Ferill 693. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1209 – 693. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um undirritun Kyoto-bókunarinnar.

Flm.: Ágúst Einarsson, Össur Skarphéðinsson,


Svanfríður Jónasdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirrita nú þegar fyrir Íslands hönd Kyoto-bókunina, bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

Greinargerð.


    Bókunin, sem kennd er við Kyoto í Japan, var gerð í lok síðasta árs og markar tímamót í sögunni. Þar var ákveðin alþjóðleg stefna um að þjóðir heims skuldbindi sig til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið. Það voru um 160 ríki sem tóku þátt í samnings gerðinni og Ísland fékk hvað rúmastar heimildir allra þjóða. Þótt það hafi vitaskuld í för með sér stefnubreytingu hérlendis að mæta þessum kvöðum eigum við að taka þátt í því með öðr um þjóðum að stuðla að fullgildingu samningsins.
    Með Kyoto-bókuninni skuldbinda iðnríkin sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þannig að hún verði 5,2% minni á tímabilinu 2008–2012 en hún var árið 1990. Árið 1990 er viðmiðunarár í samningnum. Skuldbindingarnar eru mismunandi milli einstakra ríka eða frá 8% minni losun upp í að heimila 10% meiri losun. Íslandi er heimil 10% meiri losun eða mest allra ríkja.
    Samningurinn öðast gildi þegar a.m.k. 55 ríki hafa staðfest hann. Í þeim hópi verða að vera iðnríki sem eiga að minnsta kosti sök á 55% útblásturs í öllum iðnríkjunum. Nú þegar hafa nokkur ríki undirritað samninginn, m.a. Sviss og Argentína. Evrópusambandsríkin og Norðmenn munu undirrita samninginn í lok apríl. Íslensk stjórnvöld hafa sagst vilja bíða eftir framhaldsráðstefnu í Buenos Aires í nóvember áður en frekari ákvarðanir verða teknar. Það er þó ljóst að Íslendingar hafa þegar fengið viðurkennda sérstöðu sína og nú gildir að vinna út frá markmiðum ráðstefnunnar. Við eigum ekki að láta okkar eftir liggja.
    Hérlendis hefur því verið haldið fram að öllum stóriðjuáformum sé teflt í hættu ef við ger umst aðilar að samningnum. Það er rangt. Við getum dregið úr útblæstri fiskiskipa og sam göngutækja með markvissum aðgerðum og dregið úr áhrifum mengunar með aukinni gróður rækt og skógrækt. Með því að verja um einum milljarði kr. til skógræktar á ári getum við hrint öllum raunhæfum stóriðjuáformum okkar í framkvæmd. Einstökum ríkjum er heimilt að starfa saman við að uppfylla skuldbindingarnar og taka þátt í viðskiptum með heimildir til losunar. Heimildir til losunar verða til sölu á heimsmarkaði. Kostnaður við kaup á frekari heimildum til að mæta stjóriðjuáformum okkar mun líklega nema um 1,5 milljörðum kr. á ári. Vitaskuld munum við þó grípa til sparnaðaraðgerða auk þess sem tækniframfarir leysa hluta af þessu vandamáli. Einnig er líklegt að ýmis áform um orkufrekan og útblástursmengandi iðnað verði endurmetin. Þannig er ljóst að við ráðum mjög vel við að uppfylla skilyrði Kyoto-bókunarinnar ef við mörkum okkur skynsamlega stefnu. Þess vegna er stefnuyfirlýsing af hálfu Alþingis nauðsynleg og skynsamlegt er að undirrita samninginn svo að hægt verði að hefja undirbúning að staðfestingu bókunarinnar, enda fylgjum við nágrannalöndunum með því.
    Íslendingar munu vitaskuld taka virkan þátt í frekara starfi á vegum Sameinuðu þjóðanna á sviði umhverfismála. Allt aðrar aðstæður eru í heiminum nú en fyrir fimm til tíu árum.Við eigum að svara kalli tímans og stuðla að umhverfisvernd með öðrum þjóðum. Það mun síður en svo hafa slæm áhrif á lífskjör framtíðarinnar. Þvert á móti munu þau batna því að fáar þjóðir, ef nokkrar, eiga meira undir því að það takist að stemma stigu við losun gróðurhúsa lofttegunda út í andrúmsloftið.