Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 12:34:45 (3494)

1999-02-11 12:34:45# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[12:34]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. A.m.k. til að fyrirbyggja allan misskilning vil ég taka það strax fram að ég átti ekki von á því að hv. 2. þm. Reykn. gengi um með húrrahrópum eftir ræðu mína áðan enda var ekki sérstaklega til hennar stofnað í þeim tilgangi, svo því sé nú öllu saman til haga haldið.

En varðandi Bretland, þá fór ég aðeins yfir það hvernig þeir fara að því að tryggja það sem hv. þm. kallaði ,,sem jafnast vægi kjósenda``. Það er nefnilega ekkert verið að því í Bretlandi, það er ekkert verið að tryggja neitt jafnt vægi kjósenda. Hins vegar er verið að reyna að tryggja það að kjördæmin séu álíka stór, en það út af fyrir sig hefur ekkert með þetta vægi einstakra kjósenda að gera þegar við horfum á málin aðeins öðruvísi.

Ef við lítum á t.d. kjósendahópinn sem kýs Frjálslynda flokkinn og kjósendahópinn sem kýs stóru flokkana er náttúrlega ólíku saman þar að jafna. Það er auðvitað það sem menn hafa svo sem verið að gagnrýna í Bretlandi. Þess vegna segi ég að það er ekki alveg svona einfalt að líta á þetta eins og hv. 2. þm. Reykn. gerði vegna þess að þegar við erum að tala um einmenningskjördæmi, jafnvel einmenningskjördæmi eins og í Bretlandi þar sem kjördæmamörkunum er breytt til þess að endurspegla sem jafnasta stærð kjördæmanna, þá verðum við líka að horfa á hina hlið málsins. Svo vil ég líka vekja athygli á því að í Bretlandi hefur sá háttur líka verið hafður á, þrátt fyrir þetta, að taka út fyrir sviga allra afskekktustu kjördæmin, til að mynda nyrsta hluta Skotlands og eyjarnar. Joe Grimmond, einn frægasti stjórnmálamaður Bretlands, var áratugum saman þingmaður fyrir Orkneyjar og Hjaltlandseyjar. Sú eining er auðvitað miklu minni en gengur og gerist í kjördæmunum að öðru leyti. En engum dettur í hug annað en að varðveita þetta sem eina einingu, þetta er landfræðileg eining, alveg burt séð frá íbúafjöldanum, og þannig er það.

Það er rétt sem hv. þm. sagði að það er verið að skoða þessi mál í Bretlandi. En eins og ég margítrekaði í ræðu minni er munurinn sá á þeirri skoðun og skoðuninni hér, að þar er reynt að horfa til aðeins fleiri átta, skyggnast aðeins víðar um, og það er megingallinn á tillögunum hér, að sjónarhornið er of þröngt.