Ferill 657. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1130 – 657. mál.



Frumvarp til laga



um breyt. á l. um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum.

Flm.: Guðmundur Árni Stefánsson.



1. gr.

    Við 5. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó er tryggingaráði heimilt við sérstakar aðstæður að greiða því foreldri sem forræði hefur þótt viðvarandi framfærslu verði ekki við komið.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi en unnt að beita heimild skv. 1. gr. frá 1. janúar 1997.

Greinargerð.

    
    Með frumvarpi þessu er lagt til að tryggingaráði verði veitt heimild til greiðslu barna lífeyris við sérstakar aðstæður. Mál Sophiu Hansen og dætra hennar skýrir hér málsaðstæður að fullu þar sem dætrum hennar var rænt en hún er með fullt forræði samkvæmt íslenskum úrskurði. Sophia hefur þannig ekki haft tök á að koma við beinni framfærslu þeim til handa þótt einlægur vilji hennar standi til þess. Allur hennar tími og fjármunir hafa farið í það að fá börnin aftur og eiga þess þannig kost að ala önn fyrir þeim.
    Tryggingastofnun hefur hins vegar úrskurðað að ekki sé heimilt að greiða bæturnar. Má ætla að vísað sé í því sambandi til ákvæðis 5. mgr. 14. gr. laga um almannatryggingar. Með frumvarpi þessu er lagt til að framangreind heimild verði veitt þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. 14. gr. laganna og jafnframt gert ráð fyrir að gildistími ákvæðisins miðist við ársbyrjun 1997.
    Þó að hér sé vísað til máls Sophiu Hansen og dætra hennar er því miður ekki loku fyrir það skotið að fleiri sambærileg mál fyrirfinnist í fortíð, nútíð og framtíð. Með frumvarpi þessu er því gert mögulegt að gæta fyllsta réttlætis við slíkar aðstæður, a.m.k. hvað barna lífeyri varðar.