Ferill 298. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 434 – 298. mál.Svarutanríkisráðherra við fyrirspurn Guðmundar Árna Stefánssonar um kostnað við nýbyggingu sendiráðs Íslands í Berlín.

     1.      Hver verður heildarkostnaður við nýbyggingu sendiráðs Íslands í Berlín? Verður hann í samræmi við fyrstu drög að kostnaðaráætlun, þ.e. 290 millj. kr., sbr. athuga semdir við fjárlagafrumvarp 1997?
    Rétt er að geta þess að um er að ræða tvær byggingar. Annars vegar er sameiginleg bygg ing Norðurlandanna og skiptist kostnaður við hana á milli Norðurlandanna fimm. Hlutdeild Íslands er 206,5 millj. kr. Hins vegar er nýbygging sendiráðs Íslands og er kostnaður við hana um 133,5 millj. kr.
    Kostnaðaráætlun um hlutdeild Íslands í sameiginlegu byggingunni og nýbyggingu sendi ráðs Íslands í Berlín er byggð á endurskoðaðri áætlun sem þýska ráðgjafarfyrirtækið Dress & Sommer gerði 21. október sl. Heildarkostnaður við bygginguna er nú áætlaður um 340 millj. kr.

     2.      Hvernig vindur verkinu fram og hvenær eru verklok áætluð? Gengur verkið samkvæmt áætlun?
    Framvinda verksins er samkvæmt tímaáætlun. Áætlað er að sendiráðsbyggingarnar fimm, ásamt sameiginlegu byggingunni, verði tilbúnar að utan og lóðir frágengnar í október 1998. Áætlað er að innanhússframkvæmdum verði lokið í maí 1999 og að sendiráð Íslands hefji starfsemi sína í nýju húsnæði í júní 1999.

     3.      Hverjir eru helstu kostnaðarliðir (sundurliðaðir)?
    Sundurliðuð kostnaðaráætlun er eftirfarandi:

Hlutdeild Íslands í sam-
eiginlegu byggingunni, %

Sendiráð Íslands, %

Lóðarkostnaður
9,21 14,63
Undirbúningur
0,88 0,77
Jarðvegsframkvæmdir
2,04 0,00
Öryggi
0,38 0,00
Uppsteypa
6,41 6,06
Frágangur utan húss
6,40 9,10
Tækni
4,62 10,61
Lóðarframkvæmdir
1,56 0,79
Frágangur innan húss
2,28 7,00
List
0,07 0,00
SVF/erlendir ráðgjafar
10,14 4,00
Hönnun og umsjón á Íslandi
0,00 3,00
Samanlagt 100%
43,99 55,96
Samtals kostnaður
340 millj. kr.

    Helstu ástæður hækkunar kostnaðaráætlunarinnar eru sem hér segir:
     a.      Hessenfylki, sem átti hlut lóðarinnar, var ekki tilbúið til að veita þann 25% afslátt af verði síns hluta sem Berlínarborg hafði gefið fyrirheit um og Statens Fastighetsverk í Svíþjóð (SFV) hafði gert ráð fyrir í kostnaðaráætlunum sínum, en í upphafi verks ann aðist sú stofnun gerð kostnaðaráætlana. Berlínarborg veitti hins vegar umsaminn afslátt.
     b.      Norðurlöndunum var gert að deiliskipuleggja lóðina en fyrirheit höfðu verið gefin um að Berlínarborg mundi gera það á sinn kostnað.
     c.      Í samningi milli Norðurlandanna fimm um sameiginleg kaup á lóðinni var gert ráð fyrir að eignarhlutdeild Íslands yrði 5,8%. Þegar hönnun sendiráðanna var lokið og endanleg ar stærðir lágu fyrir var skipting sameiginlegs kostnaðar endurskoðuð. Miðað við endanlegar stærðir á byggingum hinna landanna er kostnaðarhlutfall Íslands orðið 6,3%. Ástæða þessarar hækkunar er helst rakin til þess að Noregur minnkaði sendiráðsbygg ingu sína töluvert frá upphaflegri áætlun. Ekki var mögulegt að minnka íslensku bygg inguna þar sem henni var í upphafi sniðinn eins þröngur stakkur og mögulegt var.
     d.      Í ljós kom að gera þurfti sérstakar ráðstafanir við útfærslu bílakjallara þar sem yfirborð grunnvatns var hærra en reiknað hafði verið með.
     e.      Þegar framkvæmdir hófust kom í ljós að jarðvegurinn á lóðinni var mengaður, þar sem mokað hafði verið ofan í grunn menguðu efni úr seinni heimsstyrjöldinni. Fjarlægja þurfti mengaða jarðveginn og farga honum og leiddi það til aukins kostnaðar. Verið er að vinna að gerð endurkröfu kostnaðar vegna þessa á hendur Berlínar.
     f.      Kostnaður við ráðgjöf hefur orðið meiri en SFV gerði ráð fyrir í upphafi verks.
     g.      Við þetta bætist svo að almennar hækkanir á tilboðsmarkaði í Berlín hafa leitt til hækkana á áætluðum kostnaði.
    Heildarkostnaður við sameiginlega sendiráðsverkefnið er áætlaður um 340 millj. kr.

     4.      Hvernig er háttað hönnun, stjórnun og eftirliti og hver er kostnaðurinn?
    Verkefnisstjórn sameiginlega sendiráðsverkefnisins er í höndum Statens Fastighetsverk í Svíþjóð og hönnunarstjórn og kostnaðargát í höndum þýska ráðgjafarfyrirtækisins Dress & Sommer.
    Ráðin hafa verið þýsk ráðgjafarfyrirtæki til aðstoðar. Það eru IGH-Ingenieurgesellschaft Höpfner GmbH sem sér um verkfræðilega hönnun og ráðgjöf, arkitektarnir Pysall & Ruge sem sjá um samskipti við yfirvöld Berlínarborgar og hafa umsjón með eftirliti á byggingar tíma, Hosser, Hass & Partner sem annast brunatæknilega hönnun og þýskir lögfræðingar, ásamt ýmsum öðrum ráðgjöfum.
    Kostnaður við hönnun, ráðgjöf, stjórnun, eftirlit og opinber gjöld, bæði fyrir hlut Íslands í sameiginlegu byggingunni og fyrir sendiráðið, er áætlaður um 59,6 millj. kr.

     5.      Hver er sundurliðaður kostnaður af hlutdeild og framlagi íslenskra aðila í verkinu, ef einhver er?
    Áætlaður kostnaður við hönnun íslenska sendiráðsins, samningagerð og fleira er um 11,8 millj. kr. Klæðning þess er úr íslensku líparíti og er kostnaður vegna þess áætlaður um 4 millj. kr. Áætlaður kostnaður vegna íslenskra hraunhellna í garði íslenska sendiráðsins er 1,3 millj. kr. Jafnframt er gert ráð fyrir að innréttingar í sendiráðinu verði hannaðar og smíðaðar hér á landi. Áætlaður kostnaður við innréttingar og búnað er um 10 millj. kr.