viðmiðun við gjaldstofn tryggingagjalds hefur í för með sér að þegar iðgjaldsstofn er reiknað endurgjald vegna starfa við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi getur iðgjaldsstofninn aldrei orðið lægri en segir í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, sbr. 36. gr. laga nr. 122/1993. Um er að ræða lágmarksiðgjaldsstofn jafnvel þótt tekjur samkvæmt ársuppgjöri kunni að reynast lægri í einhverjum tilvikum.Verði gerð breyting á gjaldstofni tryggingagjalds getur orðið nauðsynlegt að endurskoða þetta ákvæði.
    Í 2. mgr. er fjallað um ráðstöfun lífeyrisiðgjaldsins til tryggingaverndar.

Um 4. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um þá lágmarkstryggingavernd sem lífeyrissjóðum er skylt að veita. Miðað við greiðslu iðgjalds í 40 ár og 70 ára ellilífeyrisaldur á lágmark þetta að leiða til þess að sjóðfélögum sé tryggður mánaðarlegur ellilífeyrir til æviloka sem er a.m.k. 56% af þeim mánaðarlaunum sem greitt er af. Lágmarkstryggingaverndin á jafnframt að leiða til samsvarandi örorkuréttinda og maka- og barnalífeyrisréttinda í samræmi við ákvæði III. kafla frumvarpsins. Á grundvelli þeirrar lágmarkstryggingaverndar sem lífeyrissjóður ákveður skal hann tilgreina þá iðgjaldaprósentu sem niðurstaða tryggingafræðilegrar athugunar kallar á. Þetta iðgjald getur þó aldrei orðið hærra en lífeyrissjóðsiðgjald ákveðið skv. 2. gr. né tryggingaverndin önnur en samrýmist hreinni eign lífeyrissjóðs til greiðslu lífeyris, sbr. 39. gr. Ef prósentan er á hinn bóginn lægri en iðgjald það sem rennur til sjóðsins fer það sem umfram er til viðbótartryggingaverndar samkvæmt ákvörðun sjóðfélaga, sbr. 5. gr. Ákvæði um lágmark tryggingaverndar gefur lífeyrissjóði kost á því að útfæra verndina þannig að hún byggist samtímis á samtryggingu skv. III. kafla og samningi um lífeyrissparnað skv. II. kafla. Þannig getur lífeyrissjóður boðið sjóðfélögum sínum að uppfylla lágmarksskilyrðin með því að hluti iðgjalds þeirra fari til samtryggingar og hluti til lífeyrissparnaðar. Með öðrum orðum er gefinn kostur á því að lágmarksverndin sé tryggð með samþættingu samtryggingar og séreignar.

Um 5. gr.

    Í þessari grein er fjallað um heimild sjóðfélaga til að ráðstafa hluta af lífeyrisiðgjaldi til annars aðila en þess lífeyrissjóðs sem tekur við iðgjaldi vegna þeirra svo og um skyldu lífeyrissjóða og annarra aðila sem starfa samkvæmt lögum þessum til að tryggja fjárhagslegan aðskilnað milli mismunandi þátta í rekstri. Ráðstöfunarréttur sjóðfélagans takmarkast við iðgjald umfram iðgjald til lágmarkstryggingaverndar svo og þann hluta iðgjaldsins sem mögulega má renna til lágmarkstryggingarverndar í formi séreignar. Þá er kveðið á um að lífeyrissjóðum verði óheimilt að íþyngja eða leggja sérstakan kostnað á sjóðfélaga ef hann kýs að hluta af iðgjaldi sé ráðstafað til annars aðila. Þetta er til þess að koma í veg fyrir að sjóðfélögum sé mismunað velji þeir þessa leið. Þá er lagt til í 3. mgr. að ákveði launamaður ekki innan hæfilegs frests hvert þetta iðgjald eigi að renna skuli það fara til þess lífeyrissjóðs sem tekur við iðgjaldi til lágmarkstryggingaverndar. Er þetta talið nauðsynlegt til að koma í veg fyrir óvissu og til að tryggja að iðgjaldið sé innt af hendi.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðir og aðrir sem stunda starfsemi samkvæmt lögunum verði að tryggja fjárhagslegan aðskilnað á milli þess hluta rekstrarins sem felst í starfsemi vegna iðgjalds sem einstaklingar hafa ráðstöfunarrétt yfir og þess hluta sem felst í annarri starfsemi. Tilgangurinn er að fyrirbyggja að síðarnefndi reksturinn niðurgreiði rekstur vegna fyrrnefndu starfseminnar. Þannig mætti t.d. banki ekki niðurgreiða starfsemi samkvæmt þessum lögum með annarri innlánsstarfsemi og samtryggingarsjóður mætti ekki niðurgreiða rekstur séreignardeildar með rekstri samtryggingardeildarinnar. Þetta er í samræmi við markmið samkeppnislaga, sbr. einkum 14. gr. þeirra laga. Ekki er verið að gera þá kröfu að rekstur þessara tveggja þátta verði algerlega aðskilinn í sérstökum félögum heldur að sameiginlegum kostnaði verði skipt með eðlilegum og ótvíræðum hætti á milli þessara tveggja þátta.

Um 6. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um eftirlit skattstjóra með greiðslum í lífeyrissjóð. Gert er ráð fyrir að lífeyrissjóðir og launagreiðendur geri árlega grein fyrir greiðslum í lífeyrissjóði. Komi í ljós að skyldutrygging hafi ekki verið uppfyllt ber að gefa viðkomandi kost á því að uppfylla iðgjaldaskylduna innan tilskilins frests en sinni hann ekki þeirri skyldu getur ríkis skattstjóri lagt á hann iðgjald og sent það innheimtumanni ríkissjóðs eða öðrum til innheimtu. Ákvæði þetta er ekki ætlað að leysa lífeyrissjóði undan þeirri skyldu að innheimta iðgjöld í vanskilum vegna sjóðfélaga sinna, sbr. 2. mgr. 13. gr. Einstaklingur getur heldur ekki komist hjá því að greiða til þess lífeyrissjóðs sem hann á aðild að skv. 2. gr. með því að láta hjá líða að sinna skyldutryggingunni og láta ríkisskattstjóra leggja á iðgjaldið. Sé maður þannig samningsbundinn til að greiða iðgjald til tiltekins lífeyrissjóðs gæti hann ekki borið fyrir sig í innheimtumáli sem sá lífeyrissjóður höfðaði gegn honum að skattstjóri hefði þegar lagt á hann iðgjald. Þetta á við hvort sem lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs er 10% eða hærra.

Um 7. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um að iðgjald skuli greiða reglubundið í mánuði hverjum. Ekki verður því heimilt að greiða iðgjöld eingöngu einu sinni á ári svo dæmi sé tekið, jafnvel þótt það iðgjald svari til ársiðgjalds. Gjalddagi og eindagi eru skilgreindir.
    Í 3. mgr. er að finna sérreglu um skyldu launagreiðanda til þess að halda iðgjaldshluta launþegans eftir og standa skil á honum ásamt eigin iðgjaldshluta til lífeyrissjóðs eða aðila skv. 8. gr. Sjálfstætt starfandi atvinnurekendur verða sjálfir að skila sínu iðgjaldi í samræmi við ákvæði 1. og 2. mgr.
    Loks er í 4. mgr. lagt til að launagreiðendur og sjálfstætt starfandi atvinnurekendur tilkynni viðkomandi lífeyrissjóði og aðilum skv. 8. gr. ef þeim ber ekki lengur að standa skil á iðgjöldum.

Um 8. gr.

    Hér er kveðið á um heimild launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga til þess að gera samninga um tryggingavernd vegna iðgjalda sem þeir hafa beinan ráðstöfunarrétt yfir við viðskiptabanka, sparisjóði, verðbréfafyrirtæki, líftryggingafélög og lífeyrissjóði. Samningar þessir geta verið mismunandi, allt eftir því við hvern er samið. Þeir geta t.d. kveðið á um innlegg á bundinn innlánsreikning þegar um banka eða sparisjóð er að ræða, um kaup á lífeyristryggingu hjá líftryggingafélagi eða um samtryggingarsparnað þegar um lífeyrissjóð er að ræða. Í 2. mgr. er kveðið á um að rétthafa sé óheimilt að ráðstafa inneign eða réttindum samkvæmt samningnum. Er slíkt nauðsynlegt þegar litið er til tilgangs samninganna. Sam heitið rétthafi er notað um þá launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem gera samning um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað. Launagreiðandi eða lífeyrissjóður getur jafnframt gert slíkan samning samkvæmt umboði en launþeginn eða sjóðfélaginn er samt sem áður rétthafi samkvæmt samningnum. Erfingjar launamanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings teljast hins vegar ekki rétthafar samkvæmt frumvarpinu og er fjallað um greiðslur til þeirra í 4. mgr. 11. gr.
    Í 3. mgr. eru þeir tilgreindir sem geta veitt þá þjónustu sem felst í móttöku iðgjaldsins með gerð samninga um viðbótartryggingavernd og/eða tekið á móti sparnaði skv. II. kafla. Nauðsynlegt er talið að binda þetta við þá aðila sem tilgreindir eru í 1.–4. tölul. enda eru þetta allt aðilar sem ákveðnar reglur gilda um í lögum. Lífeyrissjóðir þurfa enn fremur að fullnægja skilyrðum 4. og 5. gr.

Um 9. gr.


    Hér er kveðið á um það hvað skuli koma fram í samningi um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað. Gert er ráð fyrir m.a. að mánaðarlegt innlegg sé tilgreint, en þar er ekki eingöngu átt við fasta krónutölu heldur einnig fjárhæð sem hlutfall af launum og getur upphæð innleggs því breyst til hækkunar eða lækkunar í samræmi við launabreytingar. Jafnframt er fjallað um uppsögn í greininni og sett ákveðin skilyrði fyrir henni, svo sem um uppsagnarfrest. Þá er kveðið á um að uppsögn veiti ekki rétt til endurgreiðslu inneignar en hins vegar má flytja inneign á milli aðila. Eðli málsins samkvæmt á ákvæði um uppsögn aðeins við um þá sem ber að greiða iðgjöld vegna þess að þeir hafa ekki náð 70 ára aldri og eru á vinnumarkaði eða á atvinnuleysisbótum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að í þeim tilvikum þegar lífeyrissjóður tekur einungis við iðgjaldi til viðbótartryggingaverndar verði hann að ganga úr skugga um að iðgjald vegna lágmarkstryggingaverndar hafi verið greitt til annars lífeyrissjóðs. Þetta á einkum við þegar einstaklingur skilar sjálfur iðgjaldinu en í þeim tilvikum þegar lífeyrissjóður eða samnings bundinn atvinnurekandi skilar því yrði það að sjálfsögðu óþarft. Í því skyni að tryggja að ávallt sé greitt til lágmarkstryggingaverndar þykir nauðsynlegt að leggja ríkari kröfur á líf eyrissjóðina en aðra sem bjóða upp á samninga um viðbótartryggingavernd þar sem starfsemi þessara lífeyrissjóða er blönduð og því mikilvægt fyrir eftirlitsaðila að geta staðreynt að lágmarksskilyrði séu uppfyllt. Þetta ákvæði breytir því ekki að lífeyrissjóður verður ávallt að bjóða upp á lágmarkstryggingavernd skv. 4. gr. Hann þarf á hinn bóginn ekki að taka við báðum hlutum iðgjalds tiltekins einstaklings þegar annar hlutinn fer til lágmarks tryggingaverndarinnar og hinn til viðbótartryggingaverndarinnar.

Um 10. gr.

    Hér er kveðið á um skyldu þeirra sem bjóða upp á samninga um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað til að leita fyrir fram eftir samþykki fjármálaráðherra á reglum um slíka samninga. Sambærilegt ákvæði er í 4. gr. laga nr. 49/1985, um húsnæðissparnaðarreikninga. Jafnframt er þeim gert að tilkynna um allar breytingar á reglunum og fá þær samþykktar. Enn fremur er lagt til að lögfestur verði þriggja mánaða frestur fyrir ráðherra til að taka afstöðu til reglna um samninga þessa. Eðlilegt er að ráðherra séu sett ákveðin tímamörk í því efni.

Um II. kafla.

    Í kaflanum er fjallað um lífeyrissparnað. Kveðið er á um úttekt eða útborgun samkvæmt slíkum samningum. Ekki eru settar sérstakar reglur um fjárfestingu þeirra aðila sem bjóða upp á samninga um lífeyrissparnað eða um eftirlit með þeim enda er það óþarft þar sem víðtækar og strangar reglur gilda um starfsemi allra þeirra aðila sem geta boðið upp á slíka samninga samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps og lögum um fjármálastofnanir og vátryggingafélög.


Um 11. gr.

    Í greininni er sett ákvæði um útborgun inneignar. Lagt er til í 1. mgr. að inneignina megi taka út í fyrsta sinn tveimur árum eftir fyrstu greiðslu iðgjalds. Ákvæði um lágmarksbinditíma eru talin nauðsynleg, ekki síst þegar haft er í huga að gert er ráð fyrir að sömu skattareglur gildi um þennan sparnað og réttindi hjá lífeyrissjóðum enda hluti af skyldutryggingu lífeyrisréttinda.
    Í 2.–4. mgr. er fjallað um hvenær hægt er að fá inneignina greidda út og á hvað löngum tíma. Sparnaði þessum er ætlað svipað hlutverk og elli-, örorku- og fjölskyldulífeyri úr líf eyrissjóðum, sbr. III. kafla.
    Í fyrsta lagi getur rétthafi byrjað að fá greiðslur þegar hann hefur náð 60 ára aldri og er þá greiðslutíminn sjö ár að lágmarki. Þannig er hægt að taka út sparnaðinn áður en almennar greiðslur úr lífeyrissjóði hefjast og gera þeim sem gert hafa slíka samninga um lífeyrissparnað kleift að minnka við sig vinnu eftir 60 ára aldur. Ákveði hann hins vegar að byrja seinna að taka út innstæðuna styttist lágmarkstíminn sem því nemur. Sá sem t.d. byrjar 65 ára getur tekið innstæðuna út á tveimur árum. Í öðru lagi getur hann tekið innstæðuna út ef hann verður öryrki og þá í réttu hlutfalli við örorkuna. Þannig gæti t.d. 40% öryrki, sem ekki hefur náð ellilíf eyrisaldri, tekið út árlega 40% af þeirri innstæðu sem hann ella á rétt á að taka út árlega frá og með 60 ára aldri. Útborgunin getur átt sér stað á mislöngum tíma allt eftir því hve mikil örorkan er og hvað öryrkjann vantar mörg ár til að ná 60 ára aldri. Loks er í 3. mgr. fjallað um greiðslu til maka, barna og annarra erfingja. Lagt er til að greiðsla til maka og barna, þ.e. skylduerfingja, dreifist á ákveðið tímabil en greiðsla til annarra erfingja, ef um þá er að ræða, verði greidd út í einu lagi.

Um 12. gr.

    Í greininni er fjallað um hugtakið jafnar greiðslur, en af ákvæðinu leiðir að ekki er hægt að skilja á milli þess hluta innstæðunnar sem stafar af innborgunum og þess hluta sem stafar af ávöxtun. Jafnframt eru sérstakir útborgunarsamningar milli rétthafa og aðila skv. 8. gr. heimilaðir. Slíkir samningar geta byggst á verðtryggingu og samkomulagi um ákveðna vexti og/eða tryggingafræðilegu mati á ævilíkum. Ef um það er samið getur mánaðarleg útborgun náð til ákveðins tíma að hluta til og til æviloka rétthafa að hluta.

Um III. kafla.


    Í III. kafla er fjallað um samtryggingarréttindi í lífeyrissjóðum. Sett eru ákvæði um lífeyrisréttindi sem eru lágmarksákvæði og geta því sjóðirnir veitt betri réttindi en kveðið er á um í kaflanum. Ekki er kveðið á um fjárhæð elli- og örorkulífeyris eða um sérstakt útreikningskerfi en eins og kunnugt er nota flestir sjóðirnir svokallað stigakerfi með flatri réttindaávinnslu þegar réttindi eru reiknuð út.

Um 13. gr.

    Í þessari grein er lagt til að lífeyrisréttindi þau sem fjallað er um í kaflanum verði lág marksréttindi. Greinin kveður á um að lífeyrissjóður geti ekki haft ákvæði um lakari lífeyris rétt í samþykktum sínum. Vilji sjóður aftur á móti auka lífeyrisréttindi sjóðfélaga umfram lágmörkin er honum það heimilt. Enn fremur felst í ákvæðinu að ávinnsla lífeyrisréttinda vegna viðbótar- og lágmarkstryggingaverndar þurfi ekki að fara saman svo og að trygginga verndin getur eftir atvikum ýmist verið háð eða óháð aldri. Lífeyrissjóður sem ákveður að hverfa frá flatri réttindaávinnslu til réttindaávinnslu sem tekur mið af aldri sjóðfélaga getur t.d. samkvæmt þessu innleitt þá breytingu með því að láta hana einungis ná til nýrra sjóð félaga.
    Í 2. mgr. er leitast við að skilgreina hvenær lífeyrisréttur stofnast. Lagt er til að megin reglan verði sú að réttur til lífeyris reiknist frá þeim tíma sem iðgjald er greitt til lífeyrissjóðs. Í flestum tilvikum eru iðgjöld greidd til lífeyrissjóða reglulega og engin vandkvæði fyrir hendi að þessu leyti. Hins vegar er nauðsynlegt að tekin séu af tvímæli um þetta þegar um vangoldin iðgjöld er að ræða. Hér er lagt til að gagnvart þeim sem bera sjálfir ábyrgð á greiðslum eigin iðgjalda gildi meginreglan um reikning réttinda frá þeim tíma er greiðslan fer fram. Með hliðsjón af samningsákvæðum, svo og tillögu þessa frumvarps um skyldu launagreiðanda til að halda eftir iðgjaldshluta launþega og að standa lífeyrissjóði skil á honum ásamt iðgjaldshluta sínum, þykir eðlilegt að rýmri regla gildi um það frá hvaða tíma lífeyrisréttur launþega stofnast. Hér er lagt til að sé um vangoldin iðgjöld vegna launþega að ræða reiknist lífeyrisréttur frá eindaga viðkomandi greiðslu, enda hafi lífeyrissjóði borist vitneskja um að greiðsluna hefði átt að inna af hendi innan 60 daga frá dagsetningu þess yfirlits sem skylt er að senda sjóðfélögum. Þessi tímamörk eru jafnframt í samræmi við III. kafla laga nr. 53/1993, um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Þessi rýmri regla gildir þó ekki um þá launþega sem falla undir 6. gr. laganna um ábyrgðasjóð launa, en það eru t.d. stjórnarmenn í gjaldþrota félögum, forstjóri og framkvæmdastjóri gjaldþrota félaga svo og makar og skyldmenni í beinan legg. Ábyrgðasjóðurinn ber ekki ábyrgð á kröfum þessara aðila og því þykir ekki eðlilegt að láta lífeyrissjóði veita réttindi á grundvelli iðgjalda sem tapast hafa við gjaldþrot.

Um 14. gr.


    Í þessari grein er fjallað um ellilífeyri. Gert er ráð fyrir að almenna reglan verði sú að greiðsla ellilífeyris hefjist tiltekið ár á aldursbilinu 65–70 ára en jafnframt að lífeyrissjóður geti gefið sjóðfélögum kost á að flýta eða fresta töku lífeyris um allt að fimm ár, þ.e. að sjóðfélagar lífeyrissjóða geti í fyrsta lagi hafið töku lífeyris 60 ára og ef aldur leyfir í síðasta lagi þegar þeir hafa náð 75 ára aldri. Í samþykktum ber að kveða á um hvaða áhrif frestun eða flýting hefur á fjárhæð lífeyrisins.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að ellilífeyrir skuli greiddur út mánaðarlega með jöfnum greiðslum til æviloka. Með því er átt við að greiðslur geti ekki verið háar í tiltekinn árafjölda og síðan lækkað eftir það. Ákvæðið kemur hins vegar ekki í veg fyrir að greiðslur hækki eða skerðist vegna vísitölutengingar eða niðurstöðu tryggingafræðilegrar úttektar á stöðu sjóðsins, sbr. 24. gr.
    Í 3. mgr. er fjallað um skiptingu ellilífeyrisréttinda og ellilífeyrisgreiðslna milli sjóðfélaga og maka hans eða fyrrverandi maka. Hugtakið maka ber að skilja á sama hátt og í 3. mgr. 16. gr. Um er að ræða skiptingu í þremur tilvikum skv. 1.–3. tölul. Samkomulag um skiptingu ellilífeyrisréttinda skal ná til beggja aðilanna og fela í sér gagnkvæma og jafna skiptingu þeirra réttinda sem makarnir hafa áunnið sér á þeim tíma sem hjúskapur, sambúð eða staðfest samvist hefur staðið.
     Í fyrsta tilvikinu (1. tölul.) ber lífeyrissjóði að skipta greiðslunum í samræmi við ákvörðun sjóðfélagans en greiðslurnar falla niður við andlát hans. Í þessu tilviki er því ekki um sjálfstæðan rétt makans að ræða heldur er hann leiddur af rétti sjóðfélagans. Í öðru tilvikinu (2. tölul.) öðlast makinn sjálfstæðan ellilífeyrisrétt eftir að viðkomandi ráðstöfun hefur farið fram. Greiðslur mundu því halda áfram þótt sjóðfélaginn deyi á undan maka eða fyrrverandi maka. Réttindi samkvæmt þessu ákvæði ráðast af verðmæti uppsafnaðra ellilífeyrisréttinda sjóðfélagans. Til að meta og reikna út réttindi makans þarf því tryggingafræðilega úttekt. Í síðasta tilvikinu ( 3. tölul.) felst loks sá réttur að með mögulegri skiptingu iðgjalds öðlast maki sjóðfélaga rétt til þeirrar tryggingaverndar sem viðkomandi sjóður veitir vegna ellilífeyris en réttindin reiknast frá því tímamarki sem tilgreint er í 2. mgr. 13. gr., þ.e. að jafnaði frá þeim tíma sem iðgjald berst lífeyrissjóði. Ákvæði 1. og 2. tölul. eiga ekki á heildina litið að hafa áhrif á fjárhagsstöðu lífeyrissjóðs. Ákvæði 3. tölul. getur hins vegar haft einhver áhrif. Hún gæti t.d. versnað ef réttindaávinnslan almennt flyst á grundvelli ákvæðisins frá körlum til kvenna og frá ungum sjóðfélögum til gamalla maka, en batnað ef þessu væri öfugt farið. Með hliðsjón af mikilli atvinnuþátttöku bæði karla og kvenna og að almennt er ekki mikill aldursmunur á hjónum ætti þetta ákvæði ekki að hafa mikil fjárhagsleg áhrif í raun.


Um 15. gr.

    Í þessari grein eru settar almennar reglur um örorkulífeyri með hliðsjón af þeim reglum sem gilda almennt hjá lífeyrissjóðum. Lagt er til að sjóðfélagi sem fullnægir þeim skilyrðum sem tilgreind eru í 1. mgr. eigi ávallt rétt á örorkulífeyri miðað við áunnin réttindi. Hann getur hins vegar átt rétt á framreikningi, þ.e. að lífeyrir miðist ekki eingöngu við áunninn rétt heldur taki einnig mið af þeim rétti sem sjóðfélaginn hefði áunnið sér fram til ellilífeyrisaldurs ef hann fullnægir þeim skilyrðum sem sett eru í 2. mgr. og eftir atvikum 3. mgr. Í 5. mgr. er lagt til að lífeyrissjóðir geti haft ákvæði um biðtíma þannig að örorkulífeyrir greiðist ekki fyrst eftir orkutapið eða ef það varir í skamman tíma. Gert er ráð fyrir að í samþykktum verði settar ítarlegar reglur um örorkulífeyri, svo sem um örorkumatið, t.d. hvort það eigi að miðast við vanhæfi til að gegna því starfi sem sjóðfélagi gegndi þegar hann varð fyrir orkutapi eða hvort miða eigi við vanhæfi til að gegna almennum störfum. Í mörgum sjóðum er matið t.d. fyrstu þrjú árin miðað við það starf sem sjóðfélaginn gegndi við orkuptapið en eftir það við störf almennt. Þá er gert ráð fyrir að fjallað verði um útreikninginn í samþykktum, svo sem um það hvaða áhrif aðrar tekjur hafa á lífeyri. Loks má nefna að í samþykktum á að fjalla um skilyrði fyrir greiðslu, svo sem um framlagningu vottorða og annarra gagna og skyldu til að gangast undir endurhæfingu.

Um 16. gr.

    Í þessari grein er fjallað um makalífeyri og skilyrði fyrir greiðslu hans. Þetta eru lágmarksákvæði og því geta sjóðir ákveðið rýmri reglur. Í 1. mgr. er sett það almenna skilyrði fyrir greiðslu makalífeyris að iðgjöld hafi verið greidd í ákveðinn tíma til lífeyrissjóðs eða hinn látni hafi notið elli- eða örorkulífeyris við andlát sitt.
    Í 2. mgr. er kveðið á um þann lágmarkstíma sem makalífeyrir skal greiddur. Þessi tími getur stystur verið 24 mánuðir, en ef makinn er með börn á framfæri eða er öryrki ber að greiða makalífeyri til þess tíma er börnin ná 18 ára aldri eða á meðan örorkan varir, en þó ekki lengur en til 67 ára aldurs. Ekki skiptir máli fyrir rétt makans til aukins makalífeyris hvort hinn látni hefur verið kynforeldri barnsins, kjörforeldri eða fósturforeldri heldur eingöngu hvort barnið hefur verið á framfæri hins látna við andlátið. Í 3. mgr. er hugtakið maki skilgreint en í 4. mgr. er kveðið á um að frekari reglur um makalífeyri skuli settar í samþykktir lífeyrissjóða.

Um 17. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um rétt til barnalífeyris vegna andláts eða örorku sjóðfélaga. Grunnfjárhæðir eru tilgreindar og eiga að taka breytingum í samræmi við þróun verðlags. Jafnframt er gert ráð fyrir að barnalífeyrir með börnum örorkulífeyrisþega taki mið af örorku sjóðfélaga.

Um 18. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um skráningu lágmarksupplýsinga um þá menn sem eiga iðgjaldainnstæður í hlutaðeigandi lífeyrissjóði eða réttindi áunnin á annan hátt, svo og um lífeyrisþega.
    Í 2. mgr. er lagt til að lífeyrissjóðum verði skylt að senda virkum sjóðfélögum sínum yfirlit um iðgjaldagreiðslur eigi sjaldnar en á hálfs árs fresti. Þetta er gert í því skyni að sjóðfélagar geti sjálfir haft eftirlit með því að iðgjöld vegna þeirra komist til skila. Sjóðfélaginn yrði að gera athugasemdir ef yfirlitið sýndi að iðgjöld væru í vanskilum, að öðrum kosti gæti hann tapað réttindum.

Um 19. gr.

    Með 1. mgr. 19. gr. er verið að tryggja lífeyrisrétt manna sem hætta iðgjaldagreiðslum til lífeyrissjóðs og geyma innstæðu sína þar. Samkvæmt ákvæðum þessum er óheimilt að láta aðra og óhagstæðari skilmála gilda um þann rétt er slíkar innstæður veita en um réttindi virkra almennra sjóðfélaga. Gildir þetta bæði með tilliti til lágmarksgreiðslutíma iðgjalda og verðtryggingar lífeyris.
    Í 2. mgr. er kveðið á um réttarstöðu þeirra sem eiga lífeyrisréttindi í fleiri sjóðum en einum. Ákvæðinu er m.a. ætlað að tryggja réttarstöðu manna vegna mögulegra breytinga á réttindaávinnslukerfi lífeyrissjóða sem gerði greinarmun á gömlum og nýjum sjóðfélögum. Breytingarnar mega þannig ekki leiða til þess að menn öðlist meiri rétt eða glati réttindum sé þeim síðar gert að færa sig á milli lífeyrissjóða vegna breytinga á starfshögum. Þess má geta að milli fjölmargra lífeyrissjóða eru nú í gildi samningar sem tryggja sjóðfélögum er greitt hafa iðgjöld til fleiri en eins sjóðs sömu réttindi og þeir hefðu haft með greiðslu til eins og sama sjóðs allan iðgjaldsgreiðslutíma sinn. Eru þá að jafnaði fastar reglur um flutning réttinda milli sjóða í tilteknum tilvikum.
    Í 3. mgr. er kveðið á um heimild til þess að flytja réttindi milli sjóða í því skyni að tryggja þau réttindi sem greinin kveður á um. Flutningur iðgjalda, og þar með réttinda milli sjóða, í öðrum tilvikum yrði óheimill, sbr. þó hér síðar. Gert er ráð fyrir að í reglugerð yrðu sett nánari ákvæði um flutninginn en eins og áður sagði eru ákvæði um þetta efni nú í samningum milli sjóða. Jafnframt er kveðið á um heimild til handa lífeyrissjóðum til að endurgreiða iðgjöld til erlendra ríkisborgara í samræmi við samþykktir sjóðanna. Eðli málsins samkvæmt mætti endurgreiða iðgjöld sem greidd eru vegna mistaka, svo sem vegna manna sem orðnir eru 70 ára, og flytja réttindi frá einum sjóði til annars ef greitt hefur verið í rangan sjóð.

Um IV. kafla.

    Í kaflanum er að finna ýmis almenn ákvæði um starfsemi lífeyrissjóða, svo sem um stærðarmörk, heiti og tryggingafræðilegar úttektir á þeim.

Um 20. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um það til hvers starfsemi lífeyrissjóða tekur en í 2. mgr. er áskilið að lífeyrissjóður megi ekki hafa aðra starfsemi með höndum en þá sem nauðsynleg er til að ná tilgangi 2. mgr. 1. gr. og 1. mgr. Jafnframt er kveðið á um að sjóði sé ekki heimilt að inna af hendi framlög í öðrum tilgangi, svo sem til líknar- eða íþróttafélaga. Þetta aðhaldsákvæði þykir nauðsynlegt með hliðsjón af þeim markmiðum sem lífeyrissjóður á að keppa að, þ.e. að greiða sem hæstan lífeyri á hverjum tíma.

Um 21. gr.

    Í þessari grein er í 1. mgr. kveðið á um að heimild til lífeyrissjóðsrekstrar sé bundin því skilyrði að lífeyrissjóðurinn hafi fengið starfsleyfi. Um umsóknir um starfsleyfi og veitingu þeirra er fjallað í V. kafla en í XI. kafla er fjallað sérstaklega um veitingu leyfa til þeirra sjóða sem starfandi eru við gildistökuna.
    Í 2. mgr. er kveðið á um lágmarksstærð lífeyrissjóða. Lagt er til að sjóður verði ekki starf ræktur ef fjöldi sjóðfélaga sem greiða iðgjald til hans reglulega í mánuði hverjum nær ekki tilteknu lágmarki, þ.e. 800. Fari félagatalan niður fyrir þá tölu um lengri tíma yrði að taka til athugunar hvort slíta ætti sjóðnum. Lífeyrissjóðir geta þó tryggt áhættudreifingu vegna skuldbindinga sinna með öðrum hætti, t.d. með kaupum á tryggingu og ef það er gert er ekki nauðsynlegt að 800 félaga markinu sé náð. Jafnframt gætu sjóðir sem ættu á hættu að missa starfsleyfi vegna of fárra sjóðfélaga varist því með kaupum á tryggingum. Áhættudreifing þarf að fara fram í samræmi við tryggingafræðilega athugun ef sjóðfélagar eru færri en 800 þannig að þeir séu ekki lakar tryggðir en þeir sem eru í stærri sjóðum. Í 3. mgr. er fjallað um hvernig tryggja má áhættudreifingu þegar sjóðfélagar eru of fáir en einnig er gert er ráð fyrir að ráðherra kveði nánar á um þetta í reglugerð.
    Ákvæði 2. mgr. hefur tvennan tilgang: að stuðla að því að rekstrarkostnaður lífeyrissjóða í hlutfalli við iðgjaldstekjur þeirra verði sem lægstur og að tryggja meiri áhættudreifingu en er í litlum sjóðum.
    Hvað fyrra atriðið snertir er ljóst, m.a. af tölum úr bókhaldi lífeyrissjóða, að rekstrar kostnaður sem hlutfall af tekjum er yfirleitt þeim mun lægri sem sjóðir eru stærri. Þetta er skiljanlegt þegar til þess er litið að sjóðirnir hafa talsverðan fastan kostnað af starfsemi sinni óháð stærð auk þess sem ýmis breytilegur kostnaður á hvern sjóðfélaga lækkar eftir því sem þeir eru fleiri. Lögmál stærðarhagkvæmni á því vel við um starfsemi af þessu tagi. Loks má nefna það sem augljóst er að markmiðið með starfsemi lífeyrissjóða er að greiða lífeyri og sjóðir geta greitt því meiri lífeyri til sjóðfélaga sem rekstrarkostnaðurinn er minni.
    Áhættudreifing í mörgum íslenskum lífeyrissjóðum er alls ófullnægjandi. Í þessu sambandi er gagnlegt að greina ferns konar dæmi um áhættu sem dregið er úr með stækkun lífeyrissjóða.
    Í fyrsta lagi er áhætta sem tekin er með loforðum um greiðslu örorkulífeyris, barnalífeyris og jafnvel makalífeyris. Þeim mun smærri sem sjóðir eru þeim mun meiri áhætta er tekin í að ganga þurfi mjög á eignir sjóðs ef til stórslysa kemur eða mikilla áfalla. Hættan er þá sú að sjóður geti ekki staðið við skuldbindingar sínar, bæði í bráð og lengd.
    Í öðru lagi er nú algengt að sjóðir séu bundnir við ákveðin byggðarlög og séu mjög fá mennir. Tímabundnir erfiðleikar í byggðarlaginu gætu reynst lífeyrissjóði þungbærir og varanlegir erfiðleikar riðið honum að fullu.
    Í þriðja lagi gildir hið sama um þá sjóði sem eru bundnir við fámennar starfsstéttir. Í slíkum sjóðum felst enn fremur sú áhætta að örorkulífeyrislíkur reynist meiri hjá einni tiltekinni starfsstétt en gera má ráð fyrir að meðaltali hjá mörgum starfsstéttum.
    Í fjórða lagi má loks nefna að í litlum sjóðum felst sú áhætta að aldursdreifing sé óhagstæð en í stórum sjóðum. Sé aldursdreifing óhagstæð eða breytist til hins verra getur það hæglega rýrt gjaldþol sjóða, þ.e. möguleika þeirra á að greiða ellilífeyri í framtíðinni.
    

Um 22. gr.


    Hér er kveðið á um það að lífeyrissjóðum sé skylt og einum heimilt að nota orðið lífeyris sjóður í heiti sínu. Sambærilegt ákvæði er í lögum um ýmsar fjármálastofnanir, svo sem í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði og í lögum um verðbréfasjóði. Ákvæðinu er ætlað að koma í veg fyrir misskilning og einnig að aðilar sem ekki uppfylla skilyrði frumvarpsins til að stunda starfsemi sem það tekur til villi á sér heimildir. Í greininni er þó gerð sú undantekning að lífeyrissjóðum sem starfandi eru við gildistöku laganna er heimilað að halda heiti sínu óbreyttu svo framarlega sem það er ekki bannað í öðrum lögum.

Um 23. gr.


    Í þessari grein er gert ráð fyrir að almenna reglan verði sú að lífeyrissjóðir ábyrgist skuldbindingar sínar með eigum sínum og að aðrir, þar á meðal atvinnurekendur, beri ekki ábyrgð á skuldbindingunum. Ljóst er að lífeyrissjóðir sem við gildistöku laganna eru starfræktir með ábyrgð atvinnurekenda, svo sem lífeyrissjóðir starfsmanna ríkisins og sveitarfélaga, verða að fá undanþágu frá þessari reglu, sbr. XI. kafla.

Um 24. gr.


    Hér er kveðið á um skyldu til þess að láta fara fram tryggingafræðilega úttekt á lífeyris sjóðum á hverju ári en í samþykktum flestra lífeyrissjóða eru nú þegar ákvæði um gerð slíkra úttekta. Athuguninni er ætlað að taka bæði til tryggingafræðilegra og fjárhagslegra forsendna.
    Í greininni er lagt til að sett verði óundanþægt ákvæði um að slík athugun eigi sér stað árlega. Til skamms tíma hafa slíkar athuganir verið mjög tímafrekar auk þess sem skortur hefur verið á sérmenntuðu fólki á þessu sviði. Með tilkomu tölvubókhalds og þróun tölvukerfa til úttekta á stöðu sjóðanna, sem þegar er talsverð reynsla af, þykir eðlilegt að gera ráð fyrir reglubundnum árlegum tryggingafræðilegum athugunum. Í 44. gr. er síðan gert ráð fyrir því að eftirlitsaðili geti krafist þess að tryggingafræðileg úttekt fari fram ef sérstök ástæða þykir til. Þá er gert ráð fyrir að í reglugerð verði almennar forsendur tilgreindar vegna tryggingafræðilegra athugana og við mat eigna vegna slíkra athugana.

Um V. kafla.


    Í V. kafla er fjallað um starfsleyfi lífeyrissjóða. Efnið í þennan kafla er einkum sótt í lög nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, og lög nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti. Talin eru upp helstu skilyrði starfsleyfis en síðan er fjallað um það hvernig fara skuli með synjun starfs leyfis. Þessi ákvæði eru sambærileg við ákvæði laga um verðbréfasjóði. Þá er fjallað um samþykktir sjóðanna og efni þeirra. Loks er gert ráð fyrir að allar breytingar á samþykktum þurfi að staðfesta með svipuðum hætti og verið hefur.

Um 25. gr.


    Í greininni er lagt til að lífeyrissjóðum verði skylt að sækja um starfsleyfi en hingað til hafa þeir starfað á grundvelli laga eða staðfestra reglugerða. Til þess að fá starfsleyfi verða þeir að fullnægja ákvæðum laganna og ber að synja um starfsleyfi ef svo er ekki, sbr. 26. gr.
    Í 1. mgr. eru helstu skilyrði starfsleyfis talin upp. Með 2. mgr. eru settar þær formkröfur að umsókn um starfsleyfi skuli vera skrifleg enda þótt gera megi ráð fyrir að svo verði almennt. Samþykktir sjóðsins verða að fylgja umsókn en að öðru leyti er fjármálaráðherra veitt heimild til þess að ákveða hverjar aðrar upplýsingar skuli lagðar fram með umsókn. Eðli málsins samkvæmt skulu kröfur um upplýsingar vera almennar og gilda fyrir alla umsækjendur. Þá er einnig gert ráð fyrir að leitað sé álits bankaeftirlits áður en leyfi er veitt.

Um 26. gr.


    Í greininni er fjallað um þær formreglur sem gilda um veitingu og synjun starfsleyfis. Ákvörðun um starfsleyfi skal vera skrifleg og rökstudd. Þar sem hér er um veigamikla ákvörðun að ræða sem almennt varðar umsækjanda miklu þykir eðlilegt að ákvörðunin sé rökstudd. Enn fremur er kveðið á um sérstaka tímafresti í þessu sambandi en við það er miðað að ákvörðun ráðherra skuli liggja fyrir eigi síðar en þremur mánuðum frá því að fullbúin umsókn berst ráðherra. Komið getur fyrir að ófullnægjandi gögn eða upplýsingar hafi borist frá umsækjanda og þykir því eðlilegt að miða upphaf frestsins við það tímamark er fullnægjandi upplýsingar berast að mati ráðherra, sbr. 25. gr. frumvarpsins.

Um 27. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að í samþykktum lífeyrissjóðs skuli við það miðað að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar en í 39. gr. er kveðið nánar á um þetta atriði.
    Í 2. mgr. eru talin upp þau atriði sem fram þurfa að koma í samþykktum lífeyrissjóðs. Um flest þessi atriði eru nánari ákvæði í einstökum greinum, svo sem um réttindi, ákvörðun iðgjalda, ávöxtun o.fl., og verða samþykktirnar að vera í samræmi við þau ákvæði. Frum varpið er ekki því til fyrirstöðu að í samþykktir séu tekin frekari ákvæði, að því tilskildu að þau fjalli almennt um gerð og rekstur viðkomandi sjóðs og samrýmist frumvarpinu að öðru leyti.
    Flest þeirra atriða sem talin eru upp í 1.–11. tölul. 2. mgr. eru nú í samþykktum sjóðanna. Í greininni er greint á milli sjóðfélaga, þ.e. einstaklinga sem eiga aðild að lífeyrissjóði, og aðildar að sjóðnum, sbr. 2. og 3. tölul. 2. mgr. Með aðild almennt í 3. tölul. er auk sjóðfélaga eftir atvikum átt við hvaða vinnuveitendur eða félög þeirra og hvaða stéttar- eða starfs mannafélög eiga aðild að sjóðnum. Gert er ráð fyrir að það komi fram með almennum hætti hvernig aðild og brottfalli aðildar skuli háttað, hvort sem um einstaklinga eða félög er að ræða, og hvernig hætta má aðild að sjóðnum. Sé sjóður stofnaður eða rekinn af verðbréfa fyrirtæki eða öðrum slíkum aðila yrði það einnig að koma fram.

Um 28. gr.


    Hér er kveðið á um að fjármálaráðuneytið þurfi að staðfesta breytingar á samþykktum lífeyrissjóða en sambærilegt ákvæði er nú í 2. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Í greininni er lagt til að samtök lífeyrissjóða geti tilkynnt um breytingar í umboði aðildarsjóða sinna en um skilyrði þess yrði nánar kveðið á í reglugerð. Telja verður að mikið hagræði sé af slíku fyrirkomulagi en nú er það svo að sjóðir, t.d. innan Sambands almennra lífeyrissjóða, verða hver og einn að fá breytingar á reglugerðum sínum staðfestar jafnvel þótt um sams konar breytingar sé að ræða.

Um VI. kafla.

    Í VI. kafla er fjallað um ársfundi, hlutverk og ábyrgð stjórnar og framkvæmdastjóra og um starfsemi sérstakrar eftirlitsdeildar eða eftirlitsaðila við lífeyrissjóði til þess að annast innra eftirlit.

Um 29. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um skyldur stjórnar og verkefni en sambærilegt ákvæði er í lögum um verðbréfasjóði, lögum um verðbréfaviðskipti og lögum um viðskiptabanka og spari sjóði.
    Í 1. mgr. er kveðið á um hlutverk og skyldur stjórnarmanna til almenns eftirlits með starfsemi lífeyrissjóðsins og skal það m.a. felast í því að fylgjast með að starfsemin sé í samræmi við lög og samþykktir sjóðsins og að hafa eftirlit með rekstri, bókhaldi og ráðstöfun eigna sjóðsins. Í síðasta málslið 1. mgr. er kveðið á um að það falli undir verkefni stjórnar að setja sér starfsreglur og að tillögur til breytinga á samþykktum skuli lagðar fyrir ársfund skv. 30. gr. af hálfu stjórnar.
    Í 2. mgr. eru talin upp veigamestu verkefnin sem stjórnin skal annast en ekki er þar um tæmandi talningu að ræða.

Um 30. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um ársfundi lífeyrissjóða og er fyrirmyndin að hluta til sótt í reglugerðir ýmissa lífeyrissjóða. Samkvæmt greininni er ársfundur lífeyrissjóðs opinn öllum sjóðfélögum og ber að boða hann með tryggilegum hætti. Gert er ráð fyrir að um tilhögun atkvæðisréttar fari eftir samþykktum sjóðsins. Hlutverk fundarins verði m.a. að veita upplýsingar um starfsemi lífeyrissjóðsins. Á ársfundi verði gerð grein fyrir skýrslu stjórnar, ársreikningum, tryggingafræðilegum úttektum og fjárfestingarstefnu. Gert er ráð fyrir að stjórnin beri tillögur sínar um breytingar á samþykktum sjóðsins undir ársfundinn til samþykktar.

Um 31. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um hæfi stjórnarmanna í lífeyrissjóðum. Í 1. mgr. er kveðið á um almennt hæfi stjórnarmanna og er ákvæðið sambærilegt við 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti. Í 2. mgr. er kveðið á um sérstakt hæfi og er gert ráð fyrir að um það gildi ákvæði II. kafla stjórnsýslulaga. Í þeim kafla er kveðið á um vanhæfisástæður, áhrif vanhæfis og málsmeðferð vegna vanhæfis.

Um 32. gr.

    Í þessari grein er fjallað um hlutverk og ábyrgð framkvæmdastjóra.
    Í 1. mgr. er fjallað um verkefni framkvæmdastjóra en í 2. mgr. er framkvæmdastjóra gert óheimilt að taka þátt í atvinnurekstri nema með leyfi stjórnar. Í 3. mgr. er fjallað um hæfi framkvæmdastjóra og er gert ráð fyrir að sambærilegar reglur gildi um hann og stjórnarmenn.

Um 33. gr.

    Í þessari grein er fjallað um þagnarskyldu þeirra sem starfa fyrir lífeyrissjóð með einum eða öðrum hætti. Sambærilegt ákvæði er í fjölmörgum lögum, svo sem 43. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði.

Um 34. gr.

    Í greininni er kveðið á um innra eftirlit með starfsemi lífeyrissjóðs. Gert er ráð fyrir í 1. mgr. að sérstök deild eða sjálfstætt starfandi aðili annist þetta eftirlit. Í 2. mgr. er kveðið á um að eftirlitsaðili skuli hafa fengið viðurkenningu bankaeftirlitsins. Í 3. mgr. er lífeyrissjóði loks gert að tilkynna bankaeftirlitinu ef hann skiptir um eftirlitsaðila.

Um 35. gr.

    Í þessari grein eru talin upp helstu verkefni endurskoðunardeildar eða eftirlitsaðila en greininni er ætlað að tryggja að þau atriði sem talin eru upp séu framkvæmd með þeim hætti og jafnframt gerðar tillögur um tiltekin atriði.

Um VII. kafla.

    Í VII. kafla er fjallað um fjárfestingarstefnu og eignir en þessi kafli er m.a. byggður á lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, og lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, svo og á reglugerðum starfandi sjóða. Í fyrstu grein þessa kafla er að finna meginreglu um það í hverju sjóðunum er heimilt að ávaxta. Gerð er almenn krafa um aðgát í fjárfestingum. Taldar eru upp þær tegundir bréfa sem sjóðunum er heimilt að fjárfesta í. Þá er gert ráð fyrir að sjóðunum verði bannað að fjárfesta í fasteignum og lausafé nema að því marki sem nauðsynlegt er vegna starfsemi þeirra. Í síðustu grein þessa kafla er að finna eitt veigamesta ákvæði frumvarpsins, en þar er kveðið á um að sjóðirnir verði á hverjum tíma að standa undir skuldbindingum sínum.

Um 36. gr.


    Í 1. mgr. er gerð sú almenna krafa til stjórnar lífeyrissjóðs að hún ávaxti fé sjóðsins á þeim kjörum sem best eru í boði hverju sinni en síðan talið upp í hvaða verðbréfum sjóðunum verði heimilað að fjárfesta að gættum almennum skilyrðum í ákvæðinu. Tilgangurinn er að stuðla að því að lífeyrissjóðir nái sem bestri ávöxtun á fé sjóðfélaga sinna og jafnframt að áhættunni sé dreift með eðlilegum hætti. Í deildarskiptum sjóði er heimilt að móta sérstaka fjárfestingastefnu fyrir hverja deild sbr. 6. tölul. 1. mgr. 27. gr.
    Í 1.–10. tölul. 1. mgr. er tilgreint með hvaða hætti lífeyrissjóðum er heimilt að ávaxta fé sitt. Í 2. mgr. er skilgreint hvað átt er við með skipulegum markaði en í 3. mgr. er lífeyris sjóðum heimilað að kaupa innlend verðbréf sveitarfélaga, banka, sparisjóða, lánastofnana og þeirra aðila sem falla undir 8. tölul. enda þótt ekki sé um skráð bréf að ræða. Heildar fjárfestingin í slíkum bréfum má nema allt að 10% af hreinni eign til greiðslu lífeyris. Í 4. og 5. mgr. er að finna tilteknar takmarkanir varðandi tilgreind verðbréf og verðbréfaflokka. Hugtakið samstæða í 5. mgr. ber að skilja með sama hætti og í hlutafélagalögum, sbr. og lög um ársreikninga. Í 6. mgr. er lífeyrissjóðum gert að takmarka heildargengisáhættu sína í erlendum myntum annaðhvort með því að tryggja að innan við 40% af eignunum sé í erlendum gjaldmiðlum eða með gerð afleiða sem takmarka gengisáhættu með sambærilegum hætti. Í 7. mgr. er hrein eign skilgreind og tekið fram að takmarkanir í greininni skuli halda á hverjum tíma. Í 8. mgr. er loks kveðið á um að lífeyrissjóðum sé ekki skylt að selja eignir í því skyni að uppfylla takmarkanir greinarinnar en skuli taka tillit til þeirra við fjárfestingu.

Um 37. gr.


    Ákvæðið er í samræmi við þær reglur sem hafa verið í gildi hjá lífeyrissjóðum. Ekki er talin ástæða til að heimila slíka fjárfestingu nema að því marki sem nauðsynlegt er vegna starfsemi viðkomandi lífeyrissjóðs. Miðað er við að slík fjárfesting sé innan eðlilegra marka og ber að skýra ákvæðið þröngt. Í 2. mgr. er sú undanþága gerð frá 1. mgr. að lagt er til að líf eyrissjóðum verði heimilað að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu, svo sem að kaupa eignir á nauðungaruppboði.

Um 38. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að lífeyrissjóði verði óheimilt að taka lán nema til kaupa á húsnæði undir starfsemi sína. Skýra verður ákvæðið þröngt og yrðu slíkar lántökur að vera innan eðlilegra marka. Lántökur til annars en fasteignakaupa ættu að vera óþarfar. Þó er talið eðlilegt að heimila þeim að nýtja sér greiðslufresti vegna kaupa á verðbréfum og að taka skammtímalán til að jafna fjárstreymi.
    Í 2. mgr. er lagt til að óheimilt verði að veita lán til þeirra sem tengjast sjóðnum með ákveðnum hætti nema þeir séu sjóðfélagar. Ef svo væri yrði að meðhöndla lánsumsóknir þeirra með sama hætti og annarra sjóðfélaga. Ákvæði þetta þykir nauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir hagsmunaárekstur.

Um 39. gr.


    Í þessari grein er að finna eitt veigamesta ákvæði frumvarpsins en í henni er kveðið á um það að eignir og skuldbindingar þurfi að standast á.
    Í 1. mgr. er kveðið á um skyldur lífeyrissjóða til þess að standa við skuldbindingar sínar eins og þær eru metnar á hverjum tíma. Er gert ráð fyrir fullri eignamyndun til að tryggja að lífeyrissjóðir standi við þær skuldbindingar sem bótaákvæði þeirra hafa í för með sér. Við mat á eignum og skuldbindingum skal taka tillit til væntanlegra iðgjaldagreiðslna vegna starfandi sjóðfélaga og þeirra skuldbindinga er af þeim hljótast, auk áfallinna skuldbindinga.
    Í 2. mgr. er kveðið á um skyldu lífeyrissjóðs til að gera nauðsynlegar breytingar á sam þykktum sjóðsins ef meira en 10% munur verður á milli eigna og skuldbindinga. Hafi munurinn verið meiri en 5% í fimm ár verður sjóðurinn þó að grípa til sams konar ráðstafana. Er þarna leitast við að gera greinarmun á tímabundnum sveiflum og viðvarandi ástandi með því að gera strangari kröfur í síðarnefnda tilvikinu.
    Í 3. mgr. segir að stjórn lífeyrissjóðs sé skylt að fá álit tryggingafræðings áður en gerðar eru breytingar á samþykktum hlutaðeigandi sjóðs. Ákvæði um skyldur og athuganir trygg ingafræðings lífeyrissjóðs eru einnig í 24. gr.

Um VIII. kafla.

    Ákvæði þessa kafla eru í megindráttum byggð á gildandi lögum um fjármálastofnanir og lögum nr. 144/1994, um ársreikninga.

Um 40.–43. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um IX. kafla.

    Í IX. kafla er fjallað um eftirlit með starfsemi lífeyrissjóða. Ákvæði kaflans eru byggð á 53. gr. laga nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, og lögum nr. 27/1991, um ársreikninga og endurskoðun lífeyrissjóða. Gert er ráð fyrir að bankaeftirlit Seðlabankans hafi eftirlit með fjárreiðum og rekstri sjóðanna en um nokkurt skeið hafa lífeyrissjóðirnir þurft að senda eftirlitinu ársreikninga sína. Bankaeftirlitið hefur metið fjárhagslega stöðu lífeyrissjóða með hliðsjón af ársreikningum og tryggingafræðilegum úttektum. Hefur eftirlitið gefið út skýrslu um niðurstöður sínar og er þar að finna margvíslegt talnaefni sem unnið hefur verið upp úr árs reikningunum. Slík skýrsla kom fyrst út á árinu 1992 og tók hún til ársins 1991. Bankaeftirlitið hefur jafnframt gert athugasemd við fjárhagsstöðu nokkurra sjóða og sent fjármálaráðherra greinargerð um stöðu þeirra. Það almenna aðhald sem lögin veita stjórnendum lífeyrissjóða hefur ásamt öðrum þáttum stuðlað að aðgerðum þannig að staða margra sjóða hefur batnað á undanförnum árum.

Um 44. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um að bankaeftirlitið hafi eftirlit með því að rekstur og fjárhagsstaða lífeyrissjóða sé í samræmi við ákvæði frumvarpsins, reglugerðir og reglur sem settar kunna að verða, svo og samþykktir einstakra sjóða. Í 2. málsl. 1. mgr. er kveðið á um aðgang bankaeftirlitsins að gögnum og upplýsingum um starfsemi sjóðanna. Ákvæðið tryggir bankaeftirlitinu víðtækan aðgang að þeim gögnum og upplýsingum sem það telur nauðsynleg til að rækja skyldur sínar til eftirlits með starfsemi lífeyrissjóðanna.
    Auk þeirra gagna um hag lífeyrissjóða sem bankaeftirlitinu berst reglulega er því nauð synlegt sem eftirlitsaðila að geta aflað frekari gagna um hag og starfsemi lífeyrissjóðs ef sérstök ástæða þykir til. Í 2. mgr. er veitt heimild til eftirlits í því skyni. Í 3. mgr. er eftirlitinu síðan veitt almenn heimild til þess að krefjast gagna. Slík heimild er nú í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 27/1991, um ársreikninga og endurskoðun lífeyrissjóða.
    Ákvæði 4. mgr. er að hluta byggt á 3. mgr. 4. gr. laga nr. 27/1991. Þess ber þó að geta að samkvæmt því ákvæði skal bankaeftirlitið vísa máli til fjármálaráðherra sé ekki orðið við kröfum eftirlitsins um úrbætur. Ráðherra getur hins vegar ekki gripið til neinna ráðstafana af því tilefni. Í 46. gr. frumvarpsins er hins vegar gert ráð fyrir því að sé kröfum bankaeftirlitsins ekki sinnt geti það leitt til sviptingar starfsleyfis. Þetta eru sambærilegar heimildir við það sem bankaeftirlitið og viðskiptaráðherra hafa samkvæmt lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, og 13/1996, um verðbréfaviðskipti.

Um 45. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa. Sambærileg ákvæði eru nú í 2. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 27/1991, um ársreikninga og endurskoðun lífeyrissjóða, en í því ákvæði er þó ekki tilgreind hámarksfjárhæð.

Um X. kafla.


    Í X. kafla er fjallað um umsjónaraðila, slit lífeyrissjóða og sameiningu. Ákvæði kaflans eru að hluta til byggð á VIII. kafla frumvarps um starfsemi lífeyrissjóða frá 1987 og X. kafla laganna um verðbréfasjóði, nr. 10/1993.
    Í fyrri hluta kaflans er fjallað um skipun umsjónaraðila. Hún getur m.a. verið nauðsynleg ef lífeyrissjóðurinn fullnægir ekki lengur skilyrðum laganna ef rekstri er ábótavant.
    Í síðari hluta hans er fjallað um slit lífeyrissjóða. Gert er ráð fyrir að hægt verði að slíta sjóði annaðhvort með því að tveir eða fleiri sjóðir sameinist eða að sjóður hætti starfsemi og eignir og skuldbindingar renni inn í annan lífeyrissjóð. Jafnframt getur komið til þess að réttindin renni til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Réttindi sjóðfélaga mundu síðan metin í sjóðnum sem hann sameinast eða sem yfirtekur hann í samræmi við eignir og skuldbindingar sjóðsins sem slitið er.

Um 46. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um skipan umsjónaraðila um tiltekinn tíma. Í fyrsta lagi er kveðið á um heimild til skipunar umsjónaraðila uppfylli leyfishafi ekki lengur skilyrði frumvarpsins til þess að öðlast leyfi. Með þessu er lögð áhersla á að ekki sé nægjanlegt að uppfylla skilyrði til leyfisveitingar á þeim tíma sem leyfis er óskað heldur skuli viðkomandi sjóður ávallt fullnægja þeim skilyrðum sem sett eru fyrir leyfisveitingu. Í öðru lagi getur komið til slíkrar skipunar ef sjóðurinn er ekki gjaldhæfur, í þriðja lagi ef reglur eru brotnar og loks, í fjórða lagi, ef rekstri sjóðs er ábótavant og kröfum bankaeftirlits um úrbætur ekki sinnt.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að stjórnin og framkvæmdastjórinn skuli víkja frá störfum á meðan umsjónaraðilinn starfar og að umsjónaraðilinn taki við starfi þeirra. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji honum erindisbréf. Umsjónaraðili gæti ráðið sér aðstoðarmenn og einnig væri hugsanlegt að skipa fleiri en einn aðila í stórum málum.

Um 47. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um málsmeðferð við skipun umsjónaraðila. Kveðið er á um að hún skuli vera skrifleg og rökstudd og jafnframt skal birta tilkynningu um hana í Lögbirtingablaði.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að skylda til greiðslu iðgjalds til viðkomandi sjóðs falli niður við birtingu tilkynningar. Sjóðfélagarnir verða þá að velja sér annan sjóð til að greiða til meðan þetta ástand varir eða greiða til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Jafnvel þótt lífeyrissjóði verði aldrei slitið með þeim hætti að greidd iðgjöld verði endurgreidd til sjóðfélaga er engu að síður talið eðlilegt og sanngjarnt að sjóðfélagar þurfi ekki að sæta því að greiða iðgjöld til sjóðsins á meðan umsjónaraðili starfar, en svo getur farið að sjóðnum verði slitið, sbr. 3. mgr.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að ráðherra geti, að tillögu umsjónaraðila, ákveðið að slíta við komandi lífeyrissjóði. Ráðherra skal þá skipa skilanefnd sem sér um uppgjör og slit á sjóðn um. Niðurstaða skilanefndar getur annars vegar orðið sú að leita eftir sameiningu við annan sjóð, sbr. 48. gr., eða að slíta honum þannig að eignir hans renni til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda, sbr. 49. gr.

Um 48. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um að það skuli að jafnaði vera stjórn lífeyrissjóðs sem tekur ákvörðun um slit lífeyrissjóðs nema samþykktir kveði á um annað, svo sem að fulltrúaráð eða ársfundur skuli taka slíka ákvörðun.
    Í 3. og 4. mgr. er síðan kveðið á um hvernig með eigi að fara þegar ákveðið er að sameina sjóð öðrum sjóði. Sameiningin getur bæði átt sér stað þannig að einn sjóður yfirtekur eignir og skuldbindingar annars sjóðs eða þannig að tveir eða fleiri sjóðir sameinast um að mynda nýjan sjóð og fá þá nýtt starfsleyfi samkvæmt ákvæðum V. kafla frumvarpsins. Gera má ráð fyrir að sjóðfélagarnir í gömlu sjóðunum verði í flestum tilvikum félagar í nýja sjóðnum. Í 3. mgr. er fjallað um ýmis atriði er varða framkvæmd sameiningarinnar en í 4. mgr. um mat á réttindum. Lagt er til að eignir sjóðsins sem slitið er renni til þess sjóðs sem hann sameinast en mögulegar skuldir ýmist greiddar eða yfirteknar af sjóðnum sem hann sameinast. Þessar eignir mynda síðan grundvöll lífeyrisréttinda sjóðfélaganna í hinum nýja sjóði eftir að skuldbindingar hafa verið metnar en þess jafnframt gætt að sjóðfélagarnir verði ekki fyrir réttindaskerðingu vegna sameiningarinnar.

Um 49. gr.


    Í þessari grein er fjallað um skipun skilanefndar þegar ákveðið hefur verið að sjóðnum verði slitið og að hann verði ekki sameinaður öðrum sjóði eða stofnaður nýr sjóður, sbr. 48. gr. Í slíkum tilvikum renna eignir og skuldbindingar til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Helsti munurinn á framkvæmd slitanna skv. 48. gr. og þessari grein er sá að samkvæmt þessari grein skal tilnefna skilanefnd sem tekur við rekstri sjóðsins og sér um slit hans en engin slík krafa er gerð í 48. gr. Greiða yrði upp skuldir en annað er varðar framkvæmd slitanna er svipað og sams konar reglur sem gilda um mat á eignum og lífeyrisskuldbindingum.


Um XI. kafla.

    Í XI. kafla er fjallað um lífeyrissjóði sem starfa við gildistöku laganna og undanþágur frá einstökum ákvæðum laganna.

Um 50. gr.

    Í þessari grein er fjallað um undanþágur frá einstökum ákvæðum laganna fyrir þá líf eyrissjóði sem starfa á grundvelli sérlaga. Þar sem þessir sjóðir eru lögbundnir geta ákvæði um starfsleyfi og slit ekki átt við um þá. Jafnframt er talið eðlilegt að þessir sjóðir séu undanþegnir ákvæðum 3. gr., sem fjalla um iðgjaldsstofninn, svo og ákvæðum III. kafla um réttindi, öðrum en 3. mgr. 14. gr. Ákvæði um þessi atriði eru í lögum allra þessara sjóða nema lögum um Lífeyrissjóð sjómanna. Þrátt fyrir að 1. málsgr. 2. gr. sé háð efnisatriðum 3. gr. er gert ráð fyrir að 2. gr. gildi um lífeyrissjóði sem starfa samkvæmt sérlögum eftir því sem við á. Eðli málsins samkvæmt geta þau hlutföll sem nefnd eru í greininni hins vegar ekki gilt fyrir Lífeyrissjóð bænda þar sem iðgjaldið til hans er ákveðið með allt öðrum hætti en skv. 3. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1984, um Lífeyrissjóð bænda.

Um 51. gr.

    Í þessari grein er lífeyrissjóðum með bakábyrgð ríkis, sveitarfélags og banka veitt undan þága frá þeim ákvæðum laganna sem fjalla um ábyrgð á skuldbindingum og jafnvægi milli eigna og skuldbindinga lífeyrissjóða.

Um 52. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um að lífeyrissjóðir sem eru starfandi við gildistöku laganna og hyggjast halda áfram fullri starfsemi eftir gildistökuna fái aðlögunartíma til þess að uppfylla skilyrði laganna um lífeyrissjóðsrekstur. Sjóðum sem hyggjast halda áfram að taka við iðgjöldum eftir gildistöku laganna er gefinn 18 mánaða frestur til þess að senda fjármálaráðu neytinu umsókn um starfsleyfi. Umsókn um starfsleyfi skulu fylgja samþykktir sjóðsins og tryggingafræðileg athugun, en auk þessa getur ráðherra óskað eftir öðrum upplýsingum um starfsemi sjóðsins sem þurfa þykir. Ákvæði V. kafla gilda að öðru leyti um starfsleyfi þessara sjóða.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir því að hafi lífeyrissjóður ekki sótt um starfsleyfi innan frestsins skv. 1. mgr. teljist sjóðurinn ekki fullnægja ákvæðum laganna og verður honum því slitið samkvæmt ákvæðum X. kafla.

Um 53. gr.

    Í þessari grein er fjallað um aðlögunartíma lífeyrissjóða sem starfandi eru við gildistöku laganna og hyggjast einvörðungu veita lífeyri vegna réttinda sem áunnist hafa samkvæmt lífeyrissjóðsreglugerðum settum fyrir gildistöku þessara laga. Þessum aðilum er gert skylt að sækja um starfsleyfi í því skyni innan árs frá gildistöku laganna. Gert er ráð fyrir að leitað verði umsagnar bankaeftirlits Seðlabanka Íslands áður en sjóðunum verði veitt starfsleyfi. Um réttindi sjóðfélaga til greiðslu lífeyris úr framangreindum sjóðum fer eftir þeim reglugerðum hlutaðeigandi sjóða sem í gildi eru við gildistöku laga þessara.

Um 54. gr.

    Lífeyrissjóðir þeir sem fjallað er um í þessari grein hafa annað réttindakerfi en lífeyris sjóðir á almennum markaði. Iðgjaldsstofninn miðast í flestum tilvikum við föst laun og réttindin geta ýmist verið lakari eða betri en kveðið er á um í III. kafla. Ekki þykir annað fært en að heimila þessum sjóðum að starfa áfram á þeim grundvelli sem verið hefur vegna núverandi sjóðfélaga en kveða jafnframt á um að kjósi slíkur sjóður að taka við iðgjöldum frá nýjum starfsmönnum verði að greiða þau iðgjöld í sérstaka deild. Gert er ráð fyrir að öll ákvæði frumvarpsins, ef að lögum verður, gildi um þessar deildir, þar á meðal ákvæði V. kafla um starfsleyfi. Loks er gert ráð fyrir því í greininni að félagar í hlutaðeigandi sjóðum við gildistöku laganna geti valið milli þess að greiða í sjóð samkvæmt eldra réttindakerfi eða í samræmi við réttindakerfi sem uppfyllir almenn skilyrði frumvarpsins ef að lögum verður.

Um 55. gr.


    Hér er fjallað um viðurlög. Brot gegn lögunum getur varðað sektum eða fangelsi en sá fyrirvari er gerður að brot geti varðað þyngri refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum. Sambærilegt ákvæði er í 1. mgr. 59. gr. laga nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti.

Um 56. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 57. gr.


    Hér er kveðið á um að lífeyrissjóðirnir beri kostnað við tilkynningar samkvæmt frumvarp inu. Þykir eðlilegt að þeir beri þennan kostnað á sama hátt og t.d. verðbréfasjóðir gera samkvæmt lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði.


Um 58. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæðin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda
og starfsemi í lífeyrissjóða.

    Ekki verður séð að frumvarp þetta hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs, nema ákvæði 6. gr. um eftirlit Ríkisskattstjóra með því að lífeyrisiðgjald sé greitt vegna hvers manns sem skyldu trygging lífeyrisréttinda nær til. Gera má ráð fyrir einhverjum stofnkostnaði við þetta eftirlit, en samkvæmt 4. mgr. 6. gr. er gert ráð fyrir að iðgjaldagreiðandinn beri útlagðan kostnað vegna ákvörðunar iðgjalds og innheimtu. Hlutverk bankaeftirlits Seðlabanka Íslands er einnig aukið, en fram að þessu hefur bankinn staðið undir öllum kostnaði við eftirlitið.
    Aukinn lífeyrissparnaður sem lögin geta leitt til veldur að öðru óbreyttu því að skattgreiðslur frestast. Samningsbundin lífeyrissjóðsiðgjöld atvinnurekanda eru almennt frádráttarbær eins og annar launakostnaður, en lög um tekjuskatt einstaklinga miða á hinn bóginn við að hámark frádráttar sé 4% af iðgjaldsstofni. Samhliða þessu frumvarpi hefur ríkisstjórnin einnig gefið fyrirheit um að hækka frádráttarbærni lífeyrissjóðsiðgjalda og iðgjalda vegna lífeyrissparnaðar í 6%. Engin leið er að meta áhrif aukins sparnaðar á tekjur ríkissjóðs á þessari stundu, né hvenær þau koma fram.