Ferill 477. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 812 – 477. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á hafnalögum, nr. 23/1994.

Flm.: Árni M. Mathiesen, Kristján Pálsson, Sigríður A. Þórðardóttir,


Kristín Halldórsdóttir, Tómas Ingi Olrich, Guðmundur Árni Stefánsson,
Árni R. Árnason, Steingrímur J. Sigfússon, Siv Friðleifsdóttir.


1. gr.


    Við 22. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Skuldbinding ríkissjóðs vegna styrkhæfrar framkvæmdar myndast ekki fyrr en framlag er samþykkt á fjárlögum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Breyting á framsetningu fjárlaga frá greiðslugrunni yfir á rekstrargrunn hefur það í för með sér að skuldbindingar sem verða til á fjárlagaárinu eru teknar með í uppgjörið hvort sem þær koma til greiðslu á árinu eða síðar. Þetta hefur þau áhrif að hlutur ríkisins í samþykktum hafnarframkvæmdum færist sem gjöld ríkisins á sama ári þótt greiðslur til verksins komi ekki fyrr en seinna samkvæmt fjárlögum.
    Hafnirnar eru nú nánast undantekningarlaust fyrirtæki í eigu sveitarfélaga. Reynsla und anfarandi ára hefur sýnt að árleg framkvæmdaþörf þeirra er meiri en framlög ríkisins leyfa og taka þarf ákvarðanir um framkvæmdir á skemmri tíma en hafnaáætlun til fjögurra ára segir til um. Þess vegna hefur víða verið ráðist í framkvæmdir, með samþykki hafnaráðs og samgönguráðuneytis, án þess að ríkisframlag hafi legið fyrir en það verið gert upp síðar. Framkvæmd, sem hafin er án samþykkis ráðuneytis, getur ekki hlotið styrk.
    Sá háttur, sem að framan er lýst, er mun erfiðari eftir breytingu á framsetningu fjárlaga og ekki er hægt að láta einstakar hafnir ráða niðurstöðu fjárlaga hverju sinni. Jafnframt er ljóst að gild sjónarmið við rekstur ríkissjóðs geta ekki ráðið framkvæmdum hjá svo mikil vægum fyrirtækjum sveitarfélaga sem hafnirnar eru. Því er það skoðun flutningsmanna að auka þurfi svigrúm hafna til framkvæmda án þess að þær tapi möguleikanum á ríkisstyrk síðar meir eða hafnirnar ráði með ákvörðunum sínum niðurstöðu fjárlaga. Því er lagt til að jafnvel þótt hafnarframkvæmd uppfylli öll skilyrði hafnalaga til þess að vera styrkhæf myndist ekki skuldbinding hjá ríkissjóði fyrr en framlag er samþykkt á fjárlögum.