Skipulags- og byggingarlög

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 15:37:42 (3156)

1999-02-02 15:37:42# 123. lþ. 57.2 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[15:37]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er von að hv. þm. Árni M. Mathiesen sé ánægður með þessa tillögu því að það liggur við að hann hafi skrifað hana sjálfur. Í frv. eru nákvæmlega þær hugmyndir sem hv. þm. lagði fram í umræðunni sem varð í fyrra þegar hæstv. umhvrh. kastaði sínu fyrra frv., sem var nú allmiklu verra en þetta sem við höfum nú til umræðu, eins og handsprengju inn í umræðurnar sem þá voru hér uppi. Það verður hluti af arfleifð þessarar ríkisstjórnar, sem að öllum líkindum situr ekki nema nokkra mánuði í viðbót, að hún hefur vakið upp átök og deilur um hálendið. Hálendið var alltaf í ímynd þjóðarinnar sameign hennar allrar. En þessi ríkisstjórn hefur vakið upp stríð með því, eins og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir sagði áðan, að búta hálendið niður.

Hálendið hefur alltaf verið sameign þjóðarinnar. Menn hafa litið á það sem slíkt. Ekki var farið að nýta það að nokkru ráði fyrr en á allra síðustu áratugum og menn hafa nýtt það sem sameign og ekki hefur verið litið á það sem eign einstakra sveitarfélaga. Með hinni umdeildu grein í frv. til laga um sveitarstjórnarlög, sem var gert að lögum í fyrra, var horfið frá þessu. Það var gert með þeim hætti að öllu hálendinu var skipt upp eftir sveitarfélögum og ég held að hægt sé að benda á bletti, litla bletti á landinu sem má sennilega segja að séu undir forræði 12--14 sveitarfélaga, t.d. í Kverkfjöllum.

Það skiptir kannski ekki máli núna. Ég segi eins og hv. þingmenn hafa nefnt hér í dag að þetta er orðið að lögum og við breytum því a.m.k. ekki á þessu þingi. Hér eru hins vegar hreytur þessa máls og mér sýnist ekki að frv. sem nú liggur fyrir dugi til þess að setja niður þær deilur sem ríkisstjórnin vakti upp í fyrra.

Átökin sem síðan hafa magnast og staðið linnulítið frá því að þetta frv. kom fram í fyrra hafa speglað ólíka hagsmuni. Þau hafa speglað hagsmuni þeirra sem vilja nýta miðhálendið til að virkja og sökkva jafnvel einstökum náttúruperlum undir vatn til að framleiða orku, til þess að standa gegn Kyoto-samningnum o.s.frv. Hagsmunir þeirra sem vilja nýta náttúruna til annarra hluta, líka til þess að framleiða peninga, hafa mótast af allt öðrum viðhorfum. Þeir sem vilja njóta landsins eins og það er í dag óbreytt og vilja nota það til ferðaþjónustu hafa haft uppi allt önnur viðhorf en hafa speglast í málum ríkisstjórnarinnar.

Ég held einmitt að vegna þessara átaka sé nauðsynlegt að fara að því, sem til að mynda hv. þm. Kristján Pálsson ítrekaði mörgum sinnum í umræðum í fyrra, að leyfa raust útivistarmanna og náttúruverndarsamtaka að heyrast í ríkum mæli. Það er ekki gengið nógu langt í þeim efnum. Hv. þm. Kristján Pálsson nefndi, ef ég man rétt ræður hans í fyrra, ein þrenn samtök sem má kalla að falli undir útivistarsamtök sem hann taldi að ættu með einhverjum hætti að koma að þessu máli. Í dag er það þannig að verið er að búa til samvinnunefnd sem skipuð er 11 manns. Þar er einn fulltrúi útivistarmanna. Hvað segir til að mynda hinn ágæti hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson sem hefur beitt sér með lofsverðum hætti í þessu máli? Er hann sáttur við það? Ég ímynda mér, ef hann er sáttur við þetta frv., að þá hafi hann komið með einhverjum hætti a.m.k. að afgreiðslu þess í endanlegu formi og mig langar að spyrja þá þingmenn sem hér eru og hafa beitt sér í þessum málum og eru þeir hérna a.m.k. þrír, hv. þingmenn Ólafur Örn Haraldsson, Kristján Pálsson og Árni M. Mathiesen: Telja þeir að nóg sé að gert varðandi einmitt þau samtök sem vilja nýta landið til útivistar og vilja vernda náttúruna? Eru þeir sammála þessu? Geta þeir fallist á þetta? Ég spyr þá líka og eftir atvikum hæstv. umhvrh., ef hann hefur tök á að svara: Með hvaða hætti á að velja fulltrúa útivistarsamtakanna? Það er ekki hægt að svara því. Það kemur ekki fram í grg., það kom ekki fram í ræðu hæstv. umhvrh. og ekki kom það fram í máli hugmyndafræðingsins, hv. þm. Árna M. Mathiesens. Málið er hálfkarað, herra forseti. Málið hefur einfaldlega ekki verið lagt niður með þeim hætti að viðunandi sé.

Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað að þetta frv. er stór framför frá því herfilega frv. sem var lagt fram í fyrra. Það er alveg ljóst. Með því að fara þá leið að hafa fulltrúa kjördæma í stað fulltrúa sveitarfélaga sem eru aðlæg miðhálendinu, þá er alveg ljóst, eins og við bentum á í fyrra, að með því er a.m.k. hægt að segja að enginn íbúi á landinu fari varhluta af einhverjum áhrifum á skipulag miðhálendisins. Það er stórt framfaraspor. Það er í mínum huga mannréttindamál. Mér finnst einfaldlega, eins og það hugtak hefur þróast, að það séu réttindi mín sem íbúa að hafa áhrif á það hvernig farið er með sameign þjóðarinnar. En þetta mál hefur allt einhvern veginn skrumskælst í meðförum ríkisstjórnarinnar.

Við samþykktum fínt frv. í fyrra um þjóðlendur þar sem við vorum í rauninni, eins og hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson orðaði svo snilldarlega í grein í Morgunblaðinu, að ljúka endanlega landnámi Íslands með því að slá eign þjóðarinnar á miðhálendið. Fallega mælt, vel mælt.

Síðan gerist það að Framsfl. nær því í gegnum ríkisstjórnina að þetta vonda frv. eða hið vonda ákvæði um sveitarstjórnarlög er samþykkt, sem fer allt aðra leið, bútar í rauninni miðhálendið niður. Allt í lagi. Menn eru að reyna að bæta einhvern veginn fyrir það. Menn eru að reyna að leyfa öllum að koma að málinu og það hefur tekist að nokkru leyti. Ég get fallist á að þetta er miklu betra frv. en í fyrra.

Ég held hins vegar að viðhorfin séu breytt frá því í fyrra. Ég held einmitt að styrjöldin sem vaknaði og hefur verið að malla allar götur síðan um yfirráðin og nýtingu miðhálendisins hafi skapað ný viðhorf sem eru þess eðlis að nauðsynlegt er að raust þeirra sem vilja vernda náttúruna fái að heyrast miklu betur. Ég tel að ekki sé með nokkru móti hægt, herra forseti, að samþykkja þetta frv., jafnvel þó að það sé nauðvörn, eins og mér fannst að mætti skilja á máli hv. þingmanna Kristínar Halldórsdóttur og Kristínar Ástgeirsdóttur, sökum þeirra aðstæðna sem komið hafa upp nema hlutur þeirra sem hægt er að kalla náttúruverndarsamtök eða útivistarsamtök sé stórlega bættur. Í mínum málskilningi eru útivistarsamtök og náttúruverndarsamtök ekki eitt og hið sama, alls ekki.

[15:45]

Ég tel að hlutur náttúruverndarsamtaka, eins og ég vil skilgreina þau, sé algerlega fyrir borð borinn. Í framtíðinni gæti farið svo að sanngjarn ráðherra fari þá leið að skipa úr hópi þeirra níu fulltrúa sem t.d. umhvrh. má skipa, ég veit það ekki. Það er engin trygging fyrir mér þó svo gæti farið. Ég vil sjá þetta njörvað í lög. Þess vegna segi ég: Ég get með engu móti fallist á þessa skipan eins og hún er núna.

Í fyrra urðu miklar umræður um lýðræðið. Það var bent á að þarna var um að ræða 43% af flæmi landsins sem fara undir skipulagsvald nefndar sem í fyrra var skipuð 18 mönnum. Þar áttu þau tvö kjördæmi sem hafa innan sinna vébanda 67% þjóðarinnar hygg ég, Reykjavík og Reykjanes, þrjá fulltrúa. Hlutfallið er örlítið betra, við höfum tvo af 11. Það er ekki nóg fyrir mig. Hvers vegna? Ég held að átakalínurnar séu svo miklu skarpari, svo miklu ljósara sé orðið og hafi komið vel fram í umræðu sumarsins að hagsmunirnir eru ólíkir. Hagsmunir þeirra úr mínu kjördæmi sem njóta miðhálendisins eru aðrir en hagsmunir þeirra sem eru í forustu í Austurlandskjördæmi. Það hefur komið mjög skýrt fram. Ég er náttúruverndarsinni og vil að rödd mín og þeirra sem eru sömu skoðunar fái að heyrast. Hún mun ekki að heyrast í þessari nefnd samkvæmt þessu. Mér finnst a.m.k. ekki góð áferð á því að 67% þjóðarinnar fái tvo af 11 fulltrúum.

Ég get eigi að síður tekið undir að þetta er ákveðin aðferð og þó alla vega tryggt að öll kjördæmin komi þarna að. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar hafa allir, í gegnum fulltrúa sína, einhverja formlega aðild að málinu. Svo sjáum við hins vegar hvernig frv. gerir ráð fyrir að þessir fulltrúar eru valdir. Hvernig eru þeir valdir, herra forseti? Getur einhver svarað því í þessum sal? Getur ráðherrann svarað því? Hann getur ekki svarað því. Hann ætlar að hafa samráð við Samband ísl. sveitarfélaga. Hvers konar samráð er það? Hvað þýðir það samráð? Ætlar hann að skipa þá fulltrúa sem þeir benda honum á? Þeir hafa ekki einu sinni tilnefningarrétt. Ég er ekki viss um að þetta sé góð aðferð. Ég held að jafnvel þó að þessi 11 manna nefnd sé betri en það sem gert var ráð fyrir í frv. í fyrra, þá sé frv. ekki fullgert. Það þarf að liggja fyrir hvernig skipa eigi þessa menn. Mér finnst ansi hart að tveir ráðherrar skuli ráða öllum fulltrúunum án þess að nokkur aðili hafi rétt til tilnefningar fyrir utan félagasamtök um útivist sem mega tilnefna einn. Hvernig eiga þau að gera það? Hvað eru félagasamtök um útivist? Það er ekki hlaupið að því að skilgreina það. Það er ekki gert í þessu frv.

Ég dreg þá ályktun að heimavinnan hafi ekki verið unnin. Ég átti von á því eins og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir að þegar þing kæmi saman eftir þau heiftúðugu átök sem urðu í fyrra, að menn mundu nota sumarið til þess að komast að sæmilegri niðurstöðu. Tillagan sem hér liggur fyrir er tillaga sem hv. þm. Árni M. Mathiesen lagði fram í ræðum sínum í fyrra, þó ekki eins mótuð og hún er núna. Ég sagði þá að hún væri þó betri heldur en það afskræmi sem þá lá fyrir. Það er hins vegar eins og menn hafi ekki undirbúið þetta og lagt niður fyrir sér hvernig eigi að gera þetta. Þetta fyrirkomulag er vel til þess fallið að skapa frekari deilur. Ég get fullyrt, herra forseti, að það eiga eftir að verða miklar deilur um þetta frv. Í því er ekki staðið við þær væntingar sem fram komu í málflutningi andófsmanna úr hópi stjórnarliða á síðasta vori. Þeir lögðu til að sjónarmið þeirra sem vilja vernda náttúruna og stunda útivist yrðu miklu sterkari.

Útivistarsamtök, einn af 11, er ekki nóg. Fyrir náttúruverndarsamtök, enginn af 11, er fráleitt. Það er bara ekki hægt að samþykkja það, herra forseti.

Ég skal viðurkenna, herra forseti, að ég hef ekki haft tök á því að lesa þetta frv. til hlítar. Ég bíð því kannski með ítarlega greiningu á viðhorfum mínum til einstakra hluta en ég velti fyrir mér: Hvert er hið raunverulega starfssvið samvinnunefndarinnar samkvæmt 2. gr. frv.? Hún gerir tillögur til Skipulagsstofnunar um svæðisskipulag á miðhálendinu og gætir þess að samræmi sé með aðalskipulagstillögum einstakra sveitarfélaga innbyrðis og það samræmist svæðisskipulagi miðhálendisins. Mér er ekki alveg ljóst, hvað felst í þessu.

Hvert er vald samvinnunefndarinnar? Samkvæmt þessu hygg ég að hún hafi ekki vald til að hlutast til um aðalskipulag. Nú kemur að því sem mig kann að greina á um við marga aðra. Ég er þeirrar skoðunar að ég eigi miðhálendið eins og aðrir landsmenn. Ég er þeirrar skoðunar að ég hafi rétt til að hafa skoðun á skipulagningu þess niður í smæstu smáatriði. Ég tel það rétt minn að hafa a.m.k. rétt til athugasemda, umkvartana og tillagna um deiliskipulag í Herðubreiðarlindum vegna þess að það er náttúruperla sem ég á jafnmikið í og allir aðrir. Ég hef meiri rétt til þess að hafa áhrif þar á en einhver sveitarfélög.

Samkvæmt þessu hefur samvinnunefndin einungis, eins og ég hef skilið þetta, rétt til að gera tillögur sem lúta að svæðisskipulaginu. Þetta viðhorf mitt kom líka fram í umræðunum í fyrra. Ég tel að það þurfi að gefa mönnum kost á að koma skipulagi sameignarinnar niður í smæstu smáatriði. Þetta kann að hljóma öfgakennt og ég get vel fallist á að það sé dálítið öfgakennt. Þetta er eigi að síður sjónarmið mitt. Ég byggi það á þeirri ríku tilfinningu minni að miðhálendið sé mín eign eins og hvers annars borgara. Þetta er sameignarkenndin gagnvart þessu svæði. Hún gerir það að verkum að ég vil a.m.k. að fulltrúar mínir í þessari nefnd, þó þeir séu fáir og smáir og hafi lítil áhrif, geti hlutast til um þetta. Ég spyr af því að hæstv. umhvrh. hefur líklega brugðið sér frá sem er allt í lagi: Hvaða viðhorf hefur hv. þm. Árni Mathiesen sem hugmyndafræðingurinn á bak við þetta til þessarar hugmyndar minnar? Hvað finnst honum um þetta?

Í öðru lagi, herra forseti, finnst mér vanta inn í frv. ákvæði um að auglýsa eigi rækilega skipulagstillögur, ekki bara svæðisskipulagstillögur heldur líka aðalskipulagstillögur og deiliskipulagstillögur. Ég vil fá að koma að því. Ég lít á það sem rétt minn sem þegns hins íslenska lýðveldis.

Að lokum, herra forseti. Þegar ég les 4. gr., þar sem verið er að skeyta nýju ákvæði við bráðabirgðaákvæði sem er í lögunum, er ég ekki alveg viss um gildi þess. Það er talað um að Skipulagsstofnun skuli leita álits samvinnunefndar, hinnar nýju samvinnunefndar sem verður skipuð samkvæmt þessu, á þeim tillögum sem hafa orðið til í vinnu nefndarinnar sem fyrri ríkisstjórn skipaði held ég 1993. Hvað þýðir það? Hvað felst í því að leita álits? Hvað ef hin nýja samvinnunefnd er á allt öðru máli? Hún mundi gefa það álit en mundi það skipta einhverju máli? Punktur minn varðandi þessa grein er þá þessi: Skiptir þessi grein, 4. gr., einhverju máli eða er ég e.t.v. að misskilja einhvað mikilvægt?

Herra forseti. Ljóst er að þetta frv. gengur lengra og er betra en frv. sem skapaði miklar deilur í fyrra en það er langt í frá nógu gott. Það er ekki nóg að fulltrúar útivistarsamtaka fái einn fulltrúa og alls ekki ásættanlegt að náttúruverndarsamtök fái engan fulltrúa. Ég segi, sem þingmaður í þessu fjölmennasta kjördæmi landsins: Það er ekki nóg fyrir mig að hafa einn fulltrúa á móti tíu eða átta. Það er ekki nóg fyrir mig. Ég geri mér í dag betri grein fyrir því en í fyrra hverjar átakalínurnar eru. Ég geri mér líka grein fyrir því að þau viðhorf sem eru landlæg í þéttbýliskjördæmum eru allt önnur en úti á landi. Þess vegna tel ég hagstætt fyrir vernd náttúrunnar á miðhálendinu að rödd okkar sem erum í þessum tveimur stóru kjördæmum verði styrkari heldur en gert er ráð fyrir í þessu frv. Það væri líka meira í anda lýðræðis og mannréttinda.