Ferill 324. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 409 – 324. mál.



Frumvarp til laga



um hjálmanotkun hestamanna.

Flm.: Kristín Halldórsdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Hjálmar Jónsson,


Ísólfur Gylfi Pálmason, Sigríður Jóhannesdóttir.



1. gr.

    Menn á hestbaki skulu bera viðurkenndan hlífðarhjálm á höfði. Forráðamaður barns skal sjá um að barnið fylgi ákvæði þessarar greinar.

2. gr.

    Brot gegn lögum þessum varða sektum.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Eigi skal þó refsa fyrir brot framin gegn 1. gr. fyrr en eftir 1. janúar 2000.

Greinargerð.


    Hestamennsku má með sanni kalla þjóðaríþrótt Íslendinga, hvort sem um er að ræða keppni eða tómstundagaman og fer hvort tveggja vaxandi. Íslenskir hestar og íslenskir knapar bera hróður lands og þjóðar víða um heim og þeim fer sífellt fjölgandi sem gera sér ferð hingað til lands vegna íslenska hestsins. Útlendingar sækja landsmót hestamanna þúsundum saman og sívaxandi fjöldi kemur hingað til þátttöku í hestaferðum, enda óvíða jafnákjósanleg skilyrði til slíkra ferðalaga. Íslendingar sjálfir, bæði börn og fullorðnir, sækja í æ ríkari mæli lífsfyllingu í umgengni við íslenska hestinn.
    Þótt hestamennska tengist fyrst og fremst ánægju og árangri er hún þó langt frá því hættu laus. Hesturinn er kraftmikil skepna og við ákveðnar aðstæður getur skapast mikil slysahætta í umgengni við hann. Því miður eru dæmin mörg þar sem illa hefur farið, fólk slasast eða jafnvel látið lífið. Í mörgum tilvikum hefði mátt koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar með meiri varúðarráðstöfunum. Mesta hættan er í sambandi við höfuðmeiðsli og því sjálfsagt að draga úr henni eins og kostur er. Besta ráðið til þess er notkun hlífðarhjálma sem vissulega hefur farið vaxandi á undanförnum árum en er þó hvergi nærri nógu almenn. Lögfesting skyldunotkunar hjálma virðist nauðsynleg til úrbóta í þessu efni og er í rauninni sjálfsögð á sama hátt og ökumenn vélhjóla eru skyldaðir til að nota öryggishjálma.
    Margir atvinnumenn í hestamennsku hafa sínar eigin reglur um notkun hjálma á námskeið um og í skipulögðum hestaferðum. Það skýtur þó skökku við þegar þeir fara ekki sjálfir eftir eigin reglum sem er því miður algengt og skapar hættulegt fordæmi. Það viðhorf er of algengt að notkun hlífðarhjálms sé veikleikamerki og ekki við hæfi bestu hestamanna, það sé hins vegar til marks um öryggi, hæfni og þor að þurfa ekki á slíku að halda. Slíkt viðhorf ber vott um mikið ábyrgðarleysi.
    Við undirbúning þessa frumvarps var reynt að afla skráðra upplýsinga um slys tengd hestamennsku hér á landi, en það reyndist ekki auðunnið verk. Samkvæmt upplýsingum Jóns Baldurssonar, yfirlæknis slysadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur, hófst skipuleg skráning slíkra slysa fyrst nú í ár en engar heildarupplýsingar liggja fyrir þar eða hjá landlækni. Bestu upp lýsingarnar fengust hjá Óskari Jónssyni, lækni á Sjúkrahúsi Skagfirðinga á Sauðárkróki, en þar um slóðir hefur hestamennska verið mjög í hávegum höfð. Óskar gerði yfirlit og saman burð á umferðarslysum og slysum í tengslum við hestamennsku á árunum 1984–1990. Í samantekt Óskars segir m.a.:
    „Í héraðinu eru u.þ.b. 4.400 íbúar. Á sjö ára tímabili, 1984–1990, leita 215 læknis vegna umferðarslysa og 238 vegna hestaslysa. Þannig slasast heldur fleiri í hestaslysum en í um ferðarslysum á þessu tímabili. Í umferðarslysahópi eru 53% á aldrinum 10–19 ára. Í hesta slysahópi eru 34% á aldrinum 10–19 ára.
    Í umferðarslysahópi eru 21% með beinbrot eða liðhlaup, 26% með opin sár, 52% með minni áverka, 1% banaslys (2 einstaklingar).
    Í hestaslysahópi er 25% með brot eða liðhlaup, 27,5% með opin sár, 47% með minni áverka, 0,5% banaslys (1 einstaklingur).
    Algengasta orsök hestaslysa er fall af hestbaki (43%).
    Þessi athugun leiðir í ljós, að í Skagafirði, á árunum 1984–1990, slasast fleiri í hesta slysum en í umferðarslysum og margir hljóta alvarlega áverka.“
    Samkvæmt beiðni fór Óskar Jónsson læknir einnig yfir slysabók sjúkrahússins á Sauðár króki síðustu fimm árin, þ.e. 1992–1996. Sú yfirferð leiddi í ljós að enn fjölgar slysunum. Á þessu fimm ára tímabili leituðu 329 manns til sjúkrahússins vegna umferðarslysa og 387 vegna slysa sem tengjast hestamennsku. Þannig leituðu til sjúkrahússins á þessum árum að jafnaði tæplega 80 manns á hverju ári vegna hestaslysa en um 66 vegna umferðarslysa. Þessar upplýsingar hljóta að vekja menn til umhugsunar og viðbragða. Algild notkun hlífðar hjálma er ein besta vörnin gegn slysum í tengslum við hestamennsku. Því er þetta frumvarp flutt.