Ferill 201. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1099 – 201. mál.Frumvarp til lagaum loftferðir.

(Eftir 2. umr., 31. mars.)


I. KAFLI


Almenn ákvæði.


1. gr.


    Lög þessi gilda á íslensku yfirráðasvæði og um borð í íslenskum loftförum hvar sem þau eru stödd, nema samningar við önnur ríki eða lög þess ríkis er loftfarið fer um leiði til ann ars.
    Samgönguráðherra ákveður að hve miklu leyti reglur settar samkvæmt heimild í lögum þessum gildi utan íslensks yfirráðasvæðis.

2. gr.


    Loftfar samkvæmt lögum þessum telst sérhvert tæki sem haldist getur á flugi vegna verk ana loftsins, annarra en loftpúðaáhrifa við yfirborð jarðar.
    Samgönguráðherra er heimilt að setja reglur um tæki sem ætluð eru til að hreyfast um loft ið en eru eigi loftför.
    Ráðherra getur undanþegið ákvæðum laga þessara eða sett sérreglur um loftför sem ekki hafa stjórnanda innan borðs, eru ekki knúin hreyfli eða eru annars sérstakrar tegundar.

3. gr.


    Loftfari er aðeins heimil ferð um íslenskt yfirráðasvæði að uppfylltu einhverju af eftirfar andi skilyrðum:
     a.     Það hafi íslenskt þjóðerni.
     b.     Það hafi þjóðerni ríkis sem hefur með sáttmála verið veittur réttur til loftferða um íslenskt yfirráðasvæði.
     c.     Það hafi sérstaka heimild samgönguráðherra til ferðar um íslenskt yfirráðasvæði. Slík leyfi má binda þeim skilyrðum sem nauðsynleg teljast og eru þau afturkallanleg án fyrir vara.

4. gr.


    Þegar brýna nauðsyn ber til, svo sem vegna almannaöryggis eða allsherjarreglu, getur samgönguráðherra takmarkað eða bannað loftferðir almennt eða um hluta af íslensku yfir ráðasvæði.
    Flugmálastjórn er heimilt að banna flug yfir hljóðhraða innan íslensks yfirráðasvæðis.

II. KAFLI


Stjórn flugmála.


5. gr.


    Samgönguráðherra fer með yfirstjórn flugmála.

6. gr.


    Flugmálastjórn Íslands er sérstök stofnun undir stjórn flugmálastjóra, sem fer með fram kvæmdarvald samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum og stjórnvaldsreglum sem settar eru á sviði loftferða.
    Samgönguráðherra skipar flugmálastjóra til fimm ára í senn. Ráðherra ræður fram kvæmdastjóra einstakra sviða stofnunarinnar að fenginni umsögn flugmálastjóra. Flugmála stjóri ræður annað starfsfólk stofnunarinnar.
    Nánar skal kveðið á um hlutverk Flugmálastjórnar Íslands með reglugerð.

7. gr.


    Flugmálastjórn skal heimilt með samþykki samgönguráðherra að stofna og eiga aðild að fyrirtækjum sem eru hlutafélög, önnur félög með takmarkaðri ábyrgð eða sjálfseignarstofn anir með það að markmiði að vinna að rannsókn og þróun á starfssviði stofnunarinnar og hagnýta niðurstöður þess starfs.
    Enn fremur er Flugmálastjórn heimilt með samþykki samgönguráðherra að stofna hlutafé lag til að markaðsfæra og selja þjónustu stofnunarinnar.
    Þá skal Flugmálastjórn heimilt, að fengnu samþykki samgönguráðherra, að eiga aðild að fyrirtækjum sem eru hlutafélög, önnur félög með takmarkaðri ábyrgð eða sjálfseignarstofn anir og fela þeim að annast framkvæmd og rekstur á einstökum þjónustuþáttum á starfssviði stofnunarinnar, enda sé slíku félagi eða fyrirtæki gagngert komið á fót í þessu skyni.

8. gr.


    Flugráð er skipað fimm mönnum og jafnmörgum til vara. Varamenn taka sæti í forföllum aðalmanna.
    Alþingi kýs hlutfallskosningu þrjá menn í ráðið og jafnmarga til vara. Samgönguráðherra skipar tvo og jafnmarga til vara með sérþekkingu á flugmálum. Fulltrúar skipaðir af sam gönguráðherra skulu vera formaður og varaformaður flugráðs.
    Skipunartími flugráðs skal vera fjögur ár, en skipunartími ráðherraskipaðra fulltrúa skal þó takmarkaður við embættistíma þess ráðherra sem skipar.
    Flugráð skal vera samgönguráðherra og flugmálastjóra til ráðuneytis um flugmál.
    Verkefni flugráðs við stjórn flugmála eru eftirfarandi:
     a.      Stefnumótun í flugmálum, innan lands og í millilandaflugi.
     b.      Framkvæmdaverkefni og gerð flugmálaáætlunar lögum samkvæmt.
     c.      Fjárlagatillögur og rekstraráætlanir.
     d.      Gjaldskrártillögur.
     e.      Reglugerðir um flugmál.
     f.      Málefni sem samgönguráðherra eða Alþingi sendir flugráði til umfjöllunar.
     g.      Mál sem flugmálastjóri eða einstakir flugráðsmenn óska að fjallað verði um.
    Flugmálastjóri situr fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétti ásamt þeim starfsmönnum Flugmálastjórnar sem hann telur ástæðu til eða ráðið óskar eftir. Nánar skal kveðið á um hlutverk flugráðs með reglugerð.

III. KAFLI


Skrá um íslensk loftför.


9. gr.


    Flugmálastjórn skal halda skrá um íslensk loftför, loftfaraskrá.
    Hafi loftfar verið skráð samkvæmt ákvæðum laga þessara hlýtur það íslenskt þjóðerni og Flugmálastjórn gefur út númerað þjóðernis- og skrásetningarskírteini handa loftfarinu. Loft farið hefur íslenskt þjóðerni meðan skírteinið heldur gildi sínu.
    Þegar loftfar er skráð skal merkja það íslensku þjóðernismerki og skrásetningarmerki og gefa því skrásetningarnúmer. Þjóðernis- og skráningarmerki skal loftfarið bera meðan skrá setning þess er í gildi. Skrásetningarnúmeri má ekki breyta.
    Um skrásetningu réttinda í loftförum gilda sérstök lög. Sýslumaðurinn í Reykjavík annast framkvæmd þeirrar réttindaskrár.
    Flugmálastjórn skal tilkynna skrásetjara réttinda í loftförum svo fljótt sem verða má allar breytingar er verða á loftfaraskrá.

10. gr.


    Heimilt skal að skrásetja hér á landi loftfar sem er í eigu íslenskra ríkisborgara er eiga lögheimili hérlendis eða íslenskra lögaðila sem eiga heimili hér á landi. Réttur til skrásetn ingar loftfars er þó háður því að fullnægt sé skilyrðum laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.
    Þó er heimilt að skrá á Íslandi loftfar sem íslenskum flugrekanda er heimilt að nota í rekstri sínum ef það er í eigu einstaklinga eða lögaðila með ríkisfang og heimilisfesti í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Flugmálastjórn getur heimilað skráningu loftfars hér á landi þótt eigi sé fullnægt skilyrð um 1. og 2. mgr., enda sé loftfarið í umráðum íslensks aðila og sérstakar ástæður mæli með slíku leyfi.

11. gr.


    Loftfar, sem skrásett er erlendis, verður eigi skráð hér á landi fyrr en það hefur verið strikað af erlendri skrá.
    Ef á loftfari hvíla skráð réttindi sem meta skal gild hér á landi samkvæmt samningi við erlent ríki verður loftfarið eigi tekið á íslenska skrá, nema rétthöfum hafi verið gerð full skil, þeir samþykki flutninginn eða réttindin séu niður fallin við nauðungarsölu.

12. gr.


    Loftfar skal eigi skrásetja, nema það hafi tegundarskírteini sem Flugmálastjórn hefur gef ið út eða metið gilt eða annars konar vottorð sem Flugmálastjórn metur fullnægjandi.
    Heimilt er ráðherra að setja sérreglur um loftför án tegundarskírteina, svo sem heima smíðuð loftför, og um skráningu slíkra loftfara með reglugerð.

13. gr.


    Skrásetja skal loftfar samkvæmt skriflegri umsókn eiganda þess. Umsókn skal geyma skýrslur sem nauðsynlegar eru til skrásetningar og henni skulu fylgja skilríki fyrir því að um sækjandi sé eigandi loftfarsins, hvenær og af hverjum það er smíðað og svo að skilyrðum 10.–12. gr. sé fullnægt. Ef eignarréttur umsækjanda er bundinn skilyrðum eða takmörkunum sem geta leitt til þess að eignarrétturinn flytjist til annars aðila skal geta þess í umsókn.

14. gr.


    Ef skilyrði eru til skrásetningar að dómi Flugmálastjórnar skrásetur hún loftfar og lætur því í té skrásetningarmerki og númer.
    Á skrá skal setja:
     a.     þjóðernismerki, skrásetningarmerki og skrásetningarnúmer loftfars,
     b.     nauðsynlega skýrslu um annað það er einkennir loftfar, svo sem tegund og gerð loftfars, verksmiðjunúmer á skrokk og hreyflum og smíðaár,
     c.     skýrslu um eiganda, nafn hans, heimili og eignartöku hans á loftfari og, sé því að skipta, skilyrði og hömlur sem greindar eru í 13. gr.,
     d.     hver er umráðandi ef hann er annar en eigandi,
     e.     dag og ár skrásetningar,
     f.     aðrar skýrslur eftir ákvörðun Flugmálastjórnar.

15. gr.


    Ef eigendaskipti verða á loftfari eftir skrásetningu, að nokkru eða öllu, eigandi þess breyt ir þjóðerni sínu eða gerð er breyting á loftfarinu sem máli skiptir um kennsl á því skal eig andi tafarlaust tilkynna Flugmálastjórn breytinguna og leggja fram nauðsynlegar skýrslur og skilríki. Á sama hátt skal fara með þegar eigandi fullnægir eigi lengur skilyrðum 10. gr.
    Verði eigendaskipti að loftfari að nokkru eða öllu leyti með samningi hvílir tilkynningar skylda einnig á afsalsgjafa. Fari eigendaskipti á loftfari fram fyrir nauðungarsölu, gjaldþrot eða opinber skipti hvílir slík skylda á þeim sem gefur út afsal og kaupanda.
    Flugmálastjórn skal skrá breytingu og gæta ákvæða 13. og 14. gr. eftir því sem þörf er á.

16. gr.


    Loftfar skal strika af skrá þegar:
     a.     skráður eigandi krefst þess,
     b.     skilyrðum 10. gr. er eigi lengur fullnægt, enda veiti Flugmálastjórn eigi leyfi til að skráning loftfarsins haldist,
     c.     loftfar er rifið eða það hefur eyðilagst,
     d.     loftfar er horfið; loftfar telst horfið þegar liðnir eru þrír mánuðir frá því að síðasta flug hófst og eigi er vitað að það sé enn óskaddað.
    Hafi eitthvert þeirra tilvika fyrir borið sem nefnd eru í b–d-liðum þessarar greinar skal eigandi loftfars tafarlaust tilkynna það skráningaryfirvöldum, enda hafi það eigi þegar verið gert skv. 15. gr.
    Hafi loftfar eigi haft gilt lofthæfisskírteini í þrjú ár má strika það af skrá, enda afli eigandi eigi slíks skírteinis áður en liðinn er frestur sem skrásetningaryfirvöld setja honum.
    Ef skráð eru réttindi í loftfari skal ekki fella það niður af loftfaraskrá, nema rétthafi sam þykki það.

17. gr.


    Ef skráð loftfar er selt gegn afborgun og eignarréttarfyrirvara eða samningur gerður um kaup- eða fjármögnunarleigu skal tilkynna samninginn tafarlaust til Flugmálastjórnar. Til kynningarskylda hvílir bæði á eiganda og umráðanda.
    Flugmálastjórn skal skrá málavexti og fá afrit viðkomandi samninga.
    Ef loftfar, sem skráð er hér á landi, er látið í forræði leigutaka, eða annars sem notar það á eigin kostnað, er leigutaka eða þeim sem notar það skylt að afla samþykkis Flugmála stjórnar áður en notkun hefst.

18. gr.


    Ef loftfar er fellt niður af skrá skal eigandi þess, eða fyrri eigandi sé það komið í eigu er lends aðila, tafarlaust senda Flugmálastjórn þjóðernis- og skrásetningarskírteinið.
    Ef færð er í skrána einhver breyting á þeim atriðum sem getur í skírteininu skal eigandinn án tafar senda Flugmálastjórn skírteinið og skráir hún breytingarnar á skírteinið eða gefur út nýtt skírteini í stað hins.

19. gr.


    Í íslensku loftfari, sem er í flugferðum samkvæmt lögum þessum, skal vera:
     a.     staðfesting á þjóðernisskráningu,
     b.     gilt lofthæfisskírteini,
     c.     gilt leyfisbréf fyrir hvern flugliða sem skylt er að beri skírteini við starf sitt,
     d.     loftferðadagbók,
     e.     talstöðvarskírteini,
     f.     farþegalisti, ef loftfarið flytur farþega í flugi milli landa, og skulu þar greind nöfn þeirra, flugvöllur þar sem þeir eru teknir og flugvöllur sá er þeir ætla til; farþegalisti skal jafnframt liggja frammi í brottfararflughöfn, og gildir það einnig um innanlands flug,
     g.     farmskírteini og sundurliðuð skýrsla um farm, ef það flytur farm í flugi milli landa.
    Í erlendu loftfari á íslensku yfirráðasvæði skulu vera samsvarandi skilríki frá viðkomandi erlendu ríki eða ríkjum sem rétt hafa til flugferða um íslenskt yfirráðasvæði.
    Sá sem hagsmuna hefur að gæta að lögum hefur rétt til að kynna sér efni dagbóka og ann arra loftfarsskjala.
    Ef ekki er öðruvísi mælt í sérstökum lögum setur Flugmálastjórn reglur um dagbækur og önnur loftfarsskjöl, vist þeirra í loftfari og, ef þurfa þykir, gerð þeirra, ritun og geymslu.

IV. KAFLI


Lofthæfi.


20. gr.


    Loftfar, sem notað er til loftferða eftir lögum þessum, skal vera lofthæft.
    Loftfar er einungis lofthæft ef það fullnægir eftirfarandi skilyrðum:
     a.     það er hannað samkvæmt viðeigandi stöðlum og hefur skírteini er vottar slíkt,
     b.     það er framleitt af viðurkenndum framleiðanda; heimilt er þó að sérreglur gildi um heimasmíðuð loftför, sbr. 12. gr.,
     c.     viðhald þess og reglubundið eftirlit er í samræmi við reglur og fyrirmæli flugmálayfirvalda um stjórnun á viðhaldi þess og notkun viðurkenndra viðhaldsstöðva, grannskoðun, viðgerðir, breytingar og ísetningu búnaðar,
     d.     það uppfyllir stjórnvaldskröfur um mengunarvarnir, m.a. vegna hávaða og útblásturs,
     e.     loftfarið, áhöfn þess og farþegar eru vátryggð á fullnægjandi hátt svo sem fyrir er mælt í lögum þessum.

21. gr.


    Flugmálastjórn hefur eftirlit með því að loftför, sem notuð eru til loftferða eftir lögum þessum, séu lofthæf og framkvæmir úttektir og skoðanir eftir því sem þörf krefur.
    Flugmálastjórn er heimilt að láta íslenskan eða erlendan aðila eða erlent stjórnvald, sem hún velur og til þess er hæft, framkvæma skoðun og eftirlit.

22. gr.


    Ef sannreynt er með skoðun eða á annan hátt að loftfar sé lofthæft gefur Flugmálastjórn út lofthæfisskírteini handa loftfarinu. Gefa má út skírteini til tiltekins tíma og má takmarka það við loftferðir tiltekinnar tegundar eða á tilteknu svæði.
    Flugmálastjórn getur kveðið svo á að taka skuli upp í skírteinið eða sérstakt skjal, sem fylgir skírteininu, leiðbeiningar um notkun loftfarsins, enda teljist það þá lofthæft þegar leið beiningunum er fylgt.

23. gr.


    Íslenskt loftfar, sem notað er til loftferða eftir lögum þessum, skal til sönnunar um loft hæfi sitt hafa lofthæfisskírteini um borð sem er gefið út eða staðfest af Flugmálastjórn.
    Erlent loftfar í loftferðum um íslenskt yfirráðasvæði skal annaðhvort hafa slíkt skírteini eða lofthæfisskírteini sem gefið hefur verið út eða staðfest í erlendu ríki sem samið hefur verið við um viðurkenningu þess háttar skírteinis hér á landi.

24. gr.


    Lofthæfisskírteini verður ógilt:
     a.     þegar ekki er fylgt skyldubundinni viðhaldsstjórnun eða skyldubundið viðhald hefur ekki verið framkvæmt á loftfari,
     b.     þegar gerð hefur verið óheimil breyting á loftfari eða búnaði þess,
     c.     þegar loftfar eða búnaður þess hefur orðið fyrir spjöllum sem einsýnt er að máli skipta um lofthæfi þess,
     d.     lögskyldar vátryggingar falla úr gildi.
    Verði skírteini ógilt getur Flugmálastjórn krafist afhendingar þess. Ógildingin helst uns bætt hefur verið úr ágöllum þeim sem um er að ræða.

25. gr.


    Ákvæði 22. og 24. gr. um íslenskt lofthæfisskírteini skulu með tilsvarandi hætti eiga við um staðfestingu Flugmálastjórnar á erlendu lofthæfisskírteini og um endurnýjun og ógildingu slíkrar staðfestingar.

26. gr.


    Umráðanda loftfars samkvæmt loftfaraskrá, sem notað er til loftferða samkvæmt lögum þessum, ber skylda til að sjá svo um að loftfar í notkun sé lofthæft og ber hann ábyrgð á að því fylgi gilt lofthæfisskírteini.
    Ef eitthvað ber við sem máli skiptir um lofthæfi skal skráður umráðandi í loftfaraskrá eða flugstjóri loftfars tilkynna Flugmálastjórn það svo fljótt sem verða má og veita henni alla vit neskju sem nauðsynleg er við framkvæmd eftirlits með lofthæfinu.
    Flugmálastjórn skal heimilt að veita undanþágur frá ákvæðum þessa kafla og reglum sett um samkvæmt þeim þegar nauðsynlegt þykir að prófa kosti loftfars eða aðrar sérstakar ástæður eru til.

27. gr.


    Flugmálastjórn, svo og aðila þeim eða yfirvaldi er getur í 2. mgr. 21. gr. og Flugmála stjórn hefur samþykkt, er heimill aðgangur að hverju því loftfari sem notað er til loftferða eftir lögum þessum. Nefndum aðilum er heimilt að framkvæma hverja þá rannsókn á loftfar inu og búnaði þess sem þeir telja nauðsynlega við skoðun og eftirlit. Sömu aðilum er í þessu skyni heimilt að krefja umráðanda samkvæmt loftfaraskrá, flugstjóra og áhöfn loftfars þeirr ar aðstoðar sem þörf er á. Þeim er þannig heimilt að krefjast þess að loftfarið sé haft tiltækt til skoðunar, það affermt og prófflug og önnur próf framkvæmd. Heimild þessi tekur jafn framt til erlendra loftfara sem eiga viðdvöl á Íslandi.
    Rannsókn samkvæmt þessari grein skal framkvæma með þeirri nærgætni sem kostur er.

28. gr.


    Flugmálastjórn getur ákveðið að smíði loftfara, búnaðar, tækja og varahluta þeirra og nánar tiltekin störf við viðhald, viðgerðir og breytingar á loftförum, búnaði, tækjum og vara hlutum þeirra skuli einungis falin viðurkenndum viðhaldsaðilum eða framleiðendum.

V. KAFLI


Flugverjar.


29. gr.


    Hvert það loftfar sem notað er til loftferða samkvæmt lögum þessum skal skipað áhöfn í samræmi við fyrirmæli stjórnvalda. Í áhöfn eru starfsmenn sem gegna starfi um borð í loft fari meðan á fartíma stendur, enda telst starf þeirra nauðsynlegt fyrir örugga starfrækslu loft farsins eða fyrir öryggi farþeganna.
    Skráður umráðandi samkvæmt loftfaraskrá og flugstjóri loftfars ábyrgjast að það sé rétti lega skipað áhöfn.

30. gr.


    Umráðandi loftfars er ábyrgur fyrir því að ákvæði um áhöfn séu haldin. Flugmálastjórn hefur eftirlit með því að ákvæði um áhöfn séu haldin. Henni er heimilt að láta íslenskan eða erlendan aðila eða erlent yfirvald, sem til þess er hæft samkvæmt íslenskum lögum, fram kvæma eftirlitið.

31. gr.


    Samgönguráðherra ákveður með reglugerð hvaða skilyrðum flugliðar er í loftfari starfa skuli fullnægja um ríkisfang, aldur, líkamlegt og andlegt hæfi, reglusemi, menntun og þjálfun. Hann ákveður jafnframt með reglugerð hvaða flugverjar skuli bera skírteini því til staðfestu að þeir fullnægi skilyrðunum og nefnast þeir flugliðar.

32. gr.


    Flugmálastjórn gefur út skírteini flugliða, enda sanni sá er í hlut á að hann fullnægi skil yrðum til að rækja starfann.
    Skírteini má binda við loftferðir loftfara tiltekinnar tegundar eða loftferðir á tilteknu svæði.
    Skírteini skal gefa út í samræmi við reglugerð sem samgönguráðherra setur, enda fullnægi handhafi þess lögmæltum skilyrðum til starfans. Um staðfestingu erlendra skírteina skal fara samkvæmt sömu reglugerð.
    Heimilt er Flugmálastjórn að synja þeim manni skírteinis sem dæmdur hefur verið fyrir refsiverða hegðun sem veitir ástæðu til að ætla að hann misfari með skírteinið, enda hafi brot varðað varðhaldi eða fangelsi.

33. gr.


    Flugmálastjórn er heimilt að synja um viðurkenningu á skírteini sem annað ríki hefur veitt íslenskum ríkisborgara, að því er tekur til loftferða yfir íslensku yfirráðasvæði, ef ekki leiðir annað af milliríkjasamningum.

34. gr.


    Hafi maður skírteini, sem Flugmálastjórn hefur gefið út eða metið gilt, skal hann svo fljótt sem verða má tilkynna henni atriði sem máli skipta er meta skal hvort hann fullnægir áfram skilyrðum til starfans. Honum er skylt hvenær sem er að gangast undir þá rannsókn og þau próf sem Flugmálastjórn telur nauðsynleg.
    Verði læknir þess vís að flugliði er haldinn slíkri heilsubilun að hætta stafi af starfa hans í loftfari ber lækninum að vara hann við og tilkynna Flugmálastjórn vitneskju sína.
     Flugmálastjórn getur hvenær sem er fellt skírteini úr gildi ef hún telur að skírteinishafi fullnægi ekki lengur skilyrðum til þess starfs sem skírteinið varðar. Að jafnaði skal skírteinið þá fyrst fellt úr gildi um stundarsakir eða þar til útkljáð er hvort það skuli endanlega fellt úr gildi.

35. gr.


    Flugmálastjórn er heimilt að leyfa að loftfar sé notað til loftferða í æfingarskyni eða ann ars séu sérstakar ástæður til þótt það sé eigi skipað áhöfn samkvæmt ákvæðum þessa kafla.

36. gr.


    Flugverji skal hlýða skipunum yfirmanna sinna í starfa sínum, vera umhyggjusamur um loftfar, menn og varning sem í því eru og rækja starfsskyldur sínar af samviskusemi.

37. gr.


    Enginn flugverji eða annar starfsmaður má hafa með hendi starfa í loftfari, vera við stjórn loftfars, stjórna loftferðum eða veita öryggisþjónustu vegna loftferða sé hann vegna neyslu áfengis, örvandi eða deyfandi lyfja, vegna sjúkdóms eða þreytu eða annarrar líkrar orsakar óhæfur til að rækja starfann á tryggilegan hátt.
    Nú er vínandamagn í blóði yfir 0,2‰ eða áfengi í líkama sem leitt getur til slíks vínanda magns í blóði og telst hlutaðeigandi þá undir áhrifum áfengis og ekki hæfur til þess starfa sem getur í 1. mgr. Það leysir ekki undan sök þótt maður haldi vínandamagn í blóði sínu minna.
    Enginn þeirra sem hér um ræðir má neyta áfengis síðustu átta klukkustundirnar áður en störf eru hafin né heldur meðan verið er að starfi. Varðar það að jafnaði skírteinismissi, ekki skemur en í þrjá mánuði en fyrir fullt og allt ef sakir eru miklar eða brot ítrekað. Þá mega þeir ekki neyta áfengis, örvandi eða deyfandi lyfja næstu sex klukkustundir eftir að vinnu lauk, enda hafi þeir ástæðu til að ætla að atferli þeirra við starfann sæti rannsókn. Lögreglu mönnum er heimilt þegar rökstudd ástæða er til að flytja aðila til læknis til rannsóknar, þar á meðal til blóð- og þvagrannsóknar, og er honum skylt að hlýta nauðsynlegri meðferð lækn is.
    Samgönguráðherra er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um lágmarkshvíldartíma með það að markmiði að tryggja fyllsta flugöryggi.

38. gr.


    Ef flugverji veikist eða slasast fjarri heimili sínu og fjarvistin er vegna starfs hans ber vinnuveitanda að greiða allan kostnað við læknishjálp, sjúkrahúsvist og flutning sjúklings til heimilis hans.

39. gr.


    Samgönguráðherra kveður á um að hve miklu leyti ákvæði þessa kafla skuli taka til er lends loftfars á íslensku yfirráðasvæði.

40. gr.


    Flugstjóri skal vera í hverju því íslensku loftfari sem notað er til loftferða samkvæmt lög um þessum.
    Flugstjóri hefur æðsta vald í loftfari.

41. gr.


    Flugstjóri sér um að loftfar hafi ferðbundið lofthæfi og sé tilhlýðilega búið, skipað áhöfn og fermt, og að flug sé að öðru leyti undirbúið og framkvæmt samkvæmt gildandi reglum.
    Flugstjóri skal tilkynna Flugmálastjórn um atriði sem máli skipta um lofthæfi og láta henni í té skýrslur sem nauðsynlegar eru við framkvæmd eftirlits með lofthæfinu. Honum er skylt samkvæmt reglum er Flugmálastjórn setur að gefa Flugmálastjórn skýrslur um atriði sem máli skipta þegar meta skal starfshæfni flugverja.

42. gr.


    Flugstjóri hefur undir sinni forsjá loftfar, áhöfn, farþega og farm.
    Honum er heimilt, þegar hann telur nauðsyn til, að setja flugverja um stundarsakir til ann arrar þjónustu en þeirrar sem þeir eru ráðnir til.
    Farþegum er skylt að fara eftir þeim fyrirmælum sem flugstjóri setur um góða hegðun og reglu í loftfari.
    Flugstjóra er heimilt, þegar nauðsyn ber til, að synja viðtöku í loftfar eða vísa úr því flug verjum, farþegum eða varningi og farangri.

43. gr.


    Flugstjóra er heimilt að þröngva mönnum með valdi til hlýðni við sig, enda sé það nauð synlegt til að halda uppi góðri hegðun og reglu í loftfari.
    Ef loftfar er í hættu statt eða annars konar neyðarástand er fyrir hendi er flugstjóra heimilt að beita hverri þeirri aðferð sem nauðsynleg er til að koma á reglu og hlýðni. Hverjum flug verja er skylt, án þess að á hann sé skorað, að veita flugstjóra aðstoð.
    Ef manni, sem neitar að hlýða, er veittur áverki getur hann einungis komið fram ábyrgð af þeim sökum að harðari aðferðum hafi verið beitt en ástæða var til.

44. gr.


    Ef stórfellt lögbrot er framið í loftfari ber flugstjóra að gera þær ráðstafanir sem hann get ur og nauðsynlegar eru til að afla réttrar vitneskju um málið og sem eigi má að meinalausu fresta.
    Flugstjóri skal, svo sem kostur er, sjá um að hinn grunaði komist eigi undan og er flug stjóra heimilt, ef nauðsyn ber til, að setja hann í gæslu uns hann verður afhentur lögreglu á Íslandi eða yfirvöldum er í hlut eiga erlendis.
    Flugstjóra er heimilt að taka í sína umsjá hluti sem ætla má að séu sönnunargögn uns þeir verða afhentir lögreglu eða yfirvöldum.

45. gr.


    Flugstjóri ber ábyrgð á að lögmæltar dagbækur og önnur flugskjöl séu í loftfari og að skráð sé í bækur þessar og skjöl svo sem lög og stjórnvaldsfyrirmæli segja til um.

46. gr.


    Lendi loftfar í háska skal flugstjóri gera allt sem honum er unnt til bjargar loftfari, mönn um og varningi sem í því eru. Ef nauðsyn ber til að yfirgefa loftfarið skal hann eftir megni sjá um að flugskjölum sé komið á óhultan stað.

47. gr.


    Verði flugslys sem af hlýst mannslát, stórfelld meiðsl á mönnum eða stórfelld spjöll á loft fari eða eignum utan þess ber flugstjóra eða öðrum flugverjum tafarlaust að sjá um að rann sóknarnefnd flugslysa sé tilkynnt um slysið og gefa síðan skýrslu um það svo fljótt er verða má. Sama gildir ef alvarleg hætta á slíku slysi hefur vofað yfir eða eitthvað hefur gerst sem til þess bendir að meiri háttar löstur sé á loftfari, flugvelli eða flugleiðsögubúnaði eða rekstri þeirra.
    Ef flugstjóra er eigi unnt að gefa hina lögmæltu tilkynningu eða skýrslu hvílir skylda til þess á skráðum umráðanda loftfars í loftfaraskrá.
    Samgönguráðherra er heimilt að setja nánari reglur um þessa tilkynningarskyldu, að ákveða að skylda þessi taki til fleiri flugverja en flugstjóra eða að tilkynna skuli fleirum en rannsóknarnefnd flugslysa.

VI. KAFLI


Vinnuumhverfi áhafna loftfara.


48. gr.


    Ákvæði þessa kafla gilda um alla starfsemi sem áhöfn loftfars vinnur fyrir flugrekanda.
    Flugrekandi er sá sem fengið hefur leyfi til loftferðastarfsemi í samræmi við ákvæði laga þessara.
    Með ákvæðum þessa kafla er leitast við að:
     a.     tryggja öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi,
     b.     tryggja að flugrekendur og áhafnir geti í sameiningu leyst öryggis- og heilbrigðisvandamál um borð í loftförum.

49. gr.


    Flugrekandi skal stuðla að góðum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi um borð í loftförum og að virkt eftirlit sé með því að vinnuumhverfi þar fullnægi settum kröfum.

50. gr.


    Hjá flugrekanda, þar sem starfa einn til fjórir flugverjar, skulu úrbætur á vinnuumhverfi gerðar í nánu samstarfi flugrekanda og áhafna.

51. gr.


    Hjá flugrekanda, þar sem starfa fimm flugverjar eða fleiri, skulu starfsmenn tilnefna einn öryggistrúnaðarmann fyrir hverja tegund loftfara eða annað afmarkað vinnusvæði til að vera fulltrúi þeirra í málum sem varða vinnuumhverfi um borð í loftförum.
    Atvinnurekandi ber kostnað af starfi öryggistrúnaðarmanns og bætir honum tekjutap sem af því kann að hljótast.
    Öryggistrúnaðarmenn njóta þeirrar verndar sem ákveðin er í 11. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

52. gr.


    Hjá flugrekanda, þar sem starfa fimm flugverjar eða fleiri, skal stofna öryggisnefnd.
    Í öryggisnefnd skulu eiga sæti tveir fulltrúar flugverja, þar af annar fulltrúi flugliða, og tveir fulltrúar flugrekanda.
    Öryggisnefndin skipuleggur aðgerðir varðandi bætt vinnuumhverfi um borð í loftförum og annast fræðslu starfsmanna um þessi efni.

53. gr.


    Þegar starfsmenn Flugmálastjórnar koma í eftirlitsferðir í fyrirtæki skulu þeir hafa sam band við hlutaðeigandi öryggistrúnaðarmann og fulltrúa í öryggisnefnd. Þeim aðilum skal auðvelda, svo sem kostur er, að leggja mál fyrir Flugmálastjórn.

54. gr.


    Flugmálastjórn setur nánari reglur um skipulag og framkvæmd ráðstafana er miða að auknu öryggi og bættum aðbúnaði og hollustuháttum um borð í loftförum. Þar má nefna regl ur um stofnun samstarfshópa og öryggisnefnda, um verkefni þeirra og um daglega stjórn þeirrar starfsemi er lýtur að auknu öryggi og bættu vinnuumhverfi.

55. gr.


    Flugmálastjórn skipar vinnuverndarráð.
    Verkefni ráðsins skal vera:
     a.     að vera ráðgefandi fyrir flugmálastjóra í málum varðandi vinnuumhverfi um borð í loftförum,
     b.     að gera tillögur og veita umsagnir um nýjar reglur eða breytingu á eldri reglum um vinnuumhverfi um borð í loftförum,
     c.     að fjalla um einstök mál sem ráðherra eða flugmálastjóri leggur fyrir það og eiga frumkvæði að málum sem hafa áhrif á vinnuumhverfi áhafna.
    Flugmálastjórn skal sjá um að þegar nauðsyn krefur standi ráðinu til boða sérfræðileg að stoð.
    Vinnuverndarráðið er skipað fjórum fulltrúum frá áhöfnum og fjórum fulltrúum frá flug rekendum. Flugmálastjórn skipar formann án tilnefningar. Varamenn eru skipaðir á sama hátt.
    Flugmálastjóri eða fulltrúi hans situr fundi ráðsins ásamt þeim starfsmönnum Flugmála stjórnar, sem hann telur ástæðu til eða ráðið óskar eftir, með málfrelsi og tillögurétti.
    Flugmálastjórn setur nánari reglur um starfsemi ráðsins.

VII. KAFLI


Flugvellir og flugleiðsaga.


56. gr.


    Flugvellir skulu fullnægja þeim kröfum sem samgönguráðherra setur í reglugerð eða gilda samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að, eftir því sem landfræðilegar aðstæður leyfa.

57. gr.


    Vilji annar aðili en íslenska ríkið útbúa og starfrækja flugvöll til almennra nota þarf leyfi samgönguráðherra. Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar þeirrar sveitarstjórnar sem í hlut á.
    Leyfið skal vera tímabundið og bundið þeim skilyrðum sem samgönguráðherra telur nauð synleg.
    Leyfið má taka aftur ef leyfishafi brýtur í rekstri sínum í mikilvægum atriðum ákvæði laga eða reglna sem slíkan rekstur varða.

58. gr.


    Samgönguráðherra er heimilt að framkvæma eignarnám á hvers kyns fasteignaréttindum vegna gerðar og reksturs flugvalla eða flugleiðsögubúnaðar. Um framkvæmd eignarnámsins fer samkvæmt lögum nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms.

59. gr.


    Samgönguráðherra er heimilt að setja skipulagsreglur fyrir flugvelli sem ætlaðir eru til almennrar notkunar.
    Skipulagsreglur skulu m.a. geyma fyrirmæli um það svæði utan sjálfs flugvallarins þar sem rétt er að setja takmörkun á hæð mannvirkja og annarra hluta, t.d. húsa, stanga og trjáa, eða takmörkun á meðferð fasteigna eða hluta, t.d. að því er varðar leiðslur eða atvinnurekst ur, enda séu slíkar kvaðir nauðsynlegar í þágu almenns öryggis. Kveða skal glöggt á um mörk þess svæðis sem skipulagið tekur yfir.

60. gr.


    Innan skipulagssvæðis skal greina hinar mismunandi takmarkanir á mannvirkjahæð sem nauðsynlegar eru til öruggrar lendingar og öruggs flugtaks.
    Skipulagsreglur skulu kveða á um tiltekna geira fyrir aðflug og brottflug.
    Setja má reglur um tímabundið skipulag.
    Uppkast að fyrirhuguðum skipulagsreglum skal liggja frammi mönnum til sýnis á hentug um stað og skal auglýsa framlagningu í Lögbirtingablaði og skora á fasteignaeigendur og aðra sem í hlut eiga að gera athugasemdir við það áður en liðinn er frestur sem eigi má vera styttri en fjórar vikur.
    Flugmálastjórn skal taka til ítarlegrar athugunar þær athugasemdir sem fram kunna að koma og gefa þeim sem í hlut eiga færi á því að kynna sér breytingar áður en gengið er frá skipulagi til fullnaðar. Fullnaðarskipulag skal birta með sama hætti og uppkastið.
    Þinglýsa skal kvöð sem lögð er á fasteignir vegna flugvalla, enda skipti kvöð máli.

61. gr.


    Eigi má víkja frá hæðartakmörkun eða öðrum takmörkunum um forræði eigna, sem í skipulagsreglum segir, án samþykkis Flugmálastjórnar. Fyrir slíku samþykki má setja skil yrði, svo sem um breytingar eða merkingar þeirra bygginga sem máli skipta.
    Ef takmörkun er eigi hlítt án þess að fyrir liggi samþykki skal Flugmálastjórn setja þeim er í hlut á frest til að ganga löglega frá málum. Sama gildir ef eigi eru haldin skilyrði fyrir samþykki eftir 1. mgr.
    Ef frestur líður án þess að úr sé bætt er Flugmálastjórn heimilt að framkvæma nauðsyn legar aðgerðir með atbeina lögreglu og á kostnað þess sem í hlut á.

62. gr.


    Ef loftferðatálmi er fyrir hendi sem fer í bága við skipulagið þegar skipulagsreglur taka gildi skal fjarlægja hann, enda samþykki Flugmálastjórn eigi að hann haldist.

63. gr.


    Ef lögð er kvöð á eign manns eða forræðisskerðing vegna flugvallar á eigandi hennar eða réttindahafi kröfu til skaðabóta úr hendi eiganda flugvallar, enda hafi kvöð eða forræðis skerðing í för með sér að eignin verði eigi hagnýtt til fulls miðað við stærð hennar, legu og allar aðstæður eða eigandi hennar verður fyrir fjárhagstjóni sem hann á að fá bætt eftir meg inreglum laga.
    Bóta má einnig krefjast úr hendi eiganda flugvallar þegar aðili verður fyrir skaða vegna framkvæmda er getur í 62. gr.
    Ríkið ábyrgist að skaðabætur séu af hendi inntar.

64. gr.


    Skaðabætur skal ákveða eftir reglum laga um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973.
    Krefjandi skaðabóta getur beiðst mats innan þess frests sem ákveðinn er í skipulagsregl um. Frestur má eigi vera styttri en tvö ár frá birtingu skipulagsreglna. Samgönguráðherra er heimilt að veita framlengingu um sex mánaða tímabil frá lokum frests.

65. gr.


    Flugmálastjórn skal sjá um að hinni fyrirskipuðu forræðisskerðingu á eignum og mann virkjum sé hlítt. Ef brugðið er út af þessu ber að tilkynna það Flugmálastjórn tafarlaust.

66. gr.


    Við breytingu á skipulagsreglum skal beita sömu aðferð og við setningu nýrra. Veita má tilslökun á forræðisskerðingu án þess að uppkast liggi áður frammi til sýnis.

67. gr.


    Skipulagsreglur skulu halda gildi sínu uns samgönguráðherra fellir þær úr gildi eða gildis tími þeirra er útrunninn.
    Ef skipulagsreglur eru felldar úr gildi taka ákvæði 3. og 4. mgr. 60. gr. til þess með til svarandi hætti.

68. gr.


    Flugmálastjórn er heimilt að krefjast þess að tálmar utan svæðis sem skipulag tekur yfir, er vegna hæðar mega teljast hættulegir flugumferð, séu fjarlægðir eða merktir. Beitt skal eignarnámi ef þörf krefur. Kostnaður, þar með taldar skaðabætur handa eiganda eða notanda, greiðist úr ríkissjóði.

69. gr.


    Flugmálastjórn er heimilt að kveða svo á að eigi skuli setja upp eða nota og, sé því að skipta, að brott skuli nema eða færa í annað horf merki, ljós eða hljóðvirki, tæki er senda frá sér útvarpsbylgjur eða annan tækjabúnað sem telja má flugumferð stafa hættu af.
    Um skaðabætur fer eftir almennum reglum laga.

70. gr.


    Flugmálastjórn er heimilt að takmarka aðgang að flugvöllum og flugvallarsvæðum, um ferð um þau og dvöl loftfara á þeim, svo og að banna umgengni eða dvöl á slíkum svæðum ef hún telur það nauðsynlegt vegna öryggis.
    Flugmálastjórn skal sjá um að framfylgt verði þjóðréttarlegum skuldbindingum ríkisins á sviði flugverndar.
    Til að auka flugöryggi er Flugmálastjórn eða þeim sem hún felur framkvæmd þessa heim ilt að leita á mönnum og í farangri áður en gengið er um borð í loftfar. Synja skal þeim mönnum um brottför sem neita að undirgangast leit. Leit skal framkvæmd með svo mikilli tillitssemi sem unnt er og hún má aldrei verða víðtækari en nauðsynlegt er. Sá sem sætir leit getur krafist þess að ákveðið vitni sé tilkvatt.

71. gr.


    Heimta má gjöld til að standa undir kostnaði við rekstur flugvalla eða flugleiðsögutækja í þágu loftferða, sem eru til almennra nota, eftir reglum sem samgönguráðherra setur. Þá er heimilt að heimta gjöld fyrir þá aðstöðu sem starfsemi tengd flugsamgöngum nýtur á flug völlum. Taka má gjöld fjárnámi.
    Enn fremur er heimilt að heimta gjöld til greiðslu á kostnaði við rekstur flugumferðar stjórnar í þágu loftferða eftir reglum sem settar eru af samgönguráðherra. Gjöld þessi eru kræf vegna loftferða yfir íslensk yfirráðasvæði, svo og yfir úthafið og erlend yfirráðasvæði, þegar um það hefur verið samið milli Íslands og viðkomandi ríkis. Taka má gjöld þessi með fjárnámi.
    Heimilt er samgönguráðherra að semja við stjórnvöld annarra ríkja um að þau taki að sér innheimtu á þessum gjöldum.
    Gjaldskyldan hvílir á skráðum umráðendum í loftfaraskrá að íslenskum loftförum og á eigendum erlendra loftfara vegna ferða um svæðið þar sem þjónusta er veitt eða flugvellir eru. Taka má gjöldin fjárnámi.

72. gr.


    Flugvelli og önnur mannvirki í þágu loftferða sem eru til almennra nota mega erlend loft för einnig nota með sömu skilyrðum og íslensk loftför í sams konar milliríkjaferðum, enda sé fyrir hendi samningur um þetta við það erlenda ríki sem í hlut á. Við komu til eða brottför frá landinu er þó skylt að nota tollhafnir.

73. gr.


    Samgönguráðherra er heimilt að kveða á um hvaða skilyrðum þeir þurfa að fullnægja sem starfa við flugumferðarstjórn, á flugvelli eða við flugleiðsögubúnað eða hafa á hendi annað það starf utan loftfars sem mikilsvert er fyrir öryggi loftferða. Ráðherra getur jafnframt sett reglur um starfsskírteini fyrir slíkum starfa.

74. gr.


    Ákvæði 34. og 37. gr. taka með viðeigandi hætti til flugumferðarstjóra og einnig þeirra sem hafa eftirlit með loftförum og loftferðum eða hafa á hendi tæknistörf við loftfar eða önn ur mikilsverð störf fyrir öryggi loftferða eftir því sem samgönguráðherra kveður um í reglu gerð.

VIII. KAFLI


Umferð í lofti og stjórn hennar.


75. gr.


    Flugumferðarþjónustu skal veita loftförum til að tryggja flugöryggi.
    Samgönguráðherra setur reglur um flugumferðarþjónustuna og framkvæmd hennar.

76. gr.


    Samgönguráðherra er heimilt að kveða á um að loftferðir á tilteknum leiðum eða yfir til teknum svæðum skuli háðar sérstöku skipulagi.
    Samgönguráðherra er heimilt að setja reglur um flugleiðir loftfara inn á íslenskt yfirráða svæði og yfir því og hverja flugvelli megi nota í millilandaflugi.
    Samgönguráðherra setur reglur um verndarráðstafanir sem gerðar skulu til að afstýra árekstri loftfara, öðrum flugslysum, hættum og óhagræði af loftferðum.

77. gr.


    Flugmálastjórn er heimilt að skipa loftfari að lenda, enda miði sú aðgerð að því að halda uppi allsherjarreglu og öryggi. Lenda skal þá svo skjótt sem kostur er. Ef skipun er ekki ann ars efnis skal loftfar lenda á næsta flugvelli hér á landi sem er til almennra flugnota og lenda má á.
    Ef loftfar flýgur inn á svæði þar sem loftferðir eru bannaðar skal loftfarið tafarlaust fljúga út fyrir svæðið og tilkynna þetta þeim handhafa stjórnvalds sem í hlut á.
    Fari stjórnandi loftfars eigi eftir fyrirmælum þessarar greinar er handhafa stjórnvaldsins heimilt með viðeigandi ráðum að hindra áframhaldandi flug loftfarsins.

78. gr.


    Hergögn má eigi flytja í loftförum án leyfis samgönguráðherra. Samgönguráðherra setur í samráði við dómsmálaráðherra fyrirmæli um hvað telst hergögn. Samgönguráðherra er heimilt í samráði við dómsmálaráðherra að veita undanþágu frá ákvæðum þessarar greinar.
    Samgönguráðherra er heimilt að banna eða setja reglur um flutning annars varnings en hergagna til að halda uppi allsherjarreglu og öryggi.

79. gr.


    Flugmálastjórn, lögreglu og tollyfirvöldum er heimilt að rannsaka loftfar og sannreyna þau skjöl sem loftfar og flugverjar skulu hafa meðferðis.

IX. KAFLI


Flugrekstrarleyfi.


80. gr.


    Leyfi Flugmálastjórnar þarf til loftferða í atvinnuskyni yfir íslensku yfirráðasvæði.

81. gr.


    Flugrekstrarleyfi skal veita sé fullnægt skilyrðum laga þessara og reglna sem settar eru samkvæmt þeim.

82. gr.


    Skilyrði flugrekstrarleyfis eru:
     a.     að umsækjandi uppfylli skilyrði 10. gr. laga þessara um skrásetningu á loftfari,
     b.     að umsækjandi uppfylli skilyrði sem samgönguráðherra setur um fjármögnun flugrekstrarins,
     c.     að umsækjandi hafi hlotið flugrekandaskírteini frá Flugmálastjórn í samræmi við gildandi reglugerðir.

83. gr.


    Veita skal leyfi og binda þau skilyrðum sem nauðsynleg þykja að því marki sem það sam rýmist öðrum lögum eða milliríkjasamningum auk skilyrða skv. 82. gr. Flugrekstrarleyfið fellur úr gildi ef einhverju framangreindra skilyrða er ekki lengur fullnægt.

84. gr.


    Brjóti leyfishafi í mikilvægum atriðum lagaboð, önnur fyrirmæli um starfsemina, skilyrði leyfis eða hann reynist ófær um að reka starfsemina skal svipta hann leyfi.

85. gr.


    Flugmálastjórn getur ákveðið að erlend loftför, sem íslenskur aðili notar eða ræður yfir í atvinnuskyni, skuli lúta lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim er varða íslensk loftför.
    Sé skilyrðum 1. mgr. fullnægt telst loftfarið íslenskt í skilningi 2. tölul. 4. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

X. KAFLI


Loftflutningar.


Gildissvið.


86. gr.


    Ákvæði þessa kafla taka yfir flutninga í loftfari á farþegum, farangri eða varningi, enda sé flutningur inntur af hendi í atvinnuskyni sem liður í flugrekstri hlutaðeigandi flytjanda.
    Nú framkvæmir flugrekandi flutninga, og gilda þá ákvæði þessa kafla, enda þótt flutning ur sé ókeypis.

87. gr.


    Ákvæði kafla þessa gilda eigi um póstflutninga.
    Ákvæðin um flutningaskjöl í 88.–94. gr. taka eigi til flutninga sem inntir eru af hendi við óvenjulegar aðstæður og falla utan venjulegrar loftferðastarfsemi.

Flutningaskjöl.


88. gr.


    Þegar farþegar eru fluttir skal flytjandi afhenda farseðil þar sem greina skal:
     a.     brottfararstað og ákvörðunarstað,
     b.     að minnsta kosti einn umsaminn viðkomustað á leiðinni, svo fremi brottfararstaður og ákvörðunarstaður séu í sama ríki og samið sé um einn eða fleiri viðkomustaði í öðru ríki,
     c.     að flutningurinn megi hlíta ákvæðum Varsjársáttmálans eða lögum sem með samsvarandi hætti og sáttmálinn takmarka að jafnaði ábyrgð flytjanda á mannskaða og glötun eða tjóni á farangri, með þeim takmörkunum þó sem greinir í lögum þessum.
    Nú eru eigi færðar sönnur á annað, og telst farseðill sönnun um gerð flutningssamnings og flutningskjör.
    Ef farseðill er eigi gefinn út eða efni hans er eigi það er mælt var eða hann hefur glatast er flutningssamningur engu að síður gildur.
    Þegar farþegi er með samþykki flytjanda í loftfari, án þess að farmiði sé afhentur, eða far miði geymir eigi þá tilvísun sem í c-lið greinir getur flytjandi eigi borið fyrir sig ákvæði laga þessara um takmörkun ábyrgðar.

89. gr.


    Þegar innrituðum farangri er veitt viðtaka til flutnings skal gefa út farangursmiða. Ef far angursmiði er eigi festur við eða felldur inn í farseðil farþega sem fullnægir kröfum 1. mgr. 88. gr. skal á farangursmiða greina:
     a.     brottfararstað og ákvörðunarstað,
     b.     að minnsta kosti einn umsaminn viðkomustað á leiðinni, svo fremi brottfararstaður og ákvörðunarstaður séu í sama ríki og samið sé um einn eða fleiri viðkomustaði í öðru ríki,
     c.     að flutningurinn megi hlíta ákvæðum Varsjársáttmálans eða lögum sem með sama hætti og sáttmálinn takmarka að jafnaði ábyrgð flytjanda á glötun eða tjóni á farangri.
    Ef eigi eru færðar sönnur á annað telst farangursmiði sönnun um innritun og viðtöku far angurs til flutnings og um flutningskjör.
    Nú er farangursmiði eigi gefinn út eða efni hans er eigi það sem mælt var eða hann hefur glatast, og er flutningssamningurinn eigi að síður gildur.
    Ef flytjandi hefur tekið við farangri án þess að afhenda farangursmiða eða farangursmiði geymir eigi þá tilvísun sem í c-lið 1. mgr. greinir og hann er eigi heldur festur við eða felldur inn í farmiða sem geymir tilvísun þá sem greinir í c-lið 1. mgr. 88. gr. getur flytjandi eigi borið fyrir sig ákvæði laga þessara um takmörkun ábyrgðar.

90. gr.


    Þegar varningur er fluttur getur flytjandi krafist þess að sendandi gefi út og afhendi honum skjal sem nefnist flugfarmbréf. Sendandi getur og krafist þess að flytjandi taki við skjali þessu.
    Nú er flugfarmbréf eigi gefið út eða það geymir eigi efni það er mælt var eða það hefur glatast, og er flutningssamningurinn eigi að síður gildur.

91. gr.


    Sendandi skal gefa flugfarmbréf út í þremur eintökum og afhenda þau flytjanda ásamt varningi. Á fyrsta eintakið skal rita „Handa flytjanda“ og skal sendandi undirrita það. Á ann að eintakið skal rita „Handa viðtakanda“ og skulu bæði sendandi og flytjandi undirrita það. Skal það fylgja varningnum. Þriðja eintakið skal flytjandi undirrita og skila sendanda því er varningnum hefur verið veitt viðtaka.
    Flytjandi skal undirrita flugfarmbréf áður en varningur er færður í loftfar. Undirritun má rita með stimpli. Einnig er heimilt að undirritun sendanda sé prentuð eða letruð með stimpli.
    Nú hefur flytjandi gefið út flugfarmbréf eftir beiðni sendanda, og skal talið að hann hafi gert það fyrir hönd sendanda, nema annað sannist.

92. gr.


    Þegar fleiri en einn hlutur varnings eru fluttir skal sendandi gefa út sérstök flugfarmbréf, enda krefjist flytjandi þess.

93. gr.


    Í flugfarmbréfi skal greina:
     a.     brottfararstað og ákvörðunarstað,
     b.     að minnsta kosti einn umsaminn viðkomustað á leiðinni, svo fremi brottfararstaður og ákvörðunarstaður séu í sama ríki og samið sé um einn eða fleiri viðkomustaði í öðru ríki,
     c.     að flutningurinn megi hlíta ákvæðum Varsjársáttmálans eða lögum sem með sama hætti og sáttmálinn takmarka að jafnaði ábyrgð flytjanda á glötun eða tjóni á varningi.

94. gr.


    Ef varningur er með samþykki flytjanda færður í loftfar án þess að flugfarmbréf sé gefið út eða flugfarmbréf geymir eigi tilvísun þá sem greinir í c-lið 93. gr. getur flytjandi eigi borið fyrir sig ákvæði laga þessara um takmörkun ábyrgðar.

95. gr.


    Sendandi er ábyrgur fyrir tjóni sem flytjandi eða einhver sem flytjandi ber ábyrgð gagn vart bíður vegna þess að frásögn sendanda í flugfarmbréfi um varning geymir eigi þau atriði sem mælt var eða er annars röng eða ófullkomin.

96. gr.


    Flugfarmbréf er gild sönnun fyrir gerð flutningssamnings, viðtöku varnings og flutnings skilmálum, enda séu eigi leiddar sönnur að öðru.
    Frásögn flugfarmbréfs um þyngd varnings, umtak, umbúðir og hlutatölu telst rétt, enda séu eigi sönnur leiddar að öðru. Aðrar skýrslur í flugfarmbréfi um magn varnings eða rúmtak eða ástand gilda hins vegar eigi sem sönnun gegn flytjanda, nema hann hafi í viðurvist send anda kannað réttmæti þeirra og staðfest það með áritun á flugfarmbréfið eða skýrslurnar varða sýnilegt ástand vöru.

Réttur til að ráðstafa varningi og afhending hans.


97. gr.


    Nú fullnægir sendandi skuldbindingum sínum samkvæmt flutningssamningi, og er honum, flytjanda eða öðrum sendendum heimilt að ráðstafa varningi þann veg að hann endurheimtir hann á brottfarar- eða ákvörðunarflugvelli, stöðvar flutning hans þá er lent er á leiðinni, læt ur afhenda hann á ákvörðunarstað eða á leiðinni öðrum aðila en þeim sem tilgreindur er í flugfarmbréfi sem viðtakandi eða krefst þess að hann sé fluttur aftur til brottfararflugvallar. Sendandi skal þó greiða kostnað af þessum ráðstöfunum. Nú er eigi unnt að framkvæma fyr irmæli sendanda, og skal flytjandi tilkynna honum það þegar í stað.
    Fari flytjandi eftir fyrirmælum sendanda án þess að lagt sé fram eintak það af farmbréfi sem sendanda var skilað er flytjandi ábyrgur fyrir tjóni sem réttur handhafi flugfarmbréfs bíður við það, en framkröfur á flytjandi þó á hendur sendanda.
    Réttur sendanda fellur niður um leið og réttur viðtakanda hefst skv. 98. gr. Nú neitar við takandi að taka við flugfarmbréfi eða varningi eða fundi hans verður eigi náð, og öðlast þá sendandi á ný ráðstöfunarrétt á varningnum.

98. gr.


    Flytjandi skal, þegar er varningur er kominn á leiðarenda, tilkynna það viðtakanda, enda sé eigi öðruvísi um samið.
    Þegar varningurinn er kominn á ákvörðunarstað getur viðtakandi, sé eigi tilvikum 97. gr. til að dreifa, krafist þess að flytjandi láti af hendi við hann flugfarmbréfið og varninginn gegn greiðslu þess sem ógoldið er og gegn efndum á flutningsskilmálum þeim sem í flugfarm bréfi greinir.

99. gr.


    Viðurkenni flytjandi að varningur hafi glatast eða hann er eigi kominn á leiðarenda í síð asta lagi sjö dögum á eftir áætlun er viðkomanda rétt að neyta þess réttar er flutningssamn ingurinn veitir honum gegn flytjanda.

100. gr.


    Samningur, sem geymir frávik frá ákvæðum 97.–99. gr., er ógildur, nema hann sé tilfærð ur í flugfarmbréfi.

101. gr.


    Sendanda er skylt að gefa þær skýrslur og láta fylgja flugfarmbréfi þau skjöl sem nauð synleg eru til fullnægju toll- og lögregluákvæðum áður en varningur verður afhentur viðtak anda. Sendandi ber ábyrgð gagnvart flytjanda á því tjóni sem hljótast kann af því að þessar skýrslur eða skjöl vantar eða þau eru ófullkomin eða eigi í samræmi við settar reglur, nema flytjandi eða starfsmenn hans hafi gerst sekir um yfirsjón eða vanrækslu.
    Flytjanda er eigi skylt að rannsaka hvort þessar skýrslur og skjöl eru rétt eða fullnægj andi.

Ábyrgð flytjanda.


102. gr.


    Nú lætur farþegi lífið eða hlýtur líkamsmeiðsl eða heilsutjón af völdum slyss sem verður í loftfari eða þá er farið er upp í loftfar eða úr því, og ber flytjandi ábyrgð á því.

103. gr.


    Spillist eða týnist innritaður farangur eða varningur af völdum atburðar sem gerist á þeim tíma er farangurinn eða varningurinn er í vörslum flytjanda, hvort heldur það er á flugvelli, í loftfari eða á hverjum stað öðrum þá er lent er utan flugvallar, ber flytjandi ábyrgð á því.
    Nú tekur flutningssamningur einnig til flutninga á láði eða legi utan flugvallar við ferm ingu, afhendingu eða endurfermingu, og skal hvers konar tjón, sem verður á farangri eða varningi, teljast hafa orðið á þeim tíma er getur í 1. mgr. uns annað sannast.

104. gr.


    Flytjandi ber ábyrgð á tjóni sem verður af völdum dráttar við loftflutning farþega, innrit aðs farangurs eða varnings.

105. gr.


    Flytjandi skal laus úr ábyrgð ef hann leiðir sönnur að því að hann sjálfur og starfsmenn hans hafi gert allar nauðsynlegar varúðarráðstafanir til þess að afstýra tjóni eða það hafi eigi verið á þeirra valdi.
    Málsvörn samkvæmt ákvæðum 1. mgr. er flugrekanda þó því aðeins heimilt að bera fyrir sig að höfuðstóll bótaskyldrar tjónsfjárhæðar þeirra tjóna sem um getur í 102. gr. fari fram úr jafnvirði 100.000 SDR í íslenskum krónum, nema ákvæði 106. gr. eigi við. Slík málsvörn er þó því aðeins heimil hvað varðar þann hluta sem fram úr þessum fjárhæðarmörkum fer að ákvæði 106. gr. eigi við.

106. gr.


    Nú sannar flytjandi að sá sem fyrir tjóninu varð hafi sjálfur verið valdur eða samvaldur að því, og má færa skaðabætur niður eða fella þær niður.

107. gr.


    Þegar farþegar eru fluttir skulu bótafjárhæðir í tjónstilvikum sem valda örorku eða dauða ákvarðaðar samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga.
    Flugrekandi skal þó án tafar og ekki síðar en 15 dögum eftir að ljóst er hver hinn slasaði eða látni er inna af hendi fyrirframgreiðslu til að mæta bráðum fjárhagsþörfum og skal greiðslan taka mið af aðstæðum. Greiðsla þessi skal ekki vera lægri en sem nemur jafnvirði 15.000 SDR í íslenskum krónum vegna hvers farþega sé um dauðaslys að ræða. Það að inna fyrirframgreiðslu þessa af hendi jafngildir þó ekki viðurkenningu á ábyrgð og kemur til frá dráttar við endanlegt uppgjör bóta vegna slyssins. Hún er þó ekki afturkræf, nema í þeim til vikum sem greinir í 106. gr., þ.e. að flugrekandi sannar að farþegi hafi verið valdur eða sam valdur að slysinu eða að sá sem greiðsluna fékk hafi ekki átt lögvarið tilkall til hennar.
    Nú er innritaður farangur eða varningur fluttur, og skal hámarksábyrgð flytjanda vera jafnvirði 17 SDR í íslenskum krónum á kg. Nú hefur farþegi eða sendandi, þá er farangur eða varningur er afhentur flytjanda, tilgreint sérstaklega þá hagsmuni sem tengdir eru við afhend ingu farangurs eða varnings á ákvörðunarstað og greitt það aukafarmgjald sem kveðið kann að vera á um, og gildir þá hin tiltekna fjárhæð sem hámark á ábyrgð flytjanda, nema hann sanni að raunverulegir hagsmunir farþega eða sendanda hafi verið minni. Nú er um að tefla glötun, spjöll eða seinkun á hluta hins innritaða farangurs eða varnings eða einhvers sem í farangri eða varningi kann að felast, og skal einungis leggja heildarþunga þess varnings sem þannig stendur á um til grundvallar við ákvörðun á hámarksábyrgð flytjanda. Ef glötun, spjöll eða seinkun lækkar verðmæti annarra hluta varnings sem sami farangursmiði eða sama flugfarmbréf tekur til skal einnig taka með heildarþunga þessara varningshluta við ákvörðun á hámarksábyrgð.
    Hámarksábyrgð flytjanda á varningi, sem farþegar halda í vörslum sínum, skal vera jafn virði 332 SDR í íslenskum krónum til hvers farþega.
    Heimilt er dómara að dæma sækjanda málskostnað án tillits til hámarksábyrgðar sam kvæmt grein þessari. Þetta gildir þó eigi ef flytjandi hefur áður en sex mánuðir eru liðnir frá því er atburður sá gerðist er tjónið hlaust af eða áður en mál er höfðað boðið sækjanda skrif lega skaðabætur sem eigi eru lægri en dæmd fjárhæð að undanskildum málskostnaði.
    Með SDR er vísað til sérstakra dráttarréttinda eins og þau er skilgreind af Alþjóðagjald eyrissjóðnum og gengisskráningar Seðlabanka Íslands á þeim. Umreikningur í íslenskar krónur skal miðast við skráð gengi á þeim degi sem bótaskylt tjón varð.

108. gr.


    Ógildur er áskilnaður sem miðar að því að leysa flytjanda undan ábyrgð eða kveður á um lægri hámarksábyrgð en í 105. og 107. gr. segir.
    Farseðill skal greina skilmála skv. 105. og 107. gr. á einfaldan og skýran hátt.
    Þegar varningur er fluttur er flytjanda leyfilegt að gera ábyrgðartakmarkanir varðandi tjón eða spjöll sem leiðir af eðli varnings eða eðlislægum galla á honum.

109. gr.


    Ef sannast að flytjandi eða starfsmenn hans hafa við framkvæmd starfa síns valdið tjón inu, annaðhvort af ásetningi eða af stórfelldu gáleysi samfara vitneskju um að tjón mundi sennilega hljótast af, skal eigi beita ákvæðum 107. gr. um hámarksábyrgð.

110. gr.


    Nú eru starfsmenn flytjanda sóttir til fébóta fyrir skaða sem þeir hafa við framkvæmd starfa síns valdið af minna gáleysi en því sem í 109. gr. getur, og má heildarfjárhæð þeirra skaðabóta sem þeim og flytjanda er gert að greiða eigi fara fram úr hámarksábyrgð flytjanda.

111. gr.


    Þegar tekið er við innrituðum farangri eða varningi án fyrirvara af hálfu viðtakanda skal telja að farangurinn eða varningurinn hafi verið afhentur í góðu lagi og í samræmi við flutn ingsskírteini, enda sannist eigi annað.
    Hafi farangur eða varningur orðið fyrir spjöllum eða eitthvað af honum glatast skal til kynna það flytjanda jafnskjótt og tjónsins verður vart og í síðasta lagi áður en liðnir eru sjö dagar frá viðtöku að því er varðar farangur en fjórtán dagar að því er til annars varnings tek ur. Tilkynningu um seinkun skal gefa áður en liðinn er tuttugu og einn dagur frá þeim degi að telja er farangur eða varningur var boðinn viðtakanda til umráða.
    Tilkynningu skal skrá á flutningsskírteini eða senda bréflega áður en frestur er liðinn.

112. gr.


    Nú er tjón eigi tilkynnt áður en liðnir eru frestir þeir sem í 111. gr. getur, og fellur þá nið ur sérhver krafa á hendur flytjanda, nema hann hafi farið sviksamlega að ráði sínu.

113. gr.


    Skaðabótamál skal höfða annaðhvort fyrir dómi á þeim stað þar sem flytjandi býr eða hef ur aðalskrifstofu sína eða útibú það sem gerði flutningssamninginn eða á ákvörðunarstaðn um.
    Nú tekur Varsjársáttmálinn yfir flutninginn, og verður skaðabótamál einungis höfðað fyrir íslenskum dómstól eða dómstól í ríki sem gerst hefur aðili að nefndum sáttmála.

114. gr.


    Réttur til skaðabóta eftir ákvæðum þessa kafla fellur niður ef mál er eigi höfðað áður en tvö ár eru liðin frá því er loftfar kom á ákvörðunarstað eða frá þeim degi er loftfar skyldi koma þangað eða frá því er flutningur stöðvaðist.

115. gr.


    Eigi fleiri en einn flytjandi, hver á eftir öðrum, að annast flutning sem ber samkvæmt flutningssamningi eða flutningssamningum að telja einn og sama flutning er hver þeirra, þá er hann tekur við farþegum, innrituðum farangri eða varningi, ábyrgur fyrir þeim hluta flutn ingsstarfans sem hann á að inna af hendi.
    Nú er um að tefla flutning á innrituðum farangri eða varningi, og getur sendandi einnig beint kröfum sínum gegn fyrsta flytjanda og sá sem á rétt til afhendingar gegn síðasta flytj anda þótt tjón eða seinkun hafi orðið meðan varningurinn var í vörslu annars flytjanda.
    Ef fleiri flytjendur eru ábyrgir samkvæmt þessu bera þeir óskipta ábyrgð.

Flutningur sem framkvæmdur er af öðrum en þeim


er gert hefur flutningssamning.


116. gr.


    Þegar flutningur er framkvæmdur að hluta eða að öllu leyti af öðrum en þeim sem hefur gert flutningssamninginn gilda ákvæði 117.–121. gr., nema það sannist að flutningurinn hafi ekki verið samþykktur af þeim sem gerði flutningssamninginn.
    Ákvæði 118. gr., 120. gr. og 121. gr. eiga einungis við um þann hluta loftflutningsins sem ekki er framkvæmdur af þeim sem hefur gert flutningssamninginn.

117. gr.


    Bæði sá sem gert hefur flutningssamninginn og flytjandi sem að hluta eða öllu leyti annast flutninginn skulu teljast flytjendur samkvæmt ákvæðum þessa kafla. Gagnvart þeim er gert hefur flutningssamninginn skal svo gilda allan loftflutninginn en gagnvart þeim sem fram kvæmir flutninginn á þetta við þann hluta loftflutningsins er hann annast.

118. gr.


    Við mat á bótaskyldu flytjanda skal aðgerð eða aðgerðaleysi annars flutningsaðilans, starfsmanna hans eða umboðsmanna, þegar þeir eru að störfum fyrir hann, jafngilda því að hinn flutningsaðilinn hafi sjálfur átt í hlut. Þetta raskar ekki því sem segir um bótaskyldu í 105. og 107. gr.
    Þó að sá sem gerði flutningssamning hafi tekið á sig skyldur umfram það er segir í þessum kafla eða farþegi eða sendandi hafi lýst hærri kröfu skv. 105. og 107. gr. er flytjandi sem framkvæmir flutninginn ekki bundinn af því, nema hann hafi samþykkt það.

119. gr.


    Kvörtun eða fyrirmæli samkvæmt þessum kafla sem beint er gagnvart einum flytjanda hef ur einnig gildi gagnvart hinum. Fyrirmæli skv. 97. gr. fá hins vegar ekki gildi, nema þeim sé beint gagnvart þeim er gerði flutningssamninginn.

120. gr.


    Sá sem gert hefur flutningssamninginn og flytjandi sem að hluta eða öllu leyti annast flutninginn og starfsmenn hans eða umboðsmenn þegar þeir eru að störfum fyrir hann bera ekki meiri ábyrgð en nemur hæstu bótum sem hver flytjandi á að inna af hendi. Hver bóta skyldur svarar aðeins til bóta að því hámarki sem fyrir hann gildir.

121. gr.


    Hvort sem bótamál er sótt á hendur öllum flytjendum eða einum má sækja það fyrir dóm stól þar sem heimilt er að höfða mál gegn þeim er gerði flutningssamninginn skv. 113. gr. eða á heimilisvarnarþingi þess sem framkvæmdi flutninginn.

Flutningur með fleiri en eins konar flutningstækjum.


122. gr.


    Nú fer flutningur að nokkru fram með loftfari og að nokkru með öðru flutningstæki og taka ákvæði laga þessara einungis til loftflutningsins.
    Taka má upp í loftflutningsskjalið skilmálana fyrir hinum greinum flutningsins.

Önnur ákvæði.


123. gr.


    Ógildir skulu vera fyrirvarar í flutningssamningi og samningar gerðir áður en tjón verður þar sem aðilar víkja frá ákvæðunum um þau lög sem fara skal eftir eða ákvæðum um varnar þing.

124. gr.


    Nú er loftflutningaskjal gert utan Íslands eða það varðar loftflutninga milli ríkja, og er viðvörun skv. c-lið 1. mgr. 88. gr., c-lið 1. mgr. 89. gr. og c-lið 93. gr. nægilega framkvæmd ef skjalið ber það greinilega með sér að flutningurinn geti hlítt Varsjársáttmálanum og að hann takmarki að jafnaði ábyrgð flytjanda í þeim tilvikum sem viðkomandi ákvæði tekur til.
    Nú er um að tefla loftflutning milli ríkja sem Varsjársáttmálinn tekur eigi yfir, og getur flytjandi borið fyrir sig takmörkun ábyrgðar skv. 107. gr., jafnvel þótt flutningsskjalið geymi eigi viðvörun þá sem í 1. mgr. getur.

125. gr.


    Samgönguáðherra er heimilt að gera undantekningu frá ákvæðum 1. mgr. 88. gr., 1. mgr. 89. gr. og 91. gr. um farseðla, farangursmiða og flugfarmbréf með reglugerð þar sem meðal annars yrði tekið tillit til möguleika á rafrænni skráningu.

126. gr.


    Þá er rætt er um Varsjársáttmálann í lögum þessum er átt við sáttmála þann um alþjóða loftflutninga sem gerður var í Varsjá 12. október 1929 með þeim breytingum sem á honum urðu samkvæmt sáttmálaauka, undirrituðum í Haag 28. september 1955.
    Ákvæðum kafla þessa skal eigi beita um milliríkjaloftflutninga sem framkvæmdir eru samkvæmt áskilnaði, gerðum með heimild í viðbótarbókun við 2. gr. Varsjársáttmálans frá 12. október 1929 eða XXVI. gr. Haag-sáttmálaaukans frá 28. september 1955.
    Ákvæði laga þessara hrófla eigi við Varsjársáttmálanum frá 12. október 1929 að svo miklu leyti sem hann heldur gildi sínu í milliríkjaskiptum Íslands og annarra ríkja sem eigi hafa fullgilt sáttmálaaukann sem gerður var í Haag 28. september 1955.
    Guadalajara-sáttmálinn merkir í lögum þessum sáttmála þann um alþjóðaloftflutninga framkvæmda af öðrum flytjanda en þeim er undirritar flutningssamning sem gerður var í Guadalajara 18. september 1961.

127. gr.


    Gerðardómssamningar, gerðir áður en tjón verður, eru einungis gildir að því er varðar flutning á munum, enda sé gerðardómur háður á einhverjum þeim stað sem er löglegt varnar þing eftir 113. gr. og málið útkljáð samkvæmt ákvæðum Varsjársáttmálans og Guadalajara-sáttmálans að því leyti sem ákvæði þeirra taka til þess.
    Greinargóðar upplýsingar um skilmála skv. 105. gr. og 107. gr. laga þessara skulu vera farþegum til reiðu á söluskrifstofum flugrekanda, hjá ferðaskrifstofum og umboðsaðilum hans og við innritunarborð til brottfarar.
    Flugrekendur, sem starfa á grundvelli flugrekstrarleyfa, útgefinna í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins, en flytja farþega til og frá Íslandi, án þess að samningsskilmálar byggist á ákvæðum sem samsvara 105. og 107. gr. laga þessara, skulu skilmerkilega vekja athygli farþeganna á því. Skal það gert þegar farseðlar eru keyptir hjá ferðaskrifstofum og umboðs aðilum og við innritun til brottfarar.
    Skylt er að tilgreina ferðaskilmála skriflega í farseðli. Það að tilgreina í farseðli að flug rekandi beri fyrir sig heimildir til að takmarka ábyrgð sína telst ekki fullnægjandi tilgreining skilmálans.

XI. KAFLI


Skaðabætur og vátryggingar.


128. gr.


    Nú hlýst af notkun loftfars skaði á mönnum eða hlutum sem eru utan loftfarsins, og er eig andi þess eða, eftir því sem við á, aðili sá sem ber kostnað af rekstri þess skyldur að bæta skaðann.
    Skaðabótaskyldan fellur niður ef sannað er að sá sem fyrir skaða verður hefur valdið tjón inu af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.

129. gr.


    Nú er um að tefla tjón sem verða á mönnum eða hlutum innan marka viðurkennds flugvall ar, og skal eigi beita ákvæðum 1. mgr. 128. gr.
    Verði tjón á loftfari eða farmi við árekstur loftfara skal beita ákvæðum siglingalaga um árekstur skipa.
    Nú verður við árekstur tveggja eða fleiri loftfara tjón sem hver þeirra er bera kostnaðinn af rekstri loftfaranna á að greiða samkvæmt ákvæði 1. mgr. 128. gr., og eru þeir allir sam ábyrgir. Dómstólar skera úr með hliðsjón af aðstæðum hversu mikinn hluta goldinna skaða bóta hver þeirra megi framkrefja úr hendi þess eða þeirra sem samábyrgir eru.

130. gr.


    Ákvæði 128. og 129. gr. takmarka að engu þann rétt til skaðabóta sem leiðir af almennum reglum.

131. gr.


    Umráðandi loftfars, sem nota skal til loftferða samkvæmt lögum þessum, skal taka og halda við vátryggingu er örugg telst, til greiðslu skaðabóta sem falla kunna á hann eða um ráðanda loftfarsins vegna tjóns er verður á mönnum og hlutum utan loftfarsins og stafar af notkun þess. Vátrygging þessi skal meðal annars tryggja greiðslu kostnaðar við hreinsun á slysstað og brottnám flaks. Leita skal viðurkenningar Flugmálastjórnar á vátryggingafélagi og vátryggingarskilmálum.
    Nú fellur vátrygging úr gildi, og ber vátryggingafélag gagnvart þriðja aðilja ábyrgð á tjóni samkvæmt hljóðan vátryggingarskírteinis í tvo mánuði frá því er það tilkynnti Flug málastjórn að vátryggingin væri niður fallin, enda hafi loftfarið eigi á þeim tíma verið strikað af skrá eða flugleyfi skv. c-lið 3. gr. afturkallað.
    Flugrekendur skulu taka vátryggingu gegn tjóni á mönnum eða hlutum í loftfari eða við för eða flutning þeirra í loftfar eða úr því og svo gegn tjóni á innrituðum farangri og varningi meðan flytjandi ber ábyrgð á honum skv. X. kafla.
    Vátryggingarfjárhæðir skulu tryggja bætur samkvæmt ákvæðum 105. og 107. gr. laga þessara, en jafnframt skal vátryggt gegn þeirri áhættu sem fjárhæðamörk íslenskra skaða bótalaga geta leitt til varðandi lífs- og líkamstjón.
    Eigendum kennslu- og einkaflugvéla skal skylt að taka og viðhalda slysatryggingu fyrir þá sem ferðast með slíkum vélum. Skulu vátryggingarfjárhæðir vegna dauða og 100% varan legrar örorku að lágmarki miðast við jafnvirði 100.000 SDR í íslenskum krónum.
    Samgönguráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari reglur um vátryggingarskyldu þá sem hér er mælt fyrir um, þar á meðal um vátryggingarfjárhæðir og afleiðingar þess að vátryggingu eða tryggingu er eigi haldið í gildi.

XII. KAFLI


Aðstoð og björgun.


132. gr.


    Samgönguráðherra er heimilt að setja reglur um leit og björgun er viðhafa skal þegar loft fars er saknað eða því hefur hlekkst á eða það hefur farist, þar á meðal um aðstoð þá sem einstaklingum og fyrirtækjum er skylt að veita við leit og björgunarstörf og um þóknun fyrir slíka aðstoð.
    Flugmálastjórn stjórnar leitarstarfi fram til þess að slysstaður finnst, en þá tekur lögreglu stjóri í viðkomandi umdæmi við ábyrgð á vettvangsstjórn. Rannsóknarnefnd flugslysa fer með yfirstjórn vettvangsrannsóknar og skal lögreglustjóri aðstoða hana í hvívetna.
    Kostnað, sem ríkissjóður hefur af leit að loftfari sem er saknað, skal Flugmálastjórn heim ilt að leggja að nokkru eða öllu leyti á skráðan umráðanda loftfarsins í loftfaraskrá eða eig anda ef hann er erlendur, enda hnígi rök til þess og það brjóti eigi í bága við milliríkjasamn inga. Sama gildir um kostnað af björgunarstarfi að því leyti sem ekki greiðist með björgunar launum.
    Heimilt er að skylda skráðan eiganda loftfars til að hlutast til um brottflutning flaks og hreinsun á slysstað.

133. gr.


    Ef maður bjargar eða stuðlar að björgun á loftfari, sem hlekkst hefur á eða er statt í háska, farangri eða vöru sem í því er eða nokkru því sem telst til slíks loftfars, farangurs eða vöru á hann, hvort heldur bjargað er í lofti, á láði eða legi, rétt til björgunarlauna samkvæmt gild andi reglum um björgun skipa og varnings sem til þeirra telst. Ef maður bjargar eða stuðlar að björgun á mannslífum úr þeim háska sem varð tilefni til björgunar á hann kröfu til hlut deildar í björgunarlaununum.
    Hafi maður stofnað til óvenjulegra útgjalda sem nauðsynleg voru til varðveislu á loftfari eða varningi úr því á hann rétt til að honum sé endurgreitt, enda hafi hann eigi breytt gegn beinu og réttmætu banni flugstjóra þess sem í hlut á.
    Krafa um björgunarlaun eða endurgjald fyrir óvenjuleg útgjöld má eigi fara fram úr verð mæti því sem bjargað var, svo sem loftfari, ásamt flutningsgjaldi fyrir farangur, varning og farþega.

134. gr.


    Eigandi bjargaðs varnings ábyrgist einungis björgunarlaun með verðmæti þess sem bjarg að var. Krafa um björgunarlaun er tryggð með veði í loftfari, farangri og varningi og gengur það fyrir öllum öðrum veðböndum. Veðkrafa sem stafar af síðari atburði gengur fyrir veð kröfu sem stafar af fyrri atburði.
    Ef farangur eða varningur er látinn af hendi fellur veðrétturinn niður. Veðréttur í loftfari fellur niður eftir þrjá mánuði ef hann er eigi þinglesinn og fjárhæð hans samþykkt eða mál höfðað til staðfestu veðrétti. Mál má höfða þar sem björgunarstarfi lauk eða þar sem loftfar og varningur er.

XIII. KAFLI


Ýmis ákvæði.


135. gr.


    Ef ástæða er til að ætla að loftfar, sem á að hefja á loft, sé ekki lofthæft eða ekki tilhlýði lega skipað áhöfn eða það muni verða notað andstætt ákvæðum laga þessara eða reglum sett um samkvæmt þeim er Flugmálastjórn heimilt að leggja bann við för loftfarsins og, beri nauðsyn til, að aftra því að það sé hafið upp af flugvelli uns úr er bætt. Flugmálastjórn getur kallað eftir aðstoð lögregluyfirvalda til að halda uppi slíku banni og ber að veita hana.

136. gr.


    Flugmálastjórn er heimilt að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygg ing sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi flugrekandans.
    Vanræki handhafar leyfa eða skírteina útgefinna samkvæmt lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim skyldur þær sem leiðir af lögum þessum eða reglum settum sam kvæmt þeim getur Flugmálastjórn, að viðlagðri dagsekt eða vikusekt, boðið að skylda sú sem um ræðir skuli af hendi innt. Bera má lögmæti slíkrar ákvörðunar undir dómstóla, enda sé það gert innan 15 daga frá birtingu hennar. Heimta má dagsektir eða vikusektir með fjárnámi samkvæmt ákvæðum aðfararlaga.

137. gr.


    Til aukins öryggis við loftferðir er samgönguráðherra heimilt að setja reglur um meðferð, geymslu og afhendingu eldsneytis og annars sem til búnaðar loftfara þarf og um eftirlit með því að reglurnar séu haldnar.

138. gr.


    Skráður umráðandi loftfars í loftfaraskrá, flugrekstraraðili, þar með talinn erlendur aðili, og réttur umráðandi viðurkennds flugvallar eða annars loftferðamannvirkis eru skyldir til að láta í té þær upplýsingar sem Flugmálastjórn krefst. Sömu skyldu hefur fyrirsvarsmaður við urkenndrar starfsemi skv. 28. gr. eða annarrar starfsemi sem rekin er samkvæmt viðurkenn ingu eftir lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim.
    Flugmálastjórn er óheimilt að skýra þriðja aðila frá vitneskju sem hún hefur fengið með framangreindum hætti eða skv. 27. gr., nema að því leyti sem það er nauðsynlegt í samstarfi við önnur yfirvöld, þar með talin erlend.

139. gr.


    Samgönguráðherra kveður á um gjöld sem inna ber af hendi fyrir starfsemi sem Flugmála stjórn annast samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim með setningu sérstakrar gjaldskrár.
    Samgönguráðherra er heimilt að ákveða að við gjaldtöku sé mætt þeim kostnaði sem rekstur þessarar starfsemi hefur í för með sér.
    Gjöld samkvæmt þessari grein má heimta með fjárnámi.

140. gr.


    Flugmálastjórn skal gefa út upplýsingabréf um flugmál og flugmálahandbók. Skulu allir handhafar flugrekstrarleyfa og flugkennsluleyfa, útgefinna af Flugmálastjórn, vera áskrifend ur að útgáfum þessum. Í flugmálahandbók skulu birtar þær ákvarðanir Flugmálastjórnar sem teknar eru á grundvelli laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim og hafa almennt gildi en birtast ekki í Stjórnartíðindum. Skulu þær vera á íslensku eða ensku eftir því sem við á.

141. gr.


    Brot gegn lögum þessum eða reglum sem settar eru samkvæmt þeim varða sektum, varð haldi eða fangelsi allt að fimm árum. Beita skal ákvæðum almennra hegningarlaga um tilraun og hlutdeild.

142. gr.


    Svipta skal skírteinishafa rétti til starfa þess sem skírteinið veitir ef hann hefur gerst sekur um vítavert brot gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim, eða ef telja verður með hliðsjón af eðli brotsins eða annars framferðis hans sem skírteinishafa varhugavert að hann neyti réttinda samkvæmt skírteininu.
    Svipting starfsréttinda skal vera um ákveðinn tíma, eigi skemur en þrjá mánuði, eða ævi langt ef sakir eru miklar eða brot ítrekað.

143. gr.


    Nú telur Flugmálastjórn skilyrði til sviptingar starfsréttinda vera fyrir hendi og skal hún þá svipta hlutaðeigandi starfsskírteini til bráðbirgða svo skjótt sem unnt er. Bera má ákvörðun Flugmálastjórnar undir dómstóla samkvæmt reglum um meðferð opinberra mála og skal Flugmálastjórn leiðbeina hlutaðeigandi um þann rétt. Úrlausn héraðsdóms sætir kæru til Hæstaréttar.
    Sviptingartími skv. 1. mgr. skal dragast frá endanlegum sviptingartíma.

144. gr.


    Áfrýjun dóms þar sem kveðið er á um sviptingu réttar frestar ekki verkun hans að því leyti. Þó getur dómari ákveðið með úrskurði að áfrýjun fresti framkvæmd sviptingar er sér staklega stendur á.

145. gr.


    Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerðir til framkvæmda og skýringar á lögum þessum.

146. gr.


    Lög þessi taka þegar gildi.
    Með lögum þessum eru numin úr gildi lög nr. 34 frá 21. maí 1964, um loftferðir, lög nr. 32 frá 14. júní 1929, um loftferðir, og lög nr. 119 frá 28. desember 1950, um stjórn flugmála.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Við gildistöku laga þessara fellur skipun núverandi flugráðs úr gildi og skal nýtt flugráð skipað samkvæmt ákvæðum laga þessara.

II.


    Reglugerðir og auglýsingar, sem gefnar hafa verið út samkvæmt heimildum í lögum nr. 34/1964 og í gildi eru við gildistöku laga þessara, skulu halda gildi sínu þar til þær verða sérstaklega felldar úr gildi með reglugerðum settum samkvæmt lögum þessum sem leysa þær eldri af hólmi.

III.


    Vátryggingar þær, sem lögboðnar eru í XI. kafla laga þessara, skulu komnar í gildi innan þriggja mánaða frá gildistöku laganna.

IV.


    Að því marki sem frávik eru frá ákvæðum laga nr. 41/1949, sbr. lög nr. 46/1956, í ákvæð um X. kafla laga þessara, skulu ákvæði kaflans ganga framar.