Skipulags- og byggingarlög

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 15:55:15 (3157)

1999-02-02 15:55:15# 123. lþ. 57.2 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[15:55]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Ef mæta ætti sjónarmiðum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um hvaða aðilar ættu að koma að því að vinna að svæðisskipulaginu, þá mundi 63 manna samkoma ekki duga til að ná lýðræðislegri dreifingu fulltrúanna til viðbótar við alla þá sérhagsmuni og öll þau sjónarmið einstakra hópa sem fram munu koma. Þess vegna er nauðsynlegt að nefndin sé fámennari og þeir sem starfi í nefndinni hafi víðsýni til að vinna út frá fleirum en einu sjónarmiði eða einum hagsmunum.

Varðandi það sem hv. þm. sagði um möguleika til þess að hafa áhrif, til afskipta og til þess að gera athugasemdir við skipulag, hvort sem það er svæðis-, aðal- eða deiliskipulag, þá er ég sammála honum um að það eigi að kynna skipulagstillögur eins ítarlega og mögulegt er á öllum stigum svo allir geti gert við þær athugasemdir. Það verður síðan að koma í ljós hvort skipulagsyfirvöldin taka tillit til athugasemda sem fram koma. Ef þingmaðurinn les skipulagslög grannt mun hann sjá að samkvæmt skipulags- og byggingarlögum á hverjum þeim sem vill fylgjast með skipulagsmálum hvar sem er á landinu að vera tiltölulega auðvelt að koma athugasemdum sínum um fyrirliggjandi tillögur á framfæri áður en málin eru afgreidd.