Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 23:02:47 (3019)

1999-01-11 23:02:47# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[23:02]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Fjöldamargar spurningar vakna þegar hlýtt er á mál hv. þm. og væri gaman að fara yfir þær en ég verð að takmarka mig við það sem er kannski athyglisverðast að fá svör við nú. Í fyrsta lagi ræddi þingmaðurinn nokkuð um það blómlega atvinnulíf og athafnalíf sem hafi skapast í kringum það atvinnufrelsi sem verið hefur og var þar að vísa til þorskaflahámarksbátanna og þeirrar stöðu sem þeir hafa haft. Er það þá skoðun hv. þm. að það sem verið er að gera núna sé skerðing á atvinnufrelsinu? Þetta er fyrri spurningin. Seinni spurningin er þessi: Telur þingmaðurinn að meiri hluti sjútvn. sé líklegri til að verja hagsmuni trillukarla en landssamband þeirra sjálfra? Þessarar spurningar spyr ég vegna þess hversu lofsamlegum orðum hv. þm. fór um tillögur meiri hluta sjútvn. en það liggur hins vegar fyrir að Landssamband smábátaeigenda taldi sig hafa náð ásættanlegra samkomulagi við hæstv. sjútvrh., samkomulag sem þeir töldu að væri betra fyrir umbjóðendur sína. Þess vegna langar mig til að vita einmitt þetta: Telur hv. þm. að meiri hluti sjútvn. sé betri en landssamband trillukarlanna sjálfra?