Ferill 359. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1284 – 359. mál.



Nefndarálit



um frv. til l. um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Frá minni hluta iðnaðarnefndar.



    Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um eignarhald á auðlindum í jörðu eru þrjú meginatriði sem ágreiningur er um við stjórnarandstöðuna. Í fyrsta lagi er það ákvæði frumvarpsins — sem er aðalatriði þess — að allar auðlindir í og á jörðu í löndum í einkaeign séu eign landeigenda. Þessi ákvæði stríða í grundvallaratriðum gegn frumvörpum þeim sem fyrir liggja í þinginu um sama efni frá stjórnarandstöðunni, þ.e. frumvarp Sighvats Björgvinssonar o.fl. og frumvarp Hjörleifs Guttormssonar o.fl., en í frumvarpi þessu er lagt til að djúphiti í jörðu, kol, olía, gas, málmar og fleiri jarðefni séu þjóðareign. Má því segja að í þessu máli komi einkar skýrt fram sá grundvallarágreiningur sem uppi er milli þeirra flokka sem nú eru í stjórnarliði annars vegar og stjórnarandstöðu hins vegar. Í öðru lagi einkennir frumvarp ríkisstjórnarinnar tillitsleysið við áherslur í umhverfismálum. Það er greinilega ætlun stjórnarflokkanna að sniðganga umhverfisstofnanir og umhverfisráðuneyti. Eitt ágreiningsefnið varðar útleigu og gjaldtöku fyrir afnot einkaaðila af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Stjórnarfrumvarpið gerir ráð fyrir því að ráðherra fái sjálfdæmi um að leigja hverjum sem er hvað sem er fyrir hvaða fjárhæð sem er. Stjórnarandstæðingar vilja hins vegar setja skýrar málsmeðferðarreglur um leigu afnotaréttar þar sem m.a. fulls jafnræðis sé gætt og skýrar reglur um afnotagjald sam kvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs eða lögum um útboð.
    Meginefni þessa frumvarps tekur til auðlinda á jörðu í landi, í botni vatnsfalla og stöðu vatna og í sjávarbotni innan netalaga. Meginmarkmið frumvarpsins er að setja heildarlöggjöf um eignarhald á auðlindum í jörðu og um réttindi til þess að rannsaka, leita að og nýta auðlindirnar.
    Auk þess sem að framan getur vantar margt í frumvarpið. Þar má nefna:
     að ekki er fjallað nægilega um eignar- og hagnýtingarrétt ríkisins á auðlindum í jörðu utan afmarkaðra eignarlanda,
     að ekki er kveðið á um eignarrétt ríkisins að jarðefnum sem ekki hafa verið hagnýtt hér á landi þar sem þau hafa ekki fundist í nýtanlegu magni, þvert á móti eru þessi auðæfi afhent landeigendum,
     að óljóst er kveðið á um eignarrétt ríkisins á orku háhitasvæða,
     að ekki eru settar skýrar reglur um hvernig bætur skuli metnar fyrir tjón sem landeigendur telja sig verða fyrir vegna leyfisveitinga eða eignarnáms,
     að í frumvarpið vantar skýrar reglur um leyfisveitingar til leitar, rannsókna og nýtingar á þeim auðlindum sem frumvarpið tekur til, svo og ákvæði um gjaldtöku fyrir réttindi til þess að leita að, rannsaka og nýta þær auðlindir,
     að ekki eru í frumvarpinu nægjanleg ákvæði um umhverfismat umfram þau sem eru í gildandi lögum.
    Ljóst er að mikill ágreiningur er um meðferð ýmissa meginatriða milli vísindamanna sem komu til viðræðna við nefndina um frumvarpið. Má þar nefna að einn viðmælandi nefndarinnar sagði að erfðaefni sem slíkt væri ekki lifandi sem brýtur í bága við skilgreiningu annars viðmælanda um að þau séu hluti hinnar lifandi náttúru.
    Margsinnis kom fram að skýrari ákvæði vantar um rannsóknir og nýtingarrétt og strangari ákvæði um náttúruvernd svo fátt eitt sé nefnt sem gagnrýnt var af hálfu viðmælenda nefndar innar. Það kom einnig fram að nauðsyn er á að taka á ýmsum atriðum varðandi yfirráð með skýrum lagaákvæðum um að þessi lög haggi ekki þeim lögum sem í gildi eru.
    Með vísan til framangreindra atriða er augljóst að frumvarp ríkisstjórnarinnar er vanbúið til afgreiðslu Alþingis og nauðsynlegt er að gerðar verði á því gagngerar breytingar.
    Af framansögðu er ljóst að frumvarpinu er hafnað af hálfu minni hlutans fyrst og fremst af því að hér er um gífurlega eignatilfærslu að ræða í hendur fárra á kostnað almannahagsmuna. Minni hlutinn leggur því til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Verði sú tillaga felld mun minni hlutinn greiða atkvæði gegn nokkrum greinum frumvarpsins auk þess sem hann mun flytja breytingartillögur við einstakar greinar við 3. umræðu málsins ef nauðsyn krefur.
    Guðný Guðbjörnsdóttir sat fundi nefndarinnar og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 28. apríl 1998.



Gísli S. Einarsson,


form., frsm.


Svavar Gestsson.



Jóhanna Sigurðardóttir.