Ferill 289. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 361 – 289. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      7. tölul. 1. mgr. orðast svo: Yfirlýsingu um að skipverji hafi hlotið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna eða á annan hátt. Skipstjórnarmenn og aðrir skipverjar sem hafa skráð sig á námskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna fyrir 1. janúar 1998 fá frest til 31. desember 1998 til að fullnægja ákvæði þessu. Veita má skipverja sem skráður er í fyrsta sinn sex mánaða frest til að fullnægja ákvæðinu.
     b.      Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
                  Samgönguráðherra er heimilt með reglugerð að setja það skilyrði fyrir lögskráningu að skipverjar sæki öryggisfræðslunámskeið skv. 7. tölul. 1. mgr. þessarar greinar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Árið 1994 urðu tímamót í öryggismálum sjómanna þegar lögfest var öryggisfræðsla fyrir sjómenn. Samkvæmt lögunum var yfirlýsing um að skipverji hefði hlotið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna eða á annan sambærilegan hátt gerð að skilyrði fyrir lögskráningu sjómanna. Skipstjórnarmönnum var veittur frestur til 31. desember 1995 til að fullnægja ákvæðinu, en öðrum skipverjum til 31. desember 1996. Nýliðar um borð hafa sex mánaða frest til að sækja þessi námskeið. Frestirnir voru upphaflega byggðir á áætlun Slysavarnaskólans, en þá var talið að um 800 sjómenn hefðu ekki fengið slíka fræðslu.
    Þegar leið að lokum þessa frests var ljóst að þrátt fyrir aðlögunartímann hafði töluverður hópur skipstjórnarmanna ekki enn lokið öryggisfræðslunáminu. Námskeið Slysavarnaskólans voru fullbókuð út árið og því var talið rétt að fresta gildistökunni um ár. Sagan endurtók sig árið eftir og lagði skólastjóri Slysavarnaskólans þá til að fresturinn yrði lengdur um eitt ár, til ársloka 1997. Eins og áður byggðist fresturinn á áætlun um það hvernig og hvenær ljúka
mætti fræðslu þeirra sjómanna sem ekki höfðu sótt námskeið.
    Nú þegar líður að lokum frestsins liggur fyrir að áætlunin hefur ekki staðist því enn eiga margir sjómenn ólokið lögbundinni öryggisfræðslu. Því er óhjákvæmilegt að veita formlegan viðbótarfrest, en nú er lagt til að sett verði ströng skilyrði og að undan þeim verði ekki vikist að liðnum lögboðnum fresti.
    Með frumvarpinu er lagt til að sjómönnum verði veittur frestur til 31. desember 1998 til að sækja öryggisfræðslunámskeið en með ákveðnum skilyrðum eins og fram kemur í frum varpinu. Lagt er til að undirbúningur og framkvæmd laganna verði eftirfarandi:
    1. Menn fá frest til 31. desember 1997 til að skrá sig á námskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna. Þeir sjómenn sem hafa ekki skráð sig þá fá ekki viðbótarfrest og þar með ekki lög skráningu á skip. Að sjálfsögðu þarf að auglýsa þennan frest vel og brýna fyrir mönnum að skrá sig, bæði opinberir aðilar og ekki síður hagsmunasamtök sjómanna og útgerðarmanna.
    2. Skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna og starfsmaður Siglingastofnunar Íslands hafa að ósk samgönguráðuneytisins borið saman nemendaskrár Slysavarnaskóla sjómanna og lög skráningu íslenskra sjómanna. Tilgangurinn var sá að afla sem gleggstra upplýsinga um hversu margir sjómenn hafa ekki enn lokið námskeiðum í öryggisfræðslu við Slysavarnaskóla sjómanna. Niðurstöður þeirra eru eftirfarandi:
    Við upphaf verksins var ákveðið að bera saman nemendaskrár Slysavarnaskólans og sjó menn sem lögskráðir voru í skiprúm frá 1. október 1997. Á því tímabili voru 8.700 ein staklingar lögskráðir. Skrá Slysavarnaskólans er frá stofnun hans til 20. október 1997.
    Þeir nemendur Slysavarnaskóla sjómanna sem unnt var að aðgreina sem sjómenn voru samtals 12.380, en þar af voru um 2.000 sem höfðu sótt námskeið oftar en einu sinni. Nem endaskrá Slysavarnaskólans olli erfiðleikum og ónákvæmni í samkeyrslu gagna, en gögn um nemendur frá fyrstu árum skólans innihéldu hvorki nafnnúmer né kennitölu þeirra.
    Við samkeyrslu gagnanna kom eftirfarandi fram:

    Nemendur samkvæmt kennitölu
  4.842

    Nemendur samkvæmt nafnnúmeri
  1.398

    Nemendur samkvæmt nöfnum
     522

    Samtals
  6.762


    Þá eru eftir 1.538 manns, en í áætlun er gert ráð fyrir að um 30% þeirra hafi sótt námskeið, en ekki hefur verið hægt að sannreyna það sökum ófullkominnar skráningar Slysavarna skólans. Samkvæmt þessum útreikningum eiga rétt rúmlega 1.000 sjómenn eftir að sækja námskeið í öryggisfræðslu í byrjun nóvember 1997.
    Fram til áramóta eiga rúmlega 150 manns eftir að koma á námskeið þannig að um áramót eru eftir rúmlega 800 sjómenn. Þegar hafa 475 menn verið skráðir á námskeið frá og með næstu áramótum, en 140 þeirra eru nemendur í sjómannaskólum víðs vegar um landið. Það er mat skólastjóra Slysavarnaskólans og hlutaðeigandi starfsmanns Siglingastofnunar Íslands að standist þessar tölur verði unnt að koma öllum þessum sjómönnum á námskeið árið 1998.
    3. Siglingastofnun Íslands verður falið að hafa yfirumsjón með framkvæmd þessa ákvæðis laganna og tryggja að þátttaka í námskeiðum verði samkvæmt áætlun.
    Siglingaráð hefur samþykkt að mæla með að þessi frestur verði samþykktur.
    Árið 1994 var lögfest skylda sjómanna til að sækja öryggisfræðslunámskeið. Tilgangurinn var annars vegar sá að fækka sjóslysum og hins vegar að draga úr alvarlegum afleiðingum slysa á sjó. Slysavarnaskólinn sjálfur hefur starfað mun lengur og eru nú liðin 12 ár frá stofnun Slysavarnaskóla sjómanna. Að meðaltali hafa 1.000 manns sótt námskeið í öryggisfræðslu á hverju ári. Margir sjómenn hafa einungis sótt eitt námskeið og er því hugsanlega langt um liðið síðan þeir fengu fræðslu um öryggismál. Engu að síður er þekking á öryggismálum þess eðlis að þörf fyrir hana verður skyndilega og óvænt og sem betur fer hafa sjómenn oft lítil sem engin not fyrir hana árum saman. Ef og þegar að því kemur getur sú þekking skilið á milli lífs og dauða. Búnaður og aðferðir breytast sífellt. Með því að krefjast endurmenntunar sjómanna á þessu sviði má viðhalda og efla öryggisvitund meðal þeirra og þar með auka öryggi um borð í skipum og stuðla að fækkun slysa. Í alþjóðasamþykktinni STCW 95 (um þjálfun, skírteini og vaktstöðu sjómanna) er meðal annars gert ráð fyrir að komið verði á endurmenntun í öryggismálum í aðildarríkjum samþykktarinnar, en hún nær að vísu aðeins til kaupskipa sjómanna. Er hún hvatning til að gera sem fyrst kröfur um endurmenntun allra íslenskra sjómanna, enda verður þess ekki langt að bíða að STCW alþjóðasamþykkt fyrir fiskiskip verði staðfest.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um um breytingu á lögum um
lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987, með síðari breytingum.

    Frumvarpið felur í sér tvær breytingar frá gildandi lögum. Annars vegar er lagt til að frestur sjómanna til þess að hljóta öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna eða á annan máta verði framlengdur um eitt ár, hins vegar að samgönguráðherra verði heimilt með reglugerð að setja það skilyrði fyrir lögskráningu að skipverjar sæki öryggisfræðslunámskeið eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.
    Ekki verður séð að samþykkt frumvarpsins hafi í för með sér neinn kostnað fyrir ríkissjóð.