Ferill 556. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 945 – 556. mál.



Frumvarp til laga



um áframhaldandi gildi samninga með tilkomu evrunnar.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



Skilgreiningar.
1. gr.

    Í lögum þessum merkir:
     Evra: Gjaldmiðil þeirra ríkja Evrópusambandsins (ESB) sem taka upp sameiginlegan gjaldmiðil í samræmi við sáttmála ESB, sem undirritaður var 7. febrúar 1992.
     EMU: Efnahags- og myntbandalag Evrópu.
     Eka: Evrópureikningseiningu (European Currency Unit, ECU) sem myndar myntkörfu sem um er fjallað í reglum ESB nr. 3320/94 og í gildi er þegar evran verður tekin upp sem gjaldmiðill þátttökuríkja í EMU.
    Eka sem vísað er til í samningi, skuldaskjali eða öðrum löggerningi og skilgreind er á sama hátt og segir í 1. mgr. skal metin sem ein eka á móti einni evru. Sé vísað til eku í samningi, skuldaskjali eða öðrum löggerningi án þess að eka sé skilgreind á þann hátt sem greinir í 1. mgr., skal líta svo á að um eku í skilningi 1. mgr. sé að ræða, nema sýnt sé fram á að annað hafi vakað fyrir aðilum að slíkum samningi, skuldaskjali eða öðrum löggerningi.


Áframhaldandi gildi samninga.
2. gr.

    Sé greiðsluskylda samkvæmt samningi, skuldaskjali eða öðrum löggerningi í gjaldmiðli sem ekki verður lengur til sem sjálfstæður gjaldmiðill við tilkomu evrunnar skal evra koma í stað þess gjaldmiðils samkvæmt því hlutfalli sem ákveðið er í reglum ESB að gilda skuli.
    Sé greiðsluskylda samkvæmt samningi, skuldaskjali eða öðrum löggerningi í eku mun ein evra koma í stað einnar eku samkvæmt reglum ESB.
    Skuldbindingar þær sem lýst er í 1. og 2. mgr. er heimilt að efna í þeim gjaldmiðli eða gjaldmiðlum sem upphaflega hefur verið samið um í samningum, skuldaskjölum eða öðrum löggerningum sem þar eru greindir, svo fremi að þeir gjaldmiðlar séu þá lögmætir, eða evru en ekki í öðrum gjaldmiðlum.

3. gr.

    Aðili að samningi, skuldaskjali eða öðrum löggerningi getur ekki borið fyrir sig að hann þurfi ekki að efna skuldbindingar sem í þeim felast og að hann hafi einhliða rétt til að breyta, segja upp eða gjaldfella slíka samninga, skuldaskjöl eða aðra löggerninga, vegna eftirgreindra atriða:
     a.      Tilkomu evrunnar.
     b.      Að boðin sé fram evra til að efna skuldbindingar sem getið er í 1. og 2. mgr. 2. gr.
     c.      Að verðmæti skuldbindinga sé ákveðið í samræmi við 1. og 2. mgr. 2. gr.
     d.      Að útreikningi eða ákvörðun efnis eða greiðslumáta samnings, skuldaskjals eða annars löggernings vegna vaxta eða annarra atriða hafi verið breytt eða skipt út vegna tilkomu evrunnar og að evran komi þar í stað sem efnislega jafngildur gjaldmiðill.

Gildissvið o.fl.
4. gr.

    Ákvæði laga þessara gilda um alla samninga, skuldaskjöl (þar með talin hlutabréf, arð miða, vaxtamiða og þess háttar) og aðra löggerninga hverju nafni sem nefnast, sem fela í sér greiðsluskyldu, hvort sem þeir eru gerðir í atvinnuskyni eða ekki.
    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Um miðjan febrúarmánuð 1998 óskaði viðskiptaráðuneytið eftir því að Seðlabanki Íslands hefði forgöngu um að semja frumvarp til laga um gildi samninga í ekum og þeim Evrópu myntum sem verða hluti af EMU þegar ný mynt í Evrópu, evran, tekur gildi í ársbyrjun 1999. Með frumvarpi þessu er stefnt að því að taka af allan vafa um að upptaka evrunnar muni ekki leiða til ógildingar samninga í ekum eða einstökum myntum aðildarríkja EMU.
    Um þessi mál hefur nokkuð verið fjallað á alþjóðlegum vettvangi og þar hefur niðurstaðan almennt verið að ekki sé grundvöllur fyrir einhliða uppsögn samninga með tilkomu EMU og því að þjóðlegar myntir aðildarríkja verða ekki lengur gjaldgengar til að efna samninga. Sama á við þar sem samningar eru í eku. Þessi afstaða byggist á því að markaðsaðilar hafa vitað undanfarin 6–7 ár að hverju stefndi og geti því ekki í góðri trú einhliða sagt upp slíkum samningum af þeirri ástæðu að samningsmynt sé ekki lengur fyrir hendi.
    Alþjóðasamtök á fjármálamarkaði eins og ISDA (International Swap Dealers Association) hafa þó mælt með að aðalsamningum (Master Agreements) milli aðila sé breytt vegna þessa og hefur íslenska ríkið m.a. gert slíka breytingarsamninga.
    Hér á landi er nokkuð um samninga þar sem skuldari hefur lofað að greiða í mynt aðildar ríkja EMU eða eku. Nefna má sem dæmi innlenda gjaldeyrisreikninga innlánsstofnana, ECU-tengd spariskírteini ríkissjóðs, krónureikninga tengda ECU auk ýmissa samninga utan stofn ana milli innlendra og erlendra aðila.
    Nú hafa nokkur ríki þegar sett lög sem fjalla um áframhaldandi gildi samninga og skuld bindinga eftir tilkomu evrunnar. Lög þessi hafa að markmiði að koma í veg fyrir að samnings aðili geti haft í frammi ágreining um að annars bindandi samningur sé ekki skuldbindandi, þar sem greiðslu sé ekki hægt að inna af hendi í áður umsaminni (þjóðlegri) mynt.     Ein mikilvægasta slík lagasetning varð í New York fylki sl. sumar. Hliðstæðar lagasetningar hafa átt sér stað í Illinois- og Kaliforníufylkjum í Bandaríkjunum.
    Til þess að gera enn frekar grein fyrir aðdraganda frumvarpsins og sýna fram á þörf fyrir sérstaka löggjöf í þessu efni er hér birtur kafli úr sérritaröð Seðlabankans frá 1997, sem fjallar um EMU — aðdraganda og áhrif:

Hugsanleg áhrif peningamálastefnu ESB-ríkja á íslenska löggjöf.
    Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur þegar sent ráðherraráðinu tvær tillögur um reglugerðir sem varða hina sameiginlegu mynt, evru. Tillögurnar miða að því að eyða laga legri óvissu um áhrif myntskiptanna. Hin fyrri, tillaga að reglugerð um nokkur ákvæði vegna upptöku evru, nr. 96/C 369/05, byggist á 235. gr. sáttmálans um Evrópusambandið, og er henni ætlað að gilda þegar frá þeim tíma sem hún er birt í stjórnartíðindum sambandsins. Megininntak hennar er 1) að staðfesta að frá og með 1. janúar 1999 skuli allar tilvísanir í eku í lögum, samningum, skuldaskjölum og öðrum löggerningum breytast í tilvísanir í evru þannig að eitt eku sé jafnt einni evru; 2) að staðfesta að samningar, sem gerðir eru í eku eða mynt einhvers þess ríkis sem verður aðili að Myntbandalaginu og gilda fram yfir 1. janúar 1999, skuli halda gildi sínu; 3) að ákveða umreikning einstakra mynta aðildarríkjanna yfir í evrur með gildistöku 1. janúar 1999 og að ákveða uppfærslu eða niðurfærslu þeirra í cent við breytinguna. Þessi reglugerð mun hafa áhrif á löggjöf í öllum ríkjum ESB óháð því hvort þau gerast aðilar að Myntbandalaginu eða ekki. Hin síðari er tillaga að reglugerð um upptöku evru, nr. 96/C 369/06, og byggist á 109. (1) (4) gr. sáttmálans um Evrópusambandið, og er henni ætlað að gilda frá og með 1. janúar 1999 þegar evra kemur í stað eku sem hættir þá að vera sjálfstæð reiknieining. Sú tillaga fjallar einkum peningamálalega hlið á gildistöku evrunnar. Reglugerðin mun hafa bein áhrif á löggjöf í þeim ríkjum sem gerast aðilar að Myntbandalaginu, en óbein áhrif á löggjöf þeirra ríkja sem standa utan við. Reglugerðin fjallar í einstökum atriðum um notkun evru á aðlögunartímabilinu frá 1. jan. 1999 til 31. des. 2001, þ.e. þegar reiknieiningin evra og mynt sérhvers aðildarríkis Myntbandalagsins er notuð jöfnum höndum í öllum verðákvörðunum og fjárhagslegum viðmiðunum, og um skyldu aðildarríkjanna til að setja í umferð evru-seðla og slá mynt í evrum eða í smærri einingum (cent) sem látin verður í umferð í síðasta lagi hinn 1. jan. 2002. Þá eru sérákvæði sem varða þá samninga sem hafa tilvísun í gjaldmiðil aðildarríkjanna í lok aðlögunartímabilsins eftir 31. des. 2001 og um notkun gjaldmiðla einstakra ríkja í tiltekinn tíma eftir lok aðlögunartímabilsins. Báðum tillögunum er hins vegar beint til allra aðildarríkja ESB þar sem ekki liggur endanlega fyrir hvaða ríki verða aðilar að Myntbandalaginu í upphafi. Með hliðsjón af framangreindu er ekki ástæða til að fjalla hér sérstaklega um síðari reglugerðartillöguna þar sem bein áhrif hennar á löggjöf þeirra ríkja, sem standa utan við Myntbandalagið, eru ekki eins augljós. Um fyrri tillöguna er hins vegar rétt að fjalla nánar þar sem hún mun að öllum líkindum hafa bein áhrif á löggjöf EFTA/EES-ríkjanna með tilvísun til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, en samkvæmt þeim samningi eru EFTA-ríkin skuldbundin til þess að taka upp í innlenda löggjöf ákvæði tilskipana Evrópusambandsins samkvæmt nánari reglum. Þess ber að geta að ofangreindar tvær tillögur um reglugerðir eru nú til ítarlegrar athugunar í nefndum Evrópusambandsins.
    Þar sem ákveðið hefur verið að frá og með 1. janúar 1999 skuli ein evra vera jöfn einni eku, sem jafnframt hættir að vera til sem reiknieining, kemur til álita að breyta öllum tilskipunum Evrópusambandsins, sem hafa beina tilvísun til eku, þannig að í þess stað komi tilvísun í evru. Breyting af þessu tagi yrði einungis gerð til þess að gæta nákvæmni í lagasetningu og notkun hugtaka, en hefur ekki áhrif á þegar gerða fjármálasamninga. Breytingin kann hins vegar að hindra hugsanleg málaferli vegna deilna um lagalega túlkun samninga sem eru með tilvísanir í eku. Náðst hefur breið pólitísk samstaða í ráðherraráðinu um báðar tillögurnar, og er ekki úr þessu gert ráð fyrir efnisbreytingum á þeim sem neinu skipta. Þar með er gert ráð fyrir því, sbr. 2. gr. draga að reglugerð nr. 96/C 369/05, að hvarvetna í lögum eða reglugerðum, samningum eða öðrum löggerningum þar sem vísað er til eku skuli frá og með 1. janúar 1999 slíkt jafngilda tilvísun til evru. Vera má að nauðsynlegt sé, þrátt fyrir framangreint ákvæði, að breyta einstökum tilskipunum Evrópusambandsins vegna þessa, og hefur tilskipun nr. 93/6EBE um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana (CAD-tilskipunin) verið nefnd sem dæmi. Vegna EFTA/EES-ríkjanna þarf að huga að hugsanlegum breytingum á löggjöf, reglugerðum eða reglum þeirra ríkja þar sem bein tilvísun er til eku. Í íslenskri löggjöf er að finna allnokkur dæmi um tilvísanir af þessu tagi. Sem dæmi um texta úr íslenskri löggjöf má nefna 6. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði. Í ýmsum reglugerðum og reglum er einnig að finna samsvarandi tilvísanir í viðmiðun við eku.
    Í 18. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, er m.a. heimild til að ákveða að gengi krónunnar skuli skilgreint gagnvart einum erlendum gjaldmiðli, meðaltali erlendra gjaldmiðla eða samsettum gjaldmiðli, svo sem evrópsku mynteiningunni (eku) og sérstökum dráttar réttindum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (SDR). Með tilkomu evru þarf ekki að gera breytingu á þessu ákvæði í seðlabankalögunum þar sem hér er einungis um heimildarákvæði að ræða, enda hættir eku einnig að vera til sem reiknieining og evra verður sjálfstæð mynteining eða „einn erlendur gjaldmiðill“ skv. 18. gr. sem heimilt verður að miða gengi íslensku krónunnar við.
    Annað atriði, sem hafa ber í huga við breytingu frá eku í evru, er að tryggja áframhaldandi gildi samninga sem gerðir eru í einhverri af myntum aðildarríkja Myntbandalagsins eða í eku til lengri tíma en 1. jan. 1999. Ef til vill er ástæðulaust að gera ráð fyrir deilum eða málaferlum vegna túlkunar samninga sem gerðir hafa verið hér á landi með beinni tilvísun í eku eða með gengisviðmiðun við eku. Vandamálið er sá eðlismunur sem er á eku og evru. Eka er samsett af gjaldmiðlum 11 ríkja, en evra verður sjálfstæður gjaldmiðill. Í þessu samhengi má benda á að ríkissjóður hefur gefið út fjóra flokka spariskírteina í íslenskum krónum með gengisviðmiðun við eku, og af þeim eru nú tveir flokkar útistandandi. Annars vegar er 1994-1 Ecu D með gjalddaga 05.11.1999, en í þeim flokki voru gefin út skírteini að nafnverði samtals 1.576,5 millj. kr. Hins vegar er flokkur 1995-1 Ecu D með gjalddaga 10.02.2000. Sölu spariskírteina úr þeim flokki er ekki lokið, en hinn 1. mars 1997 höfðu verið gefin út spariskírteini að fjárhæð 1.916,3 millj. kr. Ekki liggur fyrir hvort eitthvað af þessum spariskírteinum hefur verið selt til erlendra aðila. Engu að síður kann að vera nauðsynlegt gagnvart þeim sem slík skírteini eiga að taka af allan vafa um að frá og með 1. janúar 1999 breytist gengisviðmiðunin úr eku í evru.
    Í öðrum samningum, t.d. lánssamningum, kunna að vera ákvæði um uppsögn þeirra eða heimild til að krefjast endurskoðunar á samningi ef óvænt atvik ber að höndum (e. events of default). Tilkoma Myntbandalagsins og útgáfa evru getur tæplega flokkast undir slík skilyrði fyrir uppsögn eða endurskoðun samnings. Hins vegar kann að vera nauðsynlegt að eyða óvissu um þetta atriði með lögformlegum hætti með því að kveða skýrt á um að notkun evru í stað eku eða einstakra mynta aðildarríkja Myntbandalagsins sé ekki tilefni til uppsagnar slíkra samninga eða endurskoðun þeirra.
    Vera má að ofangreind atriði séu ekki þess eðlis að talið verði nauðsynlegt að grípa til lagasetningar þeirra vegna hér á landi. Hugsanlega verður talið nægja að birta opinbera stjórnvaldsauglýsingu um réttaráhrif þessara breytinga. Nánari athugun kann hins vegar að leiða í ljós að talið verði tryggara að grípa til lagasetningar af þessu tilefni. Á það er einnig að líta að ekki liggur fyrir sameiginlegt álit EFTA/EES-ríkjanna á þessum atriðum þar sem þau eru enn þá til umfjöllunar í starfshópum á þeirra vegum. Bent skal þó á að hér er um að ræða atriði sem EFTA/EES-ríkin verða að hafa fyllstu hliðsjón af til þess að vinna að framgangi samningsins um Evrópska efnahagssvæðið samkvæmt efni hans.“
    Frumvarp þetta er byggt á hliðstæðri lagasetningu í löndum utan ESB, m.a. lagasetningu í New York fylki.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Gjaldmiðill þeirra ríkja ESB sem taka upp sameiginlegan gjaldmiðil í samræmi við sáttmála ESB, sem undirritaður var 7. febrúar 1992 og kenndur er við Maastricht, verður skilgreindur sem evra (e. euro).
    Aðrar skilgreiningar í 1. mgr. skýra sig sjálfar að öðru leyti en því að reglur ESB nr. 3320/94 eru svohljóðandi að því er varðar samsetningu eku-körfu í gjaldmiðlum þátttökuríkja í ESB 22. desember 1994:

Þýskt mark (DM) 30,6242
Sterlingspund (GBP) 0,08784
Franskur franki (FRF) 1,332
Ítölsk líra (ITL) 151,8
Hollensk flórína (NLG) 0,2198
Belgískur franki (BEF) 3,301
Lúxemborgískur franki (LUF) 0,130
Dönsk króna (DKK) 0,1976
Írskt pund (IEP) 0,008552
Grísk drakma (GRD) 1,440
Spánskur peseti (ESP) 6,885
Portúgalskur skúti (PTE) 1,393

    Í 2. mgr. er kveðið á um að sé tilvísun til eku í samningi, skuldaskjali eða öðrum lög gerningi sem sé skilgreind á þann hátt sem getur í 1. mgr., þ.e. í samræmi við myntkörfu sam kvæmt reglum ESB nr. 3320/94, sem raktar eru hér að framan, þá skuli ekan metin sem ein eka á móti einni evru (1:1). Sé eka ekki skilgreind á þann hátt sem að framan greinir í hlutað eigandi gerningi ber þó að líta svo á að um eku í skilningi 1. mgr. sé að ræða nema sýnt sé fram á með haldbærum rökum að annað hafi vakað fyrir þeim sem eru aðilar að slíkum gerningi.

Um 2. gr.

    Fyrri tvær málsgreinarnar fjalla um hvernig við skuli bregðast þegar greiðsluskylda er í gjaldmiðli sem ekki verður lengur til sem sjálfstæður gjaldmiðill við tilkomu evrunnar eða í ekum. Í báðum tilvikum skal evran koma í staðinn í samræmi við hlutfall sem ákveðið er í reglum ESB. Samkvæmt áætlun um tilurð evrunnar myndast ekki gengishlutfall milli hennar og þjóðlegra mynta fyrr en aðfaranótt 1. janúar 1999.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að ekki sé hægt að efna skuldbindingu í umsömdum gjaldmiðli eftir að sá gjaldmiðill hefur orðið að evru, þ.e. að einungis sé hægt að efna skuldbindingu í umsömdum lögmætum gjaldmiðli eða evru.

Um 3. gr.

    Hér eru tíunduð þau atriði sem gætu valdið því að aðili að gerningi hefði uppi andmæli, bæri fyrir sig að hann þyrfti ekki að efna skuldbindingu, að hann hefði einhliða rétt til að breyta, segja upp eða gjaldfella slíka skuldbindingu. Atriðin sem hér um ræðir eru talin upp í a–d-lið, þau eiga sér stoð í fyrri greinum frumvarpsins og eiga að útiloka, verði frumvarpið samþykkt sem lög, að aðilar geti borið fyrir sig þær mótbárur, svo löglegt sé, sem ella mundu geta leitt til að skuldbinding sem svo er ástatt um yrði vanefnd eða að réttur hafi skapast til að breyta, segja upp eða gjaldfella slíka skuldbindingu.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstof a:


Umsögn um frumvarp til laga um áframhaldandi
gildi samninga með tikomu evrunnar.

    Með frumvarpi þessu er tekið á því að til er að verða nýr gjaldmiðill, evra, sem koma mun í stað ekunnar (ECU) og verður sameiginlegur gjaldmiðill í flestum aðildarríkja ESB. Til gangur frumvarpsins er að koma í veg fyrir að samningum verði sagt upp vegna þess að þeir voru gerðir í gjaldmiðli sem hættir að gilda við tilkomu evrunnar. Nokkuð er um að ríkissjóður hafi gert slíka samninga, bæði innan lands og erlendis, auk þess sem þeir eru nokkuð algengir á fjármagnsmarkaðinum. Með samþykkt frumvarpsins verður tryggt að tilkoma evrunnar valdi engri röskun á þegar gerðum samningum.
    Ekki verður séð að ríkissjóður beri kostnað af þessum sökum.