Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 16:49:31 (3169)

1999-02-02 16:49:31# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[16:49]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Í sambandi við þessa tillögu er mikilvægt að gera sér ljóst að hér er ekki aðeins talað um brotthvarf hersins frá Keflavíkurflugvelli heldur er einnig rætt um að skapa aðstæður til að Ísland geti staðið utan hernaðarbandalaga eins og það heitir á máli Alþb. Á mæltu máli: að segja sig úr NATO. Þegar það er sagt í tillögunni og í framsögu hv. þm. að hægt sé að skapa þjóðarsátt um þetta mál, þá held ég að menn verði að gera sér betri grein fyrir því um hvað málið snýst.

Í athugasemdum við þessa þáltill. segir að þjóðin hafi skipst í tvær fylkingar, löngum svipaðar að stærð. Hið rétta er að mikill meiri hluti hefur lengst af verið hlynntur varnarsamstarfinu við Bandaríkin svo ekki sé minnst á aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Ef hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon heldur að hægt sé að skapa einhverja sátt um það að hans frumkvæði að segja sig úr Atlantshafsbandalaginu og bregðast öllum skyldum við Atlantshafsbandalagið á sama tíma og það er að breytast, þá held ég að það sé mikill misskilningur.

Gallinn við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon er að hann talar eins og ekkert hafi breyst í þessum heimi, að NATO séu bara sömu samtökin og þau voru fyrir áratugum síðan. Svo er ekki.

Ég vil leiðrétta það sem fullyrt er hér í athugasemdum að til hafi staðið að taka Ísland út úr herstjórnarskipulagi NATO. Það er ekki rétt, þetta er alrangt. Það komu fram hugmyndir um að færa Ísland neðar í herstjórnarskipulaginu en frá því var horfið við nánari skoðun vegna þess mikilvæga hlutverks sem Ísland hefur í vörnum Atlantshafsbandalagsins á Norður-Atlantshafi.

Hv. þm. fullyrti og sagði að það væri dapurlegt að fyrst og fremst Íslendingar væru að krefjast þess að hafa viðbúnað á Íslandi. Ætli það geti ekki verið að nauðsynlegt sé fyrir Íslendinga að það sé einhver viðbúnaður á Íslandi? Það er rangt að Bandaríkjamenn telji að færa eigi þessa starfsemi algerlega frá Íslandi. Íslensk og bandarísk stjórnvöld eru einhuga um að halda varnarsamstarfinu áfram. Þar hefur engin breyting orðið á. Það er rangt að halda því fram að krafa bandarískra stjórnvalda sé að þar verði gerð breyting en Íslendingar grátbiðji þá um að halda samstarfinu áfram. Ég óska eftir því að hv. þm. færi einhver rök fyrir því að þetta hafi gerst.

Það liggur fyrir að tvíhliða varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna og aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu eru hornsteinar varnarstefnu Íslands. Það er ekki hægt að aðskilja þessa hluti eins og þingmaðurinn segir í tillögu sinni. Það sem hann vill í reynd er að leggja niður allt starf á Keflavíkurflugvelli og að Íslendingar taki flugvöllinn yfir. Hann vill síðan væntanlega hækka skatta á flugumferð til landsins sem hann gerir ekki neina grein fyrir. Við þurfum algerlega að standa undir rekstri flugvallarins með þeim afleiðingum sem það hefur í för með sér. Hann telur ekki rétt að gera almenningi grein fyrir því. Það er ljóst að veigamesta framlag Íslands til Atlantshafsbandalagsins í gegnum tíðina, og er enn, er sú aðstaða sem Ísland veitir vegna sameiginlegra varna.

Atlantshafsbandalagið hefur tekið afar miklum breytingum og þrátt fyrir það að Ísland sé ekki með neinn herafla, þá gerir þessi aðild okkur kleift að taka þátt í að móta nýtt öryggiskerfi fyrir Evrópu, nokkuð sem þau ríki sem standa utan bandalagsins eiga ekki kost á í sama mæli. Það liggur alveg ljóst fyrir að það er lífshagsmunamál Íslendinga sem fámennrar þjóðar að eiga aðild að ýmsum alþjóðlegum stofnunum svo við getum tryggt hagsmuni okkar á alþjóðavettvangi. Atlantshafsbandalagið er ein slík stofnun og skiptir miklu máli fyrir framtíð og sjálfstæði þjóðarinnar, enda sú langöflugasta á sínu sviði í heiminum. Að ætla sér að fara af stað með nýjan stjórnmálaflokk á grundvelli þeirrar gömlu klisju að skapa sátt í samfélaginu um að setja Ísland alveg út af kortinu. Ég hélt að það heyrði fortíðinni til en svo virðist ekki vera. Ég heyri að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vill mana forustumenn samfylkingarinnar til þess að fylgja sér á þessum vitlausa vegi. Ég vona að það fari enginn með honum yfir þann mórauða læk.