Ferill 579. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 984 – 579. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um aðgerðir vegna hitasóttar í hrossum.

Flm.: Kristín Halldórsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að sjá til þess að unnin verði ítarleg rann sókn og úttekt á aðdraganda, ferli og afleiðingum hitasóttar í hrossum sem breiðst hefur út hér á landi á þessu ári. Rannsóknin verði unnin á vegum embættis yfirdýralæknis og stuðst við upplýsingar og gögn frá dýralæknum og hestamönnum. Á grunni hennar verði mótuð áætlun um viðbrögð í samráði við atvinnumenn í hestamennsku og félagasamtök hestamanna.

Greinargerð.


    Heilbrigði íslenska hestsins hefur verið viðbrugðið, svo sem flestra annarra dýrategunda hérlendis. Nýtur þar við fjarlægðar frá öðrum löndum og tiltölulega góðra aðstæðna til að verjast sjúkdómum og smiti sem herja víða erlendis. Strangar reglur eru í gildi til að koma í veg fyrir slíka óáran en hún getur valdið gríðarlegum usla í dýrum sem aldrei hafa komist í kast við ýmsa sjúkdóma og þar af leiðandi ekki byggt upp ónæmi eða varnir gagnvart þeim. Þótt misbrestur hafi orðið á framkvæmd reglnanna hafa varnir að mestu dugað til þessa. Því er ekki að undra að hestaeigendur og þeir sem hafa atvinnu af hestamennsku séu slegnir óhug og áhyggjum vegna hitasóttarinnar sem geisað hefur einkum á suðvesturhorni landsins um nokkurt skeið en komst fyrst í hámæli um miðjan febrúar sl. Um leið og ljóst var að um smit sjúkdóm væri að ræða var gripið til varúðarráðstafana, bann lagt við flutningum milli svæða og til útlanda og hestaeigendum leiðbeint um meðferð. Þrátt fyrir það hefur veikin breiðst út jafnt og þétt, hundruð hrossa hafa sýkst og nokkur drepist og engin trygging er fyrir því að sóttin nái ekki til allra landsvæða áður en yfir lýkur. Miklir hagsmunir eru í húfi og marg ir hafa nú vaknað til vitundar um hvílíkar afleiðingar andvaraleysi og óvarkárni geta haft. Brýnt er því að draga réttan lærdóm til framtíðar af þessari reynslu og má þar ekkert til spara. Rannsóknir eru að sjálfsögðu hafnar á vegum embættis yfirdýralæknis. Áfallinn kostnaður er þegar orðinn umtalsverður og ljóst að hann verður enn meiri. Nauðsynlegt verður að taka tillit til þess við fjárveitingar til embættisins.
    Íslenski hesturinn hefur fylgt íslenskri þjóð frá upphafi byggðar gegnum þykkt og þunnt og verið henni bæði til gagns og gleði. Hann er einstakur og lofaður víða um heim fyrir hæfni og sérstaka kosti. Fyrr á öldum var hann nefndur þarfasti þjónninn og vann þá flest þau verk sem bílar og margs konar vinnuvélar leysa nú í þágu mannsins. Á síðustu áratugum hefur hann í æ ríkari mæli orðið félagi mannsins í tómstundum. Fjölmargir eiga nú hesta sér til ánægju. Hestamenn fara hundruðum saman í lengri og skemmri hestaferðir um byggðir og óbyggðir landsins og slíkar ferðir eru mjög eftirsóttar af útlendingum. Á hverju ári koma hátt á þriðja þúsund erlendir ferðamenn til Íslands eingöngu vegna áhuga á íslenska hestinum, en auk þess kynnast 20–25 þúsund erlendir ferðamenn íslenska hestinum í styttri ferðum. Um 5 þúsund útlendingar sækja landsmót hestamanna sem haldin eru fjórða hvert ár.
    Með vaxandi áhuga og fjölbreyttari notkun hefur skapast mikil atvinna við hestamennsku um allt land. Þar má telja hestaræktendur, tamningamenn, knapa, járningamenn, reiðkennara, hestaflutningamenn, hestaleigjendur, leiðsögumenn og skipuleggjendur hestaferða, framleið endur og seljendur hestavara og svo að sjálfsögðu dýralækna. Erfitt er að slá tölu á þá sem hafa atvinnu af hestamennsku, en kunnugir telja að ársverk tengd henni séu a.m.k. 1 þúsund.
    Útflutningur hesta er umtalsverður og íslenskir hestar teljast nú vera um 100 þúsund í 20 löndum, þar af um 45 þúsund í Þýskalandi, enda streyma útlendingar hingað í hestaferðir og á landsmót hestamanna. Veglegar sýningar og mót eru haldin árlega erlendis þar sem ís lenskir hestar og íslenskir knapar halda orðstír lands og þjóðar hátt á lofti. Í júlí 1997 kom út skýrsla á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins um störf nefndar sem falið var að kanna möguleika á auknum útflutningi framleiðslu sem tengist eða gæti tengst íslenska hestinum. Niðurstöður nefndarinnar eru að umtalsverðir möguleikar séu á því sviði og mark miðið hljóti að vera „að á Íslandi verði „Mekka“ íslenska hestsins og hingað leiti útlendingar upplýsinga, kaupi vörur og þjónustu sem tengist íslenska hestinum, fái ráðgjöf eða annað sem hefur hér sérstöðu; að þjónusta og vörur frá Íslandi sem tengjast íslenska hestinum verði ávallt þær eftirsóttustu í hugum þeirra sem þekkja íslenska hestinn; að íslenskar vörur og þjónusta séu ímynd gæða sem hægt sé að standa við og uppfylla“.
    Ljóst er að miklir hagsmunir eru í húfi þegar um íslenska hestinn er að ræða, fjárhagslegs og atvinnulegs eðlis, auk þeirra hagsmuna sem ekki verða í krónum taldir, heldur tilfinn ingum. Því er mikilvægt að bregðast myndarlega við þeirri vá sem nú steðjar að hestum, hestaeigendum og atvinnumönnum í greininni. Hestaeigendur hafa misst hross, atvinnumenn hafa orðið af viðskiptum og aðeins framtíðin sker úr um varanlegt tjón. Leggja þarf kapp á að upplýsa hvernig veikin hefur borist til landsins og hvernig hún smitast, rannsaka afleið ingar hennar og komast að niðurstöðu um hvaða meðhöndlun reynist best. Svara þarf áleitn um spurningum eins og þeim hvort gerlegt sé eða jafnvel æskilegt að verja íslenska hestinn gegn sýkingu af þessu tagi, en um það eru deildar meiningar. Fara þarf yfir allt ferlið og við brögðin og mikilvægast alls er að móta áætlun um hvernig taka ber á málum við svipaðar að stæður í framtíðinni. Við þá vinnu þurfa bæði dýralæknar og jafnt atvinnumenn sem áhuga menn í hestamennsku að leggja sitt af mörkum.