Vinna í sjávarútvegsnefnd að frumvarpi um stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 13:53:17 (2943)

1999-01-11 13:53:17# 123. lþ. 52.91 fundur 199#B vinna í sjávarútvegsnefnd að frumvarpi um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[13:53]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var lagt fram fyrir jól, þá voru lögð fram tvö frv. sem hæstv. sjútvrh. kynnti að nauðsynlegt væri að afgreiða sem viðbrögð við dómi Hæstaréttar og var ákveðið að leggja þau frumvörp fram saman og ræða þau saman. Nú er aðeins annað þetta frv. á dagskrá fundarins í dag til 2. umr. Þá er eðlilegt að spurt sé: Hvar er hitt frv. sem hæstv. sjútvrh. taldi nauðsynlegt að fram kæmi vegna dóms Hæstaréttar? Það er eðlilegt að hæstv. forseti, hæstv. sjútvrh. eða formaður sjútvn. séu spurðir að því þegar á að fara að hefja 2. umr. um þetta mál, hvernig standi á því að hitt frv. fylgir ekki með. Það hafa engin svör komið við því og ég ítreka spurningu mína: Hvernig stendur á þessu? Þetta er frv. sem hæstv. sjútvh. sagði nauðsynlegt að afgreiða vegna dóms Hæstaréttar. Ef það kemur ekki í dag, þá er eðlilegt að menn spyrji: Er þess þá að vænta á morgun að það frv. verði tekið til 2. umr.?

Það er mjög eðlilegt, virðulegi forseti, að spurt sé að þessu vegna þess að frv. voru rædd saman samkvæmt ákvörðun og samþykki Alþingis og vegna þess að þau voru bæði kynnt sem nauðsynleg viðbrögð við dómi Hæstaréttar og það er aðeins annað frv. sem við sjáum í dag.

Ég ítreka spurningu mína: Hvar er hitt? Hvernig stendur á því að þau eru ekki rædd saman við 2. umr. eins og gert var við 1. umr.? Er þess að vænta að hið síðara frv., fylgifrv., komi þá til 2. umr. á morgun?