Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 16:27:42 (3520)

1999-02-11 16:27:42# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[16:27]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta er að mínu mati mjög mikilvægur áfangi sem er samþykktur núna og ég tel að að stíga þurfi stærri skref síðar og þá er ég einkum og sér í lagi að ræða um persónukjörið. Ég tel að það geti breyst og það er líka mál kosningalaganna þannig að hægt er að taka það síðar. En stjórnarskrárbreytingin sjálf er mikilvægur áfangi, það er mér mikilvægast að atkvæðisréttur sé sem jafnastur, það er mjög mikilvægt lýðræðisatriði. Það er ekki spurning að mínu mati um að draga tennur úr landsbyggðinni. Ég tók það sérstaklega fram, þess vegna er þetta útúrsnúningur á máli mínu af hálfu þingmannsins.

Varðandi það hvort ég styðji að Reykjavík sé eitt kjördæmi eða tvö, þá stend ég heils hugar að þessari tillögu. Ég reifaði rök með og á móti því að skipta borginni í tvennt og ég vil bæta því við sem kom fram á fundi nefndarinnar með fulltrúum Reykjavíkurborgar að það gæti verið óæskilegt að skipta borginni í vestur/austur. Betra væri að skipta henni í norður/suður, vegna þess að vaxtarmöguleikar borgarinnar eru aðallega í eina átt, þannig að það gæti þá verið nokkuð fast í hvaða kjördæmi fólk er. Ég tel t.d. að þetta þurfi að athuga þegar kemur að kosningalagabreytingunni. Ég stend heils hugar að þeim tillögum sem hér eru en reifaði í nefndinni ókosti við það að skipta Reykjavík í tvö kjördæmi en þetta var málamiðlun sem ég sætti mig við.