Ferill 694. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1422 – 694. mál.Svarviðskiptaráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um málefni Landsbanka Íslands og fjármögnunarfyrirtækisins Lindar hf.

    Viðskiptaráðuneytið leitaði til Landsbanka Íslands hf. um svör við 1.–6. og 8.–10. lið fyrirspurnarinnar og til bankaeftirlitsins um svör við 7. lið. Svör þessara aðila fara hér á eft ir.

     1.      Hvenær, hvernig og af hvaða tilefni eignaðist Landsbanki Íslands fjármögnunarfyrirtækið Lind hf.?
    Eignarleigan Lind hf. var stofnuð árið 1986 og voru stofnendur félagsins Banque Indosuez (40%), Samvinnubanki Íslands (30%) og Samvinnusjóður Íslands (30%). Hlutafé félagsins við stofnun var 10 millj. kr.
    Við kaup Landsbankans á Samvinnubankanum í upphafi árs 1990 eignaðist bankinn 30% eignarhlut í Lind hf., að nafnverði 3 millj. kr. Í lok sama árs keypti bankinn 40% eignarhlut Banque Indosuez í Lind hf. Kaupverðið var 5,6 millj. kr. en hlutabréfin voru að nafnverði 4 millj. kr. Eftir kaup Landsbankans á eignarhluta hins franska banka hafði Landsbankinn eignast 70% eignarhlut í félaginu, að nafnverði 7 millj. kr., en að kaupverði um 8,6 millj. kr.
    Í framhaldi af kaupunum af Banque Indosuez var eigið fé Lindar aukið um 115 millj. kr. og komu 80,5 millj. kr. í hlut Landsbankans. Aftur var hlutafé aukið í desember 1991 um 60 millj. kr. og kom það allt í hlut Landsbankans. Jókst eignarhlutur bankans við það úr 70% í 80%. Ástæður hlutafjáraukningar voru að uppfylla þurfti kröfur laga um eiginfjárhlutfall.
    Árið 1992 keypti Landsbankinn eignarhlut Samvinnusjóðs Íslands í Lind hf. að nafnverði 37,5 millj. kr. en að kaupverði 45 millj. kr. Eftir það var bankinn eini eigandi félagsins.

     2.      Hver var staða fyrirtækisins þegar Landsbankinn eignaðist það og hvert var kaupverð þess?
    Bókfært eigið fé félagsins í árslok 1989 var neikvætt um 35,5 millj. kr., í árslok 1990 var eigið fé félagsins 87,9 millj. kr. og í árslok 1991 var eigið fé félagsins 158,1 millj. kr. Tap var af rekstri félagsins árið 1989 um 28,8 millj. kr., hagnaður árið 1990 var 12,2 millj. kr. og hagnaður árið 1991 var 4,7 millj. kr. Heildareignir félagsins í árslok 1989 voru 1.714 millj. kr., í árslok 1990 1.913 millj. kr. og í árslok 1991 2.557 millj. kr.
    Samanlagt kaupverð Landsbankans á eignarhlutum í Lind hf. var 53,6 millj. kr. Þátttaka bankans í hlutafjáraukningu nam alls 140,5 millj. kr.

     3.      Hverjir voru stjórnendur Lindar hf. eftir að Landsbankinn eignaðist fyrirtækið,
       a.      framkvæmdastjóri,
       b.      stjórnarformaður,
       c.      aðrir stjórnarmenn?

    Stjórnarmenn í félaginu frá því að Landsbankinn eignaðist fyrst hlut í félaginu voru eftir taldir:

Árið 1990:            Guðjón B. Ólafsson (stjórnarformaður)
                                       Geir Magnússon
                                       Gunnar Sveinsson
                                       Jean Pierre Molin
                                       Bernard Esnault

Apríl 1991 til apríl 1992:    Halldór Guðbjarnason (stjórnarformaður)
                                       Geir Magnússon
                                       Guðjón B. Ólafsson
                                       Gunnar Sveinsson
                                       Stefán Pétursson (frá júlí 1991)

Apríl 1992 til desember 1992:    Halldór Guðbjarnason (stjórnarformaður)
                                       Barði Árnason
                                       Guðjón B. Ólafsson
                                       Gunnar Sveinsson
                                       Stefán Pétursson

Desember 1992 til nóvember 1994:    Halldór Guðbjarnason (stjórnarformaður)
                                       Barði Árnason
                                       Stefán Pétursson

    Framkvæmdastjóri Lindar hf. öll rekstrarár félagsins var Þórður Ingvi Guðmundsson.

     4.      Hvenær og af hvaða tilefni var starfsemi fyrirtækisins hætt og hve miklu hefur Landsbankinn tapað eða mun tapa vegna Lindar hf.?
    Á bankaráðsfundi 13. október 1994 fól bankaráð Landsbankans bankastjórn að leita leyf is viðskiptaráðherra til samruna eignarleigufyrirtækisins Lindar hf. við Landsbanka Íslands. Formlegri afgreiðslu viðskiptaráðuneytis á heimild til samruna lauk með bréfi dags. 2. nóvember 1994.
    Endurskoðað milliuppgjör Lindar hf. frá 30. ágúst 1994, sem lagt var fram í byrjun októ ber 1994, leiddi í ljós að rekstrargrundvöllur félagsins var endanlega brostinn, þrátt fyrir að gerðir bankans sem ætlaðar voru til að treysta rekstrargrundvöll þess. Landsbankinn hafði meðal annars í tengslum við ársuppgjör Lindar hf. fyrir árið 1993 skuldbundið sig til að greiða töp Lindar hf. sem þá voru fyrirsjáanleg.
    Samtals hefur Landsbankinn tapað eða mun tapa fjárhæð er nemur 707 millj. kr. vegna afskrifta og afskriftaframlaga bankans vegna eignarleigusamninga Lindar hf. Auk þess var sölutap rekstrarleigueigna um 16 millj. kr. Ekki er gert ráð fyrir frekari afskriftaframlögum vegna þessa máls í Landsbankanum.

     5.      Hver er ástæða hins mikla taps af starfsemi Lindar hf.? Hverjir tóku ákvarðanir sem leiddu til þess, vegna hvaða viðskipta og hvaða fyrirtæki eða atvinnugreinar áttu í hlut?
    Skýring þess taps sem varð af starfsemi Lindar hf. er samspil margra þátta. Hluta skýring anna er að leita í þeirri meginhugmynd sem lá að baki starfrækslu félagsins. Hún var að fjár magna leigumuni án þess að taka aðrar tryggingar en í leigumununum sjálfum. Þegar félagið hóf rekstur var mikil uppsveifla í efnahagslífinu og vextir á eignarleigusamningum voru mjög háir. Hugmyndin virtist þannig ganga vel upp.
    Þegar uppsveiflunni lauk komu fram erfiðleikar. Rekstur margra viðskiptavina félagsins fór í þrot, markaðsverð leigumuna féll og endursölumarkaður var mjög erfiður. Við þetta bættist að oft var um mjög sérhæfða muni að ræða. Við þessar aðstæður var erfitt að beita almennum innheimtuúrræðum. Í stað þess að taka strax á vandanum var skuldum því ítrekað skuldbreytt í von um bætta stöðu skuldara. Efnahagsbatinn lét hins vegar standa á sér. Frek ara verðfall varð á mörgum eignarleigumunum á sama tíma og virði þeirra lækkaði meira við notkun leigutaka. Endurteknar skuldbreytingar samhliða verðmætarýrnun eignarleigumuna, sem oft og tíðum voru eina trygging fyrir greiðslu samningsins, mögnuðu þannig vandann í stað þess að leysa hann.
    Rekstrarhugmynd sú sem félagið byggði á gerði miklar kröfur til framkvæmdastjóra fé lagsins. Jafnframt er slíkur áhætturekstur mjög viðkvæmur fyrir áhrifum efnahagssveiflna. Í skýrslu Löggiltra endurskoðenda hf. frá 7. febrúar 1995 segir að þótt vinnubrögð við lán veitingar hafi breyst mikið til batnaðar á sl. tveimur árum beri tölur með sér að alvarlegir misbrestir hafa verið í útlánaferli og eftirfylgni félagsins með útlánum um langt skeið. Veru legan hluta af ábyrgðinni höfðu skýrsluhöfundar getað rakið til ákvarðana fyrrum fram kvæmdastjóra félagsins.
    Heildareignir Lindar hf. þegar Landsbankinn yfirtók eignir og skuldir félagsins námu um 3.181 millj. kr. Þar af voru eignarleigusamningar og ýmsar kröfur að fjárhæð um 2.918 millj. kr. Skipting afskrifta og afskriftaframlaga Landsbankans vegna eignarleigusamninga og krafna Lindar hf. eftir einstökum atvinnugreinum er eftirfarandi:
Aðilar Millj. kr.
Sjávarútvegur
73 190
Iðnaður
55 153
Verslun
25 40
Samgöngur
25 48
Þjónusta
71 118
Einstaklingar
81 103
Landbúnaður
3 2
Annað/óflokkað
5 15
Samtals
338 669
Almennt afskriftaframlag
38
Samtals afskriftir/framlög
707

    Samtals er afskrifað og lagt í afskriftareikning vegna 338 aðila. Þar af voru einungis sex aðilar með hærri fjárhæð en 10 millj. kr. og samtals nam afskrift á þessa sex aðila um 109 millj. kr. Hæsta fjárhæð á einn einstakan skuldara nam um 31 millj. kr. Meðaltalsfjárhæð á hina 332 er því um 1,8 millj. kr. á hvern aðila.
    Framkvæmdastjóri félagsins tók allar almennar ákvarðanir varðandi lánveitingar félags ins. Lánanefnd kom að stærri ákvörðunum og stjórn að meiri háttar ákvörðunum varðandi lánveitingar.

     6.      Hve mikið hefur Landsbankinn lagt fyrir á afskriftareikning vegna Lindar hf. og hve mikið hefur hann þegar afskrifað?
    Bankinn hefur lagt til hliðar í afskriftareikning bankans um 217 millj. kr. vegna eignar leigusamninga Lindar. Auk þess hefur hann þegar endanlega afskrifað um 490 millj. kr. vegna eignarleigusamninga félagsins. Samtals nema afskriftaframlög og afskriftir því um 707 millj. kr. Ekki er gert ráð fyrir frekari afskriftaframlögum vegna þessa máls í Landsbankan um.

     7.      Gerði bankaeftirlit Seðlabanka Íslands athugasemdir við rekstur Lindar hf. og ef svo er, hvenær og til hvaða ráðstafana var gripið?
    Starfsemi eignarleigufyrirtækja féll fyrst undir eftirlit bankaeftirlits Seðlabanka Íslands með lögum nr. 19/1989, um eignarleigustarfsemi, en nú fer um starfsemi þeirra samkvæmt lögum nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.
    Fyrsta reglulega athugun bankaeftirlitsins hófst með bréfi sem sent var félaginu, dags. 20. júní 1990. Þeirri skoðun lauk í desember það ár og var fyrirtækinu send skýrsla með helstu niðurstöðum. Í skýrslunni kemur m.a. fram að óvissa sé um framtíð fyrirtækisins þar sem fé lagið uppfyllti þá ekki skilyrði laga um eigið fé. Félagið hafði verið rekið á sérstakri undan þágu viðskiptaráðuneytisins samkvæmt heimild í ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 19/1989. Sú heimild rann út 4. október 1990, og þar með starfsleyfi félagsins, án þess að bætt hefði verið úr eiginfjárvöntuninni. Viðskiptaráðuneytið taldi sig skorta lagaheimild til þess að framlengja starfsleyfið til ársloka 1990, en um það hafði félagið sótt. Bankaeftirlitið krafði stjórnendur þess um greinargerð þar sem fram kæmi til hvaða ráðstafana stjórnin hygðist grípa af þessu tilefni. Í skýrslunni er síðan vísað til svarbréfs frá stjórnarformanni Lindar hf. þar sem fram kemur að til greina komi að leggja félagið niður eða sameina það öðru fyrir tæki. Í því bréfi kemur einnig fram að verði fyrirtækið rekið áfram sem sjálfstætt félag muni eigendur þess auka eigið fé þess þannig að eiginfjárhlutfallið nái 10% eins og þágildandi lög gerðu ráð fyrir. Eigið fé félagsins var síðan aukið um 115 millj. kr. í lok desember 1990 og komu 80,5 millj. kr. í hlut Landsbankans. Uppfyllti félagið þar með lágmarkshlutfall eigin fjár samkvæmt lögum nr. 19/1989 og staðfesti viðskiptaráðuneytið í framhaldi af því að starfsleyfi félagins væri í gildi, með bréfi dags. 23. janúar 1991. Í skýrslunni gerði banka eftirlitið ýmsar athugasemdir við starfsemi félagsins. Meðal annars varar bankaeftirlitið við þeirri áhættu sem getur skapast fyrir eignarleigufyrirtæki ef gerðir eru leigusamningar um muni sem festir eru við fasteign eða skip.
    Í janúar 1993 sendi bankaeftirlit Seðlabankans frá sér aðra skýrslu í framhaldi af athugun þess á starfsemi Lindar hf. Miðaðist sú athugun við stöðu efnahagsliða og einstakra mála 30. ágúst 1992. Í niðurstöðum þeirrar skýrslu kemur m.a. fram að bankaeftirlitið taldi að í milli uppgjöri frá 30. ágúst 1992 vanti um 15–20 millj. kr. afskriftaframlag vegna stöðvaðra samninga og að bankaeftirlitið taldi óvíst að 1% almenn niðurfærsla af útistandandi kröfum félagsins á sama tíma væri nægjanleg. Bankaeftirlitið taldi enn fremur hættu á að eiginfjár hlutfall fyrirtækisins væri undir lögskyldum 10% mörkum, eða á bilinu 9,4–9,6%. Eftirlitið lagði því áherslu á að við ársuppgjör fyrir árið 1992 væri farið nákvæmlega yfir stöðu stærstu lánþega sjóðsins og vanskilamál með hliðsjón af tapshættu og að afskriftaþörf sé metin og tekið tillit til hennar við ársuppgjörið. Komi í ljós við það uppgjör að eiginfjárhlut fallið sé undir lögskyldum mörkum verði þegar í stað gripið til viðeigandi ráðstafana. Í árs lok 1992 eignaðist Landsbanki Íslands 99% hlutafjár í Lind hf. á móti 1% hlutafjár í eigu Veðdeildar bankans.
    Í ágúst 1994 sendi bankaeftirlitið aftur frá sér skýrslu um athugun þess á nokkrum þáttum í rekstri og efnahag Lindar hf. Sú athugun miðaðist við stöðu efnahagsliða og einstakra mála 30. apríl 1994. Í skýrslunni er m.a. bent á að fyrirsjáanlegt sé að félagið tapi verulegum fjár munum á rekstrarleigustarfsemi með vinnuvélar sem félagið hóf árið 1993. Bankaeftirlitið gerði einnig athugasemd við vaxtabindingu skulda fyrirtækisins, en lán sem höfðu verið tekin þegar vaxtastig var mjög hátt voru til mun lengri tíma en samsvarandi eignarleigusamningar. Þetta taldi bankaeftirlitið geta haft alvarleg áhrif á afkomumöguleika fyrirtækisins í framtíð inni. Meginniðurstaða skýrslunnar var sú að raunveruleg afskriftaþörf Lindar 31. desember 1993 hefði numið 340 millj. kr. en ekki 280 millj. kr. eins og ársreikningurinn það ár sýndi. Bankaeftirlitið gerði einnig athugasemd við framsetningu ársreiknings vegna ársins 1993. Þá kom fram í skýrslunni að bankaeftirlitið taldi þörfina á afskriftaframlögum á skoðunar degi vera samtals 400 millj. kr. eða um 50–100 millj. kr. hærri en þá var búið að leggja í af skriftareikning og að hugsanlega væri hún enn meiri. Bankaeftirlitið fór því fram á það við forráðamenn Lindar hf. að þeir legðu fram endurskoðað milliuppgjör, ásamt greinargerð þar sem fram kæmi hvernig þeir áformuðu að tryggja áframhaldandi starfsemi fyrirtækisins. Var óskað eftir því að umbeðin gögn bærust fyrir lok septembermánaðar 1994.
    Endurskoðað árshlutauppgjör frá 31. ágúst 1994 barst bankaeftirlitinu í lok október 1994 ásamt greinargerð löggilts endurskoðanda. Samkvæmt því var tap tímabilsins um 62 millj. kr. eftir að 46 millj. kr. höfðu verið lagðar í afskriftareikning Lindar hf. Í uppgjörinu hafði endurskoðandinn gert ráð fyrir 200 millj. kr. ábyrgð Landsbanka Íslands, en til hennar kom ekki vegna þess að í kjölfar þessa var Lind hf. sameinuð Landsbankanum, enda uppfyllti fyrirtækið ekki lengur eiginfjárákvæði laga. Formlegri afgreiðslu viðskiptaráðuneytisins á heimild til samruna þessara tveggja aðila lauk með bréfum ráðuneytisins til þeirra, dags. 2. nóvember 1994. Seðlabanka Íslands var tilkynnt um afgreiðslu ráðuneytisins með bréfi, dags. 3. nóvember 1994, en áður hafði Seðlabankinn veitt umsögn um samrunann samkvæmt ákvæðum laga um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 43/1993, og lögum um lánastofnanir aðr ar en viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 123/1993. Gerði Seðlabankinn ekki athugasemdir við fyrirhugaðan samruna. Áður höfðu farið fram bréfaskipti milli bankaeftirlitsins og Lindar hf. og stjórnenda Landsbankans vegna þeirrar stöðu sem félagið var þegar komið í.
    Eftir að Lind hf. var lögð niður og Landsbankinn yfirtók útistandandi eignarleigusamn inga hefur bankaeftirlitið ekki haft frekari afskipti af því sérstaklega. Frá árslokum 1994 hef ur starfsemin verið rekin sem ein deild í Landsbankanum og ekki hafa verið gerðir nýir eignarleigusamningar. Eftirlit bankaeftirlitsins frá þeim tíma hefur því ekki beinst sérstak lega að Lind hf., en verið liður í almennu eftirliti með Landsbanka Íslands. Nefna má í því sambandi að í lok ársins 1995 fékk bankaeftirlitið samkvæmt beiðni ljósrit af öllum bréfum sem löggiltur endurskoðandi Landsbankans sendi bankanum á árunum 1994 og 1995 sem m.a. fjölluðu sérstaklega um þá deild sem sér um fyrrum eignarleigustarfsemi Lindar hf.
    Að síðustu má nefna að á árunum 1992–95 bárust bankaeftirlitinu fimm formlegar kvart anir einstaklinga vegna viðskipta þeirra við Lind hf. Voru gerðar athugasemdir við starfs hætti félagsins í tveimur þeirra og í öðru tilvikinu taldi bankaeftirlitið að starfshættir félags ins væru í andstöðu við megintilgang laga um eignarleigustarfsemi, vinnubrögð væru ófagleg og stórlega ámælisverð. Í öðrum tilvikum þótti ekki ástæða til athugasemda.

     8.      Hvað gerði bankaráð og bankastjórn Landsbanka Íslands til þess að koma í veg fyrir hið mikla tap Lindar hf.?
    Landsbankinn eignaðist fyrst hlut í Lind hf. við kaup á Samvinnubanka Íslands hf. á árinu 1990 og tóku fulltrúar bankans fyrst sæti í stjórn félagsins í apríl 1991. Á árunum 1991 og 1992 fjallaði þáverandi bankaráð og bankastjórn oft um málefni Lindar hf. og stefnu bankans í eignarleigustarfsemi. Voru m.a. teknar ákvarðanir um að auka eigið fé félagsins til að upp fylla eiginfjárkröfur, bankastjóri og aðstoðarbankastjórar tóku sæti í stjórn félagsins og sett ar voru reglur um útlán og útlánaákvarðanir. Eftir að Landsbankinn varð einn eigandi að fé laginu í nóvember 1992 var lánanefnd Lindar hf. styrkt og á aðalfundi 1993 var endurskoð andi bankans kjörinn endurskoðandi Lindar hf. Fyrstu vísbendingar um alvarlega stöðu fé lagsins koma með skýrslu endurskoðenda í desember 1993. Samstundis var gripið til aðgerða til að forða félaginu frá rekstrarstöðvun og gekkst Landsbankinn í ábyrgð vegna fyrirsjáan legra útlánatapa Lindar hf. Jafnframt var ákveðið að auka aðhald með rekstrinum og að lána nefnd færi yfir allar útlánaákvarðanir framkvæmdastjóra. Í kjölfar árshlutauppgjörs 31. ágúst 1994 var ákveðið að hætta rekstri félagsins og sameina það Landsbankanum.
    Eftir að starfsemi félagsins var hætt og bankinn yfirtók eignarleigusamninga hefur inn heimta eignarleigusamninga verið í sama farvegi og önnur útlána- og afskriftamál í bankan um.

     9.      Hvað var gert af hálfu bankaráðs Landsbankans til að leita skýringa á tapi Lindar hf.?
    Mikið hefur verið fjallað um málefni fyrirtækisins í bankaráði Landsbankans til að leita skýringa á tapi bankans og hvernig tryggja megi að slíkt endurtaki sig ekki í framtíðinni.
    Í janúar 1996 var lögð fyrir bankaráð ítarleg greinargerð um málið, en í þeirri skýrslu er leitast við að upplýsa og varpa ljósi á þær ákvarðanir og þá atburðarás sem leiddi til hins mikla taps fyrirtækisins. Í framhaldi af því fór bankaráð Landsbanka Íslands þess á leit við Ríkisendurskoðun að hún færi yfir gögn málsins. Sérstaklega var kannað hvort ástæður væru til frekari aðgerða samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála. Ríkisendurskoðun skilaði greinargerð um þetta og fjallaði bankaráð ítarlega um niðurstöður Ríkisendurskoðunar auk þess sem hún var kynnt viðskiptaráðherra. Niðurstaða umfjöllunar bankaráðs um greinargerð Ríkisendurskoðunar var að ekki væri ástæða til frekari aðgerða að svo komnu máli. Ríkis endurskoðun var gerð grein fyrir afstöðu bankaráðs. Niðurstaða ríkisendurskoðanda lá fyrir í lok árs 1996 en þar kemur fram að í framhaldi af ákvörðun bankaráðs og þeim upplýsingum sem komið höfðu fram muni Ríkisendurskoðun ekki aðhafast frekar í máli þessu nema til komi nýjar upplýsingar.
    Í september 1996, í framhaldi af umfjöllun um þær greinargerðir sem lagðar höfðu verið fyrir bankaráð Landsbankans varðandi málefni og afdrif Lindar hf., ákvað bankaráð Lands banka Íslands að fara þess á leit við Ríkisendurskoðun að hún framkvæmdi athugun á útlána reglum Landsbankans og upplýsingagjöf til bankaráðs um helstu viðskiptavini, svo og að Ríkisendurskoðun kannaði hvernig væri staðið að upplýsingagjöf til bankaráðs um aðra þætti varðandi rekstur og stjórnun bankans sem bankaráðinu er nauðsynlegt að fá upplýsingar um til þess að geta rækt stjórnunar- og eftirlitsskyldu sína. Ríkisendurskoðun féllst á þessa beiðni og skilaði stofnunin bankaráði ítarlegri greinargerð um þessi mál í apríl 1997.

     10.      Hefur einhver verið látinn sæta ábyrgð vegna þessa taps?
    Við yfirtöku Landsbankans á Lind hf. haustið 1994 lét framkvæmdastjóri félagsins af störfum. Frekari eftirmálar sem tengjast þessu máli hafa ekki orðið að hálfu Landsbankans.