Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 18:40:24 (3197)

1999-02-02 18:40:24# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[18:40]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að fallegasta hugsunin í þessu er auðvitað að allir verði vinir í skóginum og svo friðelskandi að alls ekki þurfi á neinum vopnum að halda. En jafnvel ég er þó ekki svo bjartsýnn eða trúaður á að það gerist einn, tveir, þrír, enda geng ég ekki út frá því hér.

En það er reginmunur annars vegar t.d. á öryggisgæslu og eðlilegum varnarviðbúnaði ríkja innan sinna eigin landamæra, sem væri hluti af viðurkenndum öryggisaðstæðum í heiminum og hinu, því gereyðingarvopnaða ógnarjafnvægi sem í raun er meira og minna fyrirkomulagið í dag og tilvist NATO byggir á. Það er himinn og haf á milli þess að hvert og eitt ríki hefði innan sinna eigin landamæra einhvern öryggisviðbúnað og því ástandi sem við búum við í dag.

Það sem ég óttast, herra forseti, er að það verði alltaf einhver Hussein, einhver Gaddafi, einhver rússagrýla sem menn nota til afsökunar fyrir vígbúnaðinum og sem hentar hergagnaiðnaðinum vel sem keyrir þessa vél áfram að skjóta sér á bak við. Hvaðan komu vopnin sem Hussein notaði í Flóastríðinu, það litla sem hann hafði af vopnum sem náðu máli á móti tækniundrum Vesturlanda? Hvaðan komu þau? Þau voru svona 75% bandarísk. Vita menn hvaðan efnavopnin komu sem Hussein notaði á Kúrdana? Þau voru úr bandarískri efnavopnaframleiðslu sem Bandaríkjamenn hjálpuðu Írökum til að koma sér upp og ætluðust til að þeir notuðu á Írani. Og þá var allt í lagi að koma upp efnavopnum. En svo vitum við hversu vond þau hafa reynst síðan, ekki satt?

Ég tala fyrir skipulagsbundinni afvopnun. Ég tala fyrir alþjóðasamningum um vopnaviðskipti, m.a. til þess að Husseinarnir og Gaddafiarnir geti ekki keypt sér vopn frá Vesturlöndum á meðan þeir eru vinir Vesturlanda. Og svo snýst taflið við. Svo til öll þau vopn sem menn hafa verið að kljást við á þeim óróasvæðum heimsins sem mestum áhyggjum hafa valdið á undanförnum árum hafa verið frá Vesturlöndum. Þau hafa verið þaðan. Hugsum um það.