Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 13:03:49 (3037)

1999-01-12 13:03:49# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[13:03]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Austurl. vék að mjög áhugaverðu atriði sem lýtur að undirbúningi löggjafar bæði af hálfu framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins, sérstaklega með tilliti til stjórnarskrárinnar. Ég er alveg sannfærður um að bæði framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið þurfa að huga að þessum þáttum í miklu ríkari mæli á komandi árum. Það er mjög ör réttarþróun í gangi í Evrópu. Við sjáum það til að mynda á úrlausnum Mannréttindadómstóls Evrópu, það kemur einnig upp hjá Evrópudómstólnum og þetta hefur áhrif á réttarþróun á Íslandi.

Víða er sérstaklega hugað að þessum efnum. Í Danmörku til að mynda fær sérstök deild í dómsmálaráðuneytinu öll frumvörp til umsagnar út frá lagatæknilegum sjónarmiðum hliðstætt því að fjármálaráðuneytið fær öll stjórnarfrumvörp til umsagnar út frá fjármálalegum sjónarmiðum og gefur umsögn. Ég held að mikilvægt sé, og tek undir það með hv. þm., að menn hugi að úrlausnum í þessu efni til þess að vanda löggjafarstarfið. Þar koma auðvitað fjölmörg álitaefni til greina, bæði á vegum framkvæmdarvaldsins varðandi undirbúning að frumvörpum og eins ráðgefandi álit. Hér þarf líka að huga að því hvort ástæða er til að koma á fót sérstökum dómstóli til þess að úrskurða um stjórnarskrármálefni. Það er gífurlega mikil ákvörðun að úrskurða að lög sem Alþingi, þjóðþingið sjálft, hefur sett standist ekki stjórnarskrá og allt eru þetta atriði sem ég tel að full ástæða sé til að hugsa og leggja nokkra vinnu í. Ég ætla ekki að kveða upp neina dóma um það hér nákvæmlega með hvaða hætti en ég tek undir að mikilvægt er að þetta verði gert til þess að auka festu og öryggi í löggjafarstarfi og stjórnsýslu í landinu.