Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 11:37:23 (3024)

1999-01-12 11:37:23# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[11:37]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni sjútvn. fyrir svör hans. Ég vissi um að menn höfðu gert ráðstafanir og ætla sér að gera ráðstafanir til að gera úttekt á því kerfi sem við búum við. En það er svo sárt að hafa staðið síðan 1993, a.m.k. þrisvar til fjórum sinnum á hverjum vetri, og óskað eftir því að farið yrði út í svona úttekt, einhvers konar aðgerð sem sýndi rétt, sem sýndi fram á að fleiri eiga rétt en bara ákveðnir útgerðarmenn sem hafa fengið réttinn til að veiða fiskinn. Það er líka fólkið í landi. Það eru líka þeir sem stunduðu beitningu á sínum tíma.

Ég lýsi ánægju minni með að þetta skuli loksins vera komið í framkvæmd. En á hvaða tíma gerist það? Það gerist þegar kosningar eru á næsta leiti. Það er líka varðandi þessa potta sem ég var að ræða um áðan, það gerist ekkert varðandi þá annað en að þeir sem hafa umráð yfir þeim eins og er geta beitt þeim fyrir sig í kosningabaráttu. Þeir geta beitt þeim fyrir sig í kosningabaráttu. Það er svo sannanlegt. Og af því hef ég áhyggjur varðandi þessa potta.

Að öðru leyti veit ég að skoðanir okkar hv. formanns sjútvn. fara saman að mjög mörgu leyti enda þekkjum við sennilega báðir allnokkuð til útgerðar eins og hún er rekin bæði í dag og fyrr á árum.