Ferill 340. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 429 – 340. mál.Frumvarp til lagaum rétt til veiða og vinnslu afla í fiskveiðilandhelgi Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)1. gr.

    Fiskveiðar og vinnslu sjávarafla um borð í skipum í fiskveiðilandhelgi Íslands, eins og hún er skilgreind í lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, mega eftirtaldir aðilar einir stunda:
1.      Íslenskir ríkisborgarar og aðrir íslenskir aðilar.
2.      Íslenskir lögaðilar sem að öllu leyti eru í eigu íslenskra aðila eða lögaðila sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:
    a.     Eru undir yfirráðum íslenskra aðila.
    b.    Eru ekki í eigu erlendra aðila að meira leyti en 25% sé miðað við hlutafé eða stofnfé. Fari eignarhlutur íslensks lögaðila í lögaðila, sem stundar veiðar eða vinnslu í fiskveiðilandhelgi Íslands, ekki yfir 5% má eignarhlutur erlendra aðila þó vera allt að 33%.
    c.    Eru að öðru leyti í eigu íslenskra ríkisborgara eða íslenskra lögaðila sem eru undir yfirráðum íslenskra aðila.
    Með vinnslu sjávarafurða í 1. mgr. er átt við frystingu, söltun, herslu og hverja þá aðra verkun sem ver fisk og aðrar sjávarafurðir skemmdum, þar með taldar bræðsla og mjölvinnsla. Til vinnslu í þessu sambandi telst hins vegar ekki reyking, súrsun, niðursuða, niðurlagning og umpökkun afurða í neytendaumbúðir eða frekari vinnsla afurða til að gera þær hæfari til dreifingar, neyslu eða matreiðslu.
    Til fiskveiða og vinnslu sjávarafla um borð í skipum í fiskveiðilandhelgi Íslands má aðeins hafa íslensk skip og gildir það einnig um vinnslu sjávarafla skv. 2. málsl. 2. mgr. Íslensk skip eru þau skip sem skráð eru hér á landi samkvæmt lögum um skráningu íslenskra skipa.

2. gr.

    Erlendum veiðiskipum og vinnsluskipum er óheimilt að hafast við í fiskveiðilandhelgi Íslands. Þó er þeim heimil óslitin sigling um fiskveiðilandhelgina, enda hafi þau tilkynnt um veru sína skv. 4. gr. Með ákvæði þessu eru ekki skert þau réttindi sem veitt hafa verið eða kunna að verða veitt öðrum ríkjum með milliríkjasamningum.

3. gr.

    Erlendum skipum er heimilt að landa eigin afla, umskipa afla og selja í íslenskum höfnum og sækja þangað alla þá þjónustu er varðar útgerð skips.
    Erlendum skipum, sem stunda veiðar eða vinnslu á afla úr sameiginlegum nytjastofnum sem veiðast bæði innan og utan íslenskrar fiskveiðilandhelgi og sem íslensk stjórnvöld hafa ekki gert milliríkjasamning um nýtingu á, er þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. óheimilt að koma til íslenskra hafna. Sama gildir um erlend skip sem stunda veiðar eða vinnslu á afla sem brjóta í bága við samninga um nýtingu og varðveislu lifandi auðlinda hafsins sem Ísland er aðili að. Óheimilt er einnig að veita skipum, sem um ræðir í þessari málsgrein, þjónustu í fiskveiðilandhelgi Íslands eða frá íslenskum höfnum og skipum, er flytja afla þeirra eða veita þeim þjónustu utan fiskveiðilandhelgi Íslands, er enn fremur óheimilt að koma til íslenskra hafna.
    Ráðherra getur ákveðið að ákvæði 2. mgr. gildi gagnvart skipum ef fánaríki skipsins er ekki aðili að samningi sem gildir um stjórn þeirra veiða sem viðkomandi skip stundar eða fylgir ekki þeim reglum sem settar eru samkvæmt þeim samningi, enda sé Ísland aðili að honum. Þá getur ráðherra ákveðið að ákvæði 2. mgr. taki til erlendra skipa sé slíkt talið nauðsynlegt til verndar lifandi auðlindum hafsins.
    Ákvæði þessarar greinar takmarka ekki rétt erlendra skipa til löndunar, umskipunar eða þjónustu hér á landi samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að eða gildandi þjóðarétti. Ráðherra er heimilt að víkja frá ákvæði 2.–3. mgr. þegar sérstaklega stendur á. Ákvæði þessarar greinar skerða ekki rétt erlendra skipa til að koma til hafnar þurfi þau á neyðarþjónustu að halda og heimilt er þeim að leita vars við strendur landsins, enda verði Landhelgisgæslu Íslands tilkynnt um það.

4. gr.

    Erlend veiðiskip og vinnsluskip skulu tilkynna Landhelgisgæslu Íslands með sex klukkustunda fyrirvara um komu sína í og siglingu út úr fiskveiðilandhelgi Íslands. Auk þess skulu þau erlendu skip sem hyggjast leita hafnar hér á landi tilkynna Landhelgisgæslunni um magn afla og tegundir um borð í skipinu, hvaða veiðar skipið hefur stundað og á hvaða svæði og hvaða þjónustu skipið sækir til viðkomandi hafnar. Landhelgisgæslan skal tilkynna Fiskistofu megi ætla að veiðar skipsins falli undir 2.–3. mgr. 3. gr.

5. gr.

    Um veiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelginni skulu, ef ekki er um annað samið í milliríkjasamningum, gilda ákvæði laga og reglugerða sem gilda um veiðar íslenskra skipa í fiskveiðilandhelginni varðandi veiðarfæri, friðunarsvæði og veiðitíma, sbr. 8.–14. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nýtingu nytjastofna og eftirlit með fiskveiðum, þar með talda færslu afladagbóka, sbr. 2., 9. og 13. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar og 15. og 17. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Þá skulu gilda ákvæði laga og reglugerða sem gilda um vigtun sjávarafla í íslenskum höfnum landi erlend veiðiskip afla sínum hér á landi. Að öðru leyti skulu gilda um veiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelginni sambærilegar reglur og gilda um veiðar íslenskra skipa, eftir því sem við á, sbr. þó 9. gr.

6. gr.

    Fiskistofa gefur út tímabundin leyfi til erlendra skipa í samræmi við ákvarðanir sjávarútvegsráðuneytisins þar að lútandi. Stjórnvöld í því ríki sem veitt hafa verið réttindi með milliríkjasamningi skulu sækja til Fiskistofu um leyfi til að stunda veiðar á grundvelli samningsins. Erlendum skipum er óheimilt að hefja veiðar innan fiskveiðilandhelginnar nema að fengnu leyfi Fiskistofu.

7. gr.

    Eftirlit með framkvæmd laga þessara er í höndum Landhelgisgæslunnar, Fiskistofu og eftirlitsmanna í hennar þjónustu. Fiskistofu er heimilt að setja veiðieftirlitsmenn um borð í erlend veiðiskip sem stunda veiðar innan fiskveiðilandhelginnar. Skal útgerð skipsins sjá eftirlitsmönnum fyrir fæði og aðstöðu meðan þeir eru við eftirlitsstörf um borð í veiðiskipinu og enn fremur greiða allan kostnað af veru þeirra um borð í skipinu.

8. gr.

    Fiskistofa getur svipt erlent skip leyfi til veiða innan fiskveiðilandhelginnar brjóti útgerð eða áhöfn skipsins eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa gegn lögum þessum, öðrum lögum sem um veiðarnar gilda, reglugerðum settum með stoð í lögum eða ákvæðum milliríkjasamninga.

9. gr.

    Ráðherra er heimilt að setja frekari reglur um framkvæmd laga þessara og um framkvæmd einstakra milliríkjasamninga í samræmi við reglur um sambærilegar veiðar íslenskra skipa innan fiskveiðilandhelginnar ef ekki hefur verið um annað samið í milliríkjasamningum. Þá er ráðherra heimilt, telji hann slíks þörf, að setja frekari reglur um veiðarfæri, veiðisvæði og veiðitíma og reglur sem lúta að eftirliti með veiðum erlendra skipa, svo sem um vigtun afla, færslu afladagbóka, tilkynningar til stjórnvalda, fjareftirlit og skyldu til að sigla inn í og út úr fiskveiðilandhelgi Íslands á tilteknum athugunarstöðvum.

10. gr.

    Ákvæði 11.–15. gr. eiga við sé brotið gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim nema þyngri refsing liggi við brotinu samkvæmt öðrum lögum eða reglugerðum settum með stoð í þeim.

11. gr.

    Brot gegn ákvæðum laga þessara og reglum settum samkvæmt þeim varða sektum, hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Sé um stórfellt eða ítrekað ásetningsbrot að ræða gilda ekki sektarhámörk þau sem sett eru í 12. gr. Auk þess skal heimilt í þeim tilvikum að gera allan afla skipsins og öll veiðarfæri um borð í skipinu upptæk. Í stað þess að gera afla og veiðarfæri upptæk samkvæmt þessari grein er heimilt að gera upptæka fjárhæð sem svarar til andvirðis aflans og veiðarfæranna samkvæmt mati dómkvaddra manna.

12. gr.

    Brot gegn ákvæðum laga þessara, reglum settum samkvæmt þeim eða ákvæðum leyfisbréfa varða sektum sem eigi skulu nema lægri fjárhæð en 400.000 kr. og eigi hærri fjárhæð en 4.000.000 kr., eftir eðli og umfangi brots.

13. gr.

    Sektir má jafnt gera lögaðila sem einstaklingi. Ákvarða má sekt þótt sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmann lögaðila, starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Með sama skilorði má einnig gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn, starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa hafa gerst sekir um brot.
    Tilraun til eða hlutdeild í brotum á lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

14. gr.

    Hafi afli fengist á ólögmætan hátt skulu brot auk refsingar samkvæmt framansögðu varða upptöku afla. Komi í ljós við athugun á afla um borð í erlendu veiðiskipi að aflamagn um borð í skipinu er ekki í samræmi við skráðan afla í afladagbókum eða tilkynningar til stjórnvalda er heimilt að gera það aflamagn sem umfram er hinn skráða eða uppgefna afla upptækt. Á sama hátt skal gera þann afla upptækan sem umfram er þær heimildir sem erlendum skipum eru veittar af íslenskum stjórnvöldum. Í stað þess að gera afla upptækan samkvæmt þessari grein er heimilt að gera upptæka fjárhæð sem svarar til andvirðis aflans samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna.
    Ólögleg veiðarfæri skulu gerð upptæk. Ólögleg eru þau veiðarfæri eða hluti veiðarfæra sem ekki eru í samræmi við þær reglur sem settar eru um veiðarfæri með stoð í lögum þessum eða í samræmi við ákvæði annarra laga sem vísað er til í lögum þessum.

15. gr.

    Heimilt er að kyrrsetja skip sem fært er til hafnar vegna brota á lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim. Sé slíkt gert er dómara heimilt að láta það laust ef sett er bankatrygging eða önnur jafngild trygging, að hans mati, fyrir greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku.
    Til tryggingar greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku skal vera lögveð í skipinu.
    Mál út af brotum gegn lögum þessum skulu sæta meðferð opinberra mála.
    Sektarfé samkvæmt lögum þessum skal renna í Landhelgissjóð Íslands.

16. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Með lögum þessum eru felld úr gildi lög nr. 13 30. mars 1992, um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands og 10. gr. laga nr. 151 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í mars 1992 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 13/1992, um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands. Þessi lög leystu af hólmi lög nr. 33 19. júní 1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi. Með setningu laga nr. 13/1992 var í engu hvikað frá þeirri meginreglu að óheimilt væri að veita erlendum veiðiskipum heimildir til veiða í lögsögu Íslands nema að undangengnum milliríkjasamningum þar um. Hins vegar var sú breyting gerð með þeim lögum að erlendum veiðiskipum var veittur frjáls aðgangur að íslenskum höfnum til að landa hér afla og leita þjónustu nema í þeim tilvikum sem stundaðar væru veiðar úr stofnum sem veiddust bæði utan og innan lögsögunnar, hefði ekki verið samið um nýtingu þeirra stofna.
    Við framkvæmd laga nr. 13/1992 hefur komið í ljós að ástæða er til þess að kveða skýrar á um heimildir erlendra veiði- og vinnsluskipa til athafna innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi og í höfnum landsins, m.a. með hliðsjón af þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið hjá alþjóðlegum stofnunum sem fjalla um stjórn fiskveiða. Þá þykir og nauðsynlegt að ákvarða skýrt um heimildir íslenskra stjórnvalda til setningar reglna um veiðar þeirra erlendu skipa sem fá veiðiheimildir innan fiskveiðilandhelginnar auk þess sem rétt þykir að setja fyllri reglur um framkvæmd milliríkjasamninga og leyfisveitinga samkvæmt þeim. Einnig er lagt til í frumvarpinu að nokkrar breytingar verði gerðar með hliðsjón af fenginni reynslu af framkvæmd laga nr. 13/1992. Þá eru felld inn í þetta frumvarp nokkur ákvæði laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, sem betur þykja eiga þar heima þar sem þau lúta að réttindum erlendra skipa til þjónustu hér við land. Loks eru viðurlög samræmd viðurlagaákvæðum annarra laga sem lúta að fiskveiðistjórn.
    Með frumvarpinu er því í raun stefnt að því að sett verði heildstæð lög sem lúta að heimildum erlendra skipa til veiða og vinnslu sjávarafla í landhelginni og heimildum þeirra til að leita þjónustu í höfnum hér á landi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 1. mgr. þessar greinar er íslenskum ríkisborgurum einum tryggður réttur til að stunda veiðar og vinnslu sjávarafla í fiskveiðilandhelgi Íslands. Ákvæði þetta er í samræmi við ákvæði 1. gr. laga nr. 46/1996, um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991, með síðari breytingum og lögum nr. 53/1996, um breytingu á lögum um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands, nr. 13/1992, að öðru leyti en því að í þessari grein er skýrt kveðið á um að sömu skilyrði eru sett fyrir eignaraðild að vinnsluskipi sem vinnur afla í fiskveiðilandhelginni og sett eru fyrir fiskvinnslufyrirtæki sem starfar í landi.
    Í 2. mgr. er skilgreint hvað telst vinnsla sjávarafla í skilningi 1. mgr. og er sú skilgreining einnig í samræmi við ákvæði 1. gr. laga nr. 46/1996. Vart er við því að búast að gerð verði út skip til vinnslu á sjávarafla á þann hátt sem vinnslan er skilgreind í 2. mgr. en hins vegar þykir rétt að ákvæði um heimildir til vinnslu sjávarafla um borð í skipum í fiskveiðilandhelginni séu samræmd þeim ákvæðum sem gilda um vinnslu sjávarafla í landi.
    Í 3. mgr. er áréttað að einungis sé heimilt að stunda vinnslu um borð í skipum í fiskveiðilandhelginni ef skipin eru skráð íslensk samkvæmt skráningarreglum þar að lútandi. Tekur þetta ákvæði einnig til þeirra vinnslugreina sem erlendum aðilum er heimilt að fjárfesta meira í samkvæmt lögum nr. 46/1996. Í síðasta málslið er skilgreining á því hvaða skip teljist íslensk í skilningi þessara laga.
    Í frumvarpinu er hugtakið fiskveiðilandhelgi notað í stað hugtaksins efnahagslögsaga í lögum nr. 13/1992. Er það gert til að kveða skýrt á um að þær reglur, sem lagt er til að settar verði samkvæmt þessu frumvarpi, taki til alls hafsvæðisins innan 200 sjómílna frá grunnlínupunktum en efnahagslögsagan tekur samkvæmt skilgreiningu laga nr. 41/1979 aðeins til hafsvæðisins frá 12 sjómílum út að 200 sjómílum.

Um 2. gr.

    Í 1. málsl. segir að erlendum veiðiskipum og vinnsluskipum sé óheimilt að hafast við í fiskveiðilandhelgi Íslands en í 2. málsl. segir að þessum skipum sé þó heimil óslitin sigling um lögsöguna, enda tilkynni þau til Landhelgisgæslunnar um ferð sína um fiskveiðilögsöguna með ákveðnum fyrirvara. Með þessu er lagt til að nokkuð strangari reglur gildi um veru erlendra veiði- og vinnsluskipa í fiskveiðilandhelginni en gilda samkvæmt lögum nr. 13/1992. Í 1. gr. laga nr. 13/1992 segir aðeins að erlendum veiði- og vinnsluskipum séu óheimilar veiðar og vinnsla í efnahagslögsögunni. Hins vegar er ekki í þeim lögum kveðið á um aðrar athafnir þeirra hér við land. Með þeirri breytingu, sem hér er lagt til að gerð verði, yrði allt eftirlit með erlendum skipum markvissara en ella. Erlendum veiði- og vinnsluskipum væri aðeins heimil óslitin sigling um fiskveiðilögsöguna en önnur vera þeirra þar væri óheimil. Eins og lögin eru nú gerir það eftirlit með veiðum erfitt að erlendum skipum er heimilt að vera innan fiskveiðilandhelginnar, enda séu þau ekki að veiðum eða við vinnslu afla. Ljóst er að eftirlit Landhelgisgæslunnar er erfiðara þegar veiðar eru stundaðar við mörk fiskveiðilögsögunnar. Verði frumvarp þetta samþykkt yrði staðan sú að erlendum veiði- og vinnsluskipum væri óheimilt að hafast við innan fiskveiðilandhelginnar nema þau væru þar samkvæmt sérstökum milliríkjasamningi þar um eða væru á óslitinni siglingu um hana, hvort sem þau væru á leið til hafnar hér á landi eða annað. Þykir ekki þörf á frekari heimildum til veru erlendra veiði- og vinnsluskipa innan fiskveiðilandhelginnar.
    Í lokamálslið greinarinnar er áréttað að heimilt sé með gerð sérstaks samkomulags að heimila erlendum skipum veiðar og vinnslu í fiskveiðilandhelginni og er það í samræmi við það sem tíðkast hefur, sbr. 5. gr. laga nr. 13/1992. Nú eru í gildi milliríkjasamningar um heimildir færeyskra skipa til veiða með línu og handfærum hér við land og enn fremur um heimildir skipa frá Evrópusambandinu til veiða á karfa. Þá hafa norsk, færeysk og grænlensk skip haft heimildir til loðnuveiða í fiskveiðilandhelginni samkvæmt sérstökum milliríkjasamningum.

Um 3. gr.

    Fyrsta málsgrein þessarar greinar er samhljóða 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1992 að öðru leyti en því að sérstaklega er áréttað að heimilt sé að umskipa afla erlendra skipa í íslenskum höfnum. Í því felst ekki breyting frá gildandi framkvæmd en hins vegar þykir rétt að hafa ákvæðið ótvírætt að þessu leyti. Með þessu ákvæði var sú stefna mörkuð að aflétta þeim takmörkunum sem verið höfðu á heimildum erlendra skipa til að leita hér þjónustu og landa afla. Verður að telja að sú ákvörðun hafi reynst vel og hefur hún leitt til aukinna viðskipta með sjávarafla auk þess sem erlend skip hafa í auknum mæli leitað hér ýmissar þjónustu.
    Í 1. málsl. 2. mgr. segir að þrátt fyrir heimildir í 1. mgr. sé þeim skipum, sem stunda veiðar úr sameiginlegum nytjastofnum sem veiðast bæði innan og utan íslenskrar fiskveiðilandhelgi, ekki heimilt að landa hér afla, umskipa eða sækja þjónustu hafi ekki verið samið um nýtingu viðkomandi stofns við stjórnvöld hlutaðeigandi ríkis. Þá segir í 2. málsl. að bannið taki einnig til skipa er stundi veiðar er brjóti í bága við samninga um nýtingu lifandi auðlinda hafsins sem Ísland er aðili að. Fyrra tilvikið er efnislega samhljóða ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1992 og síðara tilvikið er efnislega samhljóða 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Rökin fyrir því að banna þeim skipum, sem slíkar veiðar stunda, að leita hér hafnar eru fyrst og fremst þau að nauðsynlegt þykir að koma í veg fyrir að hafnir landsins verði notaðar til sóknar í stofna sem ekki hafa verið felldir undir veiðistjórn eða til sóknar í trássi við samninga um veiðistjórn. Tekur þetta bæði til tilvika þegar ekki hefur verið samið um stjórn stofna sem veiðast bæði utan og innan fiskveiðilögsögunnar og eins til veiða skipa frá ríkjum sem óbundin eru af samningum um veiðistjórn.
    Í 3. málsl. 2. mgr. segir að óheimilt sé að veita skipum, falli veiðar þeirra undir þessa málsgrein, þjónustu í fiskveiðilandhelgi Íslands eða frá íslenskum höfnum. Ákvæði þetta kæmi í stað 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 151/1996 og er efnislega samhljóða því. Hins vegar segir einnig í þessum málslið frumvarpsins að þeim skipum, sem flytja afla skipa eða veita skipum þjónustu sem veiða eða vinna afla utan fiskveiðilandhelginnar og falla undir skilgreiningu 1. mgr., skuli einnig óheimilt að leita hafnar hér á landi. Með þessu móti ætti að vera unnt að koma í veg fyrir að skip sem stunda skaðlegar veiðar eða vinnslu afla, í trássi við hagsmuni Íslands, geti auðveldað sér þær veiðar með því að sækja þjónustu til þeirra veiða hér á landi.
    Í 3. mgr. greinarinnar er vikið nokkuð frá orðalagi núgildandi ákvæðis 2. mgr. 10. gr. laga nr. 151/1996. Er það gert til að einfalda orðalag þessa ákvæðis en þó einkum til þess að gera ráðherra kleift að loka höfnum fyrir erlendum skipum sem stunda veiðar úr stofni án þess að viðkomandi fánaríki eigi aðild að þeirri fiskveiðistofnun sem stjórnar viðkomandi veiðum eða því fyrirkomulagi sem fiskveiðistofnunin hefur sett um veiðarnar. Helsta ástæða þess að talið er rétt að rýmka þessa heimild þannig að hún taki einnig til annarra skipa en hentifánaskipa, eins og núgildandi lagaheimild gerir, er sú að á ársfundi NAFO 1997 gerði allsherjarráð stofnunarinnar samþykkt til að stuðla að fylgni skipa frá ríkjum utan stofnunarinnar við stjórnarreglur hennar. Samþykktin er ekki lagalega skuldbindandi fyrir aðildarríki stofnunarinnar og er því hæpið að tala um að hér sé á ferðinni samningur í skilningi þessarar greinar. Engu að síður er gert ráð fyrir að aðildarríkin upplýsi um framkvæmd þeirra í þessum efnum. Samþykktin kveður m.a. á um að hafi sést til skipa við veiðar á NAFO-svæðinu skuli fara fram rannsókn um borð í þeim komi þau til hafnar í aðildarríkjum stofnunarinnar. Skal banna löndun og umskipun í ákveðnum tilvikum, þ.e. ef tilteknar fisktegundir finnast um borð og ekki tekst að sanna að þær hafi verið veiddar utan svæðisins og einnig ef tilteknar aðrar fisktegundir eru um borð og ekki hefur tekist að sanna að viðkomandi skip hafi virt stjórnunarreglur NAFO. Íslandi er hagur í því að þessu fyrirkomulagi verði fylgt fast eftir, ekki síst vegna þess að það eykur líkurnar á því að koma megi á svipuðu fyrirkomulagi á svæðinu umhverfis Ísland, þ.e. á NEAFC-svæðinu. Með orðinu samningur í þessum málslið er vísað til veiðistjórnunarstofnunar eða veiðistjórnunarfyrirkomulags eins og þau hugtök eru notuð í samningi um framkvæmd ákvæða hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1982 um verndun deilistofna og víðförulla fiskistofna og stjórnun veiða úr þeim. Samningur þessi sem oftast er nefndur úthafsveiðisamningurinn hefur ekki enn öðlast gildi. Í þessu sambandi er rétt að benda á að skv. 4. tölul. 8. gr. úthafsveiðisamningsins skulu aðeins þau ríki sem eru aðilar að eða þátttakendur í valdbærri veiðistjórnunarstofnun eða veiðistjórnunarfyrirkomulagi og þau ríki sem fallast á að beita ráðstöfunum þessara stjórnunaraðila hafa aðgang að auðlindum þeim sem þessar ráðstafanir ná til. Er hið nýja ákvæði því einnig í samræmi við þetta ákvæði úthafsveiðisamningsins. Lokamálsliður 3. mgr. er efnislega samhljóða 1. málsl. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 151/1996 og er ráðherra hér veitt heimild til að loka höfnum fyrir skipum sé slíkt talið nauðsynlegt til verndar lifandi auðlindum hafsins. Hér er um almenna heimild fyrir ráðherra að ræða og þykir hún nauðsynleg vegna þeirra ófyrirséðu tilvika sem upp kunna að koma.
    Í 1. málsl. 4. mgr. segir að bann við komu til hafnar og þjónustu þar taki ekki til erlendra skipa sem hér eiga þann rétt samkvæmt alþjóðasamningi eða þjóðarétti. Ákvæði þetta er efnislega samhljóða 1. málsl. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 151/1996, sbr. 5. gr. laga nr. 13/1992.
    Í 2. málsl. 4. mgr. segir að ráðherra geti vikið frá banni við komu erlendra skipa til hafnar hér ef sérstaklega stendur á og er þetta ákvæði efnislega samhljóða síðari málslið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1992. Þessari heimild hefur einkum verið beitt þegar veiðar hafa verið stundaðar úr stofnum sem ekki hafa verið taldir ofnýttir eða þegar talið hefur verið að bann við komu til hafnar hafi ekki áhrif á veiðarnar.
    Lokamálsliður 4. mgr. er í samræmi við síðari málslið 3. mgr. 10. gr. laga nr. 151/1996 að öðru leyti en því að áréttað er að erlendum skipum sé, auk þess að leita til hafnar hér á landi í neyðartilvikum, jafnframt heimilt að leita vars við strendur landsins undan sjó og veðri. Varðandi komu til hafnar er við það miðað að skipunum verði veitt sú þjónusta sem nauðsynleg er til þess að þau geti án áhættu haldið ferð sinni áfram.

Um 4. gr.

    Í 4. gr. laga nr. 13/1992 segir að erlend skip, sem leiti hafnar hér á landi, skuli tilkynna Landhelgisgæslunni um komu sína inn í efnahagslögsöguna. Í þessari grein er lagt til að tilkynningaskylda erlendra skipa sem um fiskveiðilandhelgina sigla verði mun ríkari. Er lagt til að öll skip, sem sigli inn í fiskveiðilandhelgina, tilkynni um komu sína með sex klukkustunda fyrirvara og enn fremur að þau tilkynni jafnframt um siglingu sína út úr fiskveiðilandhelginni. Með hliðsjón af öðrum ákvæðum þessa frumvarps og þeim tilgangi að herða eftirlit með veiðum umhverfis landið þykir þörf á að auka tilkynningaskylduna á þennan hátt. Í þessari grein er lagt til að Landhelgisgæslan tilkynni Fiskistofu ef ætla má að veiðar falli undir ákvæði 2.–3. mgr. 3. gr. en í núgildandi lögum ber Landhelgisgæslunni að tilkynna slíkt til sjávarútvegsráðuneytisins. Er þessi breyting lögð til þar sem Fiskistofa hefur eftirlit með framkvæmd laganna og getur farið um borð í skipin og athugað afla þeirra og skipsskjöl.

Um 5. gr.

    Í milliríkjasamningum um veiðiheimildir erlendra skipa í fiskveiðilandhelginni eru oft ákvæði sem ekki taka til veiða íslenskra skipa, t.d. varðandi veiðisvæði, veiðitíma og atriði sem lúta að eftirliti með þeim. Í þessari grein er mörkuð sú meginregla að ef ekki er um annað samið skuli um veiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelginni gilda sambærilegar reglur og gilda um veiðar íslenskra skipa þar. Sérstaklega er kveðið á um að þetta gildi um ákvæði laga og reglugerða sem lúta að veiðarfærum, friðunarsvæðum, veiðitíma, nýtingu fiskistofna og eftirliti með fiskveiðum. Samkvæmt þessu yrði erlendum skipum því, á sama hátt og íslenskum skipum, skylt að hirða veiddan fisk, virða ákvæði um friðunarsvæði, útbúa veiðar og skrá afla í samræmi við reglur þar að lútandi. Jafnframt segir í þessari grein að í þeim tilvikum sem erlend skip landi afla sínum hér á landi skuli sömu reglur gilda um vigtun aflans og gilda um landanir íslenskra skipa. Meginreglan er því einfaldlega sú að sömu reglur gildi um veiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelginni og gilda um veiðar íslenskra skipa, nema um annað hafi verið samið í milliríkjasamningum og er sú regla áréttuð í lokamálslið þessarar greinar. Hins vegar er jafnframt gert ráð fyrir að unnt sé að setja þeim sérstakar reglur ef þörf er talin á skv. 9. gr.

Um 6. gr.

    Þessi grein fjallar um framkvæmd leyfisveitinga til erlendra skipa. Hér er lagt til að Fiskistofa annist útgáfu leyfa til erlendra veiðiskipa að fengnum umsóknum frá stjórnvöldum í viðkomandi ríki. Sérstaklega er kveðið á um að þeim sé óheimilt að hefja veiðar fyrr en að fengnu leyfi Fiskistofu. Hér er því lagt til að hert verði nokkuð sú framkvæmd sem tíðkast hefur varðandi leyfi erlendra skipa til veiða í fiskveiðilandhelginni. Með þessu móti ætti að vera tryggt að erlend skip hefji ekki veiðar nema að fengnu sérstöku leyfi þar sem gerð yrði grein fyrir þeim reglum sem um viðkomandi veiðar giltu.

Um 7. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um að Landhelgisgæslan og Fiskistofa annist eftirlit með framkvæmd laga þessara og geti Fiskistofa í því skyni sett eftirlitsmenn um borð í veiðiskipin. Þá er gert ráð fyrir að útgerð skips skuli auk fæðis og aðstöðu um borð í skipinu greiða allan kostnað sem hlýst af veru eftirlitsmanna um borð, þar með talin laun hans. Almennt greiða íslenskar útgerðir ekki kostnað af veru eftirlitsmanna um borð í skipum sínum, heldur greiða þær aðeins fast veiðieftirlitsgjald sem miðast við úthlutað aflamark. Eina undantekningin frá því er í gildandi lögum um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum en þar segir að útgerð skuli greiða allan kostnað sem hlýst af veru eftirlitsmanns um borð í skipinu hverju sinni. Hins vegar þykir nauðsynlegt að hafa slíkt ákvæði þegar um veiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelginni er að ræða. Má í þessu sambandi benda á að í milliríkjasamningi Íslands og Evrópusambandsins er kveðið á um greiðsluskyldu þeirra erlendu veiðiskipa sem leyfi fá til veiða innan fiskveiðilandhelginnar hverju sinni. Er augljóst að slíkt eftirlit tryggir mjög rétta framkvæmd viðkomandi samninga.

Um 8. gr.

    Í þessari grein er gert ráð fyrir að Fiskistofa, sem veiti erlendum skipum veiðileyfi innan fiskveiðilandhelginnar, geti jafnframt afturkallað þau veiðileyfi brjóti útgerð, áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa gegn lögum þessum, reglugerðum settum með stoð í þeim, öðrum lögum sem um veiðar gilda eða ákvæðum milliríkjasamninga. Samkvæmt ákvæðum laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, annast Fiskistofa sviptingu veiðileyfa þegar um íslensk skip er að ræða og gilda ákveðnar reglur, bæði um framkvæmdina og gildistíma sviptingar. Ljóst er að reglum þeirra laga verður ekki beitt vegna brota erlendra skipa og yrðu sviptingin því ótímabundin eða gilti út leyfistímann. Hins vegar gæti útgerð viðkomandi skips skotið máli sínu til úrskurðar ráðuneytisins samkvæmt þeim reglum sem gilda um málskot til æðra stjórnvalds.

Um 9. gr.

    Hér er almennt heimildarákvæði til að setja frekari reglur um framkvæmd laganna og einnig um framkvæmd einstakra milliríkjasamninga. Ef ekki er um annað samið yrðu slíkar reglur um framkvæmd milliríkjasamninga í samræmi við gildandi ákvæði um sambærilegar veiðar íslenskra skipa eins og áréttað er í 5. gr. Hins vegar kann sú staða að koma upp að ástæða sé til þess að gera sérstakar kröfur varðandi þá þætti sem lúta að eftirliti með veiðum erlendra skipa sem m.a. helgast af því að fæst þessara skipa landa afla sínum í íslenskum höfnum. Er ráðherra, í síðari málslið þessarar greinar, veitt heimild til að gera ríkari kröfur til erlendra skipa varðandi alla þá þætti sem lúta að veiðum þeirra hér í fiskiveiðilandhelginni og þó einkum eftirliti með veiðum þeirra. Í milliríkjasamningum um veiðiheimildir er samið um flest veigamestu atriðin sem mestu máli skipta varðandi réttindi erlendra skipa. Er hér gert ráð fyrir að áréttað verði í sérstakri reglugerð hvaða reglur gildi um þær tilteknu veiðar sem samið er um hverju sinni, hvort sem þær reglur megi rekja til milliríkjasamningsins, þeirra almennu reglna sem gilda fyrir íslensk skip eða þeirra sérreglna sem nauðsynlegt er talið að gildi um veiðar hinna erlendu skipa.

Um 10. gr.

    Hér segir að brot á lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim varði viðurlögum sem rakin eru í næstu greinum. Sérstaklega er áréttað að þyngri refsing geti legið við brotum samkvæmt öðrum lögum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim. Má til skýringar nefna að brot gætu varðað refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum auk þess sem brot á ákvæðum laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, gætu leitt til strangari viðurlaga. Slík brot á ákvæðum laga nr. 79/1997 lytu fyrst og fremst að heimildarlausum veiðum erlendra skipa í fiskveiðilandhelginni eða veiðum erlendra skipa sem leyfi hefðu til veiða innan lögsögunnar en brytu gegn ákvæðum um friðunarsvæði.

Um 11. gr.

    Í 1. málsl. þessarar greinar segir að brot gegn ákvæðum laganna og reglugerðum settum samkvæmt þeim varði sektum, hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Sams konar ákvæði er að finna í öllum gildandi lögum sem fjalla um stjórn og skipulag veiða, bæði utan og innan fiskveiðilögsögunnar; lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar og lögum nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Jafnframt er kveðið svo á um, í áðurgreindum lögum, að ef um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot sé að ræða skuli þau brot, auk sekta, varða varðhaldi eða fangelsi allt að sex árum. Í 73. gr. hafréttarsamningsins segir hins vegar að refsingar strandríkis fyrir brot á lögum og reglugerðum um veiðar í sérefnahagslögsögu megi hvorki fela í sér refsivist, nema hlutaðeigandi ríki hafi gert samninga um annað, né annars konar líkamlega refsingu. Vegna þess er lagt til í 2. málsl. þessarar greinar að þegar um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot sé að ræða gildi ekki það sektarhámark sem annars mundi gilda. Auk þess er lagt til að heimilt sé í þeim tilvikum að gera allan afla skipsins og öll veiðarfæri sem finnast um borð upptæk. Það er því á valdi dómara að meta hvort brot sé þannig að víkja eigi frá þeim sektarmörkum sem ákveðin eru í 12. gr. og hvort til upptöku afla og veiðarfæra eigi að koma. Það er nokkuð ljóst að refsiviðurlög fyrir brot gegn lögum og reglugerðum hér á landi eru nokkuð vægari en tíðkast í öðrum ríkjum og fullyrða má að upptöku afla og veiðarfæra er beitt í ríkari mæli erlendis en hér á landi. Um framkvæmd upptöku afla og veiðarfæra er lagt til að andvirðið verði gert upptækt og er það í samræmi við þá framkvæmd sem tíðkast hefur í sambærilegum tilvikum.

Um 12.–13. gr.

    Þau almennu viðurlög, sem hér eru ákveðin við brotum á lögunum og reglum settum samkvæmt þeim, eru í samræmi við viðurlagaákvæði laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Sama gildir um þá hlutlægu ábyrgð sem lögð er á lögaðila vegna brota.

Um 14. gr.

    Samkvæmt lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, ber að gera ólögmætan afla upptækan í þeim tilvikum sem skip er staðið að veiðum innan fiskveiðilandhelginnar á svæðum þar sem því eru viðkomandi veiðar óheimilar. Ákvæði þetta tekur bæði til veiða íslenskra og erlendra skipa. Þá segir í lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, að Fiskistofa skuli leggja sérstakt gjald á útgerð vegna ólögmæts afla. Í lögum nr. 37/1992 er jafnframt skilgreining á því hvað teljist ólögmætur afli í skilningi þeirra laga. Ljóst er að þegar um ólögmætar veiðar erlendra skipa er að ræða verður því í fæstum tilvikum við komið að Fiskistofa leggi sérstakt gjald á útgerð hins erlenda skips og því þykir rétt að leggja hér til að gjaldskyldan sé staðfest með dómi þannig að unnt sé að krefjast tryggingar til greiðslu hennar, sbr. 2. mgr. 15. gr.
    Í 1. mgr. er lagt til að heimilt sé að gera afla upptækan með dómi sé hann fenginn á ólögmætan hátt. Í slíkum tilvikum væri fyrst og fremst um að ræða veiðar með ólögmætum veiðarfærum. Í 2. málsl. 1. mgr. er kveðið á um upptöku þess afla sem um borð í skipi er og er umfram þann afla sem skráður er í afladagbækur eða tilkynntur hefur verið stjórnvöldum. Þykir sérstök ástæða til þess að setja ströng viðurlög við því að afli sé ekki rétt upp gefinn þar sem fæst þessara skipa landa afla sínum hér á landi og því erfitt fyrir stjórnvöld í mörgum tilvikum að staðreyna endanlegt aflamagn. Loks skal gera þann afla upptækan sem er umfram veiðiheimildir og er það í samræmi við það sem gildir um veiðar íslenskra skipa umfram aflaheimildir. Þetta ákvæði tæki einnig til þeirra tilvika sem veiddar væru fisktegundir sem viðkomandi skipi væri óheimilt að stunda veiðar á. Í lokamálslið 1. mgr. segir að í stað þess að gera aflann upptækan sé heimilt að gera fjárhæð sem svari til aflaverðmætisins, að mati dómkvaddra kunnáttumanna, upptæka og er það í samræmi við ákvæði laga nr. 79/1997 og 11. gr. þessa frumvarps.
    Í 2. mgr. eru ákvæði um upptöku ólögmætra veiðarfæra og eru þau í samræmi við ákvæði laga nr. 57/1997. Með ólöglegum veiðarfærum er átt við veiðarfæri sem ekki eru gerð í samræmi við þær reglur sem um þau gilda. Má hér sem dæmi nefna veiðarfæri með ólöglegri möskvastærð og vörpur sem klæddar eru á ólögmætan hátt.

Um 15. gr.

    Ákvæði þessarar greinar er í samræmi við ákvæði 19. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.
    Samkvæmt þessu er það á valdi dómara að meta hvort ástæða er til að kyrrsetja skip sem fært er til hafnar vegna brota á lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim. Telji hann ástæðu til þess er honum hins vegar heimilt að láta það laust ef sett er trygging fyrir greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku.

Um 16. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um rétt til veiða og vinnslu afla
í fiskveiðilandhelgi Íslands.

    Frumvarpi þessu er ætlað að koma í stað laga nr. 13/1992, um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands. Það felur í sér nokkrar breytingar frá gildandi lögum, aðallega er lýtur að rétti erlendra skipa til veiða og veru innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi.
    Ekki verður séð að samþykkt frumvarpsins hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.