Ferill 565. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 957 – 565. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Pétur H. Blöndal, Vilhjálmur Egilsson.



1. gr.

    Lokamálsliður 6. gr. laganna fellur brott.


2. gr.

    Lokamálsliður 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
     a.      4. tölul. fellur brott.
     b.      7. tölul. orðast svo: Barnabætur greiddar úr ríkissjóði.

4. gr.

    30. gr. laganna orðast svo:
    Frá tekjum manna skv. II. kafla laga þessara, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, má draga:
     1.      Launatekjur sem greiddar eru embættismönnum, fulltrúum og öðrum starfsmönnum sem starfa hjá alþjóðastofnunum eða ríkjasamtökum enda sé kveðið á um skattfrelsið í samn ingum sem Ísland er aðili að.
     2.      Iðgjöld launþega til öflunar lífeyrisréttinda samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða að hámarki 4% af iðgjaldsstofni. Að auki allt að 2% af iðgjaldsstofni samkvæmt ákvörðun sjóðfélaga vegna iðgjalda sem greidd eru til lífeyrissjóða eða til aðila skv. 3. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, enda sé iðgjaldinu varið til aukningar lífeyrisréttinda eða líf eyrissparnaðar skv. II. kafla sömu laga. Skilyrði frádráttar samkvæmt þessum lið er að iðgjöld séu greidd reglulega.
     3.      Iðgjöld manna sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi vegna öflunar lífeyrisréttinda samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi líf eyrissjóða að hámarki 4% af iðgjaldsstofni. Að auki allt að 2% af iðgjaldsstofni sam kvæmt ákvörðun sjóðfélaga vegna iðgjalda sem greidd eru til lífeyrissjóða eða til aðila skv. 3. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, enda sé iðgjaldinu varið til aukningar lífeyrisréttinda eða lífeyrissparnaðar skv. II. kafla sömu laga. Skilyrði frádráttar samkvæmt þessum lið er að iðgjöld séu greidd reglulega.
    Nú verður greiðslufall á kröfu sem vextir, sbr. 2. mgr. 8. gr., hafa verið reiknaðir af og frestast þá greiðsla skatts af slíkum vöxtum.

Prentað upp.

    Heimilt er að mótreikna tapaða vexti við fjármagnstekjur hafi skattur þegar verið greiddur af vöxtunum. Skal það gert á því ári þegar sýnt er að krafa sem vextir voru reiknaðir af fæst ekki greidd og skal gera grein fyrir henni í skattframtali viðkomandi tekjuárs. Með sama hætti fer um aðrar fjármagnstekjur, sbr. 3. mgr. 67. gr. Heimildin nær til fimm ára aftur í tím ann frá og með tekjuári. Sé ekki um fjármagnstekjur að ræða á því tekjuári þegar mótreikn ingur á sér stað yfirfærist mótreikningsheimildin til næsta skattframtals í allt að fimm ár. Heimild samkvæmt þessari málsgrein tekur einungis til fjármagnstekna utan rekstrar hjá ein staklingum og þeirra lögaðila sem ekki hafa með höndum atvinnurekstur.
    Ákvæði 1. mgr. um heimild til að draga frá beinan kostnað við öflun tekna gilda ekki um leigutekjur, vexti eða aðrar fjármagnstekjur.
    Hafi maður beinan kostnað við öflun annarra tekna en tekna skv. 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 7. gr., án þess að hún verði talin falla undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, skulu ákvæði 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. samt sem áður gilda um slíkan kostnað eftir því sem við á, þó ekki ákvæðin um vexti af skuldum, afföll, gengistöp og fyrningu eigna. Kostnaður þessi leyf ist eingöngu til frádráttar sams konar tekjum og hann gekk til öflunar á, og má frádráttur hvers árs aldrei nema hærri fjárhæð en sem nemur þeim tekjum sem hann leyfist til frádráttar. Útleiga manns á íbúðarhúsnæði telst ekki til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi í þessu sambandi nema því aðeins að heildarfyrningargrunnur slíks húsnæðis í eigu hans í árs lok nemi 21.823.200 kr. eða meira ef um einstakling er að ræða, en 43.646.400 kr. ef í hlut eiga hjón, einstaklingar í staðfestri samvist eða sambýlisfólk með sama lögheimili ef það hefur átt barn saman eða sambúð hefur varað í a.m.k. eitt ár.
    Hafi maður leigutekjur af íbúðarhúsnæði, án þess að það teljist vera atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi, er honum heimilt að draga frá þeim tekjum húsaleigugjöld af íbúðarhús næði til eigin nota. Frádráttur þessi leyfist eingöngu til frádráttar leigutekjum af íbúðarhús næði sem ætlað er til eigin nota en er tímabundið til útleigu.

5. gr.

    63. gr. laganna fellur brott.


6. gr.

    64. gr. laganna fellur brott.

7. gr.

    65. gr. laganna orðast svo:
    Tekjur barns, sem er innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sbr. 6. gr., skulu teljast með tekjum þess foreldris sem hærri hefur hreinar tekjur ef foreldrarnir eru í hjúskap eða óvígðri sambúð sem varað hefur samfleytt í a.m.k. eitt ár en ella með tekjum þess foreldris eða manns sem framfærir barnið.

8. gr.

    66. gr. laganna fellur brott.

9. gr.

    Í stað 1. og 2. mgr. 67. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
    Tekjuskattur þeirra manna, sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga þessara og hafa verið heimilisfastir hér á landi allt tekjuárið, er 8,38% af tekjuskattsstofni þeirra skv. 1. og 3. tölul. 62. gr.

10. gr.

    68. og 69. gr. laganna falla brott.

11. gr.

    2. mgr. 70. gr. laganna fellur brott.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 71. gr. laganna:
     a.      1. og 2. tölul. falla brott.
     b.      1. mgr. 3. tölul. orðast svo:
             Tekjuskattur aðila, sem um ræðir í 4., 5., 6. og 8. tölul. 3. gr., sbr. þó 2. tölul. þessarar greinar, skal ef um mann er að ræða, reiknast af tekjuskattsstofni með skatthlutfalli skv. 1. mgr. 67. gr. Tekjuskatt lögaðila, sbr. 3. gr., skal reikna skv. 72. gr.

13. gr.

    120. gr. laganna fellur brott.

14. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða XXIX í lögunum orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breyt ingum, skal innheimtuhlutfall í staðgreiðslu vera 34,94% vegna launatímbila á árinu 2000, 32,44% á árinu 2001, 29,92% á árinu 2002, 27,51% á árinu 2003, 25,07% á árinu 2004, 22,56% á árinu 2005 og 19,99% á árinu 2006.

15. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða XXXI í lögunum fellur brott.

16. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða XXXII í lögunum fellur brott.

17. gr.

    1. og 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXXIII í lögunum orðast svo:
    Á tekjuskattsstofn manna vegna tekna á árunum 1998, 1999, 2000, 2001, 2002, 2003, 2004 og 2005 skal á árunum 1999, 2000, 2001, 2002, 2003, 2004, 2005 og 2006 leggja sérstakan tekjuskatt eins og nánar greinir í ákvæði þessu.
    Á tekjuskattsstofn einstaklinga umfram 3.120.000 kr. eða tekjuskattsstofn hjóna umfram 6.240.000 kr. skal reikna sérstakan 7% tekjuskatt árin 1998 og 1999, 6% árið 2000, 5% árið 2001, 4% árið 2002, 3% árið 2003, 2% árið 2004 og 1% árið 2005.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XXXIV í lögunum:
     a.      Í stað hlutfallstölunnar „7%“ í 4. og 6. málsl. 1. mgr. kemur: 6%, og: 5%.
     b.      Við 1. mgr. bætast átta nýir málsliðir, svohljóðandi: Fyrirframgreiðsla upp í væntanlega álagningu sérstaks tekjuskatts ársins 2002 skal fara fram með fimm jöfnum mánaðar legum greiðslum mánuðina ágúst til desember árið 2001. Fyrirframgreiðslan skal vera 4% af tekjuskattsstofni samkvæmt skattframtali ársins 2001 vegna tekna á árinu 2000 umfram 3.120.000 kr. hjá einstaklingi og umfram 6.240.000 kr. hjá hjónum. Fyrirfram greiðsla upp í væntanlega álagningu sérstaks tekjuskatts ársins 2003 skal fara fram með fimm jöfnum mánaðarlegum greiðslum mánuðina ágúst til desember árið 2002. Fyrir framgreiðslan skal vera 3% af tekjuskattsstofni samkvæmt skattframtali ársins 2002 vegna tekna á árinu 2001 umfram 3.120.000 kr. hjá einstaklingi og umfram 6.240.000 kr. hjá hjónum. Fyrirframgreiðsla upp í væntanlega álagningu sérstaks tekjuskatts ársins 2004 skal fara fram með fimm jöfnum mánaðarlegum greiðslum mánuðina ágúst til des ember árið 2003. Fyrirframgreiðslan skal vera 2% af tekjuskattsstofni samkvæmt skatt framtali ársins 2003 vegna tekna á árinu 2002 umfram 3.120.000 kr. hjá einstaklingi og umfram 6.240.000 kr. hjá hjónum. Fyrirframgreiðsla upp í væntanlega álagningu sérstaks tekjuskatts ársins 2005 skal fara fram með fimm jöfnum mánaðarlegum greiðslum mán uðina ágúst til desember árið 2004. Fyrirframgreiðslan skal vera 1% af tekjuskattsstofni samkvæmt skattframtali ársins 2004 vegna tekna á árinu 2003 umfram 3.120.000 kr. hjá einstaklingi og umfram 6.240.000 kr. hjá hjónum.

19. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða XXXV í lögunum orðast svo:
    Um sérstakan tekjuskatt samkvæmt bráðabirgðaákvæði XXXIII og XXXIV skulu gilda ákvæði VIII.–XIII. kafla laga nr. 75/1981 eins og þau voru fyrir gildistöku laga þessara.
    Þetta ákvæði til bráðabirgða tekur ekki til brottfalls eða breytinga á 6. gr., 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr., 28. gr., 30. gr., 66. gr., 67. gr., A-liðar 69. gr. og 120 gr. laga nr. 75/1981 eins og þau voru fyrir gildistöku laga þessara.

20. gr.

    1. málsl. ákvæðis til bráðabirgða XXXVI í lögunum orðast svo: Hækka skal fjárhæðir sem um ræðir í 17., 30., 41., 78., 83. og 84. gr. laganna sem hér segir.


21. gr.

    Við lögin bætast þrjú ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     A.      Þegar önnur lög kveða á um að nota skuli persónuafslátt, sjómannaafslátt eða fjárhæð vaxtabóta sem viðmið um fjárhæðir skal miða við fjárhæð persónuafsláttar, sjómanna afsláttar eða vaxtabóta á árinu 1997 og láta þær taka breytingum í samræmi við breyt ingar á vísitölu neysluverðs.
     B.      Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 67. gr. laganna skal tekjuskattur reiknast á eftirfarandi hátt við álagningu tekjuskatts árin 1999–2007 vegna áranna 1998–2006:
          a.      Við álagningu tekjuskatts á árinu 1999 vegna tekna ársins 1998 skal tekjuskattur reiknast 27,31% af tekjuskattsstofni.
          b.      Við álagningu tekjuskatts á árinu 2000 vegna tekna ársins 1999 skal tekjuskattur reiknast 26,41% af tekjuskattsstofni.
          c.      Við álagningu tekjuskatts á árinu 2001 vegna tekna ársins 2000 skal tekjuskattur reiknast 23,33% af tekjuskattsstofni.
          d.      Við álagningu tekjuskatts á árinu 2002 vegna tekna ársins 2001 skal tekjuskattur reiknast 20,83% af tekjuskattsstofni.
          e.      Við álagningu tekjuskatts á árinu 2003 vegna tekna ársins 2002 skal tekjuskattur reiknast 18,31% af tekjuskattsstofni.
          f.      Við álagningu tekjuskatts á árinu 2004 vegna tekna ársins 2003 skal tekjuskattur reiknast 15,90% af tekjuskattsstofni.
          g.      Við álagningu tekjuskatts á árinu 2005 vegna tekna ársins 2004 skal tekjuskattur reiknast 13,46% af tekjuskattsstofni.
          h.      Við álagningu tekjuskatts á árinu 2006 vegna tekna ársins 2005 skal tekjuskattur reiknast 10,95% af tekjuskattsstofni.
     C.      Frá tekjum manna skv. II. kafla laganna, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, má draga fé sem varið er til aukningar á fjárfestingu í innlendum at vinnurekstri á árunum 1997–99 samkvæmt lögum nr. 9/1984.
             Frádráttur skv. 1. mgr. skal miðast við aukningu á fjárfestingu í innlendum atvinnu rekstri á hverju ári. Til þess að fá fullan frádrátt samkvæmt þessum tölulið skal árlega fjárfest fyrir 129.900 kr. hjá einstaklingi og 259.800 kr. hjá hjónum.
             Frádráttur hjá þeim sem fjárfest hafa fyrir þær fjárhæðir er greinir í 2. mgr. skal vera sem hér greinir:
               a.      Vegna fjárfestingar á árinu 1997 skal hann vera 60% af fjárhæðum skv. 2. mgr.
               b.      Vegna fjárfestingar á árinu 1998 skal hann vera 40% af fjárhæðum skv. 2. mgr.
               c.      Vegna fjárfestingar á árinu 1999 skal hann vera 20% af fjárhæðum skv. 2. mgr.
             Hafi maður fjárfest fyrir lægri fjárhæð en greinir í 2. mgr. skal frádráttur skv. 3. mgr. taka hlutfallslegum breytingum.
             Fjárhæð, sem heimilt hefur verið að flytja á milli ára vegna fjárfestinga í atvinnurekstri fyrir gildistöku laga þessara, telst vera aukning á fjárfestingu í atvinnurekstri skv. 1. og 2. mgr. og skulu um frádráttinn gilda ákvæði 3. og 4. mgr. Ónýtt frádráttarheimild tekur breytingu í samræmi við breytingar á verðbreytingarstuðli skv. 26. gr.
             Frádráttur vegna hlutabréfakaupa miðast við kaup á hlutabréfum í innlendum hluta félögum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., og er háður því skilyrði að maður eigi viðkomandi hlutabréf í a.m.k. þrjú ár. Selji hann bréfin innan þess tíma færist nýttur frádráttur til tekna á söluári viðkomandi hlutabréfa. Skal hann framreiknaður samkvæmt ákvæðum 26. gr. til söluárs frá því ári þegar hann var dreginn frá tekjum. Ekki skal þó beita ákvæðum 2. og 3. málsl. um tekjufærslu frádráttar ef maður kaupir önnur hlutabréf í innlendu félagi staðfestu af ríkisskattstjóra í stað hinna seldu innan 30 daga frá söludegi þeirra og kaup verð keyptra hlutabréfa nemur a.m.k. sömu fjárhæð og hinna seldu. Sé kaupverðið lægra skulu ákvæði 2. og 3. málsl. eiga við um mismuninn.
             Reglur þessa ákvæðis skulu gilda með sama hætti um samvinnuhlutabréf. Enn fremur skulu þær þrátt fyrir lög nr. 9/1984 gilda um stofnfjárbréf í sparisjóðum, enda sé útboð slíkra stofnfjárbréfa opið fyrir alla einstaklinga sem eiga lögheimili á starfssvæði við komandi sparisjóðs og það staðfest af ríkisskattstjóra og skal eigi heimilt að selja stofn fjárbréf í þrjú ár frá kaupum. Ef stofnfjárbréf er selt fyrir þann tíma skal nýttur frádráttur færður til tekna samkvæmt ákvæðum 2. og 3. málsl. 6. mgr.
             Frádráttur samkvæmt þessu ákvæði heimilast frá tekjum skv. A- og B-lið 7. gr.
             Fjármálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd frádráttar samkvæmt þessu ákvæði.

22. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir ákvæði laga þessara skulu vegna tekjuöflunaráranna 2000–2006 (álagningarárin 2001–2007) gilda sömu reglur og giltu fyrir gildistöku laga þessara, sbr. 63., 64., 65., 68., b-lið 69., 70. og 71. gr. laga 75/1981, um skattlagningu einstaklinga, einstæðra foreldra, hjóna og barna, tekjuskattshlutfall, persónuafslátt, sjómannaafslátt, barnabætur og vaxtabætur að teknu tilliti til 2.–5. mgr. þessa ákvæðis.
    Þrátt fyrir ákvæði A- og B-liða 68. gr. eins og þau voru fyrir gildistöku laga þessara skal:
     a.      Við staðgreiðslu tekjuskatts árið 1998 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts árið 1999 vegna tekna og eigna árið 1998 persónuafsláttur vera 280.320 kr. og sjómanna afsláttur 671 kr.
     b.      Við staðgreiðslu tekjuskatts árið 1999 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts árið 2000 vegna tekna og eigna árið 1999 persónuafsláttur vera 279.948 kr. og sjómanna afsláttur 656 kr.
     c.      Við staðgreiðslu tekjuskatts árið 2000 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts árið 2001 vegna tekna og eigna árið 2000 persónuafsláttur vera 239.955 kr. og sjómanna afsláttur 655 kr.
     d.      Við staðgreiðslu tekjuskatts árið 2001 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts árið 2002 vegna tekna og eigna árið 2001 persónuafsláttur vera 199.963 kr. og sjómanna afsláttur 470 kr.
     e.      Við staðgreiðslu tekjuskatts árið 2002 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts árið 2003 vegna tekna og eigna árið 2002 persónuafsláttur vera 159.976 kr. og sjómanna afsláttur 235 kr.
     f.      Við staðgreiðslu tekjuskatts árið 2003 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts árið 2004 vegna tekna og eigna árið 2003 persónuafsláttur vera 119.978 kr. og sjómanna afsláttur 0 kr.
     g.      Við staðgreiðslu tekjuskatts árið 2004 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts árið 2005 vegna tekna og eigna árið 2004 persónuafsláttur vera 79.985 kr. og sjómanna afsláttur 0 kr.
     h.      Við staðgreiðslu tekjuskatts árið 2005 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts árið 2006 vegna tekna og eigna árið 2005 persónuafsláttur vera 39.993 kr. og sjómanna afsláttur 0 kr.
     i.      Við staðgreiðslu tekjuskatts árið 2006 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts árið 2007 vegna tekna og eigna árið 2006 persónuafsláttur vera 0 kr. og sjómannaafsláttur 0 kr.
    Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. B-liðar 69. gr. eins þau voru fyrir gildistöku laga þessara skulu:
     a.      Vaxtabætur á árunum 1998, 1999 og 2000 vera þær sömu og þær hefðu verið miðað við þær reglur sem giltu á árinu 1997.
     b.      Vaxtabætur á árinu 2001 vera 6/7 af vaxtabótum eins og þær hefðu verið miðað við þær reglur sem giltu á árinu 1997.
     c.      Vaxtabætur á árinu 2002 vera 5/7 af vaxtabótum eins og þær hefðu verið miðað við þær reglur sem giltu á árinu 1997.
     d.      Vaxtabætur á árinu 2003 vera 4/7 af vaxtabótum eins og þær hefðu verið miðað við þær reglur sem giltu á árinu 1997.
     e.      Vaxtabætur á árinu 2004 vera 3/7 af vaxtabótum eins og þær hefðu verið miðað við þær reglur sem giltu á árinu 1997.
     f.      Vaxtabætur á árinu 2005 vera 2/7 af vaxtabótum eins og þær hefðu verið miðað við þær reglur sem giltu á árinu 1997.
     g.      Vaxtabætur á árinu 2006 vera 1/7 af vaxtabótum eins og þær hefðu verið miðað við þær reglur sem giltu á árinu 1997.
     h.      Vaxtabætur á árinu 2007 vera 0 kr.
    Persónuafsláttur, sjómannaafsláttur og vaxtabætur samkvæmt bráðabirgðaákvæði þessu teljast ekki til tekna samkvæmt lögum þessum.
    Þetta ákvæði til bráðabirgða tekur ekki til brottfalls eða breytinga á 6. gr., 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr., 28. gr., 30. gr., 66. gr., 67. gr., A-liðar 69. gr. og 120. gr. laga nr. 75/1981 eins og þau voru fyrir gildistöku laga þessara.

Greinargerð.     


    Frumvarp þetta unnu ásamt fyrsta flutningsmanni Hannes G. Sigurðsson, Haraldur Johann essen, Ísól Fanney Ómarsdóttir, Jónas Fr. Jónsson og Víglundur Þorsteinsson.


Efni frumvarpsins.

    Efni frumvarpsins er í meginatriðum tvíþætt. Annars vegar er hlutfall tekjuskatts lækkað úr 26,41% í 8,38% á tekjuárunum 2000–2006 þannig að staðgreiðsla verður í lok tímans um 19,99% af launum í stað 38,02%. Hlutfall útsvars verður áfram breytilegt en það er núna 11,61% í staðgreiðslu. Hins vegar eru flutt úr skattalögum öll félagsleg atriði, sem verða óþörf eða eiga betur heima í öðrum lögum. Nær allir afsláttar- og frádráttarliðir eru felldir niður. Skattkerfið verður mikið einfaldara.
    Samhliða frumvarpi þessu er flutt frumvarp til laga um barnabætur sem tryggir óbreyttar barnabætur og tillaga til þingsályktunar um húsnæðisbætur í stað húsaleigubóta, félagslega húsnæðiskerfins og vaxtabóta, sem verja munu hag tekjulágs fólks. Frumvarpið lýtur eingöngu að breytingum á tekjuskatti einstaklinga en snertir ekki skattlagningu lögaðila.


Markmið frumvarpsins.

    Meginmarkmið frumvarpsins er að einfalda tekjuskattskerfið stórlega með því flytja úr skattalögum alla þætti sem varða félagslega eða tryggingalega hjálp. Þetta á við um persónu afslátt, barnabætur, sjómannaafslátt, vaxtabætur, skattfrelsi dagpeninga og bifreiðastyrkja. Þessir þættir eru fluttir í sérstök lög eða felldir niður þar sem þörfin verður ekki fyrir hendi ef þetta frumvarp verður samþykkt. Þannig verður skattkerfið einfalt, altækt og án undan tekninga.
    Markmið frumvarpsins er að auka meðvitund borgarans um og ábyrgð hans á velferðar kerfinu með því að láta alla sem hafa tekjur taka þátt í að greiða það. Núna greiðir aðeins helmingur framteljenda tekjuskatt og einungis þriðjungur framteljenda greiðir meira til ríkis ins en hann fær í bætur. Sá hluti heldur í reynd uppi velferðarkerfi ríkisins. Enn fremur er mikilvægt að sem flestir íbúar sveitarfélaga taki beinan þátt í kostnaði við rekstur þeirra til þess að skapa sveitarstjórnum nauðsynlegt kostnaðaraðhald. Hægt er að sjá hættuleg áhrif þegar sífellt fleiri kjósendur gera kröfur um þjónustu sem æ færri skattgreiðendur greiða. Með þessari breytingu er lagður varanlegur og heilbrigður grunnur að velferðarkerfinu.
    Þá er það markmið frumvarpsins að atorka og frumkvæði einstaklinga stækki þjóðarkökuna þannig að meira verði til skiptanna fyrir alla þegna þjóðfélagsins. Flatur tekjuskattur mun hvetja fólk til menntunar, athafna og dugnaðar. Frumvarpið miðar að því að auka heildarhag landsmanna með því að auka ráðstöfunartekjur allra frekar en að jafna tekjur þeirra sem hefur tekist misjafnlega.
    Eðlilegt þykir að fólk taki þátt í kostnaði við velferðakerfið í samræmi við getu, þ.e. tekjur og eignir. Hins vegar má spyrja hvort ekki sé nóg að sá sem hafi tvöfaldar tekjur greiði tvöfalt til velferðarkerfisins sem allir njóta þó að jöfnu í stórum dráttum. Frumvarpið tekur mið af þessu.
    Einfaldara skattkerfi mun auðvelda almenningi vinnu við framtal, allt eftirlit verður ein faldara. Hvati til skattsvika minnkar vegna lægri skattbyrði og barátta gegn þeim verður létt ari.
    Á þeim sjö árum sem breytingin á að taka verður raunhæft að reikna með að forsendur séu fyrir því að hækka lægstu laun umtalsvert vegna þess að hagur fólks með hærri tekjur batnar töluvert og vegna skattalækkunarinnar, sem verður tæp 3% á ári, þarf það ekki launahækkun.
    Samhliða þessu frumvarpi er flutt frumvarp til laga um barnabætur sem tryggir óbreyttar barnabætur en þær kosta um 1,46% hærri tekjuskatt. Þá er flutt tillaga til þingsályktunar um húsnæðisbætur sem komi í stað óskaplega flókins og óréttláts kerfis húsaleigubóta, félags legra íbúða og vaxtabóta. Markmið bótanna er að styrkja einungis þá sem eru hjálpar þurfi og að sá sem greiðir styrkinn sé aldrei verr settur fjárhagslega en sá sem styrktur er. Það má svo huga að því í framhaldinu hvort barnabætur og húsnæðisbætur eigi ekki að vera verkefni sveitarfélaga og þar með mætti huga að því að fella tekjuskatt alveg niður.
    Ekki er gert ráð fyrir að vergar tekjur ríkis og sveitarfélaga breytist við þess breytingu.


Lýsing á breytingunni.

    Í eftirfarandi töflu er sýnt hvernig gert er ráð fyrir að hinir ýmsu afslættir og bætur verði skert. Þá er sýnt hvernig skattprósentan og þar með staðgreiðslan mun lækka ár frá ári frá 2000–2006.

Tekju-
ár

Skatt-
prósenta

Stað-
greiðsla

Sérst.
tekjusk.
Persónu-
afsláttur
á ári
Frítekju
mark**
á mánuði
Sjó-
manna-
afsláttur

Vaxta-
bætur
Hluta-
bréfa-
frádr.

Athuga semdir
1997 29,31% 40,88% 5% 286.812 60.902 671 7/7 60% Núg. lög
1998 27,41% 39,02% 7% 280.320 62.361 656 7/7 40% Núg. lög
1999 26,41% 38,02%* 7% 279.948 63.916 655 7/7 20% Núg. lög
2000 23,33% 34,94%* 6% 239.955 59.615 470 6/7 - Frumvarp
2001 20,83% 32,44%* 5% 199.963 53.508 235 5/7 - Frumvarp
2002 18,31% 29,92%* 4% 159.970 46.411 0 4/7 - Frumvarp
2003 15,90% 27,51%* 3% 119.978 37.858 - 3/7 - Frumvarp
2004 13,46% 25,07%* 2% 79.985 27.695 - 2/7 - Frumvarp
2005 10,95% 22,56%* 1% 39.993 15.388 - 1/7 - Frumvarp
2006 8,38% 19,99%* - 0 0 - - - Frumvarp
* Óbreytt útsvar 11,61%
** Að teknu tilliti til skattfrelsis 4% iðgjalds til lífeyrissjóðs.

Núverandi löggjöf og áhrif breytingarinnar.

    Útsvar til sveitarfélaganna er lagt á allar tekjur fólks. Því er aðeins eitt skattþrep gagnvart útsvari en útsvarsprósentan er mismunandi eftir sveitarfélögum. Núna er hún að meðaltali 11,61% á allar tekjur einstaklinga. Tekjuskattur til ríkisins er lagður á einstaklinga í þremur skattþrepum. Núna er 0% skattur af tekjum að 62.361 kr. á mánuði. Tekjur á bilinu 62.362– 260.000 kr. bera 27,41% skatt og tekjur yfir 260.000 kr. bera 34,41% skatt.
    Undanfarin ár hefur tekjuskattur einstaklinga lækkað umtalsvert og mun lækka enn á næsta ári eins og sést á töflu hér að framan.
    Skattfrelsi 4% lífeyrissjóðsiðgjalda þýðir að í reynd er tekjuskattur 25,35%, útsvar 11,15% og staðgreiðsla 36,50% af launatekjum frá 1. janúar 1999. Ef þetta frumvarp verður samþykkt verður tekjuskattur í reynd 8,04%, útsvar 11,15% og staðgreiðsla 19,19% af launatekjum frá 1. janúar 2006.
    Meginmarkmið núverandi skattkerfis er tekjujöfnun en ekki tekjuöflun til ríkissjóðs og þar með velferðakerfisins. Þetta er í andstöðu við almenn markmið skatta, sem eru tekjuöflun. Slík tekjujöfnun er mjög dýr og hefur óæskilegar afleiðingar. Því mun breytingin leiða til almennt betri lífskjara og gagnast jafnvel hinum tekjulægri. Lágar tekjur eru ekki persónueinkenni á fólki og fólk getur breytt gildi sínu á vinnumarkaði og aukið tekjur sínar með menntun, metnaði og dugnaði, sérstaklega þegar háir jaðarskattar standa ekki í veginum.
    Á undanförnum áratugum hefur markvisst verið stefnt að því að auka vægi ýmiss konar jaðaráhrifa skattkerfsins með því að tekjutengja alla frádráttarliði þess. Þetta hefur leitt til þess að óvíða eru áhrif jaðarskatta eins mikil eins og á Íslandi. Er nú svo komið að einungis um 7% af tekjum allra í landinu rennur til ríkissjóðs og tekjuskatt umfram bætur greiðir ein ungis þriðjungur framteljenda.
    Núverandi skattkerfi er með miklu félagslegu ívafi. Persónuafsláttur leiðir til þess að þeir sem lægstar hafa tekjurnar greiða ekki skatta. Ríkissjóður greiðir útsvar, fjármagnstekjuskatt og eignarskatt fyrir þá skattþegna sem eru undir frítekjumarki en útsvarið og fjármagnstekju skattur eru án nokkurra afslátta. Þannig er tekjuskattur neikvæður um 11,61% af tekjum undir frítekjumarki. Ríkið greiðir 11,61% útsvar fyrir framteljandann til sveitarfélagsins. Barna bætur eiga að jafna kjör þeirra sem hafa börn á framfæri og hinna sem ekki eiga börn. Sjó mannaafsláttur á að bæta sjómönnum upp fjarvistir frá heimilum sínum. Vaxtabætur eiga að létta fólki íbúðarkaup. Skattfrelsi dagpeninga og bifreiðastyrkja tekur mið af kostnaði við að afla tekna. Svo er skattstjóra heimilt að fella niður eða lækka skatta hjá fólki sem lendir í óláni eða býr við mikla ómegð. Nú verður þessum félagslegu þáttum skattkerfisins lýst nánar.
     Persónuafslátturinn er styrkur til þeirra sem hafa lágar tekjur og er hann notaður til að leysa þá undan því að greiða til velferðakerfisins. Hann er jafnframt notaður til þess að greiða fjármagnstekjuskatt, eignarskatt og útsvar til sveitarfélagins fyrir þá sem lægstar hafa tekjurn ar. Frá reiknuðum skatti einstaklings er dregin föst upphæð, persónuafsláttur (nú 23.360 kr. á mánuði). Þannig greiðir einstaklingurinn engan skatt eða útsvar af launatekjum undir u.þ.b. 62 þús. kr. á mánuði (frítekjumark). Persónuafslættinum er ráðstafað til greiðslu á tekjuskatti, útsvari, eignarskatti o.s.frv. Hann er aldrei greiddur út en 80% af ónýttum persónuafslætti er ráðstafað til maka. Því er frítekjumark hjóna með eina fyrirvinnu rúmar 112 þús. kr. á mánuði.
    Gert er ráð fyrir að persónuafslátturinn verði felldur niður á sjö árum og ætti sá tími að nægja aðilum vinnumarkaðarins til þess að ná fram raunverulegum hækkunum á lægstu laun hlutfallslega miðað við hærri laun. Þeir sem hærri hafa launin geta fallið frá launahækkunum á þessu árabili vegna þess að skattbyrði þeirra lækkar umtalsvert. Þá er nýju kerfi húsnæðis bóta ætlað að verja kjör hinna lægst launuðu og milda áhrif af því að persónuafslátturinn er felldur niður í áföngum. Hann mun og bæta mjög kjör lífeyrisþega.
     Barnabótum er ætlað að jafna kjör barnafólks og þeirra barnlausu. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á barnabótum þótt nokkrir hnökrar séu á því kerfi. T.d. eru foreldrum með háar tekjur ekki greiddar barnabætur og því eru kjör þeirra ekki bætt til samræmis við barnlaust fólk með sömu tekjur. Í reynd eru núverandi barnabætur ómegðarbætur en ekki barnabætur.
    Í samræmi við það markmið frumvarpsins að skattkerfið verði án félagslegra þátta er lagt til að barnbætur verði teknar úr tekjuskattskerfinu og er flutt sérstakt frumvarp til laga um barnabætur.
     Sjómannaafsláttur var upphaflega hugsaður sem styrkur til sjómanna vegna hlífðarfatnaðar og mikillar fjarveru frá heimilum. Þar sem aðrir atvinnurekendur eins og verktakar og sölu aðilar sem selja um allan heim þurfa að greiða starfsmönnum sínum aukalega fyrir það óhag ræði sem fylgir starfinu má færa rök að því að sjómannaafslátturinn sé í reynd styrkur til út gerðarinnar. Samkvæmt frumvarpinu á sjómannaafslátturinn að falla niður á þremur árum. Flestir sjómenn munu þó koma betur út úr þeirri lækkun skattprósentu sem fylgir í kjölfarið og því ætti ekki að vera andstaða við þetta.
     Vaxtabætur er hugsaður sem styrkur til þeirra sem eru að koma yfir sig þaki. Þær verða þó varla taldar félagslegar því hátekjufólk getur fengið og fær vaxtabætur sem eru hærri en þær bætur sem tekjulægra fólk á kost á. Þannig geta hjón með 600 þús. kr. mánaðartekjur fengið tæpar 20 þús. kr. á mánuði í vaxtabætur. Fólk með lágar tekjur getur hins vegar ekki keypt íbúð og fær því ekki þennan styrk á formi vaxtabóta.
    Á mynd 1–3 í er dreginn upp ferill vaxtabóta fyrir einstakling, einstætt foreldri og hjón sem fall af tekjum heimilisins. Neðri mörkin fyrir vaxtabætur, bláa línan, 6% af tekjum, er sá hluti vaxta sem framteljandinn greiðir sjálfur. (Frá vaxtagjöldum dragast 6% af tekjum.) Þann hluta vaxta sem er umfram þessi 6% greiðir ríkið upp að hámarki vaxtabóta (rauða línan). Það sem fer umfram rauðu línuna greiðir framteljandinn svo sjálfur. Á sömu mynd eru sýndar húsa leigubætur samkvæmt nýsamþykktum lögum. Þær eru mismunandi eftir fjölda barna og skerð ast um 24% af heildartekjum fjölskyldunnar umfram 120.000 kr. á mánuði og er þá sama hvort um er að ræða einstakling eða sjö manna fjölskyldu. Þar sem húsaleigubæturnar eru skatt skyldar eru tvö þrep á ferlinum, hið fyrra þegar bætur og tekjur fara yfir skattleysismörk og hið síðara er tekjur og bætur síðasta árs (þær dragast jú frá sem tekjur) fara umfram 125.000 kr. á mánuði. Hjá hjónum er gert ráð fyrir að annað sé heimavinnandi en hitt noti 80% af persónufrádrættinum. Ekki er tekið mið af skerðingum vegna eigna. Þá er á mynd 1–3 dreginn upp ferill þeirra nýju húsnæðisbóta sem lagðar eru til. Nefnd er falið að gera tillögur um endanlega upphæð þeirra.
    Vaxtabæturnar hvetja mjög til skuldasöfnunar því ekki skiptir máli fyrir fólk sem er á vissu tekju- og eignabili hvort það skuldar einni eða tveimur milljónum króna meira eða minna. Ríkið greiðir alla vexti og verðbætur. Þar sem húsnæðislán eru yfirleitt til langs tíma og með jöfnum árlegum greiðslum (annuitet) eru fyrstu greiðslurnar aðallega vextir og seinni greiðsl ur aðallega verðbætur. Hvort tveggja er greitt af ríkinu.
    Vaxtabæturnar eru afar flóknar en í grófum dráttum má segja að fólk greiði fyrstu vaxta krónurnar sjálft allt að 6% af tekjum. Eftir það greiðir ríkið hverja vaxtakrónu upp að hámark inu, sem er tæpar 20 þús. kr. á mánuði fyrir hjón. Það sem umfram er greiðir fólk sjálft. Sem dæmi má taka hjón með 500 þús. kr. tekjur á mánuði. Þau borga fyrstu 30 þús. kr. af vöxtunum sjálf. (Skuld u.þ.b. 6 millj. kr.) Svo greiðir ríkið tæpar 20 þús. kr. af þeim vöxtum sem eru umfram 30 þús. kr. á mánuði. (Skuld u.þ.b. 4 millj. kr.) Það er því ákveðinn hvati til að skulda svo mikið (u.þ.b. 10 millj. kr.) að vextir verði um 50 þús. kr. á mánuði.
    Nærri 50.000 framteljendur njóta vaxtabóta. Þeir hafa margir farið í greiðslumat fyrir íbúðarkaup en þar hafa vaxtabæturnar hafa haft áhrif á matið. Því er mjög vandmeðfarið að kippa þannig grundvellinum undan matinu sem aftur var undirstaða íbúðarkaupa. Þess vegna er valin sú leið að draga úr vaxtabótum á sjö árum til þess að fólk geti aðlagað sig nýjum aðstæðum.
    Í stað vaxtabóta (og í stað húsaleigubóta og félagslega íbúðakerfisins) koma húsnæðis bætur, sem verða háðar fjölskyldustærð og skertar vegna tekna og eigna. Samhliða frumvarpi þessu er flutt um það tillaga til þingsályktunar. Húsnæðisbæturnar skulu renna til greiðslu afborgana af íbúðarlánum, fasteignagjalda eða leigu. Þeir sem vaxtabóta njóta eru margir með miðlungstekjur eða meira og njóta því boðaðrar skattalækkunar. Þeir tekjulægri njóta fyrirhugaðra húsnæðisbóta. Þær eru dregnar upp á mynd 1–3.
     Dagpeningar og bifreiðastyrkir. Lagt er til að hætt verði að meðhöndla dagpeninga og bifreiðastyrki á sérstakan hátt í skattkerfinu. Mikil aukning hefur verið í skattfrjálsum dag peningum sem að hluta eru dulið ígildi launa en þeir hafa þrefaldast að raungildi á síðustu 10 árum. Á sama tíma er ekki tekið tillit til mjög mikils kostnaðar við öflun tekna, svo sem kostn aðar við gæslu barna. Bent hefur veið á að dagpeningar og bifreiðastyrkir renna að mestu leyti til karla og því er þessi aðgerð framlag til jafnréttis kynja.
     Jaðarskattar og fátæktargildrur. Mikil umræða hefur farið fram um jaðarskatta og áhrif þeirra á myndun á svokölluðum fátæktargildrum. Fátæktargildra felst í því að fólk lendir í þeirri aðstöðu að geta ekki bætt fjárhagslega stöðu sína vegna þess að ef það reynir að auka tekjur sínar með því að vinna meira eða betur, taka á sig ábyrgð eða mennta sig missir það svo mikið af tekjutengdum bótum að það hefur lítinn sem engan ávinning af átakinu. Því festist það ævilangt í stöðu þiggjandans og jafnvel mann fram að manni.
    Núverandi kerfi er fullt af slíkum jaðarsköttum og hefur verið bent á þá verstu sem snerta aldraða, einstæða foreldra, atvinnulaust fólk og námsfólk. Nokkuð hefur verið dregið úr jaðar sköttum undanfarin ár. Fyrirliggjandi frumvarp lækkar jaðarskatta umtalsvert eða um 14%.

Gallar á núverandi skattalöggjöf.

    Núverandi löggjöf fylgja margir ókostir og skulu hér raktir nokkrir þeirra.
     Flókið kerfi. Fyrst má nefna að núverandi löggjöf er mjög flókin og með ýmiss konar skattaafslætti, frádráttarliði og undanþágur. Til að nýta sér slíkt til fulls þurfa landsmenn að vera vel lesnir í skattalögunum. Má sem dæmi nefna að til langs tíma nýttu fáir sér skatta frádrátt vegna framhaldsskólanáms barna sinna. Það var ekki gert af góðmennsku við ríkissjóð heldur frekar vegna vanþekkingar á skattalögum. Nú hefur þessi heimild verið víkkuð út þannig að allir foreldrar með tekjulítinn ungling á aldrinum 16–21 árs fá slíkan frádrátt.
    Ef skattkerfi er haft mjög „réttlátt“ og látið taka tillit til ólíkra aðstæðna verður það mjög flókið. Flókið skattkerfi krefst aftur sérþekkingar sem kostar sitt og er ekki á færi þeirra sem minnst mega sín. Þannig verður kerfið aftur óréttlátt. Þess vegna er einfalt skattkerfi hagstætt hinum minni máttar.
    Flókið skattkerfi leiðir til þess að meira svigrúm er fyrir mismunandi túlkanir. Það leiðir til ágreinings sem aftur leiðir til kærumála. Af öllu þessu leiðir kostnaður fyrir þjóðfélagið.
     Skatteftirlit og framtal. Flókið skattkerfi hefur í för með sér að skatteftirlit verður mjög erfitt og þungt í vöfum auk þess sem eftirlitið er mjög dýrt. Það leiðir einnig til þess að mjög margir leita eftir dýrri þjónustu endurskoðenda vegna þess að þeir treysta sér ekki sjálfir til að fylla út skattskýrsluna sína. Allur þessi kostnaður skilar minna en engu til þjóðarbúsins. Því væri hagkvæmt fyrir heildarhag þjóðar að einfalda skattkerfið en þannig batnar eftirlit og skattskil aukast. Það kerfi sem hér er lagt til er svo einfalt að það ætti að vera nóg að treysta á staðgreiðsluna. Launaseðlar yrðu sendir skattyfirvöldum og þau sendu staðfestingu til skatt greiðandans. Hann þyrfti ekki að telja fram!
     Undanskot og lakara siðferði. Í skjóli flókins skattkerfis og hárra skatta þrífast undanskot og svört atvinnustarfsemi. Því hærri sem skattarnir verða því meiri verður hvatinn til að vinna svart og vinnuskipti ýmiss konar aukast umtalsvert án þess að ríkissjóður fái neinn skerf af þeirri köku. Þetta gengur jafnvel svo langt að fólk talar um það sín á milli að skattsvik séu ekki eiginlegt lögbrot og að þau séu stunduð í sjálfsvörn. Þetta grefur undan siðferðisvitund þjóð arinnar og eykur þar með líkurnar á því að fólk fari einnig að brjóta önnur lög. Þess vegna er mjög brýnt að berjast af alefli gegn skattsvikum en sterkt tæki í þeirri baráttu er að gæta þess að skattbyrðin verði ekki svo þung að hún allt að því neyði fólk til skattsvika. Fólk tekur síður þessa áhættu ef skattar eru lægri.
     Dugnaður, framtak og menntun. Launajöfnun og háir jaðarskattar hafa einnig áhrif á dugnað, framtak og menntun landsmanna. Má í raun segja að dugnaður, framtak og menntun séu skattlögð sérstaklega í dag. Fólk sem leggur hart að sér og vinnur mikið, sækist eftir ábyrgð eða menntar sig ber oft ekki sérstaklega mikið úr býtum umfram það fólk sem leggur minna á sig. Skattkerfið dregur úr gömlum dyggðum eins og dugnaði, vinnusemi, stundvísi, reglusemi og trúmennsku. Félagslegt kerfi sveitarfélaganna bindur svo endahnútinn á hengingaról dyggðanna. Mörgu fólki sem er að basla við að koma upp þaki yfir sig og börnin sín og greiðir mikla skatta svíður sárt að sjá aðra komast upp með að hagnýta sér bótakerfið. Bótakerfi sem greitt er með sköttum þeirra.
    Þessi áhrif skattkerfisins er ógnvænleg því þjóðfélagið þarf svo mjög á duglegu og fram takssömu fólki að halda. Það er skaði ef þjóðfélagið verðlaunar leti og leggst í doða vegna rangrar stefnu í skattamálum. Hver stendur þá undir velferðarkerfinu? Velferðarkerfið á að gefa öllum þegnum þjóðfélagsins öryggistilfinningu þannig að þeir þurfi ekki að óttast áföll en það á ekki að styrkja fólk sem getur staðið á eigin fótum.
     Niðurgreidd láglaunastörf. Núverandi skattkerfi er einnig fráhrindandi fyrir hálaunastörf en dregur að sér láglaunastörf. Fyrirtæki sem greiðir há laun og stendur frammi fyrir því að setja niður starfsemi sína hér eða í landi með mildari sköttum á hærri tekjur velur hitt landið því að starfsfólkið lítur ætíð á ráðstöfun tekna eftir skatt og fyrirtækið kemst af með að greiða lægri laun. Inn í þessa mynd kemur að sjálfsögðu félagsleg þjónusta og reyndar allt velferðar kerfið og því er mjög mikilvægt að það sé skilvirkt og gott.
    Í því sambandi skulu sérstaklega höfð í huga hálaunastörf sem tengjast starfsemi sem hægt er að stunda nánast hvar sem er í heiminum óháð stund og stað eins og hugbúnaðargerð og ýmiss konar fjármálastarfsemi. Við höfum horft upp á það að undanförnu að ýmis hugbún aðarfyrirtæki hér á landi hafa flutt starfsemi sína úr landi og í sumum tilfellum hefur skatt stefnan hér haft áhrif þar á. Þá hafa þeir Íslendingar sem hæstar hafa tekjurnar flutt lögheimili sitt úr landi. Til að auka samkeppnishæfni okkar á nýrri öld verðum við að víkja frá þessari láglaunastefnu og taka upp heilbrigðara skattkerfi.

Gallar á núverandi kerfi bóta.

    Bótakerfið hefur þróast skipulagslítið og hefur oft einungis verið horft til afmarkaðs þáttar án þess að taka aðra þætti með í spilið. Þetta hefur leitt til tvítryggingar og margtryggingar en einnig vantryggingar. Dæmi um þetta er samspil almannatrygginga, heilbrigðiskerfisins og sjúkrasjóða verkalýðsfélaganna sem komið var á með lögum.
    Annað dæmi eru margvíslegar bætur vegna uppeldis barna. Dæmi: LÍN lánar einstæðu for eldri 25 þús. kr. á mánuði fyrir hvert barn. Skattkerfið greiðir barnabætur sem eru um 14–17 þús. kr. á mánuði. Húsaleigubætur eru um 4 þús. kr. á mánuði fyrir hvert barn, mæðralaun 0–4 þús. kr. á mánuði og meðlag er 12 þús. kr. á mánuði. Alls eru þetta 55–61 þús. kr. á mánuði í ráðstöfun fyrir hvert barn og ódýrari barnaheimili að auki fyrir forgangshópa.
    Dæmi um vantryggingu er hins vegar þegar einstaklingar sem hafa stopular tekjur og búa í leiguherbergjum eiga hvorki kost á félagslegri íbúð né fá húsaleigubætur.
    Nú liggur fyrir Alþingi stjórnarfrumvarp til laga um að taka upp samræmingu í félagslega húsnæðiskerfinu og láta það falla að vaxtabótakerfinu. Frumvarp þetta og tillaga til þings ályktunar um húsnæðisbætur sem fylgir með eru í reynd framhald þeirrar þróunar sem þar er hafin. Er hér gerð tilraun til að taka heilsteypt á þeim styrkjum sem ríki og sveitarfélög veita fólki til öflunar íbúðarhúsnæðis þannig að þeir einir verði tryggðir sem hafa þörf fyrir það og enginn sé ótryggður.

Launamunur og tekjudreifing.
    Skattkerfið er óheppilegt tæki til að jafna tekjur landsmanna. Fyrir það fyrsta má benda á að launamunur eftir skatt hefur sennilega ekki minnkað hér á landi þrátt fyrir núverandi skatt kerfi, sem í vaxandi mæli hefur verið beitt til að jafna tekjur. Launamunurinn fyrir skatt hefur samkvæmt því aukist mjög enda á Ísland í æ meiri samkeppni við önnur lönd um hátekjustörf.
    Launamunur á sér oftast náttúrulegar skýringar, t.d. þegar greitt er fyrir menntun, ábyrgð, dugnað, snilld, reynslu, fjarvistir að heiman og mikla vinnu. Þegar einstaklingur fer í lang skólanám gerir hann kröfu til þess að fá betur greitt fyrir vinnu sína til að standa undir þeim kostnaði sem hlaust af skólagöngunni. Menn fást ekki til starfa sem mikil áhætta og ábyrgð fylgir nema njóta þess í því endurgjaldi sem fæst fyrir starfann. Á sama hátt þarf að borga fólki fyrir að vinna fjarri heimilum sínum eða fyrir að þurfa að þola mikla vosbúð. Þá eru flestir atvinnurekendur reiðubúnir til þess að greiða duglegu og snjöllu fólki hærri laun vegna þess að slíkt skilar sér í öflugra starfi og eykur möguleika atvinnurekstrarins.
    Þar sem launamunur á sér náttúrulegar skýringar í flestum tilvikum þá mun fólk ætíð líta til þeirra launa sem því stendur til boða eftir að skattar hafa verið greiddir. Fólk lítur ekki á þá peninga sem renna til ríkissjóðs sem hluta af tekjum sínum. Það mundi sætta sig við þriðj ungi lægri laun ef skattar væru lægri og útborguð laun væru þau sömu. Þegar um er að ræða mjög hæft eða menntað fólk eða vinnu við slæmar aðstæður er það því í raun launagreiðandinn sem þarf að bera þann kostnað sem hlýst af kröfu um hærri laun. Launakrafan snýst um út borguð laun en ekki heildarlaun. Skattkerfið eins og það er í dag jafnar því ekki laun heldur veltir kostnaðinum yfir á launagreiðandann. Það má jafnvel velta því fyrir sér hvort launa munur fyrir skatta verði ekki enn meiri þegar reynt er að jafna launin með því að leggja meiri skatta á hærri laun meira en lægri laun.
    Þá má nefna að þegar áhrif jaðarskatta eru mikil þurfa launahækkanir að taka mið af því og launagreiðandinn þarf að greiða enn hærri laun svo búbót launþegans verði einhver.
    Þrátt fyrir framangreint skal vissulega viðurkennt að skattkerfi okkar hefur einhver áhrif á launamun í landinu. Hins vegar er sennilegt að það hafi frekar þau áhrif að allir hafi heldur lægri laun en ella vegna þess hve kerfið er dýrt. Heildarhagur landsmanna er minni af þessu skattkerfi en hann væri ef það hefði þann hvata sem frumvarpið felur í sér.
    Niðurstaðan er því sú að skattkerfið verði ekki notað til að jafna tekjumun og því eigi að hverfa frá því markmiði hér á landi. Frekar eigi að stefna að aukinni velsæld allra landsmanna sem nýtt kerfi mun ótvírætt hafa í för með sér.

Skattkerfi og félagsleg kerfi.

    Í núverandi skattkerfi er blandað saman félagslegu kerfi, tekjujöfnun og tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Barnabætur, sjómannaafsláttur og sérstök heimild skv. 66. gr. eru dæmi um félags lega þætti. Til viðbótar höfum við mjög sterk félagsleg kerfi: Almannatryggingar, atvinnu leysistryggingar, Byggingarsjóð verkamanna, húsaleigubætur, LÍN, félagsþjónustu sveitar félaganna og lífeyrissjóðina. Öll þessi kerfi eru flókin og taka lítið mið hvert af öðru. Því er mikið um tvítryggingar og líka vantryggingu í kerfinu. Dæmi: LÍN lánar einstæðu foreldri 25 þús. kr. á mánuði fyrir hvert barn. Skattkerfið greiðir barnabætur sem eru um 17 þús. kr. á mánuði. Húsaleigubætur eru um 4 þús. kr. á mánuði fyrir hvert barn, mæðralaun 0–4 þús. kr. og meðlag er 12 þús. kr. á mánuði. Alls eru þetta 55–61 þús. kr. á mánuði til sráðstöfunar fyrir hvert barn og ódýrari barnaheimili að auki.
    Bent skal á að skattkerfið er ekki félagslegt kerfi og á ekki að vera það. Í fyrsta lagi má því til rökstuðnings benda á að skattamál heyra undir fjármálaráðuneytið en félagsmál og heil brigðis- og tryggingamál heyra undir sérstök ráðuneyti. Í öðru lagi eru sérfróðir aðilar félags mála- og heilbrigðisstofnana miklum mun færari en starfsmenn skattkerfisins að meta hverjir þurfa á aðstoð þjóðfélagsins að halda. Það ætti að stefna að því að beina félagslegri og heilsufarslegri aðstoð í ákveðna farvegi þar sem fagmennska ráði ríkjum. Einfaldari stjórn sýsla þýðir jafnframt skilvirkari stjórnsýsla.

Áhrif á ýmsa hópa fólks.

    Þessi breyting á skattalögum og meðfylgjandi breyting á húsnæðisbótum mun hafa mikil áhrif á ráðstöfunartekjur fjölda fólks að öðru óbreyttu. Þar sem markmið frumvarpsins er að breyta ekki tekjum ríkis og sveitarfélaga er ljóst að sumir hópar munu hagnast en aðrir tapa jafnmiklu. Þó er hagnaður fyrir alla að svo miklu leyti sem kerfið verður ódýrara, skatt stofninn stækkar vegna meiri dugnaðar og framtaks og undanskotum fækkar.
    Það er aðallega fólk með heildartekjur rétt um skattleysismörkin (u.þ.b. 62 þús. kr. á mánuði) sem verst verður úti. Það fólk hefur hvorki greitt tekjuskatt né útsvar til þessa en mun eftir breytinguna greiða um 20% í skatt og útsvar. Skattgreiðslur einstaklings með þessar heildartekjur verða um 12 þús. kr. meiri á mánuði þegar breytingin er að fullu komin fram eftir sjö ár. Mánaðartekjur hans þyrftu því að hækka um 2 þús. kr. (3%) á hverju ári einungis til að standa undir nýjum skattgreiðslum. Nú er búið að semja um lágmarkstekjur, sem eru nokkru hærri en þetta eða um 70 þús. kr. á mánuði. Það fólk sem hefur þær tekjur kemur ekki eins illa frá breytingunni. Fyrirhugaðar húsnæðisbætur munu milda þessi áhrif, sérstaklega hjá líf eyrisþegum. Ætla verður að takast muni á þessum sjö árum að bæta kjör láglaunafólks umfram það sem gerist hjá þeim sem hærri hafa launin eins og fyrr var nefnt.
    Hjón með eitt til tvö börn þar sem annað hjónanna er heimavinnandi en hitt vinnur úti og nýtir sér 80% af persónuafslætti þess heimavinnandi munu þurfa að greiða allnokkru meira í tekjuskatt þar sem skattleysismörk þess sem úti vinnur eru um 112 þús. kr.á mánuði að teknu tilliti til skattfrelsis lífeyrissjóðsiðgjalda. Hjónin greiða um 22 þús. kr. á mánuði í skatta eftir breytingun en greiddu ekkert áður. Það kann að reynast nauðsynlegt að jafna mismuninn á barnabótum hjóna og einstæðra foreldra en nú fá einstæðir foreldrar umtalsvert hærri barna bætur en hjón vegna samnýtingar hjóna á persónuafslætti. Hækka þyrfti mánaðarlaun þess útivinnandi um 3 þús. kr. á ári eða um 3%.
    Það fólk, sem hér hefur verið minnst á, kemur verst út úr breytingunni. Þessir hópar munu njóta húsnæðisbótanna og mögulegra hækkana lægstu launa. Aðrir hópar koma ekki jafnilla frá breytingunni. Sérstaklega mun afkoma fólks með stopular tekjur sem að meðaltali eru nokkru lægri en núverandi skattleysismörk batna með nýju húsnæðisbótunum.
    Ljóst er að breytingin kemur fólki með háar tekjur til góða. Jaðarskattaáhrif minnka og tekjuskattshlutfallið lækkar. Einstaklingur með 400 þús. kr. heildartekjur á mánuði greiðir núna tæpar 126 þús. kr. í skatta á mánuði. Eftir breytinguna greiðir hann 80 þús. kr. í skatta. Hann „græðir“ því um 46 þús. kr. á breytingunni (12% af tekjum) eða um 2% á hverju ári.
    Telja verður víst að frumvarpið muni óbeint koma þeim til góða sem lægri tekjurnar hafa. Í síðustu kjarasamningum á almenna vinnumarkaðnum var samið um 70.000 kr. lágmarkslaun. Þar sem hátekjufólkið fær skattalækkun ætti það að sætta sig við litla sem enga launahækkun þau ár sem skattbreytingin gengur yfir. Það gefur fyrirtækjunum svigrúm til þess að hækka lægstu launin umtalsvert.Vandamál verkalýðshreyfingarinnar sem hefur bæði láglaunahópa og hærra launaðar stéttir innan vébanda sinna leysist þegar þeir hærra launuðu fá verulegar skattalækkanir.
    Áhrif breytinganna sjást á myndum 1–3 en þar er sýnd hækkun og lækkun á skattbyrði sem fall af tekjum.

Áhrif á ríkissjóð og sveitarfélög.

    Frumvarp þetta og fylgifrumvörp munu ekki hafa teljandi áhrif á hag ríkissjóðs og sveitar félaga. Lækkun skattprósentunar er valin þannig að vergar tekjur ríkissjóðs haldist. Í dag nema vergar skatttekjur ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga um 7% af brúttótekjum lands manna. Niðurfelling afslátta og frádráttarliða sem núverandi löggjöf um tekju- og eignarskatt gerir ráð fyrir mun alfarið standa undir lækkuðu tekjuskattshlutfalli að óbreyttum tekjuskatts stofni. Jafnvel má gera ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs muni aukast í tengslum við breyting arnar vegna aukinna umsvifa í þjóðfélaginu, betri skattskila, aukinni vinnu landsmanna, fjölg un hátekjustarfa, minni skattsvika og einfaldara eftirlits og framkvæmd á innheimtu tekju skatts eins og skattlausa árið er dæmi um. Á móti þessum hagnaði ríkissjóðs kemur að hækka þarf tryggingabætur almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga nokkuð þrátt fyrir nýjar húsnæðisbætur.
    Fyrirhugaðar húsnæðisbætur munu létta byrðum af sveitarfélögunum vegna félagslegrar þjónustu langt umfram húsaleigubæturnar, sem eru mjög takmarkaðar. Enn fremur munu þær draga úr þörf námsmanna fyrir lán. Þær munu auk þess hafa áhrif á þörf fólks fyrir bætur frá almannatryggingum og atvinnuleysistryggingum. Sparnaður á þessum sviðum gæti líklega numið sem svarar auknum kostnaði við húsaleigubætur.
     Laffer-kúrfan. Rétt er að benda á svofellda Laffer-kúrfu. Á áttunda áratugnum kom Arthur Laffer fyrst fram með hina frægu og einföldu hugmynd sína um samband tekna ríkissjóðs og tekjuskattshlutfallsins. Niðurstaða hans var sú að ef skattprósenta á tekjur einstaklinga er 0% fær ríkissjóður að sjálfsögðu engar tekjur. Ef skattprósentan er 100% af tekjum, þ.e. ef laun þeginn fær ekkert fyrir vinnu sína, hverfa tekjur ríkissjóðs. Enginn nema einstaka hugsjóna maður vinnur ef hann fær ekkert fyrir vinnuna. Ef enginn skattur er lagður á en skattheimta síðan hafin og tekjuskattsprósentan hækkuð smám saman aukast tekjur ríkissjóðs til að byrja með. Svo ná þær hámarki og minnka svo með frekari hækkun prósentunnar og hverfa þegar tekjuskattsprósentan hefur náð 100% af tekjum.
    Hvað gerist þegar skattprósentan er hækkuð og fer yfir það gildi sem gefur ríkissjóði hæstar tekjur þannig að tekjur lækka við frekari hækkun prósentunnar? Viss störf leggjast af. Enginn fæst til að sinna þeim. Önnur störf flytjast til annarra landa. (Jafnvel unnin hér á landi í verk töku!) Enn önnur hverfa undir yfirborðið og fólk fer að koma sér hjá því að greiða skatta, löglega og ólöglega. Fólk reynir að finna löglegar smugur í skattalögunum (vaxtabætur, dag peningar) eða telur ekki fram tekjur sínar. Þjónustuskipti hefjast. Ég vinn fyrir þig og þú fyrir mig. Þrýstingur vex á löggjafann að breyta skattalögunum til þess að mynda smugur fyrir vissa þrýstihópa (sjómannaafsláttur, dagpeningar). Ekki er hægt að meta hvar hámarkið er á Laffer-kúrfunni og það er eflaust háð efnahagsástandi, skattlagningu í öðrum löndum og heiðarleika þjóðarinnar. Það er álit flutningamanna að skattprósentur flestra skatta hér á landi kunni að vera komnar yfir markið þannig að sérhver skattahækkun minnki tekjur ríkissjóðs og að skattalækkun kunni jafnframt að leiða til aukningar á tekjum ríkissjóðs.

Tekjuskattur erlendis.

     Tekjuskattur í Vestur-Evrópu. Þegar tekjuskattskerfi nágrannaríkja okkar í Vestur-Evrópu er skoðað kemur í ljós að þar er um æði fjölbreytta flóru að ræða. Þó eiga kerfin það yfirleitt sameiginlegt að tekjuskattur er stighækkandi, þ.e. þeir sem hærri laun hafa greiða ekki aðeins hærri skatta í réttu hlutfalli við auknar tekjur heldur greiða þeir hlutfallslega hærri tekjuskatt. Þetta er útfært með ýmsum hætti og kerfin því misjafnlega vinnuletjandi, enda eru í þeim veru leg jaðaráhrif, líkt og hér. Þá virðist tilhneigingin yfirleitt vera til þess að hafa kerfin flókin þannig að vinna við skattskýrslu verður flókin aðgerð rétt eins og hér á landi.
    Þegar hæsta tekjuskattshlutfallið er skoðað kemur í ljós að það er víða hærra en hér. Í mörgum ríkjum fer hlutfallið langt yfir 50% í hæsta þrepi og algengt er að þrepin séu mun fleiri en hérlendis.
     Ermarsundseyjarnar og eyjan Mön. Á Ermarsundseyjunum Jersey og Guernsey eru skattar mun lægri og skattkerfið einfaldara en víðast annars staðar í álfunni, enda orðið „skattapara dís“ oft nefnt þegar þessar eyjar berast í tal. Þó er það ekki svo að í skattumdæmi þessara tveggja eyja sé engin skattheimta, en athygli vekur að flatur tekjuskattur er á þessum eyjum. Hlutfallið er 20% fyrir íbúa þeirra og hefur verið óbreytt um áratugaskeið. Slíkur einfaldleiki og stöðugleiki í skattkerfinu auðveldar fólki áætlanir og er æskilegur fyrir hagkerfið.
    Eyjan Mön á Írlandshafi sker sig úr flestum öðrum skattumdæmum álfunnar líkt og Ermar sundseyjarnar. Á eyjunni eru tvö tekjuskattsþrep, hið lægra 15% og hið hærra 20%.
     Umræðan í Bandaríkjunum. Hvergi hefur umræðan um það hvort taka skuli upp flatan tekjuskatt eða ekki verið eins mikil og í Bandaríkjunum. Þar er yfirleitt gert ráð fyrir að skatt urinn yrði 20% eða lægri og sambærilegur fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Helstu röksemdirnar sem færðar hafa verið fram eru:
          Að hagvöxtur muni aukast og hefur verið bent á að jafnvel lítil aukning hagvaxtar skili mikilli kaupmáttaraukningu þegar litið er nokkur ár fram í tímann.
          Að gerð skattskýrslunnar verði einföld, en hún er afar flókin nú og í rannsókn sem gerð hefur verið fyrir skattyfirvöld í Bandaríkjunum er gert ráð fyrir að landsmenn eyði 5,4 milljörðum klukkustunda í að fylla út skattskýrslur.
          Að sanngjarnara sé að fólk greiði skatta í réttu hlutfalli við tekjur í stað þess að því sé refsað fyrir hærri tekjur með tiltölulega hærri skattgreiðslu.
          Að pólitískar smáskammtalækningar og pólitísk mismunun í gegnum tekjuskattskerfið muni leggjast af vegna þess að stjórnmálamenn munu ekki lengur geta hrært stöðugt í skattkerfinu og hyglað einum á kostnað annars. Prófessor Alvin Rabushka við Stanford-háskóla áætlar að óhagkvæmar fjárfestingar sem sérstaklega er lagt út í af skattalegum ástæðum nemi 100 milljörðum dala. Þessir fjármunir færu í arðbærari farvegi ef skatt kerfið byði upp á slíkt.
          Að réttarstaða fólks batni með einfaldara skattkerfi, en í dag standi fólk höllum fæti gagnvart skattyfirvöldum.
    Þar sem gert er ráð fyrir því í tillögum um flatan tekjuskatt í Bandaríkjunum að sömu reglur skuli gilda um fyrirtæki og einstaklinga er ekki hægt að heimfæra allt framangreint beint upp á Ísland. Þó er ljóst að í megindráttum á sama röksemdarfærsla við, hagvöxtur mun aukast, skattskýrslan verður einfaldari, skattkerfið sanngjarnara, skattaleg mismunun minnkar og ein staklingar þekkja rétt sinn betur og standa því betur að vígi gagnvart skattyfirvöldum.


Samantekt.

    Ef frumvarp þetta verður að lögum mun það leiða til aukinnar hagsældar landsmanna. Landið verður fýsilegri kostur fyrir hátekjufólk og því fylgir vöxtur ýmissa þjónustu- og at vinnugreina sem greiða há laun. Með því yrði Ísland reiðubúið að takast á við nýja öld og samkeppnishæfni landsins í samanburði við nágrannalöndin ykist umtalsvert. Jafnvel má velta því fyrir sér hvort aukin skilvirkni kerfisins og fjölgun starfa á landinu muni ekki leiða til þess að tekjur ríkissjóðs aukist töluvert frá því sem nú er þannig að hægt verði að lækka skattana enn frekar eða að auka þjónustu við almenning.
    Telja verður því víst að markmið frumvarpsins muni nást.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að tekin verði upp flatur tekjuskattur og að sama skattpró senta gildi fyrir alla, bæði börn og fullorðna. Því er óþarft að taka sérstaklega fram að ákveðn ar tekjur barna skuli skattleggjast á tiltekinn hátt og því er lagt til að lokamálsliður 6. gr. laganna falli brott.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að það teljist til hlunninda starfsmanna reki vinnuveitandi hópferðabifreið til að flytja starfsmenn sína til og frá vinnu. Þessi hlunnindi verða skattlögð líkt og önnur hlunnindi sem tekjur hjá starfsmanninum eftir viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra. Ekki er eðlismunur á því hvort vinnuveitandi ekur starfsmanni til vinnu í hópferðabifreið eða hvort hann leggur starfsmanni til einkabifreið til að aka til og frá vinnu. Lagt er til að jafnræði skatt greiðenda verði virt hvað þetta atriði varðar.

Um 3. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að eignarauki sem stafar af aukavinnu skattgreiðanda við bygg ingu íbúðarhúsnæðis til eigin afnota verði skattlagður á sama hátt og öll önnur vinna skatt greiðanda. Færa má fyrir því rök að með því að afnema skattfrelsi þessarar aukavinnu verði spornað við „svartri“ atvinnustarfsemi við húsbyggingar. Húseigandi þarf að greiða tekjuskatt af eignaraukanum nema hann geti sýnt fram á að hann hafi með einhverjum hætti greitt þriðja aðila verklaun fyrir vinnu sem aukið hefur verðmæti eignarinnar.
    Jafnframt er hér lagt til að fellt verði niður skattfrelsi persónuafsláttar, sjómannaafsláttar, vaxtabóta og húsnæðisbóta þar sem frumvarpið gengur út frá því að bætur þessar og afslættir verði afnumdir. Í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir að þetta falli niður á sjö ára aðlögunartíma og er í því ákvæði skattfrelsi þeirra tryggt á aðlögunartímanum.

Um 4. gr.

    Lagt er til að með ákvæðinu verði þrengdar heimildir einstaklinga til frádráttar frá tekjum utan atvinnurekstrar. Til einföldunar er 30. gr. laganna endurskrifuð. Henni hefur verið breytt oft á undanförnum árum og þótti eðlilegt að endurskrifa hana samhliða því að fella niður nokkrar af heimildum hennar til frádráttar.
    Í fyrsta lagi er lagt til að felldar verði niður heimildir einstaklinga til að draga frá tekjum útgjöld á móti ökutækjastyrki, dagpeningum eða hliðstæðum endurgreiðslum á kostnaði sem sannað er að séu ferða- og dvalarkostnaður vegna atvinnurekanda. Gera verður ráð fyrir að atvinnurekandi greiði þann kostnað sem hlýst af ferðalögum starfsmanna hans og dragi frá rekstrartekjum sínum. Óþarfi er að hafa við lýði ferðahvetjandi kerfi sem dagpeningakerfið óneitanlega er. Auk þess verður að gera ráð fyrir því að atvinnurekandi umbuni þeim starfs mönnum sínum með hærri launagreiðslum sem þurfa að leggja sér til bíl í vinnunni.
    Í öðru lagi er lagt til að afnumdar verði heimildir fjármálaráðherra til að undanþiggja ákveðnar tekjur skattgreiðslum. Samhliða því verður 120. gr. laganna felld brott sbr. 13. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.

    Með þeim breytingum sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir að gerðar verði á tekjuskatts kerfinu verða hjón skattlögð sem einstaklingar. Skattalegt óhagræði eða hagræði af hjúskap hverfur að því er viðkemur tekjuskattslögunum sjálfum. Hvorki verður um persónuafslætti né bætur að ræða samkvæmt skattalögum þannig að óþarfi verður að skattleggja hjón sameigin lega. Með þessu ákvæði er því einungis ítrekað að hjón skuli skattleggja sem einstaklinga. Taka skal þó fram að samábyrgð hjóna á sköttum helst eftir sem áður.

Um 6. gr.

    Sjá athugasemdir um 4. gr. frumvarpsins. Greinin er óþörf eftir að tekin verður upp sú regla að hjón verði skattlögð sem einstaklingar.

Um 7. gr.

    Hér er lögð til breyting til samræmis við það meginmarkmið frumvarpsins að tekin verði upp flatur tekjuskattur jafnt á börn sem fullorðna. Allar sérreglur til við skattlagningu barna eru því óþarfar og því eru 2. og 3. mgr. 65. gr. felldar niður.

Um 8. gr.

    Hér er lagt til að felldar verði niður allar valkvæðar skattaívilnanir. Skattkerfið á að vera einfalt og skattalögin auðlesin og skilin. Þegar skattprósentan verður orðin um 8,38% og heildarskattarnir með útsvari um 20% er þörfin fyrir slíkar ívilnanir hverfandi auk þess sem æskilegt er að allur félagslegur stuðningur komi í gegnum félagsmálayfirvöld en ekki í gegnum skattkerfið.

Um 9. gr.

    Með þeirri breytingu sem lögð er til á 67. gr. laganna kemur skýrt fram sú meginhugsun frumvarpsins að allir afslættir og bætur falli brott og tekjuskattsprósentan verði 8,38%. Út svarið mun síðan ráða því hverjir hinir endanlegu skattar verða. Einnig eru hér afnumdar allar sérreglur við útreikning tekjuskatts barna.

Um 10. gr.

    Hér er lagt til að persónu- og sjómannaafsláttur falli niður og jafnframt að hætt verði að greiða vaxtabætur vegna íbúðarhúsnæðis. Þá er lagt til að ákvæði um barnabætur verði felld úr skattalögum. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir því að hróflað verði við núverandi barna bótakerfi og verður því samhliða þessu frumvarpi flutt sérstakt frumvarp til laga um barna bætur úr ríkissjóði.

Um 11. gr.

    Sú breyting sem hér er lögð til helgast af því að ákvæðið verður óþarft þegar ákvæði um persónu- og sjómannaafslátt hafa verið afnumin.

Um 12. gr.

    Hér er lagt til að orðið persónuafsláttur verði fellt niður úr 1. mgr. 3. tölul. 1. mgr. 71. gr. Er þetta gert til samræmis við niðurfellingu persónuafsláttar. Að öðru leyti vísast til athuga semda um 11. gr. frumvarpsins.

Um 13. gr.

    Hér er lagt til, sbr. 4. gr. frumvarpsins, að happdrættisvinningar verði skattskyldir til jafns á við aðrar tekjur.

Um 14. gr.

    Hér er lagt til að ákvæði til bráðabirgða XXIX vegna innheimtuhlutfalls staðgreiðslu opin berra gjalda samkvæmt lögum nr. 45/1987 verði orðað til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til á skatthlutfallinu með lögum þessum, sbr. meðal annars 17. gr. frumvarpsins.

Um 15.–16. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 17.–19. gr.

    Hér er lagt til að ákvæði tekjuskattslaga um sérstakan tekjuskatt (hátekjuskatt) verði fram lengd til ársins 2005 en að þau verði látin lækka um eitt prósentustig á ári frá og með árinu 2000. Lagt er til að þessi sérstaki tekjuskattur hverfi úr lögum árið 2006 þegar skattbreytingar samkvæmt þessum lögum verði komnar að fullu til framkvæmda.

Um 20. gr.

    Felldar eru út úr ákvæðinu tilvísanir til ákvæða sem eiga ekki við lengur þar sem felldir hafa verið út allir afslættir og bætur.

Um 21. gr.

    Bráðabirgðaákvæði A-liðar er tilkomið vegna fjölda annarra laga sem byggjast á viðmiðum persónuafsláttar, sjómannaafsláttar eða öðrum þeim viðmiðum sem lagt er til að verði lögð niður með þessu frumvarpi.
    B-liður hefur að geyma bráðabirgðaákvæði sem gilda eiga á aðlögunartíma þeirra skatt breytinga sem frumvarpið felur í sér. Lagt er til að skattar lækki í áföngum næstu sjö árin.
    Þá er í C-lið bráðabirgðaákvæði þar sem lagt er til að tekin verði úr meginmáli lagatextans ákvæði er lúta að fjárfestingum manna í atvinnurekstri þar sem þær heimildir sem ákvæðin kveða á um eiga að hverfa smám saman úr lögum. Eðlilegra er því að hafa ákvæðið sem bráðabirgðaákvæði við lögin.

Um 22. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Hér er um að ræða bráðabirgðaákvæði sem tiltekur hvaða reglur skuli gilda á aðlögunar tíma breytinganna. Gert er ráð fyrir að ákvæði núgildandi skattalaga gildi áfram næstu sjö árin að teknu tilliti til þessa ákvæðis.