Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 16:01:48 (2969)

1999-01-11 16:01:48# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[16:01]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög merkilegt að heyra talsmenn minni hlutans tala fyrir máli sínu. Þegar við lítum t.d. til samtala sem nefndarmenn hafa átt við sérfræðinga, ekki aðeins lögmenn heldur sérfræðinga í lögum, fræðimenn á því sviði, hafa þeir og nánast allir sagt nefndinni að dómurinn snúist einungis um 5. gr. laganna.

Þau atriði sem hv. ræðumaður tók fram að þyrftu frekari endurskoðunar við vegna dómsins, eru ekki í þessari grein heldur í öðrum greinum laganna sem ekki eru háð ákvæðum 5. gr. Ég vænti þess, herra forseti, að við fáum nánari skýringar á þessu.

Mér finnst merkilegt að heyra hv. þm. tala sem svo að með þessu frv. og breytingum meiri hluta nefndarinnar séu réttindi til veiða á miðunum við Ísland einkavædd. Hver er breytingin, herra forseti? Það má flytja veiðidaga á milli smábáta. Það er það eina sem breytist.

En mátti ekki flytja þá á milli báta áður? Jú, herra forseti, en einungis ef þeir voru seldir.