Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 11:28:41 (3068)

1999-01-13 11:28:41# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[11:28]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Við athugun málsins í nefndinni komu engin rök fyrir öðru en því að hæstaréttardómurinn snerti einvörðungu 5. gr. laganna. Það kom fram alveg skýrt og sannfærandi að mínu viti. Ekki komu fram nein efnisleg rök sem bentu til þess að hæstaréttardómurinn lyti að 7. gr. laganna eins og mjög hefur verið haldið fram af fulltrúum stjórnarandstöðunnar. Þeir sem halda því fram hafa engin rök í höndunum því til stuðnings. Þvert á móti leiddi umfjöllun nefndarinnar það óyggjandi í ljós að dómurinn sem við erum að bregðast við lýtur einvörðungu að 5. gr. laganna.

Hvort við getum síðan fullyrt eitthvað um síðari dóma Hæstaréttar í öðrum málum, þá getur það enginn, hvorki Alþingi né nokkur annar og það verður bara að koma í ljós. Hæstiréttur fellir dóma sína án þess að fá um það álit frá einstökum þingmönnum hvað hann eigi að gera eða hvað hann muni gera. Ég ætla engu að spá um það. En það úrlausnaratriði sem var lagt fyrir okkur að athuga var þetta: Hvað snerti dómur Hæstaréttar? Niðurstaða okkar í meiri hluta sjútvn. er alveg ótvíræð: Einvörðungu 5. gr. laganna og annað ekki.