Ferill 347. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 460 – 347. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.

    

         (Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:     
 a.    Í stað orðanna „skattstjóra þar sem aðilar eiga lögheimili“ í 2. mgr. kemur: ríkisskattstjóra.
 b.    Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
             Ríkisskattstjóri getur falið skattstjórum að kanna starfsemi framleiðenda í viðkomandi umdæmi til að ganga úr skugga um að gjaldskyldir aðilar hafi tilkynnt um starfsemi sína.

2. gr.

    Í stað orðsins „skattstjóra“ 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: ríkisskattstjóra.

3. gr.

    Í stað orðsins „skattyfirvöldum“ 5. mgr. 7. gr. laganna kemur: ríkisskattstjóra.


4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
 a.    Við greinina bætist nýr málsliður sem orðast svo: Ríkisskattstjóri annast álagningu vörugjalds vegna innlendrar framleiðslu og innflutnings aðila sem skráðir eru skv. 5. gr.
 b.    Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
                  Ríkisskattstjóri og framleiðendur vöru geta óskað eftir ákvörðun tollstjóra um tollflokkun vöru samkvæmt ákvæðum 142. gr. tollalaga. Ríkisskattstjóri og framleiðandi geta skotið ákvörðun tollstjóra um tollflokkun vöru til ríkistollanefndar, sbr. 101. gr. tollalaga. Ákvörðun tollyfirvalda um tollflokkun vöru er bindandi fyrir framleiðanda og skattyfirvöld.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
 a.               1. mgr. orðast svo:
                            Hvert uppgjörstímabil aðila sem skráðir eru skv. 2. mgr. 4. gr. er tveir mánuðir, janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október, nóv ember og desember. Gjalddagi hvers uppgjörstímabils er 5. dagur annars mánaðar eftir lok þess.
 b.               Á eftir orðunum „skv. 5. gr.“ í 2. málsl. 3. mgr., 2. málsl. 4. mgr. og 2. málsl. 5. mgr. kemur: eða til framleiðenda samkvæmt heimild í 10. gr.
 c.               Í stað orðsins „Skattstjóri“ í 3. og 4. málsl. 5. mgr. kemur: Ríkisskattstjóri.
 d.              Við 5. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Um málsmeðferð fer eftir ákvæðum laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

6. gr.     

    10. gr. laganna orðast svo:
    Framleiðendur vöru, sem nota í framleiðslu sína hráefni eða efnivöru sem ber vörugjald, geta fengið heimild ríkisskattstjóra til að kaupa af innflytjendum, innlendum framleiðendum og aðilum sem skráðir eru skv. 5. gr. hráefni eða efnivöru án vörugjalds. Slík heimild veitir framleiðanda jafnframt heimild til endurgreiðslu á vörugjaldi af hráefni og efnivöru sem hann hefur sjálfur flutt til landsins í samræmi við ákvæði 2. mgr. Í umsókn skal m.a. tilgreina um hvers kyns framleiðslu að ræða og til hvaða hráefna eða efnivöru óskað að heimildin nái. Telji ríkisskattstjóri skilyrði vera til niðurfellingar gefur hann út heimild til viðkomandi til innflutnings eða kaupa á tilteknu hráefni eða efnivöru án vörugjalds.
    Innflytjandi getur á gjalddaga hvers uppgjörstímabils fengið endurgreitt vörugjald af vörum sem hann hefur flutt til landsins en hafa á uppgjörstímabili annaðhvort verið seldar án vörugjalds til framleiðanda eða verið nýttar í framleiðslu innflytjanda sjálfs samkvæmt heimild í 1. mgr. Innflytjandi skal tilgreina í sérstakri skýrslu til ríkisskattstjóra um slíka sölu eða nýtingu, þar með talið til hvaða aðila vara er seld, magn vöru og tegund, svo og fjár hæð vörugjalds. Skýrslu skal skilað eigi síðar en 15 dögum fyrir gjalddaga. Endurgreiðsla skal fara fram á gjalddaga, enda hafi vörugjald vegna viðkomandi tímabils verið greitt.
    Heimild samkvæmt þessari grein nær einungis til hráefnis eða efnivöru sem verður hluti af hinni endanlegu framleiðsluvöru. Heimildin nær hvorki til kaupa eða innflutnings á efni vörum til byggingar eða viðhalds á fasteignum né til nýsmíði eða viðgerða á ökutækjum.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
 a.              Í stað orðanna „tollstjóra eða þess skattstjóra sem annaðist álagningu gjaldsins“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: tollstjóra sem annaðist álagningu gjaldsins eða til ríkisskattstjóra.
 b.     Í stað orðsins „skattstjóri“ í 4. málsl. 1. mgr. kemur: ríkisskattstjóri.
 c.              3. mgr. orðast svo:
                       Gjaldskyldur aðili getur skotið úrskurði ríkisskattstjóra skv. 1. mgr. til yfirskatta nefndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
 a.              Á eftir orðinu „tollalaga“ kemur: um innfluttar vörur.
 b.              Á eftir orðinu „virðisaukaskatt“ kemur: um innlendar framleiðsluvörur.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á viðauka I við lögin:
 a.              Eftirfarandi tollskrárnúmer fellur brott úr A-lið viðaukans: 2106.9024.
 b.               Eftirfarandi tollskrárnúmer falla brott úr B-lið viðaukans: 2202.1002 og 2202.9002.


10. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. febrúar 1998.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæði laga þessara skulu taka til allra vara sem eru ótollafgreiddar við gildistöku þeirra, þó ekki vara sem hafa verið afhentar með bráðabirgðatollafgreiðslu, svo og til allra innlendra framleiðsluvara sem ekki hafa verið seldar eða afhentar þann dag.
    Þrátt fyrir ákvæði a-liðar 5. gr. laga þessara skal fyrsta uppgjörstímabil vörugjalds samkvæmt lögum þessum vera einn mánuður, febrúar 1998. Um uppgjörstímabil og gjalddaga vörugjalds vegna innflutnings og sölu á vörugjaldsskyldum vörum í desember 1997 og janúar 1998 fer eftir ákvæðum laga nr. 97/1987 eins og þau eru fyrir gildistöku laga þessara.
    Þrátt fyrir ákvæði 10. gr. laga þessara skulu ákvæði laga þessara, að því leyti sem þau lúta að tilfærslu verkefna frá skattstjóra og tollstjóra til ríkisskattstjóra, ekki koma til fram kvæmda fyrr en 1. maí 1998. Þannig skulu skattstjórar annast álagningu vörugjalds vegna innlendrar framleiðslu á uppgjörstímabilinu mars og apríl 1998. Sömuleiðis skulu ákvæði laga þessara um niðurfellingu eða endurgreiðslu vörugjalds af hráefni til framleiðslu ekki koma til framkvæmda fyrr en 1. maí 1998.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í frumvarpi þessu eru einkum lagðar til þrenns konar breytingar á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum. Í fyrsta lagi er lagt til að álagning og eftirlit með vöru gjaldsskilum innan lands verði færð frá einstökum skattstjórum til ríkisskattstjóra, í annan stað að í lögunum verði með ótvíræðum hætti kveðið á um heimild til sölu eða innflutnings á hráefni eða efnivöru án vörugjalds til innlendrar framleiðslu, hvort sem um gjaldskylda eða ógjaldskylda framleiðsluvöru er að ræða og í þriðja lagi að uppgjörstímabil vörugjalds verði samræmd uppgjörstímabilum virðisaukaskatts og gjalddagar verði þeir sömu og gjalddagar virðisaukaskatts vegna sölu á vöru og þjónustu hér á landi. Þá eru lagðar til smávægilegar breytingar á viðauka I við lögin, en í honum er kveðið á um hvaða vörur séu gjaldskyldar. Rétt þykir að gera sérstaklega grein fyrir helstu breytingum, hverri fyrir sig.

Álagning og eftirlit fært til ríkisskattstjóra.

    Samkvæmt gildandi lögum annast einstakir skattstjórar álagningu vörugjalds vegna innlendrar framleiðslu og hafa þeir jafnframt eftirlit með gjaldskyldri starfsemi. Þetta verk efni skattstjóra kemur til viðbótar meginverkefnum þeirra, en þau eru álagning og eftirlit með skilum á annars vegar virðisaukaskatti og hins vegar tekju- og eignarskatti. Skort hefur á að skattstjórar hafi getað sinnt nægilega þeim verkefnum er lúta að vörugjaldi. Kemur þar í fyrsta lagi til að takmarkaður mannafli er á skattstofum landsins til að annast framkvæmd vörugjalds. Megináherslan er að jafnaði lögð á álagningu og eftirlit með skilum á virðisauka skatti og tekju- og eignarskatti og vill brenna við að framkvæmd vörugjalds verði af þeim sökum út undan hjá skattstofunum. Í annan stað skortir á sérþekkingu á vörugjaldi hjá skattstofunum.
    Á undanförnum árum hefur þróunin verið í þá átt að færa verkefni er lúta að sértækum sköttum og gjöldum til ríkisskattstjóra. Þannig hefur embættinu verið falin framkvæmd þungaskatts og eftirlit með skilum á áfengisgjaldi vegna innlendrar áfengisframleiðslu. Þessi tilhögun hefur gefið góða raun og gefur fyrirheit um að sama geti orðið hvað varðar skil á vörugjaldi vegna innlendrar framleiðslu.
    Af þessum sökum er lagt til að álagning og eftirlit með vörugjaldsskilum innan lands verði færð frá einstökum skattstjórum til ríkisskattstjóra. Við það mundi einn og sami aðilinn annast framkvæmdina á landsvísu. Það mundi skapa sérþekkingu á einum stað sem nýttist fyrir landið allt. Benda má á að ríkisskattstjóri hefur hingað til haft leiðbeiningar- og sam ræmingarhlutverki að gegna gagnvart skattstjórum hvað varðar álagningu og eftirlit með vörugjaldi. Því er nú þegar til staðar sérþekking hjá embættinu sem ætti að nýtast við þá breytingu sem lögð er til. Ætla má að eftirlit með skráningu vörugjaldsskyldra framleiðenda á vörugjaldsskrá, svo og skilum þeirra á gjaldinu, batni að mun, auk þess sem tryggt verði aukið samræmi í framkvæmd á landsvísu. Þá verður verkefnum létt af skattstofum og gefst þeim færi á að beina kröftum sínum óskipt að meginverkefnum sínum, þ.e. álagningu og eftirliti með virðisaukaskatti og tekju- og eignarskatti.
    Auk álagningar og eftirlits með vörugjaldsskilum vegna innlendrar framleiðslu er gert ráð fyrir því að ríkisskattstjóri annist eftirlit með sölu án vörugjalds á gjaldskyldum vörum, til að mynda ef varan er seld sem hráefni eða efnivara til framleiðslu. Verður vikið nánar að þessu atriði hér á eftir.

Undanþága frá gjaldskyldu vegna sölu hráefna og efnivöru.

    Lagt er til að sala á hráefni og efnivöru til innlendrar framleiðslu verði undanþegin vöru gjaldi, enda hafi framleiðandi fengið heimild hjá ríkisskattstjóra til kaupa á vöru án vöru gjalds. Skipti þá hvorki máli hvort um er að ræða hráefni eða efnivöru sem flutt hefur verið til landsins eða framleidd hér á landi, eða hvort hin endanlega framleiðsluvara ber vörugjald eður ei. Framleiðandi geti fengið heimild til að kaupa hráefni eða efnivöru í framleiðslu sína án vörugjalds og innflytjandi eða innlendur hráefnis- eða efnivöruframleiðandi geti fengið vörugjald vegna þeirrar sölu frádregið í uppgjöri sínu.
    Telja verður að rök séu til þess að hráefni og efnivara til innlendrar framleiðslu séu undanþegin vörugjaldi, óháð því hvort framleiðsluvaran ber vörugjald eður ei. Framleiðslu varan er að jafnaði í samkeppni við sams konar eða svipaðar erlendar vörur sem fluttar hafa verið til landsins. Hráefni og efnivörur í þær vörur hafa ekki borið vörugjald og því raskar gjald á hráefni eða efnivöru í innlendar vörur samkeppnishæfni þeirra gagnvart erlendum vörum.
    Í núgildandi vörugjaldslögum og í tollalögum, nr. 55/1987, er að finna tilteknar heimildir til undanþágu á gjöldum vegna innflutnings eða sölu á hráefni eða efnivöru til innlendrar framleiðslu. Í 13. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga er fjármálaráðherra heimilað að fella niður eða endurgreiða tolla af hráefni, efnivörum og hlutum í innlendar framleiðsluvörur ef tollar á sams konar erlendri framleiðsluvöru eru jafnháir eða lægri en af efnivörunum. Þessari heimild hefur verið beitt varðandi vörugjald við innflutning á hráefni eða efnivöru til fram leiðslu, hvort sem framleiðsluvaran ber vörugjald eður ei. Framkvæmdin hefur verið þannig að innflytjendur hafa fengið leyfi til niðurfellingar á vörugjaldi við innflutning, enda lýsi þeir yfir að innflutningur sé til tiltekinnar framleiðslu. Þessi leið hefur þann ókost að ekki er víst að innflytjandi geti gert sér grein fyrir því við innflutning hvort vara verður síðar seld sem hráefni eða efnivara til framleiðanda og að réttur skapist þar af leiðandi til niðurfellingar gjalda. Í annan stað er talið heppilegra að allt eftirlit með innlendri framleiðslu og sölu sé á einni hendi, þ.e. hjá ríkisskattstjóra, í stað þess að vera hjá bæði tollyfirvöldum og skattyfirvöldum.
    Hvað varðar hráefni eða efnivöru sem framleidd er hér á landi er það að segja að mismun andi framkvæmd hefur verið eftir því hvort um gjaldskylda framleiðslu er að ræða eður ei. Í 1. mgr. 10. gr. laganna er framleiðanda heimilað að draga frá vörugjald sem hann hefur sannanlega greitt við kaup á hráefni eða efnivöru til gjaldskyldrar framleiðslu. Hins vegar er ekki kveðið afdráttarlaust á um það í lögunum að innlent hráefni eða efnivara í ógjald skylda framleiðslu sé undanþegið vörugjaldi. Að vísu er fjármálaráðherra heimilað í 2. mgr. 13. gr. laganna að endurgreiða eða fella niður vörugjald af innlendu hráefni og efnivöru í framleiðslu iðnaðarvara. Ekkert segir í greininni um það hvernig eða í hvaða tilvikum heimildinni skuli beitt. Í framkvæmd hefur gjaldskyldur framleiðandi getað fengið heimild skattstjóra til að kaupa hráefni eða efnivöru innan lands í framleiðsluna án vörugjalds. Eftir lit skattyfirvalda með slíkum viðskiptum hefur verið lítið. Hins vegar hefur heimildinni ekki verið beitt um ógjaldskyldar framleiðsluvörur og hefur framleiðendum slíkra vara því ekki verið unnt að kaupa hráefni eða efnivöru innan lands án vörugjalds.
    Lagt er til að í stað þeirra heimilda sem að framan er getið verði í lögunum kveðið á um að innlendir framleiðendur geti fengið heimild ríkisskattstjóra til að kaupa án vörugjalds hráefni og efnivöru til framleiðslu sinnar af annaðhvort innflytjanda eða innlendum hráefnis framleiðanda. Slík heimild frá ríkisskattstjóra mundi jafnframt heimila framleiðandanum að fá endurgreitt vörugjald af hráefni og efnivöru sem flutt er inn til eigin framleiðslu.
    Framkvæmdin yrði þá sú hvað varðar innflutt hráefni og efnivöru að tollyfirvöld reiknuðu vörugjald af öllum gjaldskyldum vörum sem fluttar yrðu til landsins. Ef innflytjandi selur síðan vörur án vörugjalds sem hráefni eða efnivöru til innlends framleiðanda, eða nýtir vörur í eigin framleiðslu, gerir hann fyrir gjalddaga hvers uppgjörstímabils ríkisskattstjóra grein fyrir gjaldfrjálsri sölu eða nýtingu á viðkomandi uppgjörstímabili á sérstöku eyðublaði og fær á gjalddaga hvers uppgjörstímabils lækkun á vörugjaldi til samræmis við það. Ef hins vegar um innlenda hráefnis- eða efnivöruframleiðslu er að ræða gerir framleiðandi þeirrar vöru grein fyrir gjaldfrjálsri sölu á vörugjaldsskýrslu við uppgjör gjaldsins og reiknast þá ekki gjald vegna sölunnar.

Breyting á uppgjörstímabilum og gjalddögum.

    Samkvæmt núgildandi lögum er hvert uppgjörstímabil vörugjalds tveir mánuðir, desember og janúar, febrúar og mars o.s.frv. Gjalddagi vegna hvers uppgjörstímabils er 15. dagur annars mánaðar eftir lok þess. Æskilegt þykir að samræma uppgjörstímabilin við uppgjörs tímabil virðisaukaskatts, en þau eru janúar og febrúar, mars og apríl o.s.frv. Einkum er talin þörf á slíkri samræmingu hvað varðar innfluttar vörur, en uppgjörstímabil á aðflutnings gjöldum þeirra innflytjenda sem njóta tveggja mánaða greiðslufrests í tolli eru hin sömu og uppgjörstímabil virðisaukaskatts. Þykir vera til mikillar einföldunar hvað varðar útreikning og álagningu gjalda við innflutning að uppgjörstímabilin verði samræmd. Í slíkri breytingu felst jafnframt einfaldari framkvæmd fyrir vörugjaldsskylda innflytjendur og framleiðendur.
    Lagt er til að tímabilið frá lokum uppgjörstímabils og fram að gjalddaga verði stytt um tíu daga frá því sem nú er. Þannig verði gjalddagi 5. dagur annars mánaðar frá lokum upp gjörstímabils í stað þess að vera 15. dagur annars mánaðar. Er það gert í því skyni að sam ræma gjalddaga vörugjalds annars vegar og virðisaukaskatts innan lands hins vegar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1.–3. gr.

    Ákvæðin eru í samræmi við þá breytingu sem lýst er í almennum athugasemdum við frumvarpið, að álagning og eftirlit með vörugjaldsskilum innan lands færist frá einstökum skatt stjórum til ríkisskattstjóra. Vísast um breytinguna til þeirrar umfjöllunar.

Um 4. gr.

    Í a-lið er kveðið á um að ríkisskattstjóri í stað einstakra skattstjóra annist álagningu vöru gjalds vegna innlendrar framleiðslu, svo og aðila sem fengið hafa sérstaka skráningu skv. 5. gr. laganna. Um rök fyrir þeirri breytingu vísast til almennra athugasemda hér að framan.
    Í b-lið er kveðið á um að ríkisskattstjóri og innlendir framleiðendur geti óskað eftir ákvörðun tollyfirvalda um tollflokkun vöru og að ákvörðun tollyfirvalda sé bindandi fyrir framleiðendur og skattyfirvöld. Í ýmsum tilvikum geta risið ágreiningsmál um það undir hvaða tollskrárnúmer tiltekin vara flokkast, en álagning vörugjalds ræðst af tollflokkun vöru. Þykir eðlilegt að ákvörðun um tollflokkun vöru sé jafnan í höndum tollyfirvalda, hvort sem um innflutta vöru eða innlenda framleiðsluvöru er að ræða, enda búa tollstjórar yfir sér þekkingu á því hvernig vörur tollflokkast. Þá tryggir þetta fyrirkomulag að samræmi verði í tollflokkun á innfluttri vöru annars vegar og innlendri vöru hins vegar.

Um 5. gr.

    Í a-lið er lagt til að uppgjörstímabil vörugjalds færist til og verði janúar og febrúar, mars og apríl o.s.frv. í stað desember og janúar, febrúar og mars o.s.frv. eins og nú er. Lagt er til að frestur frá lokum uppgjörstímabils og til gjalddaga tímabilsins verði styttur um tíu daga frá því sem nú er og verði því 5. dagur annars mánaðar frá lokum uppgjörstímabils. Um rök fyrir þessum breytingum vísast til almennra athugasemda við frumvarpið.
    Að öðru leyti eru breytingar þær sem lagðar eru til á 9. gr. laganna til samræmis við þau markmið frumvarpsins annars vegar að færa álagningu og eftirlit með vörugjaldsskilum innan lands frá einstökum skattstjórum til ríkisskattstjóra og hins vegar að undanþiggja vörugjaldi allar vörur sem nýttar eru sem hráefni eða efnivara til gjaldskyldrar eða ógjald skyldrar framleiðslu. Vísast nánar um þessi atriði til umfjöllunar í almennum athugasemdum við frumvarpið. Auk þessa er lagt til að í greininni verði vísað til málsmeðferðarreglna virðisaukaskattslaga.

Um 6. gr.

    Í greininni er kveðið á um niðurfellingu á vörugjaldi af hráefni og efnivöru til framleiðslu. Gert er ráð fyrir að þeir framleiðendur, sem nota í framleiðslu sína hráefni eða efnivöru sem ber vörugjald, fái sérstaka heimild hjá ríkisskattstjóra til þess að kaupa innan lands hráefni eða efnivöru án vörugjalds. Jafnframt geri slík heimild framleiðendum kleift að fá endurgreitt vörugjald af hráefni og efnivöru sem þeir flytja sjálfir til landsins til eigin framleiðslu. Í umsókn skal gerð grein fyrir því um hvers kyns framleiðslu sé að ræða og af hvaða hráefnum eða efnivöru niðurfellingar gjaldsins sé óskað. Fallist ríkisskattstjóri á umsóknina gefur hann út heimild til undanþágu frá vörugjaldi vegna kaupa eða notkunar á því hráefni eða efnivöru sem um er að ræða.
    Í 2. mgr. er kveðið á um framkvæmd niðurfellingar af vörum sem fluttar eru til landsins. Samkvæmt málsgreininni getur innflytjandi, á gjalddaga hvers uppgjörstímabils, fengið endurgreitt vörugjald af vörum sem hann hefur flutt til landsins en hafa á uppgjörstímabili verið annaðhvort seldar án vörugjalds til framleiðanda eða verið nýttar í framleiðslu inn flytjanda sjálfs samkvæmt heimild í 1. mgr. Innflytjanda, sem óskar endurgreiðslu, ber að tilgreina í skýrslu til ríkisskattstjóra um sölu eða nýtingu vöru á tímabilinu þar sem m.a. komi fram fjárhæð vörugjalds. Endurgreiðsla skal fara fram á gjalddaga, þó að því tilskildu að vörugjald vegna viðkomandi tímabils hafi verið greitt. Í framkvæmd mundi fjárhæð sú sem endurgreidd er koma til lækkunar á vörugjaldi vegna innflutnings á uppgjörstímabili.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að heimild samkvæmt greininni nái einungis til hráefnis eða efnivöru sem verður hluti af hinni endanlegu framleiðsluvöru. Þannig nær heimildin ekki til t.d. véla og búnaðar sem nýttur er til að framleiða vöruna. Ekki þykir æskilegt að hafa heimild ina svo víðtæka, enda yrði erfitt að koma í veg fyrir að hún yrði misnotuð. Þá þykir rétt að taka sérstaklega fram í 3. mgr. að heimildin nái hvorki til efnivara til byggingar eða viðhalds á fasteignum né til nýsmíði eða viðgerða á ökutækjum, en ýmsar byggingarvörur og vara hlutir í ökutæki bera vörugjald. Bygging eða viðhald á fasteignum telst ekki vera framleiðsla á vöru og getur samkvæmt því ekki notið niðurfellingar. Sama á við um viðgerðir á öku tækjum. Hvað varðar nýsmíði á ökutækjum er í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., að finna heimild til að draga vörugjald af efnivörum frá við uppgjör vörugjalds vegna framleiðslu eða aðvinnslu á ökutæki. Þykir eðlilegra að þeirri heimild verði áfram beitt um niðurfellingu vörugjalds vegna nýsmíði ökutækja.
    Ekki verður séð að breyting sú, sem lögð er til varðandi endurgreiðslu á vörugjaldi af hrá efni eða efnivörum, leiði til óhagræðis eða fjárbindingar fyrir innflytjendur. Þeim er kleift að tollafgreiða hráefni eða efnivörur á hverju uppgjörstímabili til samræmis við það magn sem þeir selja til framleiðenda. Þar með fá þeir þegar á gjalddaga lækkun á því vörugjaldi sem reiknast hefur í tolli vegna sölu á hráefni eða efnivöru til framleiðslu.

Um 7. gr.

    Í þessari grein eru lagðar til breytingar á 11. gr. laganna til samræmis við þá fyrirætlan að færa álagningu vörugjalds af innanlandsframleiðslu frá einstökum skattstjórum og til ríkisskattstjóra.


Um 8. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.

    Lagt er til að vörugjald verði fellt niður af tilteknum vörum sem samkvæmt flokkun í tollskrá eru sérstaklega tilreidd fyrir ungbörn og sjúka. Þykja sanngirnisrök mæla með því að slíkar vörur beri ekki vörugjald.


Um 10. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    1. mgr. þarfnast ekki skýringa.
    Í 2. mgr. er kveðið á um eins mánaðar uppgjörstímabil, í febrúarmánuði 1998, en það er nauðsynlegt vegna tilfærslu á uppgjörstímabilum um einn mánuð.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að ákvæði laganna, að því leyti sem þau lúta að tilfærslu verkefna frá skattstjóra og tollstjóra til ríkisskattstjóra, skuli ekki koma til framkvæmda fyrr en 1. maí 1998. Samkvæmt því færist álagningarhlutverk einstakra skattstjóra ekki yfir til ríkisskattstjóra fyrr en kemur að álagningu vegna uppgjörstímabilsins maí og júní. Sömu leiðis komi ákvæði laganna, er kveða á um breytt fyrirkomulag vegna vörugjalds af hráefnum og efnivöru, ekki til framkvæmda fyrr en 1. maí. Nauðsynlegt þykir að gefa ríkisskattstjóra hæfilegan frest til að undirbúa breytta framkvæmd og er af þeim sökum lagt til að yfirfærsla á verkefnum til embættisins eigi sér ekki stað fyrr en á fyrrgreindum tíma.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 97/1987,
um vörugjald, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að álagning og eftirlit með vörugjaldsskilum innan lands verði flutt frá einstökum skattstjórum til ríkisskattstjóra. Einnig er kveðið á um heimildir til sölu eða innflutnings á hráefni eða efnisvöru án vörugjalds til innlendrar framleiðslu, svo og um breytingu á uppgjörstímabilum og gjalddögum vörugjalds.
    Gert er ráð fyrir að þessar breytingar hafi óveruleg áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði frum varpið að lögum. Þannig er ekki talin ástæða til að fjölga störfum hjá ríkisskattstjóra á næsta ári til þess að annast umsýslu vörugjaldsskila. Hins vegar er fyrirhugað að á síðari hluta næsta árs verði endurmetið í ljósi fenginnar reynslu hvort þörf verði á fjölgun stöðugilda hjá embættinu vegna þessara verkefna. Ef til þess kemur verður það gert með tilfærslum á störfum og framlögum til stofnana skattgeirans. Fjármálaráðuneytið fyrirhugar því að fram kvæma þessar áherslubreytingar í álagningu og eftirliti með vörugjaldi innan útgjaldaramma gildandi fjárlaga.