Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 12:37:11 (3495)

1999-02-11 12:37:11# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[12:37]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Verið er að ræða um tvö vandamál í sambandi við kjördæmaskipan. Annars vegar það að vægi atkvæðanna sé sem jafnast og hins vegar hvernig þingmannatala flokkanna er ákvörðuð í samræmi við fylgi þeirra.

Á Íslandi hefur okkur tekist að koma á fót kerfi þar sem þingmannafjöldi flokkanna er nánast í réttu hlutfalli við fylgi þeirra meðal kjósenda. Við erum núna að reyna að laga vægi atkvæðanna. Í Bretlandi hefur þeim tekist að ná nánast jafnvægi á milli vægis atkvæða í öllum kjördæmunum með því fyrirkomulagi sem þeir eru með þar og við erum ekki ósammála um það, ég og hv. 1. þm. Vestf. Þeir eru síðan núna að gera breytingar á þeim hluta sem við erum þegar búin að breyta og að koma upp kerfi þannig að þingfylgi flokkanna sé í sem mestu samræmi við fylgi flokkanna meðal þjóðarinnar.

Það er rétt hjá hv. þm. að víða er tekið tillit til fámennustu byggðanna. Það erum við einmitt að gera líka hjá okkur. Það er af virðingu við sjónarmið þingmannsins að við viljum taka tillit til þeirra byggða sem eru strjálbýlastar. En ég tel að við göngum ekki nægjanlega langt í því að jafna vægi atkvæðanna og ástæðan fyrir því er sú, og ég endurtek það, að við erum að sýna byggðunum tillitssemi og sýna sjónarmiðum hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar tillitssemi. Mér finnst hann ekki gjalda líku líkt í að sýna sjónarmiðum okkar þéttbýlisþingmannanna sömu tillitssemi og við sýnum sjónarmiði hans.