Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við fjárhagsvanda sveitarfélaganna

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 14:17:15 (3141)

1999-02-02 14:17:15# 123. lþ. 57.97 fundur 222#B viðbrögð ríkisstjórnarinnar við fjárhagsvanda sveitarfélaganna# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[14:17]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það fer ekki fram hjá neinum sem hér situr að af þessari umræðu og þeirri sem fór fram fyrr í dag leggur höfga angan af nálægum prófkjörum næstu helgar. Það gerir hins vegar ekkert lítið úr þeirri umræðu sem hér fer fram, þeirri efnislegu umræðu sem vissulega er (Gripið fram í: Stórmál.) tilefni til að eigi sér stað. Hér er um að ræða stórmál sem sjálfsagt er að ræða efnislega á þessum vettvangi.

Einn þáttur þessa máls hefur ekki komið til umræðu og það er sá mikli herkostnaður þéttbýlismyndunarinnar sem við erum að verða áskynja einmitt núna um þessar mundir. Það var dregið fram fyrr í vetur á Alþingi að kostnaður við þessa búferlaflutninga gæti numið sjálfsagt nokkrum milljörðum kr. á ári hverju fyrir þau sveitarfélög sem væru að taka við þessari búseturöskun og auðvitað er þetta farið að koma niður á fjárhag sveitarfélaganna, m.a. á höfuðborgarsvæðinu. Það liggur fyrir samkvæmt úttekt sem hæstv. forsrh. vitnaði til hér fyrr í vetur að kostnaðurinn við það að koma hverjum nýjum íbúa fyrir í þessum sveitarfélögum liggur á bilinu 3--5 millj. kr. og þegar búferlaflutningarnir nema eitthvað á annað þúsund manns á þessu ári og síðasta ári, þá hefur það vitaskuld áhrif.

En þetta er þó ekki nema hluti af vandanum. Miklu alvarlegra vandamál blasir að sjálfsögðu við í þeim sveitarfélögum þar sem þannig háttar til að fólkinu fer fækkandi því að menn verða að hafa það í huga að tekjur sveitarfélaga eru íbúatengdar og eftir því sem íbúunum fækkar minnka tekjur sveitarfélaganna, tekjustofnarnir verða ódrýgri og menn standa frammi fyrir því í ýmsum sveitarfélögum að fjárhagsáætlanirnar ganga ekki upp vegna þess að búseturöskunin er svo alvarleg. Menn standa sem sagt uppi með fastar fjárhagslegar skuldbindingar í þessum sveitarfélögum en minni tekjustofna. Þetta er auðvitað kjarni þess vanda sem menn standa frammi fyrir og er það vandamál sem við verðum fyrst og fremst að reyna að beina sjónum okkar að.

Hitt sem menn hafa verið að ræða, t.d. yfirfærsla grunnskólans er að mínu mati vissulega stórt og mikið vandamál og stórt og mikið viðfangsefni en það er þó ekki nema lítið brot af þeim vanda sem við er að glíma almennt í þjóðfélaginu vegna búseturöskunarinnar.