Ferill 209. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1031 – 209. mál.Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða.

Frá sjávarútvegsnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Skarphéðinsson, Kristínu Haraldsdóttur og Árna Kolbeinsson frá sjávarútvegsráðuneyti, Baldur Guðlaugsson, hæsta réttarlögmann, Gunnar Helga Hálfdánarson frá Landsbréfum hf., Sigurð Einarsson frá Kaupþingi hf., Sigurð Halldórsson og Sigurð Pétur Snorrason frá Verðbréfaþingi Íslands, Árna Múla Jónasson, Ara Arason og Guðna Karlsson frá Fiskistofu.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Farmanna- og fiskimannasambandinu, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Samtökum fiskvinnslustöðva, Samtökum um þjóðareign, Samtökum verðbréfafyrirtækja, Sjómannasambandinu, Verð bréfaþingi Íslands og Þjóðhagsstofnun.
    Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem koma eiga í veg fyrir að aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila eða tengdra aðila geti farið umfram tiltekið hámark. Sjávarútvegsnefnd getur að hluta til tekið undir þau sjónarmið sem fram koma í greinargerð með frumvarpinu en telur þó að ónefnd séu helstu rökin fyrir frumvarpinu, rök sem lúta að því að þar sem afkoma íslensks þjóðfélags byggist að stærstum hluta á sjávarútvegi geti þjóðin ekki tekið þá áhættu að fjöregg hennar komist undir yfirráð eins eða tveggja fyrirtækja. Ef þau fyrirtæki lenda síðan í rekstrarerfiðleikum hefði það ófyrirsjáan legar afleiðingar fyrir íslenskt þjóðarbú. Þessi áhættudreifingarrök eru veigameiri að mati nefndarinnar en þær röksemdir sem taldar eru upp í greinargerð um fákeppni.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
1.      Lagt er til að felldar verði brott nokkrar tilvísanir í tiltekin ákvæði eða málsgreinar laganna. Rökin fyrir þessari breytingu eru þau að óþarfi er að tilgreina þessar tilvísanir, auk þess sem slíkt kynni að þrengja efni ákvæðanna án þess þó að tilgangurinn sé sá.
2.      Lögð er til breyting á 3. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins þannig að aflahlutdeild fiskiskipa sem aðilar hafa á kaupleigu eða leigu telst einungis til aflahlutdeildar fiskiskipa í eigu þeirra sé leigusamningur eða kaupleigusamningur gerður til sex mánaða eða lengri tíma. Tilgangur breytingartillögunnar er að freista þess að sporna við málamyndagerningum eigenda fiskiskipa sem miða að því að víkjast undan ákvæðum laganna.
3.      Nefndin leggur til að hámarksaflahlutdeild einstakra lögaðila skv. 5. mgr. 1. gr. verði hækkuð úr 10% í 12%. Hér er um að ræða félög í eigu margra aðila, í sumum tilvikum almenningshlutafélög, og því eðlilegt að rýmka heimildina.
4.      Þá er lögð til sú breyting að 6. og 7. mgr. 1. gr. frumvarpsins falli brott en að þær greinar verði teknar nánast orðrétt upp í nýja grein frumvarpsins sem bæti nýrri grein við lögin, 11. gr. b. Þetta er gert til þess að kljúfa 1. gr. frumvarpsins sem tekur yfir rúmar tvær blaðsíður. Slíkt ætti að vera til einföldunar og auðvelda lestur laganna. Eina breytingin er á orðalagi málsgreinanna er að lagt er til að aðilar fái sex mánaða frest til að gera ráðstafanir til að koma aflahlutdeild niður fyrir tilgreind mörk fari þeir upp fyrir mörkin.
5.      Lögð er til orðalagsbreyting á ákvæði til bráðabirgða í samræmi við f-lið 1. tölul. og 2. tölul. breytingartillagnanna, sbr. 4. lið hér að framan.
6.      Þá er lagt til að við frumvarpið bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem leggi þær skyldur á sjávarútvegsráðherra að hann leggi fyrir Alþingi skýrslu að liðnum fimm árum frá gildistöku laganna um áhrif þeirra á íslenskan sjávarútveg.
    Guðný Guðbjörnsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.Alþingi, 24. mars 1998.Steingrímur J. Sigfússon,


form., frsm.


Árni R. Árnason.     


Stefán Guðmundsson.
Einar Oddur Kristjánsson.Lúðvík Bergvinsson.Svanfríður Jónasdóttir.Guðmundur Hallvarðsson.Vilhjálmur Egilsson.Hjálmar Árnason.